- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Nám í atvinnulífinu staðfest með raunfærnimati

Nýlega lauk tilraunverkefni um mat á raunfærni á móti hæfnikröfum starfa sem var stýrt af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA), í samstarfi við Samtök atvinnulífsins (SA) og Alþýðusamband Íslands (ASÍ). Verkefnið var styrkt af Fræðslusjóði. Í verkefninu var sérstaklega horft til starfa sem ekki krefjast formlegrar menntunar og eru líkleg til að taka miklum breytingum í náinni framtíð.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, tók þátt í verkefninu, en hún er forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins.  Hún veitti Dialog, veftímariti Norræna tengslanetsins um nám fullorðinna,  viðtal um verkefnið og stöðu fullorðinsfræðslunnar á Íslandi.

– Vinna samkeppnishæfnisviðs snýr að mörgum ólíkum leiðum með því markmiði að efla samkeppnishæfni atvinnulífs á Íslandi. Fræðslumálin eru þar mjög fyrirferðamikil, okkur verður æ ljósara að formlega skólakerfið leikur ekki endilega aðalhlutverkið heldur skiptir sú þekking og hæfni sem einstaklingar afla sér með óformlegu námi, í fullorðinsfræðslunni og á vinnustað eða í raun því sem gerist eftir að þeir ljúka formlegu námi ekki síður máli, segir Ingibjörg Ösp.

Mikið verk óunnið

– Á sviði fullorðinsfræðslu er miklu ólokið. Við þurfum að þróa alla umgjörð og kerfislega þætti, koma á meiri formfestu til þess að unnt verði að viðurkenna og staðfesta þá þekkingu og færni sem aflað er á vinnustað eða í fullorðinsfræðslunni. Þess vegna litum við á þetta verkefni um mat á raunfærni á móti viðmiðum starfa sem mikilvægt skref í þá átt.

Við sem vinnum að menntamálum hjá SA sitjum í stjórnum FA, Fræðslusjóðs og  starfsmenntasjóða. Að okkar mati er enn hægt að þróa og efla samstarf allra þessara aðila í sátt og samlyndi. Ef allt er talið þá er um gríðarlega mikla vinnu og fjármuni að ræða sem hægt væri að nýta mun betur, segir Ingibjörg Ösp.

Hver eru næstu skref að tilraunaverkefninu loknu?

– Nú tekur við kynningarstarf, kynna verkefnið og niðurstöðurnar fyrir hagaðilum, atvinnurekendum og síðast en ekki síst að kveikja áhuga og skilning hjá einstaklingum sem eiga erindi í mat af þessu tagi. Við þurfum að fá fleiri til liðs við okkur. Við höfum talað fyrir því að þetta verði kerfi sem geti þjónað sem allra flestum greinum víða um land og hvar sem fyrirtækin eru stödd í líftímakúrfu sinni, segir Ingibjörg og heldur áfram: Fyrirtæki sem hafa til þess burði, geti á sjálfbæran hátt unnið að þessu með faglegri viðurkenningu, sem er alltaf nauðsynleg. En fyrirtæki sem treysta sér ekki í vegferðina sjálf geti sótt sér stuðning, leiðbeiningar og aðstoð.

Brýnt að tryggja gæði og skapa traust

– Ég tel að í tilraunaverkefninu höfum við fjallað um alla þá þætti sem gera þarf kröfur um til þess að tryggja gæðin og skapa traust á kerfinu. Það þarf ákveðið verklag, sýna fram á þekkingu við hæfi, uppfylla ákveðin gæðaviðmið til þess að hljóta viðurkenningu. Þótt ferlið krefjist ákveðinnar miðlægrar stýringar þá getur þetta samt orðið á forræði fyrirtækja og greina. Það mun reyna á áhuga fyrirtækjanna og nú verðum við að kveikja hann til þess að virkja þau til þess að leggjast á árarnar með okkur.

„Við þurfum öfluga talsmenn. Með stuðningi og þátttöku öflugra fyrirtækja og einstaklinga sem hafa reynt þetta þá mun okkur takast að þróa kerfið.“

– Almennt held ég að viðhorfin séu að breytast. Ég tel að við séum farin að átta okkur betur og betur á því að formlega skólakerfið verður að byggja upp færni en ekki aðeins kenna svörin við öllum spurningum. Í skólakerfinu þurfum við að byggja upp og þjálfa færni sem verður nauðsynleg í ljósi þeirra breytinga við stöndum frammi fyrir. Fjölmörg störf eru að breytast og sum að hverfa. Við lifum lengur, erum að eldast og árunum á vinnumarkaði fjölgar. Við viljum vera lengur á vinnumarkaði. Til að auðvelda það þarf óformlega kerfið að grípa einstaklinga á vinnumarkaði og bjóða lausnir svo þeir geti þróað hæfni sína, sótt sér þá þekkingu sem breyttar aðstæður í atvinnulífinu krefjast. Veita það sem við eigum kannski ekki svo gott orð fyrir á íslensku, en umskólun kemst kannski næst að fanga, segir hún.

– Skilningur á mikilvægi óformlega kerfisins er að aukast mjög, virðing manna og áhugi fyrir þeim úrræðum sem ekki flokkast sem hluti formlega kerfisins. Kannski er óheppilegt að kalla þetta óformlega menntakerfið. Við þurfum að huga að orðræðunni.

Hvernig gagnast þetta einstaklingunum?

– Ég held að þetta gagnist rétt eins og annað nám. Allt sem eflir okkur og styrkir með faglegum hætti í þeim verkefnum sem við erum að takast á við verður til þess að við verðum betur undir það búin að sækjast eftir starfsþróun af einhverju tagi. Hæfniefling dregur úr líkum á kulnun og líkum á einangrun.

„Ég tel að sömu lögmál eigi við um viðurkenningu á hæfni sem aflað er á vinnustað og þeirri hæfni og þekkingu sem aflað hefur verið með formlegri menntun, með þátttöku í námskeiðum eða í skóla. Það eru  sömu hvatar og sami ávinningur sem verður til.“

Hagkvæmt fyrir samfélagið

– Í rauninni er þetta svo augljóst og rökrétt að það er ótrúlegt að við séum ekki fyrir löngu búin að koma á kerfi til þess að viðurkenna þessa færni og þessa þekkingu. Þetta er í rauninni hagkvæmasta leiðin til að byggja upp þá þekkingu og færni sem atvinnulífið þarfnast. Það er mun hagkvæmara fyrir okkur sem samfélag að þekkingarinnar sé aflað með þessum hætti. Við eigum að viðurkenna hæfnina þegar hún er til staðar. Finna leiðir til að viðurkenna hana og votta með formlegum hætti og staðfesta með fagbréfi eða öðrum samræmdum hætti.  

Tökum dæmi

– Ef starfsmaður sem hefur unnið í sérhæfðu framleiðslufyrirtæki eða við sérhæfðar aðstæður í tíu ár ákveður að færa sig yfir í næsta bæjarfélag í sambærilegt fyrirtæki. Ef hann á ekki prófskírteinið úr háskóla eða framhaldsskóla þá á hann allavega fagbréfið sem staðfestir með sannanlegum hætti þá þekkingu og hæfni sem hann hefur aflað sér í starfi.

Hverjir eiga að taka þátt í að byggja upp og fjármagna kerfið?

– Ég tel að það sé brýnt að við horfum til fjölbreyttra leiða við fjármögnun. Af því að við erum í afar ólíkri stöðu varðandi þetta verkefni. Eðlilegt væri að starfsmenntasjóðirnir komi að þessu og taki þátt í þeim kostnaði sem fellur til. En það er einnig eðlilegt að fyrirtæki fjármagni þetta sjálf ef þau kjósa það. Þá gæti Fræðslusjóður jafnframt tekið þátt í þessu. Mín niðurstaða er að margir þurfi að koma að, jafnvel að einstaklingarnir sjálfir greiði fyrir þetta.

– Þetta er mikilvægt verkfæri sem er gríðarlega verðmætt. Verkfæri sem hægt er að nota í mögum greinum, á ólíkum vinnustöðum og því tel ég að fjármögnunin geti verið með ýmsum hætti.

– Auðvitað er hægt að gera átak í ákveðnum greinum. Viðvarandi skortur er á starfsfólki í einstaka greinum og þar gætu opinberir aðilar og hagsmunaaðilar tekið saman höndum, sett inn hvata. Það væri flott að sjá eitthvað slíkt. Ég tel að við ættum ekki að festa slík verkefni í einhverjum ákveðnum leiðum í fjármögnun, segir Ingibjörg Ösp. 

Þörf á miðlægu utanumhaldi

– Styrkurinn í þessu felst í því að verkefnið endi með formlegri viðurkenningu. En það má samt ekki takmarka það við að einhverjir ákveðnir aðilar geti framkvæmt matið, má ekki einskorðast við sérfræðinga hjá FA eða öðrum miðlægum stofnunum. Brýnt að fyrir hendi liggi ákveðið miðlægt utanumhald og miðlæg viðmið fyrir ferlið sjálft og gæðin og ferlinu ljúki með þessari formlegu viðurkenningu. En að njörva niður framkvæmdina á þann hátt að aðeins ákveðnir viðurkenndir ráðgjafar sem lokið hafa ákveðnum námskeiðum geti framkvæmt, það er útilokað. Það er mikið af öflugu fólki starfandi víða út í fyrirtækjum, sem starfa að mannauðsmálum sem eru jafnvel komið miklu lengra en við í þessum samhengi. Það ætti að gera þessum fyrirtækjunum kleift að framkvæma matið á sínum forsendum en sækja viðmiðin og staðfestinguna, fagbréfið til þess sem verður falið utanumhaldið. Fullkomlega eðlilegt að þetta allt sé gefið út á einum stað.

Óþarft að margir finni upp hjólið!

– Við þessi fámenna þjóð föllum allt of oft í þá gryfju að allir fara í að finna upp hjólið. Allt of margir eru að gera það sama, þurfum bara að horfa á háskólakerfið okkar til að átta okkur á því. Ég tel ákaflega mikilvægt að hægt sé að framkvæma matið hjá fyrirtækjunum, en viðmiðin og staðfestingin alltaf sótt til sama aðila. Það tryggir að niðurstaðan gildi víðar en í viðkomandi fyrirtæki og það skiptir meginmáli fyrir einstaklingana.

„Við viljum styrkja einstaklingana, það er jú meginmarkmiðið“.

– Það er ákveðinn veikleiki í fullorðinsfræðslukerfinu okkar að einstaklingar geta velkst um, tekið námskeið hér og námskeið þar og sinnt fjölbreyttum störfum en fá ekki þekkinguna staðfesta með heildrænum hætti, segir Ingibjörg Ösp. Þú getur fengið staðfestingu á 10 tíma námskeiði hér og öðru 10 tíma þar. En við náum ekki utan um heildina og það hefur mikil áhrif á sjálfsmat einstaklingsins að  ekki náist að formgera þekkinguna sem aflað hefur verið með einhverjum hætti.

Hvernig telurðu að við getum bætt kerfið?

– Það sem þarf til er blanda af innihaldi og formgerð. Það eru veikleikar í kerfinu okkar, við erum alltof bundin við símenntunarmiðstöðvar víða um land. Símenntunarmiðstöðvar sem allar eru að berjast í bökkum við að halda úti einhverju lágmarks námsframboði til að lifa af. Og þær eru allar að reyna að gera það sama á þessu litla landi okkar. Sumar ná varla að búa til verkefni sem nægja til að halda einum starfsmanni. Það eru enginn hvati fyrir þess aðila sem eru að vinna með Fræðslusjóði til þess að þróa sig.

„Það er allt of lítil þróun í gangi og ferlið er svo seigt að þekkingin er næstum orðin úrelt þegar námskráin og námskeiðin eru  komin í gegnum allt þetta formlega ferli.“

– Ég myndi vilja sjá að við færðum okkur í auknum mæli yfir í stafrænt umhverfi. Yfir í að bjóða upp á fræðslu í gegnum vef, í alvöru gagnvirku stafrænu umhverfi. Ég á ekki við að hægt sé að horfa á einhverja fyrirlestra á netinu eða gera verkefni heldur alvöru kennsluumhverfi. Ég myndi vilja sjá að við opnuðum langtum fleiri fræðsluaðilum tækifæri til að bjóða námskeið. Á þann hátt myndum við verða að halda okkur á tánum. Næðum betri takti í að halda námsframboðinu í tengslum við þróunina í atvinnulífinu.

– Símenntunarmiðstöðvar um allt land eru mikilvægar í byggðaþróun. Ég myndi vilja sjá miklu meiri sérhæfingu hjá þeim. Til dæmis gætum við hugsað okkur að símenntunarmiðstöðin á Vestfjörðum tæki algera forystu í öllu er varðar sjávarútveg, allt varðandi fiskveiðar og vinnslu. Þegar þörf skapaðist fyrir nám á því sviði á Austfjörðum þá gætu þeir annað hvort fengið kennslu um vef eða tilbúinn pakka. Það er ekki þörf fyrir að allir séu að finna upp og gera það sama. Þetta er kerfislægi þátturinn.

Leggja verður áherslu á stafræna þróun

– Hvað varðar innihaldið þá verðum við að leggja miklu meiri áherslu á stafrænu málin. Þegar farið er yfir námskrárnar og lýsingar sem til eru hjá FA þá er ótrúlegt hvað vantar mikið þar. Ég leitaði til dæmis að námskeið í mælitækni. Því nú er allt að verða í tölvum og mælitækjum. Það er hvergi minnst á mælitækni né umgengni við tæki og tækni í fyrirliggjandi námskrám FA. Lítið sem ekkert er þar af nýrri tækni eins og  stafrænu tækninni, drónum og þrívíddarprentun sem er að  koma inn í dag. Ég skil ekki hverjum við ætlum að mæta með mörgum af þeim námskrám sem verið er að vinna með í dag. Það dugir skammt að horfa í baksýnisspegilinn. 

– Ég skil tregðuna, að það er freistandi að selja áfram það sem er til. Það er öruggasta leiðin. Námsefni sem er tilbúið og kennara sem geta kennt það. Fara inn í fyrirtækin og selja þeim það sem er til í stað þess að horfa fimm ár fram í tímann og reyna að bjóða upp á fræðslu um það sem fyrirtækin munu þarfnast þá.

Þetta er mjög alvarleg staða sem við erum í og við eigum langt í land, bæði hvað varðar innihaldið, námið varðandi strúktúrinn eða kerfið okkar, segir Ingibjörg Stefánsdóttir, forstöðumaður  samkeppnishæfnisviðs SA.

Í fyrri grein í Gátt, veftímariti Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins um verkefnið er aðdragandanum að verkefninu sem og hverju skrefi í ferlinu við matið lýst ítarlega:  Raunfærnimat í atvinnulífinu – breyttur veruleiki með 4. Iðnbyltingunni  

Greinin var skrifuð fyrir DialogWeb, veftímarit Norræna tengslanetsins um nám fullorðinna, NVL en er birt í Gátt með góðfúslegu leyfi.

Sigrun Kristín Magnúsdóttir

Sigrún Kristín Magnúsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún er ritstjóri Gáttar og vinnur verkefni í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar. Hún hefur sinnt ýmsum störfum við menntun og fræðslu fullorðinna í nær þrjá áratugi.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi