- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

UP-AEPRO á Íslandi

Á fundi, sem fulltrúar Íslands í Evrópuverkefninu UP-AEPRO buðu til í Reykjavík fyrr í haust, ræddu þátttakendur um spurningar er varða meginmarkmið verkefnisins; færniþróun. Fjöldi einstaklinga þarf að efla hæfni sína með sí- og endurmenntun til þess að mæta nýjum þörfum atvinnulífsins í kjölfar heimsfaraldurs og fjórðu iðnbyltingarinnar.

UP-AEPRO verkefnið

Fulltrúi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í samstarfi við NVL og fulltrúa nokkurra fræðslusambanda í Evrópu stóðu að evrópska verkefninu UP-AEPRO (Upskilling Pathways – Adult Education Professionals), segir Fjóla María Lárusdóttir, þróunarstjóri hjá FA og fulltrúi Íslands í sérfræðinganeti NVL um raunfærnimat og þátttakandi í verkefninu.  

EAEA, Evrópusamtök um fullorðinsfræðslu leiða verkefnið. Meðal afurða er röð vefnámskeiða undir yfirskriftinni; Sköpum, lærum, deilum og framkvæmum. Símenntun þar sem fjallað er um stefnu og hvernig hægt er að efla tækifæri fullorðinna til náms og raunfærnimats.

– Markmiðið er að varpa ljósi á viðvarandi þörf þeirra sem koma að námi fullorðinna, og  mótun stefnu um menntun og hæfniþróun. Okkur langaði að opna þeim tækifæri til þess að kynna þróun sviðsins í Evrópu og fá innsýn í kerfi og þróunarverkefni annarra landa, segir Fjóla María Lárusdóttir.

Í samræmi við evrópska stefnu

Markmið námskeiðanna er að dýpka þekkingu og leggja grunn að umræðu um þá stefnu Evrópusambandsins um hæfniþróun sem ber yfirskriftina Upskilling Pathway (UP). Þar er fjallað um þróun evrópsk þekkingarsamfélags og stuðning við fullorðinsfræðslu til þess að mæta áskorunum sem blasa hvarvetna við, meðal annars á sviði samkeppnishæfni, velferðar og sjálfbærni. Talið er að um 60 milljónir Evrópubúa, sem ekki hafa lokið námi á framhaldsskólastigi, heyri til markhóps stefnunnar.  

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins leikur afgerandi hlutverk í hæfniþróun á Íslandi. Rætur Fræðslumiðstöðvarinnar eru sprottnar úr grasrótinni, hún var stofnuð í kjölfar kjarasamninga í byrjun aldarinnar. Ástæðan var að um þriðjungur af vinnuaflinu hafði ekki lokið námi á framhaldsskólastigi, hópur sem bjó yfir fjölþættri færni sem þurfti að finna farveg. Meginmarkmið FA er að þróa kerfi framhaldsfræðslu í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar. Aðilar atvinnulífsins eru eigendur FA og fulltrúar þeirra mynda stjórn miðstöðvarinnar. FA er fjármagnað af þjónustusamningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og norrænum og evrópskum verkefnum.

Ísland tekur virkan þátt

– Nýlega bauð NVL á Íslandi í samstarfi við FA, hagsmunaaðilum, sérfræðingum á sviði fullorðinsfræðslu á fund í Reykjavík til þess að ræða hvernig við á Íslandi getum mætt þörfum markhópsins á markvissari hátt. Hvernig getum við gert betur fyrir markhópinn, leiðbeint þeim og hvatt þau til þess að draga fram, meta og skjalfesta hæfni sína? Markmiðið er að styðja atvinnulífið og samfélagið við að mæta áskorunum, draga úr bilinu á milli þeirrar hæfni sem er til staðar og þeirrar sem atvinnulífið kallar eftir og fjölga þeim sem búa yfir þeirri hæfni, segir Fjóla María Lárusdóttir.

Staðan á Íslandi

– Allt frá upphafi ársins 2003 þegar Fræðslumiðstöð atvinnulífsins var komið á laggirnar hefur verið lögð áhersla á þróun þrenns konar úrræða til þess að mæta þörfum markhópsins: Náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimat og náms við hæfi, bæði starfstengt  og nám í almennum bóklegum greinum. Eins og fram kemur á mynd 1 hefur miðað vel í að ná markmiðum um að fækka í markhópnum. Nú eru mun færri á íslenskum vinnumarkaði sem tilheyra hópnum en þegar miðstöðinni var komið á, segir  Fjóla María Lárusdóttir. (mynd 1)

Heimild: Hagstofa Íslands

– En sökum kórónuveirunnar þá tilheyra 40% atvinnuleitenda, eða þeirra sem eru á hlutabótum, markhópi FA. Þessi hópur býr yfir fjölþættri reynslu sem eftirspurn er eftir á vinnumarkaði, og almennt hefur atvinnuleysi verið lítið á Íslandi og fólk  getað nýtt þá hæfni sem það hefur aflað sér. Þess vegna er gott fyrir okkur hjá FA að eiga samræður við aðra sérfræðinga og hagsmunaaðila til þess að komast að því hvernig við getum mætt þörfum markhópsins. Við lögðum ákveðnar spurningar fyrir þátttakendur. Niðurstöðurnar verða kynntar bæði innanlands og fyrir stefnumótendur og sérfræðinga í afurðum UP-AEPRO verkefnisins þar á meðal verkefnabanki með hvatningaverkfærum, þar sem áhersla verður lögð á að lýsa árangursríkum aðferðum við hæfniþróun þeirra sem ekki hafa lokið námi á framhaldsskólastigi.  Verkefninu lýkur í desember 2020, segir Fjóla María.

Sömu spurningar voru lagðar fyrir Eyrúnu Björk Valsdóttur, sviðsstjóra fræðslu og þekkingar hjá ASÍ og fyrrverandi formann stjórnar FA.  

Hvað hefur reynst vel?

– Við höfum þéttriðið net samstarfsaðila. Í símenntunarmiðstöðvunum er fólk sem þekkir umhverfi sitt, bæði atvinnulífið og samfélagið. Starfsfólk miðstöðvanna býr yfir mikilli faglegri færni og áralöng og góð hefð er fyrir samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Við búum að fenginni reynslu af þátttöku í norrænum og evrópskum verkefnum eins og UP-AEPRO. Reynslan sem við höfum aflað okkur endurspeglast í þróun úrræða, sér í lagi raunfærnimati og ráðgjöf, segir Eyrún Björk.

Hvernig getum við auðveldað fullorðnum þátttöku í námi?

– Við þurfum meiri sveigjanleika á milli kerfa. Þau sem sækja nám eftir námskrám FA við símenntunarmiðstöðvarnar eru skráð í óformlegt nám en eftir að þau ljúka náminu vilja þau fá það metið inn í formlega skólakerfið. Fullorðnir vilja líka að atvinnulífið meti óformlegt nám. Óformlegt nám fer ekki einungis fram hjá fræðsluaðilum heldur einnig að miklu leyti á vinnustaðnum, segir Eyrún Björk.

Á tímum farsóttarinnar verður þörf á nýsköpun meira krefjandi sem og fyrir nánara samstarf allra aðila, atvinnulífsins og yfirvalda. Þörf fyrirtækja fyrir markvissa hæfniþróun er vaxandi. Síðast en ekki síst er þörf fyrir að þau sem eru í atvinnuleit eða  tímabundið án atvinnu axli persónulega ábyrgð.   

Afstaða Eyrúnar er skýr hvað varðar hlutverk ríkisstjórnarinnar:

– Við höfum enn ekki greint þarfir fyrir hæfni á Íslandi. Greining á þörfum fyrir framtíðarhæfni liggur til grundvallar þróunar bæði atvinnu- og hæfnistefnu. Við leggjum til að aðilar atvinnulífsins og stjórnvöld vinni saman að mótun stefnunnar. Í þessu tilliti væri gagnlegt að horfa til þróun hæfnistefnu Finna og Norðmanna. Finnar hafa lagt áherslu á að greina og spá fyrir um framtíðar hæfniþarfir vinnumarkaðarins og Norðmenn birtu hæfnistefnu sína þegar árið 2017, segir Eyrún Björk Valsdóttir.

Meiri þekking á námi fullorðinna

– En við þurfum jafnframt að afla meiri þekkingar á námi fullorðinna. Allir hagsmunaaðilar verða að sameinast um það verkefni, aðilar atvinnulífsins, verkalýðsfélög ásamt Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og símenntunarmiðstöðvunum um land allt, segir Eyrún Björk.

Hefur heimsfaraldurinn áhrif á þróunina?

– Ekki aðeins heimsfaraldurinn heldur líka fjórða iðnbyltingin. Sjálfvirkni- og vélmennavæðing mun leiða til þess að fjölmörg störf breytast eða hverfa alveg. Nýjar kröfur eru gerðar um stafræna færni og aukna sí- og endurmenntun. Nám mun í auknum mæli fara fram á stafrænu formi þar sem nemendur kaupa eða fá aðgang að rafrænum námskeiðum sem þeir sinna þegar og þar sem þeim hentar. Ef til vill mun fólk vilja hafa meiri áhrif á þróun námsferils síns, sækjast eftir breiðari þekkingu frá ólíkum stofnunum, samtökum, vettvangi og/eða umhverfi, frekar en að fara í fyrirfram skilgreint nám sem endar með útskrift í tilteknu fagi, segir Eyrún Björk Valsdóttir að lokum.

Hér er heimasíða verkefnisins með nánari upplýsingum.  

Hér er yfirlit yfir vefstofurnar/námskeiðin í UP-AEPRO verkefninu.

Fleiri dæmi um árangursríkar aðferðir er hægt að finna í Stefnuyfirlýsingu EAEA um nám fullorðinna á 21. öldinni: Krafturinn og gleðin af því að læra hér á íslensku

Greinin var skrifuð á norsku fyrir DialogWeb veftímarit Norræna tengslanetsins um nám fullorðinna NVL, en er birt hér í íslenskri þýðingu með góðfúslegu leyfi.

Á forsíðumynd, frá vinstri: Eyrún Björk Valsdóttir, sviðstjóri fræðslu og þekkingar ASÍ, Fjóla María Lárusdóttir, þróunarstjóri FA.

Sigrún Kristín Magnúsdóttir

Sigrún Kristín Magnúsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún er ritstjóri Gáttar og sinnir verkefnum í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar. Hún hefur unnið við menntun og þjálfun í rúmlega þrjá áratugi, við stjórnun, kennslu og skipulagningu m.a. hjá Sambandi veitinga- og gistihúsa, við Hótel- og matvælaskólann í MK og Listaháskóla Íslands.

Sigrún Kristín hefur BA-próf frá Háskóla Íslands í norsku, heimspeki og tónlistarfræðum, M.Sc.-próf í ferðaþjónustustjórnsýslu frá University of Massachusetts og kennsluréttindi frá Kennaraháskóla Íslands

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi