Í febrúar 2020 vorum við á blússandi siglingu við að undirbúa okkur fyrir fjórðu iðnbyltinguna, starfshópar höfðu verið skipaðir og fundir höfðu verið haldnir. Nefnd stjórnvalda um fjórðu iðnbyltinguna skilaði af sér ítarlegri skýrslu. Þar birtist útreiknuð spá um að 28% íslensks vinnumarkaðar yrði líklega fyrir verulegum breytingum eða störf myndu hverfa vegna sjálfvirknivæðingar og 58% starfa tækju líklega talsverðum breytingum.
Án þess að farið sé dýpra í innihald þessarar skýrslu, þá birtist okkur þar sú sýn að fjórða iðnbyltingin gæti haft hvað mest áhrif á markhóp framhaldsfræðslunnar, sem er fólk með litla formlega menntun. Hjá þessum hópi væru sannarlega miklar breytingar framundan.
Það var ekki eftir neinu að bíða, þörf var á markvissri vinnu við að efla og styrkja markhópinn til að öðlast færni, leikni og aukna grunnfærni í tækni fjórðu iðnbyltingarinnar, til að hópurinn stæði sem best í komandi tækni- og samfélagsbreytingum.
Heimsfaraldurinn til Íslands
Það var svo í lok febrúar sem við á eyjunni fögru urðum fyrir áfalli. Hörmulegar fréttir bárust af því að fyrsti Íslendingurinn hefði verið færður í einangrun á Landspítala vegna Covid 19. Fljótlega varð okkur ljóst að heimsfaraldur væri hafinn og eins og svo ofboðslega oft hefur áður verið sagt síðustu mánuði, fordæmalausir tímar væru í vændum.
Eins og við öll vitum fóru öll hefðbundin samskipti úr skorðum vegna sóttvarnarviðbragða. Áhrif heimsfaraldursins eru víðtæk á íslenskan vinnumarkað, sérstaklega á ferðaþjónustu og aðrar þjónustugreinar og hefur faraldurinn haft í för með sér mikið atvinnuleysi sem og óvissu um framtíðina hjá mörgum.
Hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og í framhaldsfræðslukerfinu varð strax ljóst að bregðast þyrfti við vegna faraldursins. Leggja þyrfti áherslu á að byggja upp þekkingu og hæfni þannig að mannaflinn og atvinnulífið yrði sem best í stakk búið til að sinna verkefnum sínum þegar hjól atvinnulífsins færu aftur af stað. Það yrði hins vegar ekki gert án aukins opinbers fjármagns meðal annars í Fræðslusjóð og vegna námsaðgerða Vinnumálastofnunar.
Löng reynsla og mikil þekking hjá símenntunarmiðstöðvum
Hjá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum víðs vegar um land er að finna mikla reynslu af því að veita atvinnuleitendum og erlendum ríkisborgurum þjónustu. En það eru einmitt innflytjendur sem eru burðarvirki margra þeirra þjónustugreina sem þurft hafa að leggja niður starfsemi sína í heimsfaraldrinum.
Í samhæfingarhópi stjórnvalda um atvinnu og menntaúrræði hefur Fræðslumiðstöðin komið á framfæri með skýrum hætti möguleikum og styrkleikum framhaldsfræðslunnar til viðspyrnu en enn er beðið niðurstöðu stjórnvalda varðandi viðbótar fjármagn.
Það er hins vegar mjög ánægjulegt að geta nefnt það, að í sömu viku og ársfundurinn var haldinn, var skrifað undir nýjan þjónustusamning hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti um fjármögnun á Hæfnisetri ferðaþjónustunnar sem verður mikilvægur liður í viðspyrnunni í gegnum kófið, en verkefnið er hýst af Fræðslumiðstöð.
Framhaldsfræðslan fimmta stoð menntakerfisins
Framhaldsfræðslukerfið er fimmta grunnstoð menntakerfisins, Fræðslumiðstöðin er þróunarsetur framhaldsfræðslunnar og sér um umsýslu Fræðslusjóðs sem niðurgreiðir leiðir framhaldsfræðslunnar; námsleiðir, raunfærnimat og ráðgjöf um nám og störf.
Af einhverjum ástæðum, samkvæmt tölum OECD er hér á landi heildarfjöldi þeirra sem ekki hafa lokið námi á framhaldsskólastigi meiri en í okkar nágrannalöndum. Við stöndum nú frammi fyrir því að ná okkur upp úr heimsfaraldri og bregðast jafnframt við áskorunum fjórðu iðnbyltingarinnar.
Án þess að á nokkurn sé hallað er framhaldsfræðslan gríðarlega mikilvægt úrræði fyrir atvinnulífið, menntakerfið og samfélagið allt. Við höfum á ársfundum Fræðslumiðstöðvar fengið að heyra ánægjulegar og fjölbreyttar sögur fólks þar sem framhaldsfræðslan hefur með skýrum hætti veitt annað tækifæri til náms og í raun breytt lífi fólks. Þar höfum við svo sannarlega fengið með skýrum hætti vitnisburð um mikilvægi starfsins.
Framhaldsfræðslan getur og þarf að geta hreyft sig hraðar og aðlagast hraðar breyttum aðstæðum en hið hefðbundna skólakerfi, því þannig nær hún að sinna markhópnum og mæta um leið óskum og þörfum atvinnulífsins á almennum sem opinberum vinnumarkaði.
Virkt fjarnám og tæknikennsla
Nú í kófinu hafa símenntunarmiðstöðvarnar með fjarnámi og tæknikennslu í reynd skotið sér og nemendum sínum inn í anddyri fjórðu iðnbyltingarinnar. Það er mat margra að ekki verði aftur snúið í kennsluháttum og haldið verði áfram þróun í þessa átt í réttu hlutfalli við þarfirnar og þá möguleika sem tæknin býður upp á. Í sömu átt liggur þróun annarra mikilvægra þátta eins og upplýsingagjafar um nám og störf, náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimat og hæfniþróun með stafrænum hætti. Þá hefur vefurinn Næsta skref fengið aukið vægi í núverandi ástandi. Beðið er hins vegar eftir opinberum stuðningi enda sinnir vefurinn öllu skólakerfinu auk framhaldsfræðslunnar.
En gæti það verið að í kófinu sé líka rétt að staldra við og velta því fyrir sér hvort framhaldsfræðslan eigi í námsleiðum sínum og markaðssetningu að reyna að hafa áhrif á kynjað námsval og kynjað starfsval. Er það náttúrulögmál eða þarfir atvinnulífsins sem ráða því að konur sækist í störf sem skilgreind eru til dæmis sem umönnunarstörf en karlar frekar í nám eins og smiðjur. Getur það verið að innan framhaldsfræðslunnar þurfi að leggja aukna áherslu á það að rjúfa kynbundna múra?
Það er ekki nóg að framhaldsfræðslan eigi sér sína eigin vel mótuðu framtíðarsýn, hennar sýn verður að vera sýnileg og hluti af heildarsýn stjórnvalda í menntamálum. Framhaldsfræðslan verður líka að vera fús til þess að horfa inn á við með gagnrýnni hugsun en sömuleiðis vera reiðubúin til að hugsa út fyrir boxið og viða að sér nýrri þekkingu og vera fús til að nýta ónotuð tækifæri.
Framhaldsfræðslan vill vera í takt við tímann og þegar allt fer á fulla ferð aftur þá hefur hún til þess, hæfni, leikni og þor.
Greinin er unnin upp úr ávarpi höfundar á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins þann 26. nóvember 2020 og er birt í Gátt með góðfúslegu leyfi.