- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Yana og Maria klæðskerasauma ráðgjöf fyrir fullorðið vinnandi fólk

Um þriggja ára skeið ætla þær að veita einstaklingsmiðaða ráðgjöf fyrir fullorðna í tilraunafyrirtækinu og verkefninu Vísum veginn, samnýta ábyrgðina, þróa ráðgjöfina, starfið og kerfið. Verkefninu Ráðgjöf á Álandi, er þar með lokið en starfseminni verður haldið áfram.

Hljómar það ekki eins og um sé að ræða frekar yfirgripsmikið verkefni?  Ekki fyrir verkefnastjórann, hana Yana Jahre’n og náms- og starfsráðgjafann og framkvæmdastjóra fyrirtækisins Mariu Christensen sem báðar eru eldhugar og vilja af einhug byggja upp eitthvað sem mætir þörfum og væntingum íbúa á Álandi.  

– Við höfum komið auga á tækifæri til þess að skapa eitthvað nýtt, eitthvað sem hefur skort og við ætlum að gera þetta í samstafi við þá ráðgjafa sem eru þegar til staðar. 

Bætum við

Markmiðið er með öðrum orðum að þróa viðbætur við þá náms- og starfsráðgjöf sem nú þegar er fyrir hendi.

– Við ætlum ekki að búa til eitthvað sem er ótrúlega miklu betra en flest annað. Okkur hefur  einfaldlega mistekist í ráðgjöf fyrir markhópinn sem rúmar hvorki nemendur né atvinnuleitendur. Og þökk sé þeirri staðreynd að tilraunaverkefnið beinist markvisst að ákveðnum markhópi, þá munum við nú geta tileinkað viðskiptavinum meiri tíma og lagt sérstaka rækt við ráðgjöfina. Það er reyndar það sem skilur okkar ráðgjöf frá öðru því sem stendur til boða á Álandseyjum um þessar mundir.

Þegar árið 2013 sýndu niðurstöður könnunar að fjölmargir fullorðnir á vinnumarkaði höfðu leitað til náms- og starfsráðgjafa, sem vinna með nemendum eða atvinnuleitendum, vegna þess að þeir höfðu enga aðra að leita til.

Félagsmálasjóður Evrópu fjármagnaði verkefnið Ráðgjöf á Álandi árin 2017 – 2018, það var framlengt, lauk í júlí 2019 og mun í ágúst 2019 flytjast yfir í tilraunaverkefnið Vísum veginn sem nú er að öllu leiti fjármögnað af landsstjórn Álands allt fram til 31. júlí 2022.

Nær til tveggja sviða

Maria mun vinna að framkvæmdinni, taka á móti viðskiptavinum, fyrst og fremst sinna hlutverki náms- og starfsráðgjafa, en jafnframt starfa sem stjórnandi fyrirtækisins og Yana mun halda áfram sem verkefnisstjóri að vinna að ferlinu, kerfisþróun, uppbyggingu og stefnu.

– Við höfum safnað upplýsingum um ráðgjöf á Norðurlöndunum, einnig sótt til þeirra sem leita eftir ráðgjöf og til ráðgjafa til að prófa mismunandi aðferðir, sérstaklega markþjálfun, og erum líka byrjaðar að  byggja upp tengslanet.

Byrjaðu á réttum enda

María og Yana geta ekki lagt nægilega ríka áherslu á mikilvægi þess að byrja á réttum enda, mæta þeim sem leita eftir ráðgjöf byggða á raunverulegum þörfum tengda löngunum, draumum, aðstæðum og vonum.

– Það er nauðsynlegt að hafa tíma fyrir kortlagningu á gildum þeirra sem leita eftir ráðgjöf, einkennum og innra ferli, áhugamálum og færni. Við höfum einstakt tækifæri til að gefa innra ferli þann tíma sem þarf vegna þess að við höfum engar aðrar skuldbindingar, við erum sjálfstæðar og hlutlausar. Fyrir marga ráðgjafa er tími til samtala takmarkaður.

– Við ættum líka að hafa bestu forsendurnar til að tengja fólk við hentugar leiðir og lausnir, ekki aðeins vegna þess að við getum boðið upp á ótakmarkaðan tíma, heldur einnig vegna samstarfsins sem við eigum þegar við starfandi ráðgjafa. Á þann hátt vonumst við til að geta stutt við fólk sem leitar að nýju starfi, vill færa sig á milli atvinnugreina, hefja nám eða takast á við aðrar breytingar í lífinu. 

Hlutleysi er styrkur

Kannski er um að ræða einhverja sem eru í röngu starfi, eða hafa verið of lengi í starfi en er ekki falin verkefni sem í rauninni henta þeim best?

– Við bjóðum fullorðnum hlutlaus stuðningssamtöl, og hlutleysið er bara styrkur. Fyrirkomulagið er þannig að fólk tekur þrjú skref, þar af er „Innsýni“ upphafið og síðan tekur „Útsýni“ við og að endingu „Framsýni“. Við erum sífellt að bæta við menntun okkar á sviði „Innsýni og markþjálfunar vegna starfsþróunar“.

– Það er frábært, í raun heiður að fá að fylgjast með fólki sem vinnur með sjálft sig og nær markmiðum sem breyta lífi þess á ótrúlegan hátt, auðvitað til hins betra, eru Yana og Maria sammála um.

Markmiðið er ný samráðsstjórn

Samkvæmt aðgerðaáætlun verkefnisins mun „Vísum veginn“ taka á móti viðskiptavinum, bjóða upp á ráðgjafarþjónustu, vinna með staðfestum fagaðilum og þróa heildstæðan samning.

– Markmiðið er að fá að endingu nýtt stjórnarumboð, eða samstarfsráð sem líka getur verið stýrihópur og auðvitað að gera samstarfssamning til framtíðar.

Samhliða verkefninu, sem að tilraunatímabilinu loknu verður staðfest sem varanlegt, er einnig verið að þróa rafræna ráðgjöf, visavagen.ax – meðal annars til að skapa vettvang fyrir tengslanet ráðgjafa sem eru í sambandi við viðskiptavini og þurfa snarlega að leita til samstarfsaðila í öðrum starfsgreinum.

– Áskoranirnar eru margar, bæði við að byggja upp tengslanet meðal rótgróinna starfsgreina sem og vegna skipulags. En það er bæði mögulegt og gefandi og markmiðið er að finna upplegg sem er virkar vel og er sveigjanleg og við trúum því að við munum ná árangri, segir Yana.

Ævinám og ráðgjöf

Yana er ánægð með að verkefnaáætlunin hafi gagnast vel allt frá upphafi. Það sem átti að gera hefur einnig að mestu verið framkvæmt, rúmlega 70 prósent. Sum verkefni bíða þess af vissum hagnýtum ástæðum að þeim ljúki. Fjárhagsáætlunin fyrir verkefnið hefur einnig staðist, meira að segja með afgangi upp á 30.000 evrur.

Yana og Maria benda á að ævinámi fylgi einnig krafa um ævilanga náms- og starfsráðgjöf.

– Það er áhugavert að fylgjast með og sjá hvernig hugtakið ferill hefur fengið víðtækari merkingu, að jafnvel í opinberri rannsókn sænsku ríkisstjórnarinnar, SOU 2019: 4, er nú lagt til að titlinum náms- og starfsráðgjafi verði breytt í ráðgjafa við starfs- og lífsferil í (se. karriervägledning) staðfesta þær.

Greinin er skrifuð fyrir rafrænt tímarit NVL DialogWeb en er birt hér á íslensku með góðfúslegu leyfi.

Annett Bergbo

Annett hafði verið blaðamaður í 23 áður en hún fór á eftirlaun. Hún skrifaði um allt sem varðar samfélagsmál nema íþróttir.
Hún hefur einnig fjölbreytta reynslu af ýmsum verkefnum eins og til dæmis þriggja ára Evrópuverkefni „Stuðningur til starfa“. Það snérist um að virkja fólk sem af ólíkum orsökum hafði verið lengi án atvinnu. Leiðbeinendur veittu stuðning eftir sérstaklega útfærðri aðferð Supported employment og markmiðið var að með virkja fólk til starfa með ólíkum sérsniðnum aðgerðum. Annett öðlaðist nýja innsýn og dýrmæta reynslu af þessu verkefni sem nýtist henni við skrif um fullorðinsfræðslu.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi