- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Starfsmenntun í fiski – hvenær sem er

Fræðslusjóður styrkti verkefni Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum, sem fólst í að búa til innlegg fyrir hvern námsþátt í námskránni „grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk“ sem er ein af námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífisins (Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, 2016).

Í ljósi reynslu af að kenna á fiskvinnslunámskeiðum um land allt í þeim fjölmenningarlega hópi sem endurspeglar starfsmenn í fiskvinnslu var augljós þörf á stoðefni við námskeiðin. Markmiðið var að auðvelda virkni og skilning þátttakenda námskeiðanna.

Ekki sama hvernig maður klæðir sig í vinnufötin. Mynd: Stefán og Ingiþór hjá Kalt ehf.

Námskráin er byggð upp með þarfir starfsmanna og fiskvinnslunnar að leiðarljósi  bæði hvað varðar vinnsluhætti, umhverfi, líðan og samskipti á vinnustað. Námskráin er bundin kjarasamningi og að afloknu námskeiði fá starfsmenn rétt til ákveðins launaflokks sem sérhæfðir fiskvinnslumenn (Starfsgreinasamband Íslands, e.d.).

Í upphafi verkefnis var myndaður stýrihópur þar sem efnistökin voru ákveðin. Tekin voru upp viðtöl og myndir úr vinnslunum hjá Vísi hf. og Þorbirni í Grindavík og rætt við ýmsa fagaðila sem valdir voru með tilliti til umfjöllun hvers þáttar. Efnið er ætlað sem stuðningsefni við fiskvinnslunámskeiðin. Um er að ræða stutta þætti sem eru textaðir á íslensku, ensku og pólsku. Fólk velur á hvaða tungumáli textarnir eiga að vera.

Tilvalið er að brjóta upp kennsluna með því að láta nemendur skoða þættina og vinna verkefni úr þeim eða nota sem innlegg í umræður. Efnið hentar einnig vel til fræðslu fyrir nýliða í fiskvinnslum þar sem það er auðvelt að sækja það á opna youtube rás horfa á það annað hvort í eigin tækjum eða á skjá á vinnustaðnum.

Fiskvinnslunámskeið á Patreksfirði

Myndataka hjá Vísi hf.

Í mars 2020, á tímum Covid-19 þá var Fræðslumiðstöð Vestfjarða með fiskvinnslunámskeið fyrir Odda á Patreksfirði. Hluti starfsmanna var í sóttkví og annar hluti þeirra í vinnu þannig að það var alls ekki hægt að hafa þau saman, túlkurinn var á Ísafirði og kennarinn í Reykjanesbæ eða Ísafirði. Kennslan fór fram í gegnum Zoom. Stofnaður var fésbókarhópur utan um námskeiðið þar sem nemendur gátu „klikkað“ á merki Zoom og voru þá komin í „skólastofuna“. Einnig gátu þau skilað inn texta á því svæði þar sem kennarinn gat notað þýðingartakkann til að skilja niðurstöður verkefna án þess að það þyrfti að túlka þau orði til orðs.

Ég kenndi þeim í fjóra daga og fengu þau innlegg á hverjum degi sem hluta af kennslunni, þar sem þau þurftu að vinna úr vídeóunum og skila niðurstöðum úr verkefnum, ýmist sem einstaklingar eða með öðrum í hópi. Þátttakendur voru mjög ánægðir með þetta uppbrot á kennslunni að sögn Sigurborgar Þorkelsdóttur verkefnastjóra hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Hún sagði jafnfnframt að aðrir kennarar á námskeiðinu nýttu sér efnið í sinni kennslu. Yfirmenn Odda á Patreksfirði voru að hennar sögn einnig ánægðir með námskeiðið, bæði efni þess og kennsluaðferðir. Þeir sjá mun á þekkingu og viðhorfi starfsmanna í vinnslunni.

Nanna Bára stödd í MSS í Reykjanesbæ, að kenna á Patreksfirði, Barbara túlkar frá Ísafirði
Nanna Bára stödd í MSS í Reykjanesbæ, að kenna á Patreksfirði, Barbara túlkar frá Ísafirði.

Er mikilvægt að gera svona stoðefni?

Að mínu mati var ákaflega mikilvægt að hafa slíkt efni til brjóta kennsluna upp og auka möguleika í sveigjanlegu námi og kennsluaðferðum. Það að efnið sé textað er einnig mikilvægt og reynslan sýndi að auðvelt var fyrir nemendur að nýta sér textunina og þar með auka virknina til muna. Mjög margir starfsmenn fiskvinnslunnar eru af erlendi bergi og því er þetta ein leið til að gera námið auðveldara fyrir þann hóp og auka skilvirkni fræðslunnar.

Ég hef þá trú að í framtíðinni verði meira gert af því að fjarkenna á fiskvinnslunámskeiðum og þá er allt svona stoðefni afar mikilvægt til að koma sem mestri þekkingu til skila. Ég mundi gjarnan vilja sjá þetta verða til einnig fyrir námsleiðir eins og meðferð matvæla og ýmis fagnámskeið. Þetta er tilvalin leið til að fjölga í þeim hópi sem skilja og geta tileinkað sér nám það sem fram fer og aukið virkni og sjálfstraust í náminu.

Sérstakar þakkir fá starfsmenn og stjórnendur fiskvinnslurnar hjá Vísi hf. og Þorbirni hf. í Grindavík fyrir aðstoð og ráðgjöf við gerð kennsluefnisins.

Heimildir:

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (2016). Grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk. Sótt þann 17.4.2020 af https://frae.is/wp-content/uploads/2017/11/Grunnnamskeid-fyrir-fiskvinnslufolk-2-utgafa-2016.pdf

Starfsgreinasamband Íslands (e.d). Kauptaxtar SGS við SA. Sótt þann 17.4.2020 af https://www.sgs.is/media/1366/taxtar_sa_1-april-2019-til-31-mars-2020.pdf

Nanna Bára Maríasdóttir

Nanna Bára Maríasdóttir, verkefnastjóri á fyrirtækjasviði hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Nanna Bára er fiskiðnaðarmaður frá Fiskvinnsluskóla Íslands, með B.A. gráðu í félagsráðgjöf og auk þess með grunn- og framhaldsskólakennararéttindi frá Háskólanum á Akureyri ásamt því að útskrifast sem markþjálfi sl. haust frá Profectus. Nanna Bára hefur starfað við þjónustu og kennslu í fyrirtækjum með ýmsum hætti frá árinu 1990 oftast tengt sjávarútvegi þar til 2017 að hún hóf störf hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum sem þjónustar allt atvinnulífið.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi