- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Verkefnastjórar “teika” tæknina

Eftir um það bil fjögur ár í starfi hjá Fræðslunetinu geri ég mér betur og betur grein fyrir því að upplýsingatækni leikur sífellt stærra og stærra  hlutverk í starfseminni. Til þess að skilvirkni og þjónusta séu eins og kröfur samfélagsins kalla eftir virðist aldrei vera til nægilega mikil færni í þessum efnum og stöðugt er því verið að elta nýjustu tækni. Í greininni er fjallað um tæknikröfur til símenntunarmiðstöðva í ljósi fjórðu iðnbyltingarinnar og sérstaklega á áhrif þeirra á störf verkefnastjóra.

Störf verkefnastjóra

Störf flestra verkefnastjóra á símenntunarmiðstövum eru fjölbreytt en einnig um leið sértæk. Hver verkefnastjóri er oft að sinna mörgum sviðum fullorðinsfræðslu. Dæmi um slík svið eru ráðgjöf, íslenska fyrir útlendinga, raunfærnimat, nám á vottuðum námsleiðum FA og námskeið fyrir fatlað fólk. En um leið og verkefnastjórinn þarf að fást við fleiri en eitt svið er hvert og eitt þeirra mjög sértækt.  Að skipuleggja nám í vottuðum námsleiðum FA samkvæmt gæðaviðmiðum EQM+ er til dæmis mjög sértæk vinna sem í raun sárafáir á Íslandi hafa þekkingu til að framkvæma. 

Öfugt við það sem fólk oft heldur þá eru störf verkefnastjóra á símenntunarmiðstöðvum ekki lík störfum kennara nema að takmörkuðu leiti.  Þau snúast miklu meira um skipulag og upplýsingastreymi heldur en um beina kennslu og gæslu. Störf verkefnastjóra á símenntunarstöð eru í raun líkari störfum skólastjórnenda. Þeir skipuleggja nám, ráða fólk til starfa, útbúa stundatöflur, skipuleggja kennsluaðstæður, sjá um útskriftir námsmanna og framvegis.  Verkefnastjórinn á í stöðugu sambandi við fólk (námsmenn, samstarfsfólk, kennara, stjórnendur og fl.) og er því sífellt að miðla upplýsingum til allra meðan á verkefninu stendur. Hann mótar og framfylgir fjölda áætlana og skilar talsverðri skrifinnsku og skráningarvinnu. Sá sem sinnir verkefnasjórnun í símenntunarmiðstöð er því stjórnandi með margþætt vald.

Af fyrrgreindu má ráða að störf verkefnastjóra í fullorðinsfræðslu er stjórnunarstarf. Verkefnastjórar hafa á sinni könnu nánast alla útfærslu á starfi stöðvanna. Grunnhæfni og menntun þeirra skiptir því miklu máli fyrir starfsemina. Spyrja má sig með tilliti til starfssviðs verkefnastjóra hvaða menntun og og bakgrunnur henti best í starfið og hvort í raun sé til nokkur skólun önnur en starfsþjálfun á stöðvunum sjálfum sem undirbúi verkefnastjóra til starfsins.

Upplýsingatækni í fullorðinsfræðslu

Þegar við tölum um upplýsingatækni í skólastarfi er þungamiðjan í slíkri umræðu yfirleitt tengd nemendum og námi þeirra; það er hvernig fræðslustofnanir nota upplýsingatækni til að auðga reynslu nemenda og stuðla að námi þeirra á skilvirkan og hagnýtan hátt.

Ljóst er að lýsingin hér að ofan á ekki nema óbeint við um verksvið verkefnastjóra á símenntunarmiðstöðvum. Upplýsingatækni verður í þeirra höndun fyrst og síðast mikilvægt tæki til skipulags, stjórnunar og miðlunar. Um leið og tækniframfarir verða sífellt miðlægari í allri samfélagsþróun gerist það jafnframt að þekking og leikni í upplýsingatækni verður lykilhæfni verkefnastjórans.  Án  mikillar kunnáttu í upplýsingatækni má segja að verkefnastjórinn gangi „haltur“ til starfa.

Það sem gjarnan vefst fyrir mörgum sem hafa  valið að vinna með fólki fremur en tækni og vélum er að öll þessi vinna með fólki krefst stöðugt meiri tækniþekkingar. Sá sem velur sér starfssvið sem byggir ekki á vinnu með fólki heldur á breytilegri tækni; til dæmis bifvélavirki, lítur jákvætt til allra þeirrar tækniþróunar sem stöðugt er í gangi.  Kennari sem vinnur með fólki lítur gjarnan á ýmsa tækni sem „auka“ fyrirhöfn. Þar sem verkefnastjórar eru alltaf að vinna með fólk má ætla að einnig sé hætta á þessum viðhorfum meðal þeirra.

Í fullorðinsfræðslu á símenntunarmiðstöð er stöðug þróun í upplýsingatækni tilkomin af nákvæmlega sömu ástæðu og á öllum öðrum starfssviðum. Öll tækniþróun snýst að langmestu leyti um það að auka skilvirkni (þ.e. að afkasta meiru/lækka kosnað), bæta þjónustu og bæta öryggi. Undirliggjandi væntingar tækniframþróunar eru því vonir um hagræðingu og betri þjónustu en einnig um vinnulag sem býður upp á meiri þægindi. Erfitt getur þó verið að greina hvort aukin upplýsingatækni geri líf fólks og þar með vinnu auðveldari og rólegri. Þannig er tölvupóstur virkilega að spara okkur sporin.  En magnið á tölvupósti er slíkt að miklu meiri tími fer í að vinna með póst en áður. Engu að síður hefur í dæminu hér á undan bæði náðst hagræðing (fleiri póstar á sama tíma) og betri þjónusta (t.d. þeir sem senda okkur póst fá fyrr svör).  Mörgum finnst það óþægileg tilfinning að stöðugt sé með tækniþróuninni verið að reyna að ná fram meiri afköstum og ýtarlegri þjónustu.

Að “teika” tæknina

Sögnin „að teika“ er útskýrð þannig að „hangið sé aftan í bíl“.  Það er nákvæmlega það sem flestir verkefnastjórar eru að upplifa þegar við tölum um að „teika“ tæknina.  Tæknibreytingar draga okkur áfram í hvert óljósa ferðalagið á eftir öðru. Það eru ekki stöðvarnar sem stýra för, nema að sára litlu leiti, heldur eru það stór upplýsingafyrirtæki sem eru við stjórnvölinn.

Gott dæmi um þetta er Microsoft Office 365. Hér er um að ræða gríðarlega stóran hugbúnaðarvöndul, sem byggir á skýjalausnum. Svo örar eru breytingarnar að Microsoft gefur daglega út tilkynningar til Enterprise notenda sinna þar sem farið er yfir nýjustu breytingar sem eru á döfinni. Allur hugbúnaðarvöndullinn tekur stöðugum breytingum; nýr hugbúnaður verður til, nöfn á hugbúnaði breytast, annar hugbúnaður hverfur og svo framvegis. Fyrst var til Links, svo Skype, svo Skype for business og nú Teams. Þessi þróun gerðist mjög hratt, eða um það bil á fjórum árum.

Við verðum að elta fjölmargar breytingar, viðbætur og nýungar sem tæknifyrirtækin setja á markað. Við höfum í raun ekki mikið val. Það getur varla verið valkostur á símenntunarstöð að læra ekki á samskiptahugbúnað, skýjaumhverfi og fjarkennslubúnað sem dæmi.  Og ef einhverjum finnst INNA vera með flókið viðmót ferðu varla annað með skráningarnar. Ef starfsmenn hafa fengið alveg nóg af þessum upplýsingatæknilegu hæfnikröfum er í raun eina valið sem þeir hafa að skipta um starfsvettvang. Upplýsingatækni sem lykilhæfni á símenntunarmiðstöð er ekki að fara að breytast.

Upplýsingatækni í lykilhlutverki breytinga

Við vitum að stöðugar breytingar í verklagi er forsenda þess að skipulagsheildir„komist af“ í samfélagi framtíðarinnar. Ef við viljum að símmenntunarmiðstöðvarnar standi af sér þjóðfélaglegar breytingar og haldi áfram að þjóna sínum viðkvæmu markhópum verða þær stöðugt að uppfæra hæfni starfsfólksins. Hluti þeirrar starfsemi sem nú er sinnt mun í auknum mæli verða sinnt af vélum, því fjórða iðnbylgingin skilur ekki símenntunarmiðstöðvar útundan. Dæmi um slíkt gæti verið hugbúnaður sem þjálfar og kennir fólki tungumál.

Viðhorf og skilningur starfsmanna á nauðsyn upplýsingatækni skapar mikilvægar forsendur til breytinga og þróunar. Hæfni í upplýsingatækni þarf að vökva reglulega svo að vöxtur sé stöðugur og mikilvægt er að láta ekki hluta starfsmanna takast á við tæknina. Það þurfa allir að uppfæra sig í tækni.

Tilvera símenntunarmiðstöðvanna byggir á því að þær séu góðar í því sem þær gera, skili þjóðfélagslega mikilvægu starfi og geti sýnt fram á hagkvæmni og skilvirkni. Þær þurfa að geta sýnt nákvæmlega sömu tilþrif og einkaðilar gera á markaði; geta unnið hratt, skilað miklu og á hagkvæman hátt. Ef þær standa ekki undir framansögðu eða ætla ekki gera það – vakna strax efasemdaraddir um nauðsyn þess að ríkið haldi úti símenntunarmiðstöðvum.

Upplýsingatækni er nú þegar í lykilhlutverki í mörgum helstu breytingum sem stöðvarnar innleiða og ekki er hægt að sjá annað í kortunum en að slík þróun haldi áfram.  Nokkur dæmi:

  • Rafrænt raunfærnimat
  • Rafræn ráðgjöf
  • Fjarnám á nánast öllum sviðum fullorðinsfræðslu
  • Rafræn námsefnisgerð til sjálfnáms
  • Rafræn samvinna /verkefnastjórnun /fundir
  • Rafrænar innskráningar nemenda
  • Rafrænar brautskráningar nemenda
  • Rafrænir kaffitímar
  • Rafrænar undirritanir

Það er sannarlega hægt að verða lafmóður á því að „teika“ alla þessa tækni endalaust og án hvíldar.  En höfum hugfast að framtíð símenntunarmiðstöðvanna verður sífellt meirra og meira skrifuð með rafrænni tækni. Alveg eins og allt okkar líf yfirleitt.  Því er stöðugt nám í upplýsingatækni í raun og veru lífið sjálft.

Lærum allt lífið!

Eyjólfur Sturlaugsson

Eyjólfur Sturlaugsson hefur starfað síðustu fjögur árin sem framkvæmdastjóri Fræðslunetsins símenntunar á Suðurlandi. Hann er með B.Ed - kennarapróf, diplóma í upplýsingatækni í skólastarfi og MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu. Eyjólfur hefur öðlast víðtæka þekkingu og reynslu í stjórnun skólastofnana eftir að hafa starfað sem skólastjóri í grunn-, leik- og tónlistarskóla í tæp tuttugu ár.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi