- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Heildstæð námslína í ferðaþjónustu – sú fyrsta sinnar tegundar

Í upphafi árs 2021 veitti menntamálaráðuneytið Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu (FAS) styrk til þess að skrifa heildstæða námskrá í ferðatengdum greinum í samstarfi við framhaldsfræðslu, framhaldsskóla og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar. Verkefninu skyldi lokið fyrir árslok með því að námskráin væri send til Menntamálastofnunar til staðfestingar. Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og FAS hófu þegar samstarf og hafa í góðu samstarfi lagt grunn að þremur námsleiðum í ferðaþjónustu, fyrsta hluta heildstæðrar námslínu á öllum skólastigum.

Ferðaþjónustan hefur orðið hart úti á tímum heimsfaraldursins. Því er brýnt að beita öllum ráðum við endurreisn greinarinnar. Fleiri tækifæri til  menntunar starfsfólks er eitt þeirra. Aukin hæfni starfsfólks leiðir til bættrar þjónustu, framlegðar og verðmætasköpunar.

Hæfni er grunnur að gæðum

Til grundvallar vinnunni lágu niðurstöður skýrslu Hæfnisetursins, Hæfni er grunnur að gæðum, um fyrirkomulag náms í ferðaþjónustu, sem unnin var í nánu samstarfi við hagaðila í ferðaþjónustu, stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja, fulltrúa aðila atvinnulífsins, auk stjórnenda og starfsfólks skóla og fræðsluaðila.  Í niðurstöðunum var því námi sem nú er í boði líkt við eyjar, svo virðist vera sem það hafi  þróast án heildarsýnar og án samráðs milli skólastiga og fræðsluaðila. Þar af leiðandi er erfitt fyrir einstaklinga og fyrirtæki að fá heildstæða mynd af námsframboði og tengingu náms við möguleika til starfsþróunar. Aukinheldur eru ekki skýrar tengingar milli skólastiga og óvissa um hvernig nám úr framhaldsfræðslu og framhaldsskóla er metið til frekara náms.

Ljósi varpað á þörf

Í skýrslunni er þörfinni fyrir fjölbreyttara framboð á þrepaskiptu, hagnýtu og aðgengilegu starfsnámi í ferðaþjónustu lýst. Námi sem fram færi bæði á vinnustað og í skóla.

Mynd 1 Þörf fyrir nám í ferðaþjónustu

Nýju námsleiðunum er ætlað að mæta brýnni þörf fyrir fræðslu og þjálfun til að styðja við endurreisn greinarinnar. Áður en heimsfaraldurinn reið yfir var ferðaþjónustan sú atvinnugrein sem var í mestum vexti hér á landi. Á undanförnum mánuðum hefur ferðamönnum sem sækja okkur heim fjölgað hratt sem gefur tilefni til að bregðast við. Námið veitir þeim sem það sækja möguleika á að undirbúa sig fyrir störf í vaxandi atvinnugrein og tækifær til starfsframa innan hennar.  

Helstu kostir námsins:

  1. Námið er þrepaskipt og hagnýtt með námslokum á 2. og 3. þrepi
  2. Sameiginlegur kjarni fyrir alla. Til þess að ljúka námi á 2. þrepi bætist við ein sérhæfing.  Hægt er að velja á milli þriggja sviða: Móttaka, veitingar, fjallamennska
  3. Tvinnað er saman starfsnámi og bóknámi
  4. Tækifæri til að fá reynslu metna til styttingar á námi
  5. Námið er samræmt milli fræðsluaðila/skóla en unnt að aðlaga það þörfum og svæðum
  6. Námsbrautin er fyrsta skrefið í átt að heildstæðu námi frá framhaldsfræðslu upp á háskólastig
Mynd 2 Yfirlit yfir nám á ólíkum stigum og tengingu við Íslenska hæfnirammann um menntun

Hver námsbraut er 90 einingar, 40 einingar í ákveðnum sameiginlegum kjarna og 50 eininga sérhæfing með námslokum 2. þrepi. Af því er greið leið inn í framhaldsskóla og þar er hægt að halda áfram námi sem lýkur með fagbréfi á 3. þrepi. Sérhæfing er í samræmi við þarfir ólíkra sviða ferðaþjónustu. Tillögur að sérhæfingu sem þegar liggja fyrir eru: móttaka, fjallamennska og veitingar (grunnur í matvælum og framreiðslu). Gert er ráð fyrir tveimur straumum inn í námið, annars vegar ungu fólki að velja sér starfsvettvang og hins vegar fólk sem þegar starfar í greininni. Ef starfsfólk býr yfir reynslu er hægt að staðfesta hana með raunfærnimati til styttingar náms. Mikilvægt er að fyrirtæki styðji og hvetji, starfsfólk sitt til þess að afla sér aukinnar hæfni með námi.

Námið fer fram á vinnustað og í skóla og/eða símenntunarmiðstöð. Fleiri sérhæfingar geta orðið til í samráði við hagsmunaaðila og skóla að fengnu leyfi frá Menntamálastofnun. Samhliða fer fram samtal við háskólana til þess að móta nám á efri þrepum.

Ferðaþjónusta á Íslandi

Undanfarin ár hefur ferðaþjónusta á Íslandi vaxið ört. Landið hefur öðlast sess á alþjóðavettvangi sem ævintýraland með fjölbreyttri náttúru og ósnortnum víðernum. Stjórnvöld hafa mótað skýra framtíðarsýn og stefnu fyrir ferðaþjónustu á Íslandi til 2030 með það að leiðarljósi að greinin eigi að vera leiðandi í sjálfbærri þróun og gæðum og á þann hátt stuðla að arðsemi og samkeppnishæfni.

Meginmarkmið stefnunnar er að upplifun ferðamanna á Íslandi verði í samræmi við væntingar eða betri. Allir þættir eiga að spila saman til þess að veita ferðafólki einstaka upplifun af náttúru, menningu og afþreyingu. Til þess að tryggja að upplifunin verði framúrskarandi þarf þjónustan að einkennast af gæðum, öryggi og fagmennsku. Fjárfesting í hæfni starfsfólks er grundvallaratriði í sókn ferðaþjónustunnar til þess að auka gæði, framleiðni og verðmætasköpun. 

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni og fagmennsku starfsfólks í ferðaþjónustu á Íslandi. Hæfnisetrið starfar á forsendum ferðaþjónustunnar og í samvinnu við hagaðila.

Hæfnisetrið er vistað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. sem er í eigu aðila vinnumarkaðarins. Starfsemin er tryggð til ársloka 2023 en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fjármagnar verkefnið. Sjá nánar  á hæfni.is.

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu

Hlutverk skólans er fyrst og fremst að bjóða upp á almennt bóknám en auk þess er lögð áhersla á starfsnám í samræmi við eftirspurn hverju sinni. Fjallamennskunám FAS er gott dæmi um starfsnám sem skólinn býður upp á.

Í FAS er lögð áhersla á að þjóna þörfum nemenda á persónulegan hátt með sveigjanlegu námsframboði. Fjarnám og tölvutengt nám er mikilvægur hluti náms við skólann og fer sífellt vaxandi. Markmiðið er fyrst og fremst að bæta aðgengi nemenda að eins fjölbreyttu námsframboði og kostur er og tryggja þeim sem bestan undirbúning undir frekara nám eða störf.

Haukur Harðarson

Haukur Harðarson er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins síðan 2008. Helstu verkefni hans þar tengjast raunfærnimati og greiningarvinnu. Haukur er jafnframt verkefnastjóri Hæfniseturs ferðaþjónustunnar.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi