Fræðslusjóður styrkti verkefni Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum sem sneri að þróun kennsluhátta í framhaldsfræðslu. Verkefnið fólst í gerð námskeiðs ætlað leiðbeinendum sem sinna fjar-, dreifi- og vendikennslu í framhaldsfræðslu.
Með tilkomu meiri sveigjanleika í námi verður til krafa um að leiðbeinendur öðlist færni og kunnáttu í kennslufræði fjar-, dreifi- og vendináms. Leiðbeinendur þurfa að öðlast færni í notkun tækni auk þess að þekkja kennslufræðileg grundvallaratriði í kennslu sem fer að mestu fram í gegnum netið. Í þessu verkefni er sérstaklega átt við samskipti við nemendur, uppsetningu námskeiða, framkvæmd námsmats og kennsluaðferðir.
Markmið verkefnisins
Markmið með verkefninu voru að efla færni og þekkingu leiðbeinanda í námsleiðum sem kenndar eru í fjar-, dreifi- og vendinámi. Að veita leiðbeinendum tækifæri til að læra hver af öðrum í gegnum jafningjafræðslu og sameiginlegan gagnagrunn. Að skapa sameiginlegan gagnagrunn sem nýtist leiðbeinendum og verkefnastjórum við þróun kennsluhátta.
Við undirbúning og skipulagningu námskeiðsins voru ákveðin hæfniviðmið höfð að leiðarljósi, meðal annars var gert ráð fyrir að þátttakendur á námskeiðinu gætu valið, framkvæmt og rökstutt áhrifaríkar leiðir til þess að virkja þátttakendur, að þeir gætu stuðlað að virku námsumhverfi á netinu, geti sett upp eigin námskeiðssíðu og notað mismunandi tækniverkfæri í kennslu svo eitthvað sé nefnt.
Nám á netinu
Námskeiðið fór fram á tímabilinu 26. mars til 20. maí 2020 og fór kennsla alfarið fram á netinu. Aðstæður sem sköpuðust í samfélaginu vegna Kovid 19 settu strik í reikninginn varðandi tímalínu námskeiðsins en reynt var eftir fremsta megni að taka tillit til aðstæðna og skapa sveigjanleika á námskeiðinu. Segja má að undirmarkmið námskeiðsins hafi verið að þátttakendur gætu sett sig í spor þeirra sem stunda nám í gegnum netið. Það getur verið áskorun að vera virkur í umræðum í fjarnámi og þátttakendur eiga oft erfitt með að taka af skarið og ,,láta sjá sig“ á netinu. Einn grundvallarþátturinn í öllu námi sem fram fer í gegnum netið er virkni þátttakenda og að þeir fái tækifæri til þess að tengjast sín á milli. Þá er lykilatriði að nemendur átti sig á því hvað þeir eiga sameiginlegt og að aðstæður skapist til opinskárra umræðna um nám.
Umgjörð
Umgjörð námskeiðsins var með þeim hætti að þátttakendur höfðu greiðan aðgang að verkefnum og hugmyndum hvers annars. Einnig var gert ráð fyrir að þátttakendur segðu skoðun sína á hugmyndum og verkefnum annarra. Verkefni þátttakenda sneru að hönnun námskeiða eða kennsluferlis þar sem sérstaklega var hugað að virkni þátttakenda. Stuðst var við fimm þrep Gilly Salmon (2013) í þessu samhengi þar sem lögð er áhersla á að skipuleggja og hanna ferli sem ýtir undir að nám eigi sér stað, að þátttakendur byggi á fyrri reynslu og þekkingu í samvinnu við aðra. Hlutverk leiðbeinanda er gríðarlega mikilvægt og skiptir undirbúningur og skipulag námsferilsins miklu máli.
Námsþættir námskeiðsins voru fjórir:
- Skipulagning og framkvæmd fjarkennslu
- Tækniverkstæði – Moodle, tækniverkstæði
- Öpp og upptökur
- Námsmat í fjarkennslu.
Í lokin fóru fram menntabúðir í gegnum netið.
Breyttar aðstæður kalla á nýjar leiðir
Eins og áður kom fram höfðu sérstakar aðstæður vegna Kovid19 faraldursins vissulega áhrif á framvindu námskeiðsins en það hafði ekki síður hvetjandi áhrif á þátttakendur þar sem margir þeirra höfðu þurft að færa kennslu og samskipti alfarið yfir á netið á meðan samkomubann stóð yfir. Allt efni námskeiðsins er og verður aðgengilegt á kennsluvef MSS og geta þátttakendur því leitað þangað eftir upplýsingum. Hugmyndin er að hægt verði að nota vefinn til þess að halda utan um fræðslu til kennara og leiðbeinenda og að þar verði ýmislegt efni aðgengilegt.
Starf leiðbeinanda í framhaldsfræðslu er fjölbreytt en það miðar helst að því að skapa hvetjandi aðstæður til náms, stuðla að sköpun námssamfélags og ýta undir nám ólíkra þátttakenda (Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, 2019). Ljóst er að sífellt bætast við ný verkfæri sem nota má í námi og kennslu og með örum tæknibreytingum sem og breytingum sem verða á aðstæðum í samfélaginu verður þörfin fyrir þróun kennsluhátta enn meiri en áður. Stuðningur og þjálfun fyrir leiðbeinendur er mikilvægur þáttur í þeirri þróun og ekki síst að þeir fái tækifæri til þess að deila reynslu sinni með öðrum, að þeir fái hvatningu til þess að vera óhræddir að prófa nýja hluti og séu tilbúnir að læra af tilraunum sínum.
Heimildir:
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (2019). Leiðbeinandi í framhaldsfræðslu. Sótt þann 1.2.2020 af: https://frae.is/wp-content/uploads/2020/03/Starf-lei%C3%B0beinanda-%C3%AD-fullor%C3%B0insfr%C3%A6%C3%B0slu.pdf
Salmon, G. (2013). E-tivities: The key to active online learning (2nd ed.). London and New York: Routledge.