- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Lýðskólinn á Flateyri, ný leið fyrir fullorðna

Hugmyndin að lýðskóla kviknaði fyrir nokkrum árum. Umræður höfðu verið í nokkrum sveitarfélögum á Vestfjörðum um að það þyrfti annað og meira en fiskveiðar til að efla sjálfbærni samfélags á Vestfjörðum. Gera þau að sveitarfélögum sem ungt fólk sæktist eftir að búa í, eignast fjölskyldu, leggja sitt af mörkum við að auka fjölbreytileika atvinnulífsins og taka virkan þátt í þróun samfélagsins.  

Eldhugar og listamenn

Árið 2017 kviknaði hugmyndin um lýðskóla meðal „sumarfuglanna“ sem vildu eiga hlutdeild í að þróa smábæinn Flateyri. Til sumarfuglanna telst hópur fólks sem tengist bæjarfélaginu, eiga hús eða hlut í húsi í bænum. Í hópnum er listafólk, tónlistarmenn, kvikmyndagerðarmenn og eldhugar. Einhver þeirra höfðu komið að stofnun skóla áður, önnur veittu innblástur og hvöttu til dáða.  

Í samtali við Ingibjörgu Guðmundsdóttur nú í vor, þáverandi skólastjóra, kom fram að hópurinn taldi um 30 einstaklinga, sumarfugla og íbúa sem þátt tóku í undirbúningnum. Fólk sem vildi efla bæjarfélagið, byggja á því sem er fyrir hendi, bæði mannauð og umhverfinu. Kjarni hópsins tekur enn virkan þátt í þróun skólans, sitja í stjórn hans og/eða kenna. Skólinn var stofnaður og fyrsti árgangur nemenda hóf nám haustið 2018.

„Ég tók við starfi skólastjóra ári síðar. Hafði verið kennslustjóri Háskólans í Reykjavík. Það var þörf fyrir einstakling eins og mig til þess að halda áfram, einhver með reynslu af ólíkum skólastigum og stjórnsýslunni. Einhvern sem þekkir kerfið,“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir.

Löng og rík hefð fyrir námi við lýðskóla erlendis

„Löng hefð er fyrir því að ungt fólk á Íslandi sæki sér menntun í lýðskólum. Bara ekki hér heima. Það leitar til annarra Norðurlanda þar sem afar fjölbreytt nám er til boða í ótal skólum. Það er ekki fyrr en á síðasta áratug sem tækifæri hefur gefist til þess að sækja slíkt nám hérlendis,“ segir Ingibjörg skólastjóri.   

Hefði ekki verið hægt án fjárhagsstuðnings

„Íbúarnir á Flateyri eru þakklátir fyrir framtakið, styðja við starfsemina og aðstoða á ýmsan hátt.“ Ingibjörg bætir við: „Það er ekki fordæmi fyrir því að íbúar annarra bæja á Íslandi taki nemendum fagnandi, bjóði þeim heim og á ýmsa viðburði. Þá er vert að nefna að fjöldi sveitarfélaga, stofnanir, sjóðir, félög og einstaklingar hafa veitt stuðning við stofnun og rekstur Lýðskólans með rausnarlegum fjárframlögum. Fyrir það erum við sérstaklega þakklát, því án þess hefði skólinn aldrei orðið til.“

Ingibjörg Guðmundsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir við undirritun samnings um rekstur skólans

Lög og vottun

Í júní 2019 samþykkti Alþingi, lög um lýðskóla. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur stutt hugmyndina og fylgt henni eftir. Meginmarkmið laganna var að skapa grundvöll fyrir rekstri lýðskóla á Íslandi, vottun þeirra og fjármögnun. Þá er jafnframt áréttað að lýðskólar á Íslandi eigi að starfa í samræmi við lýðskóla í öðrum löndum:

„Lýðskólar skulu leggja áherslu á að veita víðtæka almenna menntun þar sem nemandinn er í fyrirrúmi í skólasamfélaginu og fær stuðning frá kennurum og samnemendum. Námið skal stuðla að umburðarlyndi nemenda og miða að því að gefa þeim tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og styrkleika og auka skilning á sögu, menningu, virðingu fyrir lífsgildum annarra og innviðum lýðræðislegs samfélags.“

Í kjölfar lagasetningarinnar hafa bæði Lýðskólinn á Flateyri og LungA á Seyðisfirði hlotið vottun og nú er í undirbúningi þjónustusamningur skólans við menntamálaráðuneytið.

„Við erum í samstarfi við hinn lýðskólann á Íslandi LungA á Seyðisfirði um að stofna félag til þess að taka þátt í norrænu samstarfi lýðskóla. Það verður áhugavert“

Nemendur hafa fjölbreyttan bakgrunn

Eftirspurn eftir plássi við Lýðskólann á Flateyri hefur verið mikil, eiginlega umfram væntingar. Hvort rekja má hana til stórbrotinnar náttúru, hárra fjalla, fjarðarins og fjörunnar, umhverfis sem hvetur til útiveru eða mannauðsins, listamanna og hönnuða er óvíst. Ef til vill sækir listafólk innblástur til náttúrunnar og náttúruelskendur langar til að kynnast listinni betur. En Ingibjörg staðfestir að eftir þrjú starfsár hafa um níutíu nemendur lokið námi. Umsóknir þetta skólaár voru fleiri en síðasta ár. Bakgrunnur nemenda er afar ólíkur hvað varðar menntun og reynslu en flestir eru á bilinu 18 til 30 ára.

 „Þau eru hvaðanæva af landinu og mörg segja að það hafi verið óskin um að hitta jafningja og koma sér upp neti hér heima sem varð til þess að þau sóttu um nám hér“, segir  Ingibjörg.

Námið

Markmið þeirra sem áttu frumkvæði að stofnun skólans var að skapa nýjan valkost innan íslenska skólakerfisins. Valkost sem tilheyrði ekki hefðbundna kerfinu og því yrði að meta virði námsins og kennslunnar á annan hátt en jafnan er gert í öðrum skólum. Í lýsingu á náminu við skólann stendur að Lýðskólinn á Flateyri sé samfélag nemenda og kennara sem veiti fólki tækifæri til þess að þroskast og mennta sig í samstarfi við íbúa á Flateyri. Einkunnarorð skólans eru: Frelsi, þekking og þroski. Boðið eru upp á tvær námsleiðir:

  • Hafið, fjöllin og þú, fyrir þá sem dreymir um að upplifa náttúruna. Kynnast henni og ferðast um hana, nýta hana og kanna á  öruggan hátt.
  • Hugmyndir, heimurinn og þú, fyrir þá sem vilja þroskast og þróa sig áfram sem skapandi einstaklinga. Læra um skapandi ferli, stuttmyndir, grafík, hljóðin í náttúrunni, spuna og hverskonar miðlun.

Komið hefur í ljós að margir nemendur halda áfram námi eftir veruna í Lýðskólanum. Í tónlist, hönnun og kvikmyndun. Aðrir stunda nám í ævintýraleiðsögn eða til að verða leiðsögumenn.

Skapandi fólk verður um kyrrt

 „Það er sérstaklega áhugavert að væntingum okkar hefur að hluta til verið mætt. Stór hluti nemenda býr hér áfram eða flytur aftur á Flateyri að námi loknu. Þau stofna fjölskyldu, kaupa hús og skapa ný störf. Það hefur veigamikil áhrif á samfélagið.“

„Samfélagið stækkar en meðalaldurinn lækkar. Börnum í leikskóla og skóla fjölgar. Af árganginum sem útskrifaðist í vor ákvað þriðjungur að vera um kyrrt. Hér er afar sérstakt samfélag, íbúarnir skapandi og afar velviljaðir. Það er ekki aðeins stór hópur skapandi fólks sem býr á Flateyri. Fólk sem býr yfir mikilli seiglu sem var svo augljós þegar snjóflóðin féllu hér í janúar í fyrra. Ég hafði enga reynslu af náttúruhamförum. Íbúarnir hjálpuðu okkur, tóku nemendur og starfsfólkið að sér. Þeir búa yfir mikilli reynslu á því sviði“, segir Ingibjörg Guðmundsdóttir.

Hvað finnst fyrrverandi nemendum sem starfa og búa á Flateyri?

Margeir Haraldsson er frá Ísafirði. Hann útskrifaðist með fyrsta árgangi nemenda skólans og er einn þeirra sem hefur flutt aftur til baka til Flateyrar. Hann hafði sótt fleiri framhaldsskóla og ólíkar námsbrautir án þess að ljúka neinu. Hann hafði ekki leitt hugann að lýðskóla áður en hann sótti um skólavist á Flateyri eftir að hafa séð auglýsingu frá Lýðskólanum.  

„Ég vissi eiginlega ekki alveg hvað ég var að kasta mér út í. Ég hafði áhuga á að gera kvikmyndir og hafði hugleitt að sækja um nám í kvikmyndaskóla bæði hér og erlendis. En þar er alltaf gerð krafa um stúdentspróf. Ég valdi námsleiðina, Hugmyndir, heimurinn og þú, vegna þess að ég hef allt frá ungaaldri klippt vídeó. Ákvað að læra meira um kvikmyndun, en þegar ég komst inn í skólann kviknaði áhugi minn á mörgu öðru en kvikmyndaframleiðslu. Ég lærði að maður getur gert það sem maður vill, ef maður leggur sig allan fram kemur innblásturinn,“ staðfestir Margeir.

Honum er greinilega margt til lista lagt. Í viðtalinu kemur fram að hann er að undirbúa listahátíð á Flateyri auk þess að reka eigið fyrirtæki.

Margeir Haraldsson ásamt Steinunni Ásu Sigurðardóttur unnustu sinni.

„Ég flutti tilbaka með kærustunni minni af því að okkur finnst gott að búa á Flateyri. Við höfum meiri tíma þar vegna þess að við þurfum ekki alltaf að vera að keyra fram og tilbaka. Tíma sem við getum nýtt í annað. Og lífið á Flateyri hefur breyst eftir að Lýðskólinn tók til starfa. Munurinn er greinilegur. Þriðjungur nemenda kýs að vera um kyrrt eða flytja hingað aftur. Það besta sem ég tók með mér úr skólanum var kærastan, við eigum von á barni í október. Meðalaldur íbúa hefur lækkað verulega, árgangurinn 2021 nær nýju meti hér í bænum. Ný fyrirtæki og fjölskyldur verða til. Það helsta sem hindrar þróun samfélagsins er skortur á íbúðum,“ segir Margeir að lokum.

Fanney Rún Einarsdóttir er frá Keflavík, hún útskrifaðist með þriðja árgangi vorið 2021. Að loknu stúdentsprófi íhugaði hún hvaða leið hún vildi fara. Hún hafði velt fyrir sér að fara í lýðskóla og hafði fylgst með þróun skólans á Flateyri áður en hún sótti um. Eftir viðtal við Ingibjörgu Guðmundsdóttur hlakkaði hún til og taldi dagana þangað til skólinn byrjaði. Hún hafði aldrei búið með öðrum en fjölskyldunni áður en hún flutti til Flateyrar.  

Fanney Rún Einarsdóttir

„Bara það var ákveðið lærdómsferli. Til viðbótar við allt annað sem ég tók með mér að skólaárinu loknu. Ég lærði mikið um sjálfa mig. Hvað ég get og að innblásturinn kemur ekki af sjálfu sér, maður verður að leggja hart að sér til þess að virkja hann. Ég valdi Hugmyndir, heimurinn og þú vegna þess að ég hef áhuga á listum þótt ég elski útivist líka. Mér varð ljóst á námstímanum hvert ég vildi stefna. Ég hef sótt um nám við Listaháskólann og nokkra aðra listaskóla meðal annars í Madrid þar sem ég hef búið,“ segir Fanney Rún. 

Fanney Rún getur hugsað sér að flytja aftur á Flateyri að námi loknu, íbúar eru svo opnir og vingjarnlegir. Hæfileikar hennar eru eftirsóttir, eftir útskrift vann hún bæði í fullu starfi og tók að sér ólík verkefni í aukavinnu.  „Að sjálfsögðu var öðruvísi að koma hingað í miðju Covid ástandi, það tók okkar árgang aðeins lengri tíma að kynnast íbúunum. En núna í vinnunni í sundlauginni hef ég kynnst öllum. Hér ríkir sérstakt andrúmsloft, mikil sköpun í gangi. Hingað leita listamenn hvaðanæva að af landinu, meðal annars þekktir tónlistarmenn og kvikmyndaframleiðendur. Sumir vegna samstarfs en líka vegna þess að þeir eru að kenna við Lýðskólann. Nú hlakka allir til að kynnast næsta árgangi, ég er viss um að sumir koma hingað áður en skólinn hefst til þess að kynnast samfélaginu,“ segir Fanney Rún Einarsdóttir.

Ljúkum umfjöllun um Lýðskólann á Flateyri með tilvísun í ræðu formanns skólastjórnar og frumkvöðuls að skólanum Runólfs Ágústssonar við eina skólasetninguna:  

Lýðskólinn á Flateyri vill hafa jákvæð áhrif á umhverfi, samferðamenn og samfélag nær og fjær. Okkur er umhugað um sjálfbærni, samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar og berum virðingu fyrir þörfum annarra um leið og við leyfum sjálfum okkur að njóta okkar. Við berum ábyrgð á því að samfélagið sem við búum í dafni. Í Lýðskólanum leggjum við okkar af mörkum við þroska einstaklingsins og samfélagsins með því að gefa og þiggja.“

Meira um lýðskóla á Íslandi í Gátt: Hver er saga lýðskóla á Íslandi

Greinin var skrifuð fyrir DialogWeb, veftímarit Norræna tengslanetsins um nám fullorðinna, NVL en er birt í Gátt  á íslensku með góðfúslegu leyfi.

Sigrún Kristín Magnúsdóttir

Sigrún Kristín Magnúsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún er ritstjóri Gáttar og vinnur verkefni í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar. Hún hefur sinnt ýmsum störfum við menntun og fræðslu fullorðinna í nær þrjá áratugi.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi