- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Kynbundið nám í framhaldsfræðslunni

Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynjaskiptur sem birtist helst í því að konur eru áberandi í umönnunarstörfum en karlar í iðn- og framkvæmdastörfum. Af þeim 31.487 einstaklingum sem sóttu námsleiðir samkvæmt námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins á árabilinu 2005-2017 voru konur 69% og karlar 31%. Konur voru í miklum meirihluta í námi sem snýr að umönnun sem er í samræmi við kynjaskiptingu á vinnumarkaði. Alls fór 4.431 einstaklingur í raunfærnimat á árabilinu 2007-2017 og þá var einnig mikið ójafnvægi í kynjaskiptingunni en kynjahlutföllin hins vegar þveröfug. Þannig voru karlar 69% þeirra sem nýttu sér raunfærnimat en konur 31%. Raunfærnimatið hefur best nýst fyrir námskrár löggiltar iðngreina og hinn kynjaskipta vinnumarkað. Í ljósi þessara niðurstaðna væri verðugt viðfangsefni framhaldsfræðslunnar að leita nýrra leiða til að breyta því kynjakerfi í menntun sem hefur viðhaldið sjálfu sér. Þannig yrði spornað við neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla og stuðlað að þróun í samræmi við það sem jafnréttislög kveða á um.

Lög um framhaldsfræðslu (27/2010) og jafnréttislög (10/2008) tala vel saman og væri hægt að beita þeim til að bæta stöðu kvenna og auka möguleika þeirra varðandi menntun og starfsval. Ákvæði jafnréttislaga um kynjasamþættingu væri til að mynda mjög mikilvægt tæki fyrir framhaldsfræðsluna ef hún væri reiðubúin að setja af stað tilraunaverkefni.

Framhaldsfræðsla

Undirbúningur við að formfesta umgjörð framhaldsfræðslu á Íslandi stóð í nokkurn tíma en þessi nýi hluti menntakerfisins varð til við setningu laga um framhaldsfræðslu sem tóku gildi 1. október 2010 (nr. 27/2010). Samhliða voru numin úr gildi lög um starfsmenntun í atvinnulífinu (nr. 19/1992). Markmið framhaldsfræðslulaganna er að skapa fólki með stutta formlega menntun aukin tækifæri til að afla sér formlegra starfsréttinda prófgráðu. Að einstaklingar á vinnumarkaði geti aukið starfshæfni sína og með því skapað sér svigrúm og úrræði til að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir aukna þekkingu og hæfni einstaklingsins. Markmið laganna er einnig að bjóða þeim sem búa við skerta möguleika til náms fræðslu sem tekur mið af ójafnri stöðu. Jafnframt að nám sem fellur utan formlega skólakerfisins verði metið að verðleikum, hækki menntunarstig í landinu og efli íslenskt menntakerfi (lög um framhaldsfræðslu nr. 27/2010). Til að ná markmiði laganna gerði mennta- og menningarmálaráðuneytið, (MRM) þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) (e.d.-a) sem stofnuð var árið 2002 af aðilum almenna vinnumarkaðarins. Meðal annars kemur fram í þjónustusamningnum að FA semji námskrár og lýsingar á námsleiðum (Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, e.d.-c). í samstarfi við fræðsluaðila og atvinnulífið. Einnig var gert ráð fyrir raunfærnimati (Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, e.d.-e).  sem verkfæri til að byggja brú milli formlegs náms og óformlegs og reynslu fólks og bjóða einstaklingsbundna náms- og starfsráðgjöf (Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, e.d.-a; mennta- og menningarmálaráðuneytið og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, 2015; lög um framhaldsfræðslu nr. 27/2010).

Markhópur laganna dreifist á vinnumarkaðinn í heild, bæði almenna og opinbera geira. Árið 2009 gerðist BSRB, sem eru heildarsamtök stéttarfélaga starfsmanna í almannaþjónustu, aðili að FA ásamt ríkinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem vinnuveitendum. Þar með voru allir aðilar vinnumarkaðarins, bæði hinn opinberi og almenni, komnir saman við eitt borð (Halldór Grönvold, 2009). Símenntunarmiðstöðvar eru þeir fræðsluaðilar sem FA gerir samning við um framkvæmd úrræða, námsleiða, ráðgjafar og raunfærnimat, en þær eru sjálfstæðir lögaðilar sem veita framhaldsfræðslu og hafa hlotið viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga (nr. 27/2010).

Kynjaskiptur vinnumarkaður

Helsti þröskuldur í samfélagsgerð okkar hvað jafnréttisbaráttu varðar er kynjamisrétti og rótgrónar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika. Íslenskur vinnumarkaður er afar kynjaskiptur sem best sést á því að konur eru meirihluti starfsmanna í umönnun en mikill meirihluti karla starfar við mannvirkjagerð (Hagstofan, 2018a). Þá hefur kynjaskiptur (e. gender segregation) vinnumarkaður áhrif á sjálfsmynd ungs fólks á þann hátt að takmarka möguleika þess á að velja sér starfsvettvang (þingskjal nr. 701/2015- 2016). Mynd 1 sýnir kynjaskiptingu helstu starfsgreina vinnumarkaðarins (Hagstofan, 2018d). Hana þarf að hafa í huga þegar framboð námsleiða í framhaldsfræðslunni er skoðað en í niðurstöðum rannsóknarinnar er fjallað um hvernig námsleiðir skiptast og hvernig raunfærnimat breytist eftir atvinnugreinum.

Mynd 1. Kynjahlutfall í atvinnugreinum árið 2017 (Hagstofan, 2018b)

Núgildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, oftast nefnd jafnréttislög, kveða á um að allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika óháð kyni. Þannig skuli jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Þar er ekki eingöngu átt við launamun kynjanna heldur einnig að jafna áhrif, bæta stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu. Síðast en ekki síst að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla. Lagaramminn er skýr og þarfnast ekki athugunar en hann dugar heldur skammt ef lögum er ekki fylgt eftir (Katrín Ólafsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir, 2015). Konur hafa einnig átt erfiðara með að fá stjórnunar- og ábyrgðarstörf, sérstaklega eftir því sem fyrirtækin hafa stækkað. Þetta er áberandi í fyrirtækjum með 250 starfsmenn og fleiri (Hagstofan, 2018a). Stefna stjórnvalda kemur skýrt fram í jafnréttislögunum. Í þeim er að finna fullyrðingu um að staða kynjanna sé ólík og ójöfn og við því þurfi að bregðast. Það megi gera með því að beita kynjasamþættingu, samanber 17. gr. laganna, og skuli hún notuð við alla stefnumótum og áætlanagerð á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana og almennt við ákvarðanatöku. Við kynjasamþættingu eru með spurningum og ákveðinni aðferðafræði skoðuð tengsl þriggja þátta sem mynda þríhyrning (sjá mynd 2). Bæði stjórnvöld og atvinnulíf geta nýtt samþættingu í sína þágu (Jafnréttisstofa, 2009).

Mynd 2. Kynjasamþætting (Jafnréttisstofa, 2009)

Kynlæg menntasaga

Af sögu menntunar á Íslandi má ráða hversu ójöfn staða kynjanna hefur í reynd verið. Heimildir um Reykjavíkur lærða skólann eru meðal þeirra elstu um skólastarf hér á landi en skólinn fékk það nafn árið 1846 (Menntaskólinn í Reykjavík, e.d). Menntun kvenna þótti ekki sjálfsögð og þurfti lagabreytingu árið 1886 til að stúlkum leyfðist að þreyta próf frá Lærða skólanum sem fram að því hafði eingöngu þjónað drengjum í námi (Bragi Guðmundsson og Gunnar Karlsson, 1997). Ísland var undir danskri krúnu á þessum tíma og var því margt að danskri fyrirmynd hér á landi. Í Danmörku var á hinn bóginn aðgengi allra að barnaskólum, eða grunnskólum eins og sagt er í dag, í fyrsta sinn tryggt með lögum sem sett voru þann 29. júlí árið 1814. Síðar var kvennaráð stofnað í Danmörku sem hafði það hlutverk að vinna að réttindum kvenna vegna félagslegrar, faglegrar og efnahagslegrar hagsmunagæslu (Århus Universitet, e.d.).

Þegar Háskóli Íslands, HÍ, var stofnaður árið 1911 innritaðist Kristín Ólafsdóttir fyrst kvenna og útskrifaðist hún sem læknir árið 1917 (Háskóli Íslands, e.d.). Á stofnári HÍ setti Alþingi einnig lög (nr. 37/1911) sem kváðu á um rétt kvenna til að stunda nám í öllum menntastofnunum landsins og jafnframt að þær skyldu eiga möguleika á 22 námsstyrkjum til jafns við karla (Bragi Guðmundsson og Gunnar Karlsson, 1997; lög nr. 37/1911 um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta).

Í upphafi 19. aldar snerust flestar iðngreinar um heimilisuppbyggingu með einhverjum hætti, t.d. smíðar. Fyrstu lög um iðnnám voru sett árið 1893 (Guðmundur Blöndal, e.d.; lög um iðnaðarnám nr. 15/1893) og árið 1903 var gefin út reglugerð um próf iðnnema og umsjón með því nr. 128/1903. Frá endurgerð og setningu laganna (lög um iðju og iðnað nr. 11/1927; lög um iðnaðarnám nr. 18/1927) hefur upptalning iðngreina verið í reglugerð. Dæmi um iðngreinar voru skipasmíðar, húsasmíði, járnsmíði og prentiðn. Ekki er leyfilegt að starfa í iðnaði nema með leyfi frá stjórnvöldum (lög um iðju og iðnað nr. 11/1927) og var það upphafið að þeim réttindum og skyldum iðnaðarmanna sem tryggð hafa verið allt til dagsins í dag (Elín Blöndal, 2012).

Mynd 3. Hlutfall starfsmanna á vinnumarkaði eftir menntunarstigi árin 2003 og 2017 (Hagstofran, 2018d)

Aðferð

Aflað var gagna hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og óskað upplýsinga um þátttöku karla og kvenna í námi samkvæmt hverri námskrá fyrir sig. Þátttakendur voru þeir einstaklingar sem skráðir hafa verið á námskeið og hafa lokið þeim hjá fræðsluaðilum/símenntunarmiðstöðvum um allt land á tímabilinu 2005-2017. Námsleiðir samkvæmt vottuðum námskrám eru 55 sem 31.489 einstaklingar sóttu. Sami einstaklingur getur hafa valið fleiri en eina námsleið og þá telst hann oftar en einu sinni. Einnig eru taldir þeir þátttakendur sem fóru í raunfærnimat á tímabilinu 2007-2017. Alls var raunfærni metin á móti 59 námsleiðum og voru þátttakendur þar alls 4.431 einstaklingur.

Byrjað var á að flokka námskrárnar út frá því hvort þær væru almennar eða starfstengdar. Fyrst voru almennar námskrár teknar saman í einn flokk. Starfstengdu hóparnir voru settir saman í þrjá flokka. Fyrst er hópur þeirra sem starfa á opinberum vinnumarkaði, oft nefnd almannaþjónusta, í einni töflu. Næsti hópur voru námsleiðir fyrir starfsmenn á almenna vinnumarkaðnum og þriðji hópurinn í námsleiðum er í nokkrum töflum. Þar er um að ræða almennar námsleiðir sem hver sem er gat setið, hvort heldur viðkomandi var starfsmaður í almannaþjónustu eða á almennum vinnumarkaði. Talinn var fjöldi einstaklinga í hverri námsleið og síðan reiknað hlutfall af heild.

Sama aðferð var notuð við að telja einstaklinga og reikna hlutfall af heild fyrir þátttakendur í raunfærnimati. Þar voru einnig þrír hópar og fyrst voru settar saman í eina töflu þær stéttir sem tilheyra starfsgreinaráðum vegna starfsnáms fyrir almannaþjónustu. Annar stór hópur í einni töflu eru iðngreinar sem tilheyra starfsgreinaráðum hvers iðngreinahóps fyrir sig. Í þriðja hópnum eru þeir sem fóru í raunfærnimat í námsleiðum fyrir störf sem tilheyra sértækum starfsgreinaráðum ásamt þeim sem teljast til ýmissa starfahópa sem fengu raunfærnimat á móti vottaðri námsleið framhaldsfræðslunnar. Talinn var fjöldi einstaklinga í hverri námsleið og reiknað hlutfall af heild.

 AllirKonur  Karlar
 Fjöldi% Fjöldi%Fjöldi
Almennar námskrár (8.683)61,0(5.297)39,0(3.386)
Að lesa og skrifa á íslensku(56)54,0(30)46,0(26)
Aftur í nám(1.107)53,4(592)46,6(515)
Grunnmenntaskóli(2.581)67,0(1723)33,0(858)
Menntastoðir(2.077)64,0(1329)36,0(758)
MFA – skólinn(18)44,0(8)56,0(10)
Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum(1.651)57,0(945)43,0(706)
Námsleið II(15)33,0(5)67,0(10)
Skref til sjálfshjálpar(412)67,0(276)33,0(136)
Sterkari starfsmaður(686)50,0(344)50,0(342)
Stökkpallur(80)56,3(45)43,7(35)
Tafla 1. Fjöldi og hlutfall þátttakenda eftir kyni í námi samkvæmt almennum námskrám
Mynd4. Hlutfall þátttakenda eftir kyni í námsleiðum starfa eftir vinnumörkuðum

Mynd 4 sýnir þrjá hópa sem paraðir hafa verið saman úr þátttakendahópum námskráa, þ.e. opinber vinnumarkaður, almennur vinnumarkaður og námskrár fyrir blönduð störf, óháð vinnumarkaði. Hægt er með nokkurri vissu að fullyrða að starfsmenntun framhaldsfræðslunnar endurspegli starfahópa á vinnumarkaði.

Raunfærnimat

Mynd 5. Hlutfall þátttaenda eftir kyni í raunfærnimati iðngreina

Mynd 5 sýnir samanburð allra hópa innan starfsgreinaráða iðngreina. Raunfærnimat í bílgreinum, hárgreiðslu, húsasmíði, matreiðslu, málaraiðn og rafvirkjun hófst árið 2007. Þessi samantekt svarar síðari hluta rannsóknarspurningarinnar þar sem kynjahalli endurspeglar bæði kynjamisræmi á vinnumarkaði og í starfsnámi í framhaldsskóla þar sem karlar eru í yfirgnæfandi meirihluta eða 93%.

Mynd 6. Hlutfall Þátttakenda eftir kyni í raunfærnimati starfa eftir vinnumörkuðum

Eins og sjá má á mynd 6 hafa verið flokkaðar saman þeir sem fóru í raunfærnimat á móti námskrá starfa í almannaþjónustu, t.d. leikskólaliðar, félagsliðar og stuðningsfulltrúar. Næsti flokkur sýnir raunfærnimat á móti námskrám starfa iðngreina á almenna vinnumarkaðnum og eru þátttakendur nær eingöngu karlar. Þriðji flokkurinn sýnir raunfærnimat blandaðra starfa, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, t.d. skrifstofufólk, matartæknar og önnur störf.

Eins og sjá má á mynd 6 hafa verið flokkaðar saman þeir sem fóru í raunfærnimat á móti námskrá starfa í almannaþjónustu, t.d. leikskólaliðar, félagsliðar og stuðningsfulltrúar. Næsti flokkur sýnir raunfærnimat á móti námskrám starfa iðngreina á almenna vinnumarkaðnum og eru þátttakendur nær eingöngu karlar. Þriðji flokkurinn sýnir raunfærnimat blandaðra starfa, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, t.d. skrifstofufólk, matartæknar og önnur störf.

Mynd 7. Hlutföll þátttakenda eftir kyni í námskrám og raunfærnimati

Starfsmenntun fyrr og nú

Á fyrri tíð sóttu konur kvennaskóla, sem nú hafa verið aflagðir, en karlar sóttu fremur í löggilt nám í iðnskólunum. Sú staðreynd vekur þá spurningu hvort sú menningararfleifð sé enn þann dag í dag áhrifavaldur þegar kemur að menntun kvenna og stöðu þeirra í atvinnulífinu. Arfleifð fyrri tíma virðist einkenna menntunaraðgengi kvenna þar sem boðið er upp á stutt starfsmenntanámskeið, 60-324 klukkustunda. Einnig er starfsnám á framhaldsskólastigi iðulega svo stutt að það skilar ekki lögvernduðum réttindum til viðkomandi starfs. Þetta minnir óneitanlega á gamla kvennaskólaformið sem var yfirleitt tveggja anna nám sem ekki gaf formleg starfsréttindi. Markmið þess var að styrkja konur til heimilisstarfa (Þorgerður Einarsdóttir og Berglind Rós Magnúsdóttir, 2005) en í dag er starfsnámið í flestum tilfellum að styrkja þær til starfa við umönnun í almannaþjónustu. Karlar velja líkt og áður fyrr að fara frekar í iðnskóla og ljúka námi til lögverndaðra hefðbundinna karlastarfa sem hafa notið meiri virðingar og eru yfirleitt betur launuð (Þorgerður Einarsdóttir og Berglind Rós Magnúsdóttir, 2005).

Starfsmenntun er yfirhugtak starfs- og vinnustaðanáms (mennta- og menningarmálaráðuneyti, 2014a). Löggildar iðngreinar á Íslandi eru alls 60 talsins samkvæmt reglugerð nr. 940/1999, en eru ekki allar í boði í framhaldsskólum landsins eins og staðan er nú. Ekki er að undra að karlar séu mikill meirihluti þeirra sem í raunfærnimat hafa farið þar sem matið er skipulagt með hliðsjón af námskrám framhaldsskólanna, fyrir nám í boði. Það þurfti því ekki langan aðdraganda til að hefja raunfærnimat iðngreina en þær fengu fyrst lögverndun á starfi og starfsheitum með lagasetningu árið 1927 (lög um iðnaðarnám nr. 18/1927).

Yngra starfsnám sem ekki telst til löggildra iðngreina, svo sem starfsnám í hefðbundnum kvennastörfum í almannaþjónustu sem fram fer í framhaldsskólum, nýtur ekki slíkrar lögverndunar. Þess skal þó getið að á haustdögum 2020 var ákveðið að félagsliðanám fari af öðru hæfniþrepi og á það þriðja sem þýðir í raun útskrift með lokapróf á framhaldsskólastigi.

Framhaldsfræðslulögunum sem sett voru árið 2010 var ætlað að efla menntakerfið, hækka menntunarstig í landinu og mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu. Ekki er talað um konur og karla í lögunum um framhaldsfræðslu nr. 27/2010, aðeins um einstaklinga.

Lokaorð

Megin niðurstöður rannsóknarinnar sýna verulegan kynjamun á þeim hópum fólks sem sækja sér nám samkvæmt námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og þeim sem fara í nám eftir að hafa fengið raunfærni sína metna. Konur eru í miklum meirihluta í óformlegu starfsnámi en karlar fara frekar í raunfærnimat sem opnar þeim greiða leið í formlegt iðnnám. Lög um framhaldsfræðslu (27/2010) og jafnréttislög (10/2008) tala vel saman og það er hægt að beita þeim til að bæta stöðu kvenna og auka möguleika þeirra varðandi menntun og starfsval. Ákvæði jafnréttislaga um kynjasamþættingu væri til að mynda mjög mikilvægt tæki fyrir framhaldsfræðsluna ef hún væri reiðubúin að setja af stað tilraunaverkefni. Með því gæti hún stuðlað að jafnrétti kynjanna, leitað nýrra leiða til að breyta hinum kerfislægu og hefðbundnu kynjaímyndum og unnið um leið gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla í samræmi við það sem jafnréttislög kveða á um. 

Framhaldsskólakerfið þarf nauðsynlega að endurskrifa námskrár félagsliða, stuðningsfulltrúa og leikskólaliða með það að leiðarljósi að gera nám þessara stétta jafnsett námi sjúkraliða og löggildra iðngreina. Eigindleg rannsókn Guðrúnar Helgu Ágústsdóttur, (2018) á stöðu félagsliða lýsir vel óánægju þeirra með stöðu sína á vinnumarkaði eftir nám og að starf þeirra hafi ekki fengið löggildingu. Eigindleg rannsókn Auðar Jónsdóttur, (2012) á reynslu og upplifun þeirra sem lokið hafa leikskólaliðanámi sýnir að það olli þeim hópi miklum vonbrigðum að námið var lítið sem ekkert viðurkennt sem fagnám. Helstu niðurstöður megindlegrar rannsóknar Elísu Óskar Línadóttur, (2018) á störfum stuðningsfulltrúa í grunnskólum gáfu til kynna að ekki væri samræmi milli þess sem stuðningsfulltrúar sögðu sjálfir um störf sín og þess sem aðrir sem spurðir voru sögðu, þ.e. kennarar og stjórnendur skólanna. Þetta eru afar merkilegar niðurstöður við upplifum þeirra sem ljúka námi á öðru hæfniþrepi. Á haustmánuðum árið 2019 var staðfest að færa nám félagsliða á þriðja hæfniþrep og hefur fengið umræður í samráðsgátt stjórnvalda.

Það er einlæg von rannsakanda að niðurstöður rannsóknarinnar geti nýst framhaldsfræðsluaðilum og menntamálayfirvöldum sem og aðilum vinnumarkaðarins til þess huga að nýjum leiðum til að tryggja aðgengi allra að menntun óháð kyni. Það tekur miklu meira en heila mannsævi að breyta viðhorfum en þó er hægt að flýta þróuninni með sérstökum aðgerðum eins og mörg dæmi sýna. Þá þekkingu sem við höfum á kynjaímyndum og rótgróinni kynjamenningu þarf að nýta til að (raunverulegur) jöfnuður náist í aðgengi kynjanna að mismunandi leiðum í menntunar og starfsgreinum. Þannig væri einnig stigið skref í átt að langþráðu launajafnrétti.

Skrá yfir heimildir er birt í PDF skjalinu sem nálgast má efst á síðunni. Hægt er að nálgast verkefnið í heild sinni hér

Arna Jakobína Björnsdóttir

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu. Greinin byggir á MA ritgerð hennar í náms- og starfsráðgjöf vorið 2019, „Kynbundið nám í framhaldsfræðslunni – starfsmenntun fyrr og nú“.
Jakobína hefur verið formaður Kjalar stéttarfélags síðan árið 1992 og gegnt trúnaðarstörfum fyrir félagið og er annar varaformaður BSRB.Jakobína lauk námi í náms- í starfsráðgjöf eftir að hafa lokið BA í sálfræði en starfaði áður sem sjúkraliði og samhliða formannsstarfi til að byrja með.Hún er stjórnarformaður Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar, situr í stjórn Fræðslusetursins Starfsmennt og var í stjórn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins eitt tímabil.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi