- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Símenntun á krossgötum

Kvasir, samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á Íslandi héldu nýlega rafræna ráðstefnu í samstarfi við Leikn samtök fullorðinsaðila, NVL eða Norrænt tengslanet um nám fullorðinna og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Allt aðilar sem vinna mikið og stöðugt að því að styrkja símenntun í landinu.  

Ráðstefnan bar yfirskriftina Símenntun nýrra kynslóða. Hvernig ætlar símenntun að taka á móti zeta og alfa kynslóðunum. Vel á annað hundrað manns sóttu ráðstefnuna um leið og henni var streymt að auki hafa 70 manns horft á hana síðar. Eyjólfur Sturlaugsson er formaður Kvasis, opnunarávarp hans hefur vakið verðskuldaða athygli. Hann veitti góðfúslegt leyfi til að birta ávarpið í Gátt.

Teikn á lofti

Það eru ýmiss teikn á lofti um að símenntun sé nú á ákveðnum krossgötum. Ef litið er yfir sviðið þá koma í ljós ýmsir vísar um að svo sé.  Það er einkunn þrennt sem mér er hugleikið í þessu sambandi:

Í nýju sambandi við annað ráðuneyti

  • Í fyrsta lagi er hvernig atvinnulífið hefur til góðs orðið sífellt meira leiðandi  í mótun og útfærslu símenntunar
  • Í öðru lagi miklar framfarir í upplýsingatækni og notkun hennar
  • Síðast en ekki síst þessi vaxandi fjöldi fólks sem hefur lifibrauð sitt af símmenntun og ráðgjöf.

Málaflokkurinn símenntun eða ævimenntun rekur opinbera yfirstjórn sína inn í mennta- og menningarráðuneytið.  Í gegnum tíðina erum við vön því að allt sem lítur að menntun eigi heima þar.  En eðli símenntunar og sífellt skarpari krafa frá atvinnulífinu um stöðuga uppfærslu á hæfni fólks hefur riðlað þessari gömlu mynd.  Í dag sjáum við vísa um að málaflokkurinn símenntun er farinn að falla þéttar en áður að atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.  Raungert dæmi um slíka áherslubreytingu er t.d. að Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hefur verið fjármagnað úr atvinnuráðuneytinu en ekki gamla góða Menntamálaráðuneytinu. 

Annað dæmi um það hvernig atvinnulífið mótar meira og meira símenntunarkerfið sjálft er að nú er farið að raunfærnimeta á móti viðmiðum atvinnulífsins, en áður var eingöngu til raunfærnimat á móti viðmiðum námskrár.  Þessi dæmi endurspegla í mínum huga glögglega að kerfin í menntun er tvö;  hin formlega skólakerfismenntun og hin óformlega atvinnulífsmenntun.

Nýjar kynslóðir Zeta og alfa

Eitt af því sem varpar nokkuð glöggu ljósi á hversu mikið nám og menntun er að breytast með tækniframförum og þá ekki síst í upplýsingatækni fellst í því  að máltækið „hvað ungur nemur gamall temur“ á alls ekki eins skýrt við og áður. Við höfum meira eða minna í allri mannkynssögunni gengið útfrá því að eldri kynslóðir leiði uppfræðslu á þeim yngri. Það kann að vera að breytast að minnsta kosti þegar kemur að tölvu- og upplýsingatækni.

Staðreyndin er nefnilega að hver ný kynslóð sem verður til og hefur vegferð sína í skólakerfi er í raun tæknivæddasta kynslóðin hingað til. Getur verið að þeir sem yngri eru séu í auknum mæli farnir að temja þá sem eldri eru?

Fólk í símenntun horfist í augu við þessa staðreynd í vinnu sinni og veltir fyrir sér með hvaða hætti þeir sem eru minna tæknivæddir eigi að geta leiðbeint þeim sem eru meira tæknivæddir. Jafningafræðsla, samvinna og teymisvinna eykst stöðugt og það ekki síst vegna þess að yngsta kynslóðin á vinnumarkaði hefur mikið fram að færa og skarar framúr á ákveðnum sviðum. Símenntun framtíðarinnar þarf að taka mið af þessari yngstu kynslóð hverju sinni.

Okkur, sem störfum við símenntun fjölgar stöðugt

Símenntun snýst í stórum dráttum um það að uppfæra hæfni mannauðs reglulega í öllu atvinnulífi og opinberum rekstri.  Og það er hreint alls ekki svo lítið verk ef hugsað er út í það.  Mikill fjöldi fólks vinnur að þessum bráðnauðsynlega þætti.  Og þótt þessi hópur sé nokkuð sundurlaus og málaflokkurinn víðtækur og jafnvel ekki svo vel skilgreindur þá er staðreyndin engu að síður sú að við sem vinnum beint eða óbeint við símenntun erum orðin mjög mörg . Þetta er semsagt stór og sívaxandi geiri og það er sannarlega breyting frá því sem áður var.

Verkefni okkar snýst um að viðhalda hæfni

Við sem sinnum símenntun erum smiðirnir sem eru fengnir til þess að halda við hæfni og færni í samfélaginu.  Úreld hæfni er uppfærð í takt við samfélagslega þróun.  Í þessu ljósi erum við í raun býsna nauðsynlegur flokkur fólks.  Allt sem heitir breytingar, aðlögun, endurskipulagning, nýbreytni, innleiðing, samkeppnishæfni, ….. allt eru þetta þættir sem kalla stöðugt á endur- og símenntun.  Vinna okkar í samfélaginu er því nátengd breytingum og framförum í atvinnulífinu.

Endurmenntunarsmiðir

Við endurmenntunarsmiðirnir þurfum sífellt á nýjum og nýjum efniviði að halda til að við getum veitt umbeðna þjónustu. Við öll – fólkið í símenntunargeiranum þurfum í því sambandi eiginlega að vera algjörar fyrirmyndir annarra með uppfærslu okkar á þekkingu og hæfni.  Þessi ráðstefna er m.a. hugsuð sem liður í því.  Með henni er gert tilraun til þess að skyggnast aðeins inn í framtíðina svo við getum betur undirbúið okkur fyrir það sem koma skal.

Ný fagstétt í fæðingu

Gott fólk. Ef símenntun er á krossgötum þá er félagslegt umhverfi þeirra sem sinna slíkri símenntun það líka. Ég ætla ekki að tala um kerfin núna né stjórnsýsluna á bak við símenntunina.  Ég hef mestan áhuga á að tala um okkur sem lifum og störfum í þessum sundurlausa en stóra geira.  Í raun er í mínum huga stór ný fagstétt að fæðast – það held ég að sé engin spurning um.  Spurningin núna er miklu frekar sú hvernig þessari fagstétt muni reiða af.

Mikilvægt að við samsömum okkur

Það er mikilvægt að allt þetta hæfileikaríka fólk sem ber uppi símenntun á Íslandi finni fyrir félagslegri og faglegri samsömun. Mér finnst skynsamlegt að þessi nýja atvinnustétt eignist einhverskonar sameignlega sjálfsmynd, sem styrki hana í bera áfram símenntun í landinu.

Með hvaða hætti ætlum við þessi stóri hópur fólks og símenntunaraðila að halda á okkar faglega þætti?  Hvar fáum við næringuna til að bera áfram  breytingar í fullorðinsfræðslunni?  Og hvernig erum við núna í stakk búin til þess?

Eyjólfur Sturlaugsson

Eyjólfur Sturlaugsson hefur starfað síðustu fimm árin sem framkvæmdastjóri Fræðslunetsins símenntunar á Suðurlandi. Hann er með B.Ed - kennarapróf, diplóma í upplýsingatækni í skólastarfi og MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu. Eyjólfur hefur öðlast víðtæka þekkingu og reynslu í stjórnun skólastofnana eftir að hafa starfað sem skólastjóri í grunn-, leik- og tónlistarskóla í tæp tuttugu ár.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi