- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Stafræn hæfni – skrefi nær

Fræðslusetrið Starfsmennt gaf út námsefnið Stafræna hæfnihjólið haustið 2020 sem ætlað er að efla almenna stafræna hæfni fólks. Námsefnið var unnið í samstarfi við VR sem létu þýða danska mælitækið Kompentensehjulet frá Digital dannelse yfir á íslensku og byggir efnisval og uppsetning á námsefninu á þeirri vinnu. Þróunarsjóður framhaldsfræðslu styrkti námsefnisgerðina og er námsefnið aðgengilegt öllum að kostnaðarlausu á vefsíðu Starfsmenntar, smennt.is og á youtube.com.

Hverjar voru þarfirnar?

Þó nokkur umræða hefur verið um stafræna hæfni á síðustu árum. Hvatinn að henni hefur ekki síst verið áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar og stafvæðing íslenskra ríkisstofnana, meðal annars í gegnum verkefnið Stafrænt Ísland. Allir vilja vera með í umræðunni og taka þátt í þessari stafvæðingu sem hefur á stuttum tíma umbylt allri verslun og þjónustu í landinu. Þjónusta á netinu er í raun orðin svo víðtæk að ef sú þjónusta sem þörf er á, hefur ekki verið netvædd, þá finnst mörgum það vera til marks um lélega þjónustu. Því hefur áhersla síðustu ára verið á að auka stafræna þjónustu fyrirtækja og stofnana. Samhliða þessari þróun hefur þörfin fyrir aukna stafræna hæfni starfsfólks vaxið til muna.

Stjórnendur opinberra stofnana hafa ekki síst fundið fyrir þessari þörf og kallað eftir fræðslu fyrir starfsfólk en þegar farið var að skoða nánar hvað fólst í þessari þörf kom í ljós að hugtakið stafræn hæfni var mikið á reiki og alls ekki ljóst hvað það fól í sér. Því var mikilvægt fá fram skilgreiningu á hugtakinu áður en lengra væri haldið í þróun verkefnisins.

Stafræn hæfni er lykilhæfni

Evrópusambandið hefur skilgreint stafræna hæfni sem einn þeirra lykilhæfniþátta sem nauðsynlegir eru hverjum einstaklingi til þess að geta tekið fullan þátt á vinnumarkaði, í námi og í samfélaginu almennt. Jafnframt gaf Evrópusambandið út hæfniramma fyrir stafræna hæfni e. The Digital Competence Framework 2.06 þar sem skilgreint er hvers konar hæfni þetta er og hvernig má efla hana. Stafræn hæfni byggir samkvæmt þessum skilgreiningum á fimm meginþáttum.

Fyrsti þátturinn, upplýsinga- og gagnalæsi, felur í sér hæfni til að leita eftir, flokka, greina, meta og skipuleggja stafrænar upplýsingar og gögn og velta fyrir sér uppruna og áreiðanleika þeirra. Þetta er mikilvæg hæfni í nútímasamfélagi þar sem netið er yfirflæðandi af upplýsingum sem getur oft verið mjög erfitt að átta sig á hvort séu raunverulega upplýsingar eða einungis skoðun einhvers.

Samskipti og samvinna er annar þáttur. Hann byggir á hæfni til að eiga samskipti á stafrænan máta, kunna að velja viðeigandi miðla, þekkja og geta beitt viðeigandi samskiptareglum og netsiðfræði og vera meðvitaður um stafrænt fótspor sitt. Fólk þarf að vera meðvitað um að það sem sett er á netið endurspeglar ásýnd þess út á við og því er mikilvægt að staldra við áður en efni er sett fram á opinberum vettvangi.

Þriðji þátturinn fjallar um gerð stafræns efnis en það er hæfni í að tjá sig í gegnum stafræna miðla, þekkja höfundarréttarlög og ýmis leyfi og skilmála og vera meðvitaður um ferli forritunar.

Öryggi er fjórði þátturinn en hann felur í sér hæfnina að geta varið tæki og upplýsingar, vera meðvitaður um persónuvernd og hvaða upplýsingar forrit geta notað sem hluta af samþykki á persónustillingum ásamt því að þekkja áhrif stafrænna miðla á heilsufar og umhverfi. Sífellt meiri þörf er fyrir hæfni í þessum þætti þar sem tölvuþrjótar herja á tölvubúnað, vefsíður og samfélagsmiðla í auknum mæli og fólk þarf að vera meðvitað um til hvaða aðgerða það getur gripið til að bæði fyrirbyggja og bregðast við árásum og koma í veg fyrir tjón. Einnig er verndun persónuupplýsinga sífellt stærri þáttur í allri meðferð upplýsinga og mikilvægt að fólk viti hvað felst í því.

Fimmti og síðasti flokkurinn er þrautalausnir en hann felur í sér hæfnina að geta komið auga á tæknivandamál og leyst þau með einföldum aðgerðum, að geta nýtt sér stafræna miðla til að leysa tiltekin vandamál og einfalda ferla og að skilja hvenær þarf að uppfæra þekkingu sína á tölvutækni og stafrænum miðlum. Þetta er mikilvægt þar sem störf eru að breytast í kjölfar hraðrar tækniþróunar. Því er mikilvægt að stuðla að skapandi hugsun og sköpunarkrafti innan fyrirtækja og stofnana. Með því að ákveða að nota þessa skilgreiningu Evrópusambandsins sem útgangspunkt í verkefninu, gátum við farið af krafti í að þróa námsefni til að styrkja almenna stafræna hæfni fólks.

Þróun verkefnisins

Einn hluti námsefnisþróunar felst í því að skoða samkeppnisvörur, það er hvaða sambærilegar lausnir eru til í nánasta umhverfi okkar og hvað ætti okkar vara að innihalda. Fljótlega kom í ljós að mælitæki Digital Dannelse uppfyllti allar kröfur sem við höfðum verið að hugsa um og við settum okkur því í samband við fyrirtækið með ósk um að fá að þýða mælitækið á íslensku og vinna námsefni í tengslum við það. Það kom okkur ánægjulega á óvart að mælitækið var þegar í þýðingu á vegum VR. Stofnað var til samstarfs og Starfsmennt kom því að prófun á mælitækinu og yfirlesturs á þýðingum. Styrkur frá Þróunarsjóði framhaldsfræðslu gerði Starfsmennt síðan kleift að vinna örmyndbönd fyrir hvern námsþátt mælitækisins. Þýðingu og prófunum lauk í nóvember 2019 og Starfsmennt gaf út námskrá og námsefni sem er opið og öllum að kostnaðarlausu, 16 myndbönd samtals, í ágúst 2020.

Hvað á að kenna?

Það er heilmikið ferli að búa til námskrá, ákveða hvað eigi að fara í hana, hvernig skipuleggja skuli námið, hvaða miðla eigi að nota, skilgreina markhópinn og ekki síst að skilgreina hvaða nýju hæfni þátttakendur eigi að öðlast með því að fara í gegnum námsefnið. Snemma í ferlinu hafði verið ákveðið að búa til myndbönd, eitt fyrir hvern flokk stafræna hæfnihjólsins. Auk þess hafði verið ákveðið að námsefnið ætti fyrst og fremst að vera hvatning til notenda og vísbending um hvernig þeir gætu hjálpað sér sjálfir og orðið þannig sjálfbærari á þessum skilgreindu sviðum stafræna hæfnirammans. Það ætti alls ekki að verða listi yfir vænlegar aðgerðir, tækni, tæki og tól. Með það að leiðarljósi var hafist handa við að skrifa handrit en upplýsingar um efnið voru fengnar víða, bæði af netinu og með ráðfæringum við fagfólk.

Þróunarverkefni sem skilur mikið eftir sig

Verkefnið reyndist mikið lærdómsferli fyrir okkur hjá Starfsmennt. Við vorum ekki sérfræðingar í neinu þessara umfjöllunarefna en það var kannski ekkert verra því að við þurftum bæði að lesa okkur vel til um efnið og svo þurftum við að koma því frá okkur á skiljanlegan máta. Eins bjuggum við ekki yfir þeirri tækniþekkingu sem þörf var á til að framleiða efnið svo að við fórum á námskeið til að afla okkur hennar. Fyrir okkur var því alltaf ljóst að við myndum koma í plús út úr þessu þróunarverkefni með aukinni hæfni okkar starfsfólks. Almenningur hefur aðgang að efninu sér að kostnaðarlausu og getur því eflt sína stafrænu hæfni hvar og hvenær sem er. Opinberar stofnanir og fyrirtæki á almennum markaði geta einnig bætt þessu inn í fræðsluáætlanir sínar og þannig eflt almenna stafræna hæfni starfsfólksins síns.

Innleiðing stafrænnar tækni í opinbera geiranum þýtur áfram þessa mánuðina sem og á almenna vinnumarkaðnum og víða er verið að setja inn gervigreind til að leysa einföld, síendurtekin verkefni. Með því að bjóða upp á þetta námsefni í almennri stafrænni hæfni þá erum við að leggja lóð á vogarskálarnar til að brúa það þekkingargap sem myndast þegar tækninni fleygir fram en fólkið situr eftir án þess að fá bjargir til að bregðast við þessari nýju tækni. Við vonumst til þess að sem flestir sjái sér fært að nýta námsefnið á einn eða annan hátt og fögnum öllum ábendingum sem geta bætt efnið enn frekar.

Júlía Hrönn Guðmundsdóttir

Júlía Hrönn Guðmundsdóttir verkefnastjóri stafrænnar fræðslu hjá Starfsmennt.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi