- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Rafræn ferilbók: grundvallarbreyting á þjónustu við starfsnámsnemendur

Verulegar breytingar á vinnumarkaði eru í vændum þar sem öflug ný tækni mun hafa áhrif á þau störf sem fyrir eru á vinnumarkaði. Sum störf verða óþörf en jafnframt verða til ný störf. Þá er því spáð að framþróun gervigreindar og tengdrar tækni muni leiða til umbyltingar á fjölmörgum sviðum samfélagsins. Menntakerfið þarf að bregðast við þessu en verkefnið Rafræn ferilbók er mikilvægur liður í þeim breytingum sem nú eiga sér stað í starfsmenntamálum.

Efla gæði vinnustaðanáms

Menntamálastofnun hefur verið falið að annast ritstýringu og innleiðingu Rafrænnar ferilbókar en í henni verða lýsingar á hæfni sem nemandi þarf að búa yfir við lok starfsnáms. Verkefnið hefur verið í undirbúningi frá árinu 2017 en helsta markmið verkefnisins er að efla gæði vinnustaðanáms með því að mynda samskiptavettvang nemanda, vinnustaðar og skóla um hæfniþætti þess starfs sem nemandinn lærir til.  Með  nýrri reglugerð um vinnustaðanám sem tekur gildi 1. ágúst á þessu ári er umgjörð vinnustaðanáms starfsnámsnemanda styrkt og starfsnámsskólar gerðir ábyrgir fyrir því að finna vinnustað þar sem nemandinn fær leiðsögn og þjálfun við raunaðstæður. Þá verður tekið mið af hæfni nemandans þegar lengd vinnustaðanáms er ákveðin. Þetta er  grundvallarbreyting á þjónustu við starfsnámsnemendur sem mun leiða til þess að vinnustaðanám verður markvissara og gera fleiri nemendum kleift að útskrifast fyrr en áður.

Samhliða innleiðingu á Rafrænni ferilbók er verið að vinna frá grunni vinnustaðahluta allra námsbrauta í starfsnámi. Stofnaðir eru faghópar fyrir hverja starfsgrein til að skilgreina hæfni fyrir vinnustaðanám og færa inn í Rafræna ferilbók. Sú vinna er vel á veg komin og gert ráð fyrir að fyrstu nemendur verði skráðir inn í Rafræna ferilbók á þessu ári. Rík áhersla er lögð á að endurskoða hæfniviðmið, velta fyrir sér skiptingu náms á milli skóla og atvinnulífs og tryggja að starfsnám uppfylli þær kröfur sem nútímasamfélag gerir í ljósi örra tæknibreytinga og fjórðu iðnbyltingarinnar.

Margvíslegur ávinningur af öflugra námi

Ávinningurinn af því að innleiða rafræna ferilbók er mikill. Ferilbókin á að tryggja að nemandinn fái þjálfun í þeim verkþáttum sem hæfnikröfur starfsins gera ráð fyrir. Þetta mun einnig auka gæði námsins þar sem nemandinn fær viðeigandi þjálfun í öllum hæfniþáttum. Útkoman verður öflugra nám sem styrkir atvinnulífið og bætir og einfaldar aðgengi nemenda að starfsnámi.

Innleiðing mun styrkja réttindi starfsnámsnemenda en nemasamningar verða vistaðir í ferilbókinni. Fyrir atvinnulífið er ábatinn sá að samskiptin við skólakerfið verða skilvirkari og einfaldari. Rafræn ferilbók er mikilvægur liður í því að einfalda utanumhald og auka gæði verk- og starfsþjálfunar en líkt og bent er á í skýrslu Ríkisendurskoðunar um skipulag og stjórnsýslu starfsmenntunar er stjórnsýsla starfsmenntunar bæði umfangsmikil og flókin. Með innleiðingu þessa kerfis verður stjórnsýslan bæði einfaldari og gagnsærri. Innleiðing kerfisins mun einnig stuðla að því að bæta og einfalda aðgengi nemenda að starfsnámi og veita greinargóðar upplýsingar sem mun nýtast í frekari þróun í starfsmenntamálum.  

Inntak í Rafrænni ferilbók byggir á starfalýsingum og hæfnikröfum sem starfsgreinaráð vinna nú að því að endurvinna í samvinnu við Menntamálstofnun. Starfalýsingar og hæfnikröfur er leið atvinnulífsins til að skilgreina þarfir fyrir kunnáttu og hæfni sem námsbrautalýsingar fyrir viðkomandi starfsgreinar byggjast á og eru hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla. Mikilvægt er að þessi gögn taki mið af örum tæknibreytingum og lýsi þeirri hæfni sem framtíðin krefst. Það samstarf gengur mjög vel og ljóst að aðilar atvinnulífsins ætla ekki að láta sitt eftir liggja þegar kemur að því að þróa starfsnám sem svarar kalli nútímans. Hér er hlekkur á starfalýsingar og hæfnikröfur á vefsíðu stofnunarinnar en þar birtast útgefnar starfalýsingar og hæfnikröfur eftir því sem þau gögn berast frá starfsgreinaráðum: https://mms.is/starfalysingar-og-haefnikrofur-starfa-0)

Vilji til að auka skilvirkni og gæði

Menntamálastofnun á í mjög góðu samstarfi við skólasamfélagið og aðila vinnumarkaðarins um starfsnám í framhaldsskólum. Það er mikil gróska og vilji til að einfalda, auka skilvirkni og gæði námsins með hagsmuni nemenda og starfsgreina að leiðarljósi.  Starfsmenntateymi Menntamálastofnunar sinnir fleiri verkefnum á sviði starfsmenntamála. Má þar nefna umsýslu og þjónustu við öll starfsgreinaráð. Ráðin gegna afar mikilvægu hlutverki í að skilgreina hæfni á vinnumarkaði og því er mikilvægt að stjórnsýsla menntamála eigi í nánu og þéttu samstarfi við þau.

Hildur Hrönn Oddsdóttir, Ragnhildur B. Bolladóttir og Rúnar Helgi Haraldsson

Hildur Hrönn Oddsdóttir, Ragnhildur B. Bolladóttir og Rúnar Helgi Haraldsson eru sérfræðingar í starfsmenntateymi Menntamálstofnunar. Höfundar hafa áralanga reynslu af menntamálum á bæði grunn- og framhaldsskólastigi sem og framhaldsfræðslu. Starfsmenntateymi Menntamálastofnunar sinnir m.a. umsýslu starfsgreinaráða, ritstýringu og útgáfustýringu starfalýsinga og hæfnikrafna, ritstýringu og innleiðingu Rafrænnar ferilbókar og miðlunar upplýsinga varðandi starfsmenntamál.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi