Skýrsla OECD vegna upplýsingamiðlunar um vinnumarkað og námstækifæri
Nú er tæpt ár síðan út kom skýrsla á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) þar sem sjónum er beint að mikilvægi upplýsingagjafar um fjölbreyttar námsleiðir og tengslum þeirra við atvinnulífið. Í skýrslunni kemur Ísland stuttlega við sögu þrátt fyrir að hér sé enn ekki til staðar opinber vefgátt með gæðatryggðum upplýsingum um nám og störf líkt og tíðkast víðast hvar í kringum okkur. Í kjölfar útgáfu skýrslunnar var hins vegar haldið stórt málþing þar sem fulltrúum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins var boðið að kynna vefinn Næstaskref.is en ný útgáfa hans hafði vakið athygli fulltrúa OECD.
Hér verður stiklað á stóru í fyrrnefndri skýrslu og reynt að setja í samhengi við greinar sem skrifaðar hafa verið á þessum vettvangi um stöðu mála bæði hér og í nánustu nágrannalöndum. Rétt er að taka fram að í skýrslu OECD er vitnað til fjölda rannsókna og fræðiskrifa sem ekki verða tíunduð sérstaklega.
Tilgangur
Náms- og starfsval að loknum grunn- eða framhaldsskóla getur reynst þrautin þyngri. Nemendur verða fyrir ýmiss konar áhrifum í því ferli og upplýsingar í boði jafnvel misjafnlega traustar. Fjölskylda, vinir, kennarar, ráðgjafar, fréttir og samfélagsmiðlar – allt hefur þetta áhrif á viðhorf nemenda og á endanum, ákvarðanatökuna. Ráðgjöf um nám og störf þarf því að byggja á nákvæmum, viðeigandi og skiljanlegum upplýsingum til að hún sé líkleg til að geta hjálpað til við námsval og þátttöku á vinnumarkaði.
Í ljósi þessa hefur fjöldi þjóða byggt upp rafrænar upplýsingaveitur til stuðnings upplýstu náms- og starfsvali. Þau kerfi eru birt á opnum vefsvæðum og bæði hugsuð fyrir allan almenning og sem verkfæri í tengslum við ráðgjöf um nám og störf.
Í skýrslu OECD er velt upp spurningum varðandi tengsl slíkra vefsvæða við ákvarðanatökuferlið eða þá þætti sem hafa áhrif á val fólks á námi. Einnig hvernig best megi miðla upplýsingum um vinnumarkað og hjálpa nemendum áleiðis þannig að þau séu líklegri til að velja náms- og starfsferil í samræmi við áhuga og framtíðaráform.
Þá er í skýrslunni skoðað hvernig 34 opinberum vefsíðum um nám- og störf gengur að sinna þessu hlutverki. Kannað var hvernig nemendur nálgast og nota upplýsingar og hvaða þýðingu það hefur við hönnun vefsvæða sem miða að því að styðja við val nemenda á áhrifaríkan hátt. Úttekt er gerð á vefsíðunum og skýrslan hugsuð sem innlegg í átt að árangursríkri upplýsingastefnu sem styður við vel ígrundað náms- og starfsval.
Ákvarðanatakan
Sem fyrr segir getur verið snúið að velja heppilega námsleið, ekki síst ef hafður er í huga ánægjulegur og gefandi starfsferill í framhaldinu. Þar er að mörgu að hyggja. Foreldrar eru sennilega stærsti áhrifavaldurinn þegar kemur að náms- og starfsvali en leiðsögn kennara eða ráðgjafa í skólum að öllum líkindum algengasti hefðbundni farvegur upplýsingagjafar um nám og störf. Nýlega hefur einnig verið bent á að fræðslu um slíka hluti skortir oft beina tengingu við atvinnulífið, reynslu og kynni af vinnustöðum, starfsfólki og námsbrautum framhaldsskóla. Mikilvægt mál en efni í aðra grein.
Hvað varðar ákvarðanatökuna breytast hugmyndir nemenda um starfsferil hratt þegar nær dregur unglingsaldri, fyrirmyndir skipta máli og leið ranghugmynda getur verið greið. Ekki má gleyma að menntun hefur bæði gildi í sjálfu sér og vegna hagnýti hennar en áhugi, vonir, líðan og tilfinningar geta gengt mikilvægu hlutverki, ekki síst meðal þeirra yngri þar sem skammtímahugsun er oft ráðandi.
Og einmitt þess vegna þurfa upplýsingar að vera nákvæmar, viðeigandi og aðgengilegar – sniðnar með skynsamlegum hætti að þörfum nemenda, ef þær eiga að gagnast við ákvarðanatöku í tengslum við náms- og starfsferilsþróun.
Nauðsynlegt – ekki nægjanlegt
Í skýrslu OECD er bent á þá staðreynd að þrátt fyrir að töluvert hafi verið bætt úr upplýsingagjöf virðist það ekki enn hafa skilað sér í kynslóð ungs fólks sem tekur vel upplýstar ákvarðanir um nám og störf. Góð upplýsingamiðlun sé vissulega nauðsynlegt skilyrði en að öllum líkindum ekki fullnægjandi.
Náms- og starfsval er einfaldlega ungu fólki erfitt. Valkostir eru margir, upplýsingar berast víða að og ekki alltaf vel skiljanlegar. Því er ákveðin hætta á að val ungs fólk litist af þeim upplýsingum sem eru mest áberandi, það fresti ákvörðun eða velji þann einfalda kost að fylgja fordæmi vina og jafnaldra eða ráðum foreldra og ættingja.
Vissulega eru foreldrar í lykilstöðu hvað varðar stuðning við ákvarðanatökuna. Þar þurfa hins vegar ekki síður að vera til staðar réttar og viðeigandi upplýsingar auk fræðsluefnis líkt og til dæmis er að finna í tengslum við náms- og starfsfræðslu bæði í Danmörku og Noregi. Þannig að foreldrar, kennarar og fleiri geti komið sterk inn, í tilfellum þar sem ungt fólk skortir getu til að nýta virkni upplýsingavefsíðna til fulls eða leita að því sem gagnast þeim best.
Vinnumarkaður og náms- og starfsval
Ástand á vinnumarkaði skiptir miklu máli þegar kemur að vali á námi. Því er mikilvægt að miðla upplýsingum um aðstæður á vinnumarkaði hverju sinni, spám um framtíðarhorfur, atvinnuþróun, vinnustaðanám og tengsl alls þessa við hugmyndir fólks um eigin náms- og starfsferil.
Í þeim efnum hentar eitt hins vegar ekki öllum og því þurfa upplýsingar að vera með ýmsum hætti til að geta skipt máli fyrir val ólíkra nemendahópa sem leita svara við spurningum um framboð á störfum, æskilega hæfni, vinnuumhverfi og launakjör.
Upplýsingar um nám og vinnumarkað má nálgast úr ýmsum áttum en tvær meginleiðir eru við framsetningu. Annars vegar sú að hið opinbera safni saman réttum upplýsingum og komi þeim á framfæri í samstarfi við einkaaðila. Sú leið hefur þann kost að utanaðkomandi hafa mögulega betri skilning á því hvernig hægt er að koma til móts við þarfir notenda, setja fram og gera upplýsingarnar aðgengilegar og aðlaðandi. Hin leiðin er einfaldlega sú að stjórnvöld haldi sjálf utan um birtingarmynd slíkra upplýsinga á aðgengilegu vefsvæði. Þróun opinberra, alhliða gagna er sem sagt aðeins helmingur áskorunarinnar, birting þeirra út á við er hin hliðin og ekki síður mikilvæg.
Samhliða þyrfti síðan helst að þróa verkfæri á netinu sem geta undirbúið nemendur fyrir þá leiðsögn og ráðgjöf sem í boði er við að kanna náms- og starfsmöguleika og þrengja þá að áhugasviði, hæfni og væntingum. Þá getur rafræn ráðgjöf í tengslum við slík vefsvæði verið hagkvæm til dæmis þegar ráðgjöf augliti til auglits er ekki í boði eins og við þekkjum orðið vel í heimsfaraldri COVID-19.
Vefsíður OECD landa
Alls var gerð úttekt á 34 vefsíðum um náms- og starfsval í aðildarríkjum OECD, síðum þar sem leitast er við að liðsinna og leiðbeina ungu fólki í vali á framhaldsnámi.
Vefsvæðin eiga það sameiginlegt að veita upplýsingar um námsleiðir og tengingu þeirra við möguleika á vinnumarkaði eða áframhaldandi nám. Þó sá rauði þráður sé gegnumgangandi geta áherslur einnig verið misjafnar á milli landa bæði hvað varðar innihald og framsetningu efnisins. Í skýrslunni er fjöldi áhugaverðra dæma:
- efni sem sérstaklega er miðað að nemendum í grunnskólum (náms- og starfsfræðsla)
- hvetjandi myndbönd um störf og námsleiðir
- myndbandsupptökur sem gefa innsýn í raunverulegt starfsumhverfi og verkefni
- efni fyrir foreldra til stuðnings í ákvörðunarferli við náms- og starfsval – Írland
- sérstök umfjöllun um kosti iðn- og verknáms
- upplýsingar um vinnumarkað til nema á fyrstu árum í háskólanámi
- efni til aðstoðar fullorðnum til að snúa aftur til náms eða skipta um starfsvettvang
- konur í karllægum greinum t.d. STEM – fyrirmyndir
- upplýsingar á fleiri tungumálum , kynning á menntakerfi og vinnumarkaði fyrir innflytjendur.
Þá er einnig fjallað nokkuð ítarlega um atriði sem hafa þarf í huga við uppbyggingu upplýsingasíðna um nám og störf sem og heppilegar birtingarmyndir efnisins sem þar er að finna.
Og lærdómurinn er?
Það er sennilega nokkuð óumdeilt að skynsamleg ákvarðanataka í vali á námi og starfi er hvort tveggja mikilvæg fyrir velferð fólks og vinnumarkað. Slíkar ákvarðanir þýða að fólk stefnir að starfsferli sem hæfir getu þess og áhuga og eru einnig nauðsynlegar til að virkja sem best þann mannauð sem til staðar er. Fyrirliggjandi upplýsingar þurfa hins vegar að vera hvort tveggja aðgengilegar og réttar.
Og þarna standa stjórnvöld frammi fyrir áskorunum. Við ákvarðanatöku, sér í lagi ungs fólks, þarf að styðja, bæði með leiðsögn í skólum og öflugri upplýsingagjöf. Og það er alls ekki sama hvernig slíkum upplýsingum er miðlað. Þær verða að tala til fólks, vera áreiðanlegar og viðeigandi á hverjum tíma.
Við uppbyggingu vefsvæða um störf og námsleiðir þarf því að hafa í huga hvernig ungt fólk tekur ákvarðanir. Huga þarf að framsetningu efnis og hönnun vefsíðna í bland við hagnýt verkfæri þar sem notandinn getur stýrt ferð sinni sjálfur. Þá þurfa slík vefsvæði að vera hluti af víðara stuðningskerfi þar sem viðeigandi ráðgjöf og fræðsla er í boði og horft til þeirra sem hafa áhrif í ákvarðanatökuferlinu; foreldra, kennara og jafnaldra.
Þannig virðist líklegast að hægt sé að leiðbeina og ýta undir upplýst og vel ígrundað náms- og starfsval.
Heimildir:
The role of labour market information in guiding educational and occupational choices. OECD Education Working Papers no. 299. October, 2020.
The Gatsby Benchmarks. Good Career Guidance.