- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Raunfærnimat í atvinnulífinu – breyttur veruleiki með 4. iðnbyltingunni

Fjórða iðnbyltingin og raunfærnimat

Mikið er rætt um fjórðu iðnbyltinguna og þær miklu breytingar sem sjálfvirknivæðing með gervigreind muni hafa á störf. Eins og fram kemur í skýrslu sem nefnd um fjórðu iðnbyltinguna vann fyrir forsætisráðuneytið er mikilvægt að við sem samfélag undirbúum okkur fyrir þær breytingar sem hægt er að sjá fyrir. Hraði breytinganna er mikill og á næstu tveimur áratugum munu störf hverfa og ný koma í staðinn. Flest störf munu þess utan taka meiri eða minni breytingum. Það er álit sérfræðinga að störf í iðnaði og sölu- og þjónustustarfsemi séu líklegust til að dragast saman og að 60% þeirra sem eru starfandi á íslenskum vinnumarkaði sinni störfum sem teljast miðlungs líkleg til að verða sjálfvirknivædd í náinni framtíð.

Markhópur framhaldsfræðslunnar er fólk á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið formlegu námi á framhaldsskólastigi. Gera má ráð fyrir að stór hluti markhópsins vinni störf sem muni taka miklum breytingum og jafnvel hverfa alveg. Nám, raunfærnimat og ráðgjöf standa hópnum til boða hjá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum. Spurningin er hvernig við getum stutt enn betur við þá færnieflingu sem þarf til að takast á við breyttan vinnumarkað samhliða því að breytingarnar eigi sér stað. Það sem hefur nýst fullorðnu fólki með reynslu af vinnumarkaði einkar vel er að fá reynslu sína metna með raunfærnimati. Raunfærnimatið hefur hingað til fyrst og fremst verið hugsað til styttingar á formlegu námi og margir þátttakendur stytt þannig leiðina að starfsréttindum. Í þessari grein verður fjallað um tilraunaverkefni þar sem það eru störf og hæfnikröfur starfa sem liggja til grundvallar raunfærnimati. Raunfærnimati í atvinnulífinu er ætlað að gera færni fólks sýnilega og þjálfun í kjölfarið markvissari sem er mikils virði fyrir einstaklinga, fyrirtæki og samfélagið allt.  

Tilraunaverkefnið raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) vinnur að tilraunaverkefni sem felur í sér að þróa raunfærnimat á móti viðmiðum starfa í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Markmið verkefnisins er að byggja grunn að varanlegu kerfi fyrir raunfærnimat í atvinnulífinu. Byggt verður á hefðbundnu raunfærnimatsferli en það lagað að umhverfi starfa. Í verkefninu er lögð mikil áhersla á að tryggja gildi niðurstaðna á vinnumarkaði, varanlega fjármögnun og þjálfun á vinnustað að loknu raunfærnimati. Í þessu tilraunaverkefni er aðkoma fyrirtækja lykilatriði og er verkefnið unnið fyrir styrk úr Fræðslusjóði.

Yfirlitsmynd sem sýnir verkþætti tilraunaverkefnisins.

Raunfærnimat í atvinnulífinu – ávinningur allra

Við val á störfunum var horft til þess hvort starfsfólk tilheyri markhópi FA og að störfin spanni breiðan hóp á vinnumarkaði, til dæmis varðandi kyn, búsetu og þjóðerni. Einnig var gengið úr skugga um áhuga í atvinnulífinu og að til samstarfs fengjust öflug fyrirtæki og stofnanir.

Vottuð gæði framkvæmdar

Framkvæmd raunfærnimatsins er í höndum viðurkenndra fræðsluaðila líkt og kveður á um í 13. gr. reglugerðar nr. 1163/2011 um framhaldsfræðslu. Þeir fræðsluaðilar sem koma að framkvæmd tilraunaverkefnisins hafa þekkingu á og reynslu af hefðbundnu raunfærnimati en það eru Fræðslunetið, Mímir, SÍMEY og Starfsmennt.

Frá vinnustofu matsaðila og verkefnisstjóra fyrir starf fulltrúa og starf í verslun.

Matsaðilar og verkefnisstjórar í raunfærnimati á móti viðmiðum starfa taka þátt í vinnustofu undir handleiðslu FA. Á vinnustofunni er meðal annars unnið með aðferðafræði raunfærnimats, starfaprófíl, matslista og raundæmi. Matsaðilar í hverju starfi stilla saman strengi og leggja grunn að framkvæmd matsins. Matsaðilar í tilraunaverkefninu koma fyrst og fremst úr atvinnulífinu og lagt er upp með að þeir vinni í pörum. Gerð verður tilraun með innri og ytri matsaðila þar sem annar kemur úr fyrirtæki þess starfsmanns sem er verið að meta og hinn kemur utan frá.

Fulltrúi I hjá Vinnumálastofnun – starf að hverfa

Eitt af þeim störfum sem raunfærnimetið verður á móti í tilraunaverkefninu er starf sérhæfðs fulltrúa hjá tveimur opinberum stofnunum, Vinnumálastofnun á Skagaströnd (VMST) og Íbúðarlánasjóði á Sauðárkróki. Starf fulltrúa I er dæmi um starf sem er að hverfa í núverandi mynd með aukinni sjálfvirkni. Hjá VMST skapaðist einstætt tækifæri til að tengja raunfærnimatið beint þeim breytingum sem eru að verða á störfum vegna tæknibreytinga. Líkt og fleiri fyrirtæki og stofnanir er VMST að taka í notkun nýtt tölvukerfi sem mun leysa af hólmi nokkur kerfi og um leið mörg verkefni sem áður voru í höndum starfsfólks. Samtímis verður meiri þörf fyrir sérhæft starfsfólk sem getur veitt viðskiptavinum margskonar ráðgjöf og sinnt úrlausn flóknari mála. Fulltrúastarfið er að hverfa í núverandi mynd og leggur stofnunin ríka áherslu á að bjóða starfsfólki sínu önnur störf og þá þjálfun sem til þarf. Þessar breytingar eru að gerast á starfsstöðinni á Skagaströnd. Í stuttu máli er framkvæmdin á þann veg að raunfærnimetið er á móti hæfnikröfum starfs fulltrúa III og öllum sem hafa starfsheitið fulltrúi I og fulltrúi III boðið að taka þátt í raunfærnimatinu. Að matinu loknu verður boðið upp á þjálfun á vinnustað sem er sérsniðin að hverjum starfsmanni auk námskeiða sem henta hópnum með það að markmiði að allir nái þeirri hæfni sem þarf til að inna starf fulltrúa III vel af hendi. Þannig að samhliða því að fá núverandi hæfni metna og staðfesta fær starfsfólk tækifæri til þjálfa sig fyrir annað starf sem hefur jákvæð áhrif á starfsþróun þeirra og kjör. 

Hvernig vitum við hvað á að meta? Hæfnigreining starfa

Við raunfærnimat, líkt og annað mat, verður að tryggja að það sé verið að meta rétta þætti og að matið sé áreiðanlegt. Aðferðafræði raunfærnimats hefur sannað sig í áranna rás og eftir að yfir 5000 einstaklingar hafa farið í gegn um raunfærnimatsferlið eru flestar efasemdaraddir þagnaðar. Gott gengi þátttakenda í námi í framhaldi af raunfærnimati hefur eflaust átt stóran þátt í því að sannfæra formlega skólakerfið um gæði aðferðarinnar. En þegar metið er á móti hæfnikröfum starfa er ekki formlegt skólakerfi sem samþykkir ferlið heldur atvinnulífið sjálft. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt þegar farið er af stað með slíkt mat að það liggi fyrir góð greining á starfinu. Raunfærnimat í atvinnulífinu byggir á hæfnigreiningum FA sem unnin eru á grundvelli gagna frá kanadíska fyrirtækinu Human Resource System Group (www.hrsg.ca) sem HRSG hefur þróað á síðustu 30 árum og aðferð þróaðri hjá FA frá árinu 2012. Aðferðafræði hæfnigreininga FA tryggir aðkomu atvinnulífsog annarra hagsmunaaðila. Afurð greiningar er nefnd starfaprófíll. Starfaprófíll samanstendur af skilgreiningu starfs, kjarna starfs, viðfangsefnum starfs og hæfnikröfum starfs á skilgreindu þrepi sem eru í samræmi við íslenska hæfnirammann (ISQF). Þrepin í íslenska hæfnirammanum eru sjö og með hækkandi þrepi eykst sjálfstæði og ábyrgð í starfi.

Niðurstaða hæfnigreiningar á starfi sérhæfðs fulltrúa leiddi í ljós að það þarf hæfni á þrepi þrjú bæði í almennri starfshæfni og lykilhæfniþáttum starfsins. Þegar þátttakendur í raunfærnimati hafa fengið hæfni sína staðfesta geta þeir til að mynda nýtt niðurstöður til að auka möguleika sína á vinnumarkaði. Sýslumaðurinn á Norðurlandi Vestra auglýsti til dæmis starf laust til umsóknar þar sem óskað var eftir hæfni á 3. þrepi íslenska hæfnirammans.

Frá hæfnigreiningu til raunfærnimats

Í tilraunaverkefninu er unnið að þróun aðferðar við að útbúa matslista og önnur sértæk verkfæri til notkunar í raunfærnimati á grunni starfaprófíla. Í stuttu máli má lýsa ferlinu þannig að:

  • Framkvæmd er hæfnigreining á starfinu.
  • Á grunni niðurstöðu greiningar eru útbúnir matslistar, sjálfsmatslistar og raundæmi.
  • Viðbótargögnum safnað ef þarf  til dæmis með rýnihópavinnu.
  • Verkfæri fyrir raunfærnimat eru gerð í samstarfi FA og fagfólks í hverju starfi.
  • Fagfólk les yfir matslista og önnur matstæki áður en þau eru tekin í notkun.

Vinna í rýnihópum, þar sem fulltrúar starfsins tóku þátt, reyndist vel í tilraunaverkefninu en með því móti tókst meðal annars að fanga málfar hvers starfs. Horft er til þess að það séu skýr tengsl milli starfaprófíls og verkfæra raunfærnimats, það er að hæfnikröfur eins og þeim er lýst í starfaprófíl hafi skýra tengingu við viðfangsefni starfsins.

Þjálfun á vinnustað er markviss færniefling

Þegar raunfærnimetið er á móti námskrá gefst þátttakendum tækifæri til að ljúka því sem ekki fæst metið í skóla. Þetta er ekki í boði þegar metið er á móti hæfnikröfum starfs. Þess vegna er litið á það sem mikilvægan þátt í tilraunaverkefninu að tryggja öllum þátttakendum þjálfun í þeim þáttum sem ekki fást metnir. Þetta má gera á margan hátt svo sem með námskeiðahaldi á vinnustað, námskeiðum hjá fræðsluaðilum og þjálfun á vinnustað. Í tilraunaverkefninu er lögð sérstök áhersla á starfsþjálfun á vinnustað. Þetta er gert með þeim hætti að fyrirtæki og stofnanir sem taka þátt í verkefninu tilnefna einstaklinga til þess að verða starfsþjálfar og er þeim síðan boðið á námskeið hjá FA. Með því verður stutt við markvissa og faglega þjálfun starfsfólks enda er hlutverk starfsþjálfa einnig að fylgja þátttakendum í raunfærnimatinu alla leið til enda og staðfesta að hæfni sé náð og hún vottuð með formlegum hætti. 

Yfir hundrað manns koma að tilrauninni

Eins og sjá má á yfirlitsmynd verkefnisins hér að framan er tilraunaverkefnið umfangsmikið. Stýring verkefnisins er í höndum FA en þegar allt er talið koma yfir hundrað manns að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Störfin sem metið er á móti eru fimm og eru stýrihópar stofnaðir um hvert starf þar sem saman koma fulltrúar fyrirtækja, framkvæmdaraðila og viðeigandi stéttarfélags. Matsaðilar og starfsþjálfar eru tilnefndir af fyrirtækjunum og má ætla að nærri fimmtínu einstaklingar fái þjálfun í hjá FA í tengslum við þau hlutverk. Sjötíu og fimm starfsmenn taka þátt í raunfærnimatinu og fá starfsþjálfun í kjölfar þess. Nú þegar framkvæmd er hafin og verkefnið í fullum gangi er ýmsum spurningum enn ósvarað. Eftir því sem verkefninu vindur fram munu stýrihópar um hvert starf leggja fram sínar hugmyndir og sýn meðal annars varðandi framkvæmdina, gildi niðurstaðna og staðfestingu á færni.

Tilraunaverkefni og hvað svo?

Niðurstöður og lærdómar tilraunaverkefnisins verða teknir saman í skýrslu um mitt ár 2020. Markmið verkefnisins eru skýr en auk afurða þeirrar þróunarvinnu sem er unnin, er vilji bæði ASÍ og SA að byggja grunn að varanlegu kerfi fyrir raunfærnimat í atvinnulífinu þar sem tryggð eru gildi niðurstaðna á vinnumarkaði og varanleg fjármögnun. Í miðjum veruleika 4. iðnbyltingarinnar þar sem þróun vinnumarkaðar er hraðari en nokkru sinni fyrr gæti raunfærnimat í atvinnulífinu verið mikilvægt verkfæri til að styðja við einstaklinga og fyrirtæki og bæta samkeppnisstöðu þeirra og samfélagsins.

Lilja Rós Óskarsdóttir

Lilja Rós Óskarsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún er verkefnastjóri raunfærnimats en önnur helstu verkefni tengjast kennslufræði fullorðinna. Hún er með MA-gráðu í náms- og starfsráðgjöf og kennsluréttindi frá HÍ. Lilja hefur áður starfað sem fræðslustjóri og sem náms- og starfsráðgjafi um árabil.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi