- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Óvissuferð í boði Covid

Óhætt er að segja að árið 2020 hafi reynst öðruvísi en flestir bjuggust við. Fordæmalausir tímar eru orð sem við höfum heyrt sí og æ enda ekki skrítið þar sem má segja að tilveru okkar hafi verið snúið á hvolf.   

Föstudagurinn 13. mars var mjög viðburðaríkur innan menntakerfisins en þá var ákvörðun ríkisstjórnarinnar birt um að skólahald yrði með breyttu sniði frá og með eftirfarandi mánudegi. Framhaldsfræðslan var ekki undanþegin. Þetta þýddi að nemendur máttu ekki mæta í kennslu í húsnæði Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum (MSS) og því þurfti að bregðast fljótt við og færa kennsluna yfir í fjarkennslu, í námsleiðum þar sem fjarkennsla var ekki fyrir hendi.   

Við lögðum upp með að hafa sterkt teymi í kringum hverja námsleið og að í teyminu yrði verkefnastjóri, náms- og starfsráðgjafi sem og kennarar sem tengdust hverjum hópi mest. Þar sem bóknámsgreinar voru hluti af flestöllum  námsleiðum sem voru kenndar hjá okkur á þeim tíma þá reyndist auðvelt að fara yfir í fjarkennslu. Við tókum fljótt eftir því í stærri námsleiðum að nemendur vildu hafa skýra stýringu og góða yfirsýn yfir næstu skref og hvernig við höfðum hugsað okkur að útfæra skipulag og fleira. Einnig sáum við að betra var að skipta stórum hópum upp í minni hópa svo nemendur yrðu fljótari að venjast breyttu námsumhverfi, læra á nýtt skipulag og fylgja auknu aðhaldi. Við settum það í algjöran forgang að hvetja nemendur áfram, halda sjálfsaga við námið og minna á að þetta er ekki frí.   

Grunnmenntaskóli    

Þegar Covid skall á var námsleiðin Grunnmenntaskóli (GRMT) nýbyrjuð og voru 23 nemendur mættir og tilbúnir að hefja nám, sumir eftir margra ára hlé á námi. Eitt af því fyrsta sem teymið gerði með nemendum var að stofna hóp á Facebook. Aðeins einn nemandi var ekki á samfélagsmiðlinum og fékk hann því reglulega símtal. Við höfðum þann hátt á að verkefnastjóri eða náms- og starfsráðgjafi byrjuðu alla morgna á morgunfundi að bjóða nemendum góðan daginn, þá var tekin niður mæting og haft samband við þá sem mættu ekki inn á fundinn. Helsta markmiðið í teyminu var að halda í virkni nemenda og hvetja þá til að koma sér vel fyrir í góðu námsumhverfi fyrir komandi skipulag með kennurum. Kennslan fór að mestu leyti fram í gegnum fjarkennsluforritið ZOOM og þó kennarar hafi verið ráðnir inn í staðkennslu þá brugðust þeir strax við og lærðu á kerfið. Reynt var að láta flæði kennslunnar vera eins og það var skipulagt í upphafi en kennarar þurftu að bregðast fljótt við með fjölbreyttum kennsluháttum, breyta verkefnaskilum sem og námsmati. Það reyndi aðeins á verkefnaskil en kennarar höfðu þann hátt á að nemendur tóku myndir af heimadæmum og verkefnum og sendu á kennara. Breytingin varð líka til þess að kennarar nýttu betur fjölbreytnina sem hægt er að beita við  kennsluna. Eitt dæmi er að nemendur voru hvattir til að fara út í göngutúr og taka myndir með til dæmis ákveðnu þema og greina svo myndirnar saman og vinna meira með þær. Þegar leið á vorið og fjöldatakmarkanir fóru í 100 manns hjá okkur í Miðstöðinni þá skiptum við nemendum í fjóra hópa og þeir mættu tvo morgna í viku í kennslustund en alla föstudaga á nemendafund.    

Við erum mjög stolt af því að hafa náð að útskrifa alla 23 nemendurna sem fóru með okkur í þessa óvissuferð sem Covid bauð upp á og erum virkilega ánægð með að sjá mörg þeirra hér í Miðstöðinni í dag að taka næsta skref í átt að sínu markmiði.  

Menntastoðir     

Menntastoðir hafa verið kenndar í dreifi- og fjarnámi undanfarin ár hjá MSS. Einnig hefur verið boðið upp á stoðver fyrir þá sem þurfa auka aðstoð eða aðstöðu til að læra. Þegar Covid skall á þá fann teymið hvað það nýttist vel að hafa öflugt kennslukerfi en notast er við Moodle. Það kom sér vel að verkefnastjórar hafa alltaf fylgst vel með í gegnum Moodle hvort nemendur fari inn á kerfið, sæki fyrirlestra og skili verkefnum. Ef of langur tími líður á milli þess að nemandi sé sýnilegur og jafnvel ekki að skila inn verkefnum þá er gripið sem fyrst inn í og haft samband við kennara eða nemanda og staðan tekin. Ef verkefnastjóri telur að nemandann vanti meiri stuðning eða hvatningu þá hefur náms- og starfráðgjafi samband við hann. Þegar MSS var lokað þá lokaðist einnig fyrir Stoðverið og fór sá stuðningur sem við vorum að veita þar strax yfir í rafrænt form. Þeim nemendum sem þurftu á auka stuðningi að halda var boðið upp á stuðning kennara í gegnum Zoom á einstaklingsgrundvelli. Allir nemendur sem voru í menntastoðum fengu símtal frá náms- og starfsráðgjafa með reglulegu millibili þar sem þörfin var metin út frá samtalinu og hvort grípa þyrfti nemendur á einhvern hátt. Á þessum tíma fundum við að sveigjanleiki var algjört lykilatriði, bæði af hálfu nemenda og kennara. Þá er mikilvægt að hvetja nemendur til að nýta mannauðinn sem liggur í samnemendum og vera óhræddir við að fara út fyrir kassann. Hér eru allir að vinna að sama markmiði.    

Lærdómurinn    

Lærdómurinn af þessari óvissuferð er meðal annars að stundum þarf að gefa okkur spark í rassinn svo við tökum skrefið hraðar inn í fjórðu iðnbyltinguna. Með tilkomu Covid þá var það ekki ákvörðun hvers og eins hvort hann tæki þátt í tæknikennslu og færði kennsluna yfir í fjarnám, nú þurftu allir að spila með. Þetta teljum við að hafi verið mikilvægur áfangi fyrir kennara og leiðbeinendur sem höfðu hikað við að taka skrefið. MSS hefur til margra ára verið með fjarkennslu þar sem kennt er á hæfniþrepi tvö en við höfum veigrað okkur við að setja hæfniþrep eitt yfir í fjarnám. Eftir þessa reynslu okkar sjáum við tækifæri til að auka við fjarkennslu og fjarnám á fleiri námslínum og námskeiðum. Eins og fram kemur í námskrá menntastoða þá lýsir námsskráin námi í almennum bóklegum greinum á 2. þrepi hæfniramma um íslenska menntun en við höfum einnig markhóp sem þarf að efla hæfni sína á þrepi 1. Stór hluti okkar markshóps er fullorðið fólk á vinnumarkaði sem hefur ekki lokið námi í framhaldsskóla eða jafnvel ekki hafið það og til að mæta þörfum þess hóps þá teljum við að fjarkennsla á þrepi 1 sé skref sem við ættum að taka. Þó teljum við að sambland af fjarkennslu ásamt einhverri viðveru í skólanum sé æskilegri og viljum þar af leiðandi skoða betur.   

Staðreyndin er sú að þetta hefur verið hin besta sí- og endurmenntun fyrir okkur sem störfum í geiranum, þar sem við urðum að tileinka okkur tæknina hratt og örugglega. Covid hraðaði þeirri óhjákvæmilegu breytingu. En ástandið varð þess valdandi að við erum í raun að fara í átt að því sem einstaklingar í tæknivæddu samfélagi kalla eftir. Með sveigjanlegu námi og sveigjanlegum kennsluháttum verður þjónustan betri fyrir marga og auðveldar til dæmis nemendum að vera í námi með vinnu. En huga verður að þeim sem eru hræddir við að taka þetta skref og leiða fólk í gegnum það. Hér fundum við hvað skipulag bæði nemenda og kennara er mikilvægt.     

Guðjónína Sæmundsdóttir

Guðjónína Sæmundsdóttir er forstöðukona Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum. Guðjónína er hefur víðtæka menntun og nú síðast lauk hún MBA námi við Háskóla Íslands.

Hólmfríður Karlsdóttir

Hólmfríður Karlsdóttir starfar sem deildarstjóri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Hólmfríður lauk B.Ed. prófi 2006 frá Kennaraháskóla Íslands og nemur nú meistaranám í Mannauðsstjórnun.

Steinunn Björk Jónatansdóttir

Steinunn Björk Jónatansdóttir starfar sem ráðgjafi og deildarstjóri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Steinunn lauk B.A. prófi frá Háskóla Íslands í uppeldis- og menntunarfræðum og er nú að skrifa M.A. ritgerð í Náms- og starfsráðgjöf.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi