- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Íslenska sem annað mál – rafrænt hæfnimat

SÍMEY, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar hlaut árið 2020 styrk úr Fræðslusjóði vegna nýsköpunar- og þróunarverkefna í verkefnið Íslenska sem annað mál – rafrænt hæfnimat.

Markmið:

  • Að þýða og setja upp á vefsíðu/vefsvæði fyrir mat á stöðu í íslensku sem væri tengt við evrópska tungumálarammann og stig íslenskunámskeiða samkvæmt námskrá. 
  • Að bjóða upp á rafræna, gjaldfrjálsa leið fyrir þá sem hafa annað móðurmál en íslensku til að meta stöðu sína í málinu og velja námskeið út frá því.  
  • Að stuðla að samhæfðu stöðumati í íslensku sem allar símenntunarstöðvar innan Kvasis geta notað.      

Hugmyndin að verkefninu hafði verið í mótun í nokkra mánuði áður en umsókn var send inn í sjóðinn. Ásókn í mat á stöðu í íslensku hjá SÍMEY hafði aukist, fjölgun varð á  þátttakendum á íslenskunámskeiðum og almennt meiri eftirspurn eftir ráðgjöf og handleiðslu fyrir þann fjölmenna og ólíka hóp fullorðinna sem vill eða þarf að læra íslensku. Sá hópur hefur í dag ekki opið aðgengi að tæki til að meta stöðu sína í tungumálinu og ákveða næstu skref út frá því.

Nokkuð er síðan við innan  SÍMEY vissum til þess að slíkt mælitæki væri í boði á Norðurlöndunum. Við leit á netinu fannst „Eurotest“ á vefsíðu Studieskolen í Danmörku, rafrænt mat á stöðu í mörgum tungumálum. Matið fer alfarið fram í gegnum netið, er mjög aðgengilegt fyrir notendur, og það sem skiptir lykilmáli er að matið er í samhengi við evrópska tungumálarammann sem er samræmd mælistika á hæfni fyrir öll evrópsk tungumál. Notendur hafa val um  leiðbeiningar á nokkrum tungumálum, sem dregur úr hættu á að misskilningur hafi áhrif á frammistöðu. Matið varð til á sínum tíma í samstarfi þriggja norrænna fræðsluaðila: Studieskolen, Folkuniversitet Norge og Folkuniveristet Sverge. Þessir aðilar höfðu frá gildistöku evrópska tungumálarammans unnið saman að þróun tungumálakennslu í samræmi við rammann. Eurotest er afurð þeirrar samvinnu. Studieskolen hefur nú umsjón með matinu og kerfinu sem það er sett upp í. Studieskolen er sjálfseignarstofnun sem sérhæfir sig í dönskukennslu sem og annarri tungumálakennslu.  Þegar haft var samband við stofnunina varðandi samstarf um að setja upp hæfnimat í íslensku voru viðbrögðin mjög jákvæð.

Þegar jákvætt svar kom frá Fræðslusjóði, tók við formlegt samstarf SÍMEY og Studieskolen. Gerður var samstarfssamningur þar sem hlutverk beggja aðila voru skilgreind. Í stuttu máli sá Studieskolen um allt sem sneri að kerfinu og uppsetningu á matinu og veitti SÍMEY aðgang að efni matsins til þýðingar. SÍMEY sá um að ráða þýðanda, tryggja gæði þýðingar, prufukeyra matið og taka þátt í kynningu á því hjá íslenskum símenntunarmiðstöðvum. Varðandi þýðingu lagði Studieskolen línurnar í vinnubrögðum, mikil áhersla var lögð á að þýðandi legði að minnsta kosti tvær útgáfur af matinu til grundvallar, það er á tveimur tungumálum. Einnig að kennarar sem hefðu kennt íslensku sem annað mál læsu yfir þýðingarnar. Matið var staðfært þar sem það átti við og í þeim tilvikum sem um lengri lestexta var að ræða voru nýttir góðir íslenskir textar sem til voru fyrir. Leiðbeiningar í matinu voru þýddar yfir á íslensku, nú geta notendur því valið um leiðbeiningar á íslensku hyggist þeir meta stöðu sína í einhverju af þeim 11 tungumálum sem Eurotest býður upp á.

Hvað er metið?

„Eurotest“ er veflægt og sjálfvirkt, notendur geta farið í gegnum matið þegar þeim hentar, þar sem þeim hentar. Enginn ráðgjafi eða matsaðili þarf að koma að ferlinu. Matið er tvíþætt annars vegar sjálfsmat og hins vegar próf. Alls erum metnir sex þættir, skrifað mál, málfræði og orðaforði, lestur, hlustun, talað mál og samtal. Í töluðu máli og samtalsþáttum er eingöngu um að ræða sjálfsmat. Í hverjum þætti gerir notandi fyrst sjálfsmat sem síðan er notað til að velja „þrep“ fyrir matið sjálft. Þannig eiga notendur alltaf að lenda í mati sem er sem næst þeirra getu. Notendur eru síðan sendir á milli þrepa eftir því hvernig gengur í matinu, ef viðkomandi hefur vanmetið getu sína færist hann sjálfkrafa á hærra þrep og lægra hafi hann ofmetið hana.

Um leið og notendur hafa lokið við matið birtast niðurstöður á skjánum en einnig er hægt að fá þær sendar í tölvupósti. Sjá má stöðuna í hverjum matsþætti í samhengi við evrópska tungumálarammann bæði úr sjálfsmati og prófi. Niðurstöðunum fylgja skýringar á tengingu við evrópska tungumálarammann, tengill á rammann og netfang viðkomandi fræðsluaðila vilji viðkomandi fá aðstoð við að velja námskeið við hæfi.

Dæmi um niðurstöður

Niðurstöður matsins eru jafnframt sendar á þá fræðslumiðstöð sem býður upp á matið.

Hverjum gagnast matið?

Fyrst og fremst er matið mikilvægt tæki fyrir einstaklinga með annað móðurmál en íslensku sem vilja læra málið eða kanna stöðu sína í því. Matið veitir upplýsingar um veika og sterka þætti í tungumálinu og er leiðbeinandi varðandi val á námskeiðum. Ef væntingar um innleiðingu og nýtingu á matinu rætast mun það einnig leiða til eflingar í kennslu íslensku sem annars máls. Námshópar ættu að verða jafnari og þá skapast aðstæður fyrir enn markvissari kennslu. Matið er líka verðmætt verkfæri í ráðgjöf og stuðningi við innflytjendur. Þá gætu skapast tækifæri til að greina þætti í íslenskukennslu sem þarf að efla í námskeiðaframboði og kennslu.

Matið getur í raun hentað við ýmsar aðstæður þar sem meta þarf tungumálafærni.

Hvað er matið ekki?

Þar sem matið fer fram á netinu er það fyrst og fremst ætlað til leiðbeiningar fyrir þann sem tekur það. Ekki er hægt að tryggja að einstaklingur taki það einn og hjálparlaust eða í raun að sá sem taki það sé sá sem er skráður fyrir því. Það getur því ekki eitt og sér gilt sem „aðgangsmiði“ að einhverju ákveðnu, til dæmis inn í skóla. Niðurstaðan er ekki formlegt skírteini eða vottorð.

Næstu skref

Íslenskumatið er tilbúið og uppsett í Eurotest kerfinu. Það hefur verið í prufukeyrslu hjá SÍMEY frá því í febrúar og virkar vel. Aðilar að verkefninu hafa ákveðið að bíða til haustsins með að bjóða upp á aðgengi að prófinu. Tilgangurinn er tvíþættur annars vegar að hafa það aðeins lengur í tilraunakeyrslu og hins vegar að gefa símenntunarmiðstöðvum tækifæri til að kynna sér matið. Símenntunarmiðstöðvar og aðrir fræðsluaðilar sem sjá sér hag í að nýta matið semja við Studieskolen um uppsetningu á matinu. Sett verður upp sérsvæði fyrir hvern aðila, sem getur þá valið um að taka bara íslenskumatið eða bæta við mati í fleiri tungumálum. Sá valkostur gæti til dæmis hentað fræðsluaðilum sem bjóða upp á námskeið í mörgum tungumálum. Fræðsluaðilar greiða gjald fyrir uppsetningu og notkun á matinu, en það er mjög hóflegt og gjaldskráin miðar við fjölda notenda. Ýmsar frekari upplýsingar um nýtingarmöguleika, uppsetningu og kostnað má nálgast á síðunni www.eurotest.me.

Nú þegar hafa verið haldnir tveir kynningarfundir til að kynna íslenskumatið, annar með starfsmönnum símenntunarmiðstöðva innan Kvasis og hinn með starfsfólki Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Stine Lema verkefnastjóri í þróun hjá Studieskolen og tengiliður í samstarfsverkefni Studieskolen og SÍMEY tók þátt í fyrri fundinum. Hún ræddi meðal annars um uppbyggingu á gjaldtöku fyrir notkun á matinu, innleiðingu og aðkomu Studieskolen sem er tilbúinn að koma að frekari innleiðingu á matinu hér á landi með fræðslu og ráðgjöf. Á fundinum kom fram mikill áhugi á sameiginlegri fræðslu og vinnufundum í innleiðingarferlinu. Einnig kom skýrt fram að þeir verkefnastjórar sem halda utan um íslenskukennslu hjá símenntunarstöðvunum vilja gjarnan sjá þróun í uppbyggingu námskeiða og bætta tengingu við evrópska tungumálarammann. Því var ákveðið að sækja um framhaldsstyrk til Fræðslusjóðs til þessara tveggja þátta. Það er skemmst frá því að segja að sá styrkur fékkst, framundan er því áframhaldandi  vinna  Studieskolen og samstarf við símenntunarstöðvar innan Kvasis sem hefst á haustdögum 2021.

Sif Jóhannesdóttir

Sif Jóhannesdóttir er þjóðfræðingur með kennsluréttindi á grunn- og framhaldsskólastigi. Hún hefur fjölbreytta reynslu af verkefnastjórnun og þátttöku í samstarfsverkefnum, m.a. á sviði menningar og atvinnuþróunar. Sif er verkefnastjóri hjá SÍMEY, en þar er hún meðal annars hluti af teymi sem heldur utan um kennslu íslensku sem annars mál.

Kristín Björk Gunnarsdóttir

Kristín Björk Gunnarsdóttir er verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY og starfar sem landvörður á sumrin. Hún er garðyrkjufræðingur, með kennaramenntun frá KHÍ og er í framhaldsnámi í hnattrænum fræðum frá HÍ. Kristín Björk hefur starfað að málefnum innflytjenda um árabil, kennt, útbúið og gefið út námsefni í íslensku sem öðru máli auk þátttöku í erlendum samstarfsverkefnum er snúa að fjölmenningu.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi