- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Um PIAAC og PISA

PIAAC (Programme for the International Assessment of Adult Competencies) er rannsókn á vegum Efnahags- og framfarstofnunarinnar OECD sem snýr að grunnleikni fullorðinna, það er lesskilningi, tölulæsi og notkun upplýsingatækni við úrlausn daglegra verkefna. Rannsókninni er ætlað að greina hversu vel fólk á vinnumarkaði er í stakk búið til að takast á við ný verkefni og áskoranir nútímasamfélags.

Niðurstöður úr PIAAC hafa einnig gefið vísbendingar um jafnréttismál, launamisrétti, stöðu innflytjenda og þátttöku fólks í lýðræðisþjóðfélagi. Í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023 (Fjármála- og efnahagsráðuneytið, 2018) var gert ráð fyrir að Ísland tæki þátt í fyrirlögn PIAAC sem fer fram 2018-2023. Áætlanir um þátttöku Íslands komu einnig fram í grein Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, PISA vinnumarkaðarins (Lilja Dögg Alfreðsdóttir, 2018).

Íslendingar ekki með

Ljóst er að ekkert verður af þátttöku Íslands í PIAAC könnuninni sem fór af stað 2018 (OECD, e.d.) Því er vert að hugleiða hvaða leið á að fara til að safna sambærilegum gögnum til að hægt sé að meta stöðu fólks á íslenskum vinnumarkaði með tilliti til þess hversu vel það er í stakk búið til að takast á við þessi nýju verkefni og áskoranir. Þar má nefna meðal annars áskoranir í tengslum við 4. iðnbyltinguna eins og lýst er í skýrslunni Ísland og 4. iðnbyltingin (Huginn Freyr Þorsteinsson og fl. 2019). Áhrifum sjálfvirknivæðingar starfa mun líklega gæta mest meðal þeirra sem hafa minnsta menntun eða þeirra sem hæst hafa lokið grunnskólaprófi en samkvæmt niðurstöðum PIAAC er líklegt að um helmingur starfa muni breytast töluvert vegna hennar. Þannig er talið að um 14% starfa í þátttökulöndum PIAAC muni líklega verða sjálfvirknivædd og að það sé í meðallagi líklegt að 32% starfa breytist. Niðurstöður PIAAC gefa upplýsingar um hvers konar hæfni er þörf fyrir í framtíðinni en auk þess kemur fram að þeir sem hafa meiri menntun eiga auðveldara með að takast á við breytingar á vinnumarkaði en þeir sem minni menntun hafa (Wallin, 2018).

PIAAC og PISA

Á norrænu málþingi sérfræðinga um PIAAC sem haldið var 23. nóvember 2018 í Stokkhólmi kom fram að niðurstöður úr PISA (Programme for International Student Assessment) geta að nokkru leyti spáð fyrir um árangur fullorðinna í þeim þáttum sem eru rannsakaðir í PIAAC (Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, 2018). Jan-Eric Gustafsson, prófessor við háskólann í Gautaborg kynnti niðurstöður rannsóknar sem byggir á samanburði á gögnum frá PISA og PIAAC þar sem skoðuð voru langtíma áhrif menntunar á þekkingu (e. knowledge) og leikni (e. skills) einstaklingsins. Aðrar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á langtímaáhrif skólagöngu (e. schooling), það sem einstaklingur lærir í æsku hefur áhrif til framtíðar. Niðurstöður samanburðarrannsóknarinnar á PISA og PIAAC sýna auk þess að gæði skólagöngu hafa langtíma áhrif á hæfni fullorðinna til að geta lesið ritað mál (læsi) og hæfni þeirra í  stærðfræði (e. mathematical ability).

Karsten Albaek frá Danish Center for Social Science Research kynnti rannsókn þar sem borin voru saman gögn frá sömu einstaklingum sem tóku þátt í PISA þegar þeir voru 15 ára og í PIAAC við 27 ára aldur. Niðurstöður sýna sterk tengsl á milli þessara kannana, tími nemenda í grunnskóla er mikilvægur og gæði námsins sömuleiðis. Könnunin sýnir jafnframt að PISA og PIAAC sýna sambærilega mynd af leikni einstaklingsins. Miðað við þessar niðurstöður og aðrar sem kynntar voru á málþinginu er vert að huga að langtíma áhrifum slaks lesskilnings sem komið hefur fram í niðurstöðum PISA hér á landi og þeirri miklu umræðu sem sprottið hefur í kjölfarið síðustu misserin (Menntamálastofnun, 2019).

Munur á PIAAC og PISA

Mikilvægt er þó að undirstrika að þrátt fyrir að kannanirnar tvær skilgreini það sem verið er að mæla á sambærilegan hátt, þá er munur á þeim. PISA leitast við að mæla hversu vel 15 ára nemendur sem eru að nálgast lok grunnskóla eru tilbúnir til að mæta áskorunum þekkingarsamfélags nútímans; en PIAAC leggur áherslu á hvernig fullorðnir viðhalda og nota grunnleikni sína. Þrátt fyrir þennan mun sýnir samanburður á niðurstöðum milli Norðurlanda að árangursmynstrið í læsisvísitölum mismunandi aldurshópa er nokkuð stöðugt (Lundetræ, Sulkunen, Gabrielsen, & Malin, 2014). Ef einstaklingi gengur illa við 15 ára aldur þá eru sterkar líkur á að honum gangi illa við 30 ára aldur (Wallin, 2018).

Það er því ekki einungis mikilvægt að leggja áherslu á að efla grunnskólanemendur í þeim þáttum sem mældir eru í PISA heldur þarf að vera til staðar úrræði fyrir ungmenni sem eru á framhaldskólaaldri og fullorðna sem ekki hafa nægjanlega hæfni í grunnleikni þáttunum.. Af niðurstöðum annarra Norðurlanda í PIAAC má leiða að því líkum að um það bil 10% fullorðinna hafi ekki fullnægjandi hæfni í læsi og tölulæsi (Fridberg, o.fl., 2015).

Vinnustaðir skipta miklu máli við hæfniuppbyggingu einstaklinga og ljóst er að símenntun fer að miklu leyti fram á vinnustað með þjálfun og bættri færni í daglegum störfum. Niðurstöður PIAAC-könnunarinnar styðja þetta einnig. Huga þarf vel að þessu og sömuleiðis að sameiginlegri ábyrgð vinnustaðar og starfsmanns á þróun og uppbyggingu á færni (Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir & Fjóla María Lárusdóttir, 2016; Kottenstede, 2014)

Þjóðfélagsstaða skiptir máli

Athyglisvert er að skoða nýja rannsókn Þorláks Axels Jónssonar aðjunkts við Háskólann á Akureyri þar sem hann vekur athygli á áhrifum þjóðfélagsstöðu á árangur nemenda í PISA. Megin niðurstaða rannsóknarinnar er að ólík þjóðfélagsstaða nemenda skýri mismunandi frammistöðu á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu í PISA frekar en búsetan sem slík. Þjóðfélagsstaða er mæld sem efnisleg-, félagsleg- og menningarleg staða fjölskyldna nemenda. Í greininni bendir hann á að þörf sé á rannsóknum sem greina áskoranir í skólastarfi á landsbyggðinni því niðurstöður hans benda til þess að ekki sé um að ræða búsetumun þegar þjóðfélagsstaða hefur verið tekin með í reikninginn. Munur á niðurstöðum PISA milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar liggur því í öðru en búsetu (Baldur Guðmundsson, 2020; Þorlákur Axel Jónsson, 2019)

Niðurstöður PIAAC gefa vísbendingar í sömu átt, en að meðaltali gengur fólki með litla færni verr ef horft er til dæmis til atvinnu og lífsgæða en fólki sem býr yfir meiri færni. Þannig er hlutfall þeirra sem búa yfir lítilli færni sérstaklega hátt meðal þeirra sem hafa litla menntun, þeirra sem eldri eru og þeirra sem eru án atvinnu. Það er þó ekki auðvelt að benda á einsleitan markhóp fyrir fullorðinsfræðslu í grunnleikni út frá ákveðnum félagslegum auðkennum því samkvæmt PIAAC eru einnig fjölmargir sem búa yfir lítilli færni í hópi þeirra sem hafa starfsmenntun, meðal yngra fólks og þeirra sem eru í vinnu (Rosdahl, 2015).

Norrænn vettvangur veitir innsýn

Á vettvangi norræns samstarfs hefur þátttaka Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í norrænu samstarfsneti um grunnleikni fullorðinna gefið mikilvæga innsýn inn í það sem er að gerast á þessu sviði á hinum Norðurlöndunum og hvernig þær þjóðir hafa verið að nýta sér niðurstöður úr PIAAC til að efla grunnleikni fullorðinna. Netið hefur verið starfrækt síðan 2017. Fulltrúar Norðurlandanna í netinu hafa komið sér saman um að vinna að ákveðnum áherslusviðum á hverjum tíma og árunum 2018 og 2019 var lögð áhersla á stafræna færni fullorðinna. Hópurinn skrifaði skýrslu um efnið sem kom út í janúar síðastliðinn, og ber yfirskriftina Basic digital skills for adults in the Nordic countries (Network for Basic skills for Adults, 2020). Í skýrslunni má finna yfirlit yfir stöðu mála hvað varðar stafræna færni fullorðinna í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð sem og samantekt úr SVÓT greiningu þar sem m.a. eru dregin saman möguleg tækifæri og áskoranir á þessu sviði. Með grunnleikni í stafrænni færni er átt við þá færni sem hver fullorðinn einstaklingur þarf að búa yfir til að geta tekið virkan þátt í atvinnulífi og samfélaginu og hefur mikla þýðingu á öllum Norðurlöndunum í dag. Ekki síst í ljósi þess að sjálfvirknivæðing og tækniþróunin er hröð og hefur einnig áhrif á vinnumarkaðinn þar sem sum störf hverfa og ný verða til. Út frá SVÓT greiningunni eru settar fram nokkrar tillögur varðandi stefnumótun í málaflokknum í öllum löndunum auk dæma um góð verkefni sem tengjast efninu.

Á árinu 2020 verður áherslusvið samstarfsnetsins tölulæsi, það er færni fullorðinna til að nálgast, nota, túlka og tjá sig með tölulegum upplýsingum og staðreyndum.

Heimildaskrá

Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir, & Fjóla María Lárusdóttir. (2016). Ráðgjöf í atvinnulífinu. Gátt – Ársrit, 56-57. Sótt af http://frae.is/wp-content/uploads/2017/11/Gatt_2016_56-57_web.pdf

Baldur Guðmundsson. (2020, 11. janúar). Þjóðfélagsstaða skýrir lægri einkunnir á landsbyggðinni. Sótt af https://www.mannlif.is/frettir/innlent/samfelag-innlent/thjodfelagsstada-skyrir-laegri-einkunnir-a-landsbyggdinni/

Fjármála- og efnahagsráðuneytið. (2018). Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023. Fjármála- og efnahagsráðuneytið. Sótt af https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=fc52c4b3-3a5b-11e8-942a-005056bc530c

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. (23. nóvember 2018). Norrænt málþing sérfræðinga um PIAAC. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Sótt af https://frae.is/frettir/norraent-malthing-serfraedinga-um-piaac/

Fridberg, T., Rosdahl, A., Halapuu, V., Valk, A., Malin, A., Hämäläinen, R., . . . Mellander, E. (2015). Adult Skills in the Nordic Region: Key Information-Processing Skills Among Adults in the Nordic Region. Copenhagen: Nordisk Ministerråd. Sótt af https://doi.org/10.6027/TN2015-535

Huginn Freyr Þorsteinsson, Guðmundur Jónsson, Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir, Lilja Dögg Jónsdóttir, Kristinn R. Þórisson. (2019). Ísland og fjórða iðnbyltinginn. Stjórnarráð Íslands, Forsætisráðuneytið. Sótt af https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=03be6340-3bfc-11e9-9436-005056bc4d74

Kottenstede, J. F. (2. febrúar 2014). Creating jobs is the best way to promote learning. (LLinE, Spyrill) ELM Magazine. Sótt af https://elmmagazine.eu/issue-1-2014/creating-jobs-is-the-best-way-to-promote-learning/

Lilja Dögg Alfreðsdóttir. (2018, 9. mars). PISA vinnumarkaðarins. Sótt af https://www.mbl.is/mogginn/bladid/innskraning/?redirect=%2Fmogginn%2Fbladid%2Fgrein%2F1675421%2F%3Ft%3D525770247&page_name=grein&grein_id=1675421

Lundetræ, K., Sulkunen, S., Gabrielsen, E., & Malin, A. (2014). A Comparison of PIAAC and PISA results. Sótt af https://www.researchgate.net/publication/268519427_A_Comparison_of_PIAAC_and_PISA_results

Menntamálastofnun. (2. desember 2019). Niðurstöður PISA 2018 liggja fyrir. Sótt af https://mms.is/frettir/nidurstodur-pisa-2018-liggja-fyrir

Network for Basic skills for Adults. (2020). Basic digital skills for adults in the Nordic countries. Nordic Network for Adult Learning. Sótt af https://nvl.org/content/basic-digital-skills-for-adults-in-the-nordic-countries

OECD. (e.d.). OECD Skills Surveys. Sótt af OECD: https://www.oecd.org/skills/piaac/about/piaac2ndcycle/

Rosdahl, A. (2015). PIAAC á Norðurlöndum. Gátt – ársrit, 13-19. Sótt frá http://frae.is/wp-content/uploads/2019/06/Anders-Rosdahl.pdf

Þorlákur Axel Jónsson. (2019). Er búsetumunur á námsárangir þegar ólík þjóðfélagsstaða er tekin með í reikninginn. Tímarit um uppeldi og menntun, 28(1), 63-87. doi:https://doi.org/10.24270/tuuom.2019.28.4

Wallin, G. (14. desember 2018). New PIAAC study coming up – to measure abilities among adults. Nordic Labour Journal. Sótt af http://www.nordiclabourjournal.org/nyheter/news-2018/article.2018-12-14.7343538187

Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir

Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir er náms- og starfsráðgjafi hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún hefur lokið MAprófi frá Háskóla Íslands í náms- og starfsráðgjöf og diplóma
í sama fagi frá Háskólanum í Þrándheimi í Noregi, BA-prófi í uppeldis- og menntunarfræði og hefur kennsluréttindi frá HÍ. Gígja starfaði áður hjá Mími-símenntun og einnig í grunnog framhaldsskólum. Helstu verkefni hennar hjá FA tengjast náms- og starfsráðgjöf í atvinnulífinu og raunfærnimati.

Halla Valgeirsdóttir

Halla Valgeirsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Helstu verkefni hennar tengjast námsskrárskrifum. Hún var áður fræðslustjóri hjá Leikskólum Reykjavíkurborgar. Halla hefur lokið M.Ed.-prófi í menntunarfræði með áherslu á fræðslustarf með fullorðnum frá Háskóla Íslands og BA-prófi í félagsfræði frá sama skóla.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi