- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Bætum íslenskunám og aðlögun fullorðinna innflytjenda

Verkefnið Virkni og vellíðan í Reykjanesbæ

Á Íslandi líkt og í öðrum löndum í hinum vestræna heimi, er fólki sem er á flótta frá stríði, náttúruvá og ótryggu stjórnmálaástandi í heimalandi sínu veitt athvarf. Þetta kallar á aukinn stuðning fyrir innflytjendur til náms í tungumáli hins nýja heimalands auk þess að leggja áherslu á að þeir aðlagist samfélaginu. Um áramótin 2021 – 2022 voru 57.126 innflytjendur hérlendis sem er 15,5% mannfjöldans á Íslandi og eru Pólverjar fjölmennastir.

Suðurnesin skera sig úr því þar eru innflytjendur um 28% íbúanna (Hagstofan, 2021) og af þeim koma um þúsund manns frá svæðum utan Vesturlanda. Hér á eftir er sjónum beint að innflytjendum frá fjarlægari svæðum heimsins sem tóku þátt í verkefninu Virkni og vellíðan í Reykjanesbæ vorið 2021 og höfðu móðurmál sem er lítt skylt íslensku.

Verkefnið

Í aðdraganda verkefnisins Virkni og vellíðan hafði komið í ljós að úrbóta væri þörf á námi og kennslu í ÍSAT út frá mati sem gert var af hálfu Menntamálaráðuneytisins (Menntamálaráðuneytið, 2015) þar sem kemur fram að nokkrum hluta fullorðinna, erlendra námsmanna í ÍSAT veitist erfitt að ná grunntökum á nýja tungumálinu og að fyrsti áfangi námsins er of þungur og víðtækur. Háskólinn á Akureyri (2019) kannaði viðhorf erlends fólks á Íslandi til íslenskunámskeiða og símenntunar meðal rúmlega tvö þúsund innflytjenda og höfðu 80% þeirra sótt námskeið. Megin niðurstaða könnunarinnar var að 25% svarenda voru ánægðir með íslenskunámið en 60% óánægðir.

Kannanir og rannsóknir á námi í nýju tungumáli benda eindregið til þess að gæta þurfi sérstaklega að grunnleikni nemenda í lestri  og orðaforða. Í verkefninu Virkni og vellíðan var orðaforðanámið byggt á að nemendur lærðu og skildu algengustu orðin í íslensku og fjölbreytilegum tengingum orða, texta og mynda í stað hefðbundinnar kennslu út frá texta. Hugmyndir að framangreindri nálgun byggja á rannsóknum meðal erlendra ungmenna á Íslandi (Sigríður Ólafsdóttir, 2015 og PISA 2018) sem sýna að þau skortir lesskilning og orðaforða með þeim afleiðingum að þessi hópur stendur langt að baki innlendum jafnöldrum sínum.

Hefðbundið námsefni nýtist misvel

Eins og áður kemur fram í mati á íslenskukennslu fyrir innflytjendur  veitist fyrsti áfangi námsins mörgum fullorðnum, erlendum nemendunum erfiður. Flestar símenntunarmiðstöðvarnar nota námsefnið Íslenska fyrir alla (Tungumálatorg, 2008) í upphafs-áföngum ÍSAT enda er það aðgengilegt og efnismikið. Þrátt fyrir ágæti þessa námsefnis er reynsla höfundar að það nýtist ekki nema að nemendur hafi vald á lestri á íslensku. Í verkefninu Virkni og vellíðan kom það sama fram hjá þeim þátttakendum sem áður höfðu farið á slík námskeið í ÍSAT.

Hér á eftir er skýrt hvernig má taka fyrstu skrefin í íslenskunámi þannig að þau verði viðráðanleg og nái betur til fjölbreytts hóps þátttakenda í grunnnámi í ÍSAT fyrir fullorðið, erlend fólk.

Fjölbreyttur nemendahópur

Félagsþjónusta Reykjanesbæjar átti frumkvæðið að verkefninu vorið 2021 í samvinnu við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og fleiri aðila á svæðinu. Þrjátíu manns á aldrinum 20-64 ára með fjölbreyttan bakgrunn tóku þátt, flestir höfðu verið hérlendis innan við tvö ár en nokkrir mun lengur. Allmargir voru frá arabalöndum en komu til Íslands eftir dvöl í Venesúela. Aðrir voru innfæddir í Venesúela, nokkrir frá Afríkulöndum, Kákasus, Makedóníu og Englandi og um helmingurinn talaði ensku auk móðurmálsins. Menntunarlegur bakgrunnur var breiður, frá því að hafa ekki gengið í skóla, flestir með starfsmenntun og fáeinir  háskólamenntaðir. Hagir þátttakenda voru einnig mismunandi, helmingur þeirra átti fjölskyldu hérlendis en hinir bjuggu einir, þau áttu samlanda að vinum og nokkrir íslenska kunningja. Aðrir biðu eftir fjölskyldusameiningu og tveir voru í þann mund að flytja á höfuðborgarsvæðið. Meirihluti hópsins hafði starfað á Íslandi  skamman tíma en höfðu misst vinnuna vegna kórónufaraldursins.

Verkefnið var hýst hjá Hjálpræðishernum á Ásbrú í Reykjanesbæ og lögðu starfsmenn hans til heitan hádegismat þá fjóra vikudaga sem þátttakendur mættu til náms. Dagskráin var skipulögð, tveir dagar í ÍSAT með samfélagslegu ívafi og tveir dagar með fjölbreyttri dagskrá s.s. verkstæðisnámi, heimsóknum á söfn og í fyrirtæki, stofnanir, fyrirlestrum og öðru. Þátttakendum var skipt í kvenna- og karlahóp og verkefnið stóð yfir frá mars fram í júní.

Námsefni sem mætir nemendum

Í upphafi verkefnisins var ákveðið að kennsla og viðfangsefni ættu að mæta nemandanum þar sem hann var staddur, með öðrum orðum að hafa nemendur með í ráðum við val á útfærslum, hlusta á skoðanir þeirra á gagnsemi verkefna, gæta að einstaklingsmun meðal annars með tilboði um viðbótarverkefni og að ýta undir virkni nemenda á eigin forsendum.

Kennsla, nám og námsefni

Útbúin var námsbók úr námsefninu Orðasjóði sem er kaflaskipt eftir þemum og gengur út á að endurtaka sömu 9 -12 orðin tengt myndum sem skýra orðin og við það bættust verkefni frá kennara og margskonar spil, leikir, umræður og viðbótarverkefni sem nemendur völdu sér. Að auki lærðu nemendur um íslensku málhljóðin út frá vefefninu Stafaplánetur, notuðu þjálfunarefni í hljóðtengingum og 100 algengustu íslensku orðin.

Síðar bættust við þemu út frá heilstæðum myndum sem tengdust bakgrunni þátttakanda s.s. af landslagi í heimalandinu, myndir þar sem allt er að gerast í borginni eða sveitinni og fleira.

Taflan sýnir skipulag og helstu leiðir sem voru farnar

Frumkvæði nemenda

Virkni nemenda var misjöfn eftir þemum og verkefum og jókst eftir því sem á námskeiðið leið. Eftir að hafa lagt fyrir verkefni fylgdist leiðbeinandi með vinnu þeirra, bauð hjálp, spurði út í einstök atriði og hvatti þau til að beita eigin aðferðum og hugmyndum. Þau tóku myndir af verkefnum t.d. röðuðu saman myndaspjöldum úr spilunum, nemendur teiknuðu myndir út frá orðum og setningum, skrifuðu íslensku rittáknin og setningar með rittáknum móðurmálsins (út frá hljóði) og fengu aðstoð og skýringar við heimanám sitt og barna sinna. Nokkur notuðu liti til að orðflokkagreina orð og texta og fengu námsspil lánuð til að spila heima og aðrir sóttust eftir fjölbreyttari og þyngri verkefnum. Einstaka nemendur skráðu hjá sér minnisatriði tengd námi og kennslu og héldu dagbók til að rifja upp, báðu um frekari skýringar og spáðu í nýjar leiðir í náminu. Sjálfsnám þátttakenda varð æ sýnilegra eftir því sem á verkefnið leið sérstaklega meðal þeirra sem höfðu grunntök á íslensku.

Bakgrunnur nemenda tengdur náminu

Til að varpa ljósi á hve mikilvægt er að tengja nám og reynslu sem af því hlýst við nemendur og bakgrunn má vísa til hugmynda Knowels (1998) um það sem einkennir fullorðna námsmenn miðað við börn og ungmenni. Fullorðnir þurfa tilgang með námi sínu, þeir taka ábyrgð á því, læra þegar þörfin fyrir nýja þekkingu sýnir sig og nýta sér nám og þekkingu í lífi og starfi. Fyrri reynsla og aðstæður hafa áhrif á nám fullorðinna, stundum er hún neikvæð og veldur vandamálum en getur líka eflt þá til að bæta sig í námi og öðrum verkefnum. Hér á eftir er dæmi um hvernig fullorðnir tengja reynslu sína námi.

Höfundur sagði frá því að föðurafi og amma hennar hefðu eignast ellefu börn sem leiddi til umræðna um afa og ömmur. Úr þessu varð keppni um ömmuna sem hefði átt flest börn sem endaði með því að einn nemandinn vann því amma hans hafði fætt sautján börn. Ömmu og afa umræðan tók sig upp af og til námskeiðið á enda, bæði sem hluti af náminu og manna í millum í matartímum og frímínútum. Nefna mætti margt fleira sem tengist bakgrunni og reynslu nemendanna en aðalatriðið var að með þessum umræðum og reynslusögum þróaðist gagnkvæm virðing og traust milli nemenda og leiðbeinenda auk þess að frumkvæði og virkni jókst til muna sem sýndi sig m.a. í að karlahópurinn ákvað að halda veislu.

Hádegismaturinn – fréttirnar – veislurnar

Hjálpræðisherinn á Suðurnesjum eru virk mannúðarsamtök, sjálfboðaliðarnir starfrækja endurnýtingarverslun með föt og fleira auk þess sem samtökin eiga myndarlegt félagsheimili. Starfsmaður á þeirra vegum sá hópnum fyrir heitum hádegismat auk þess sem nokkrir sjálfboðaliðar sem starfræktu m.a. verslunina, borðuðu með hópnum í hádeginu. Margir þátttakendanna í verkefninu bjuggu einir og aðrir áttu langt í verslun svo þeir nýttu sér þetta góða tilboð. Matartímarnir þróuðust á mjög ánægjulegan hátt, fólkið kynntist og nemendur fengu tækifæri til að nota íslensku og margskonar jákvæð samskipti.

Svo eru það veislurnar, upphaflega kom einn nemenda, sem er kokkur með hugmynd um að karlahópurinn (þeir sem vildu) sæi einu sinni um hádegismat sem komst í framkvæmd skjótt og vel. Þetta leiddi til umræðu um frekari matarpartí sem þróaðist í að nemendur héldu veislu í lok námskeiðsins. Endirinn varð útskriftarhátíð þar sem gómsætur, framandi matur var á boðstólum og til hátíðarinnar var boðið ýmsum sem komu að verkefninu. Undir sameiginlegu borðhaldi tóku menn og konur til máls m.a. leiðbeinendur á námskeiðinu, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og allmargir nemendur sem m.a. lofuðu  leiðbeinendur og samfélagið, sögðu frá því sem þau höfðu lært og einnig frá bakgrunni sínum. Ræður nemendanna voru ýmist á íslensku, ensku eða móðurmálinu sem síðan voru túlkaðar af þeim sem það gátu. Úr varð mikil hátíðastund sem gladdi hjarta viðstaddra.

Gosið í Fagradalsfjalli

Í matartímanum var oftar en ekki hlustað á fréttir í útvarpinu sem leiddi til þess að þátttakendur spurðu hvað væri efst á baugi. Á þessum tíma var eldgosið í Fagradalsfjalli oft í fréttum og var hægt að fylgjast með því í beinni útsendingu. Af þessu varð tilefni til að fræðast um jarðfræði Íslands og áhrif eldgosa en einnig náttúruhamfara sem þátttakendur þekktu til eða höfðu upplifað sem leiddi til þess að skipulögð var ferð að gosstöðvunum í Geldingadölum. Í ferðinni upplifðu þátttakendur undur náttúrunnar, gleymdu stað og stund og þessi sérstaka, sameiginlega reynsla leiddi til þess að nokkrir þátttakendur fóru að fylgjast með fréttum af gosinu auk þess samheldni í hópnum jókst og gosið varð daglegt umræðuefni.

Ruslaþemað

Nokkrir karlkyns fóru þess á leit við verkefnisstjóra að fá verkefni, þeim leiddist að hafa ekkert að gera. Svo vildi til að hin árlega vorhreinsun í Reykjanesbæ var í gangi, verkefnisstjórinn útvegaði ruslatínur og ruslapoka. Ekki var að sökum að spyrja, hópurinn fór af stað og hreinsaði ekki einungis opin svæði á Ásbrú heldur tók líka til hendinni á víðar í bænum. Í framhaldi af þessu leituðu verkefnisstjóri og karlarnir að fleiri verkefnum og í vor og sumar lögðu nemendur gjörva hönd á plóg að breyta gömlu slökkvistöðinni í aðstöðu fyrir nýstofnað Borðtennisfélag Reykjanesbæjar og í sumar tók minni hópur húsnæði Fjölskylduhjálparinnar í gegn að utan og nokkrir tóku að sér viðgerðir og stúss fyrir einstaklinga. 

Námssamfélagið og samheldnin

Svo gæfulega fór að það sköpuðust jákvæð samskipti innan hópanna sem m.a. má rekja til verkstæðanámsins og félagslegu verkefnanna og að flest tækifæri sem gáfust til umræðna voru notuð þrátt fyrir mismunandi tungumál og skoðanir. Fljótlega eftir að verkefnið hófst fengu nokkrir þátttakendanna hlutverk sem þýðendur og túlkar. Þetta gerðist ekki formlega en hlutverkinu tóku þau vel og voru gefandi og ómetanleg í mörgum verkefnum og samskiptum. Þess var gætt að ofnota ekki þessa greiðvikni og eftir á að hyggja hefði verið betra að ramma þetta betur inn þannig að aðrir þátttakendur yrðu ekki of háðir því að fá slíkan stuðning.

Eftir því sem verkefninu vatt fram sáust mörg dæmi um samheldni í hópnum. Má þar nefna að þegar þátttakendur tóku börnin sín með sér vakti það gleði og allir tóku þátt í að hafa ofan fyrir barninu, þátttakendur sem áttu bíl skutluðu hinum í búð eða til að ná í börnin, skipst var á barnafötum og þau veittu hvert öðru stuðning m.a. varðandi framvindu fjölskyldusameiningar og um ýmis úrræði tengd fjármálum. Félagskapur, vinátta og gagnkvæmur skilningur blómstraði þvert á þjóðerni og ólíkan bakgrunn svo tengslanet hvers og eins þátttakanda víkkaði. 

Ofanritað eru dæmi um námssamfélagið og félagslegan ávinning sem skapaðist í Virkni og vellíðan en vert er að geta nokkurra fleiri þátta og atvika í stikkorðastíl. Hópurinn var með tvo lokaða hópa á Facebook sem nýttust bæði í náminu og öðrum samskiptum, nemendur sendu rafræn skilaboð (t.d. ef þeir kæmust ekki) til leiðbeinenda og sín á milli og þau kenndu hvert öðru á notkun snjallsíma tengt náminu t.d. að nota google myndir út frá orði sem þau skildu ekki. Oft var gripið til hlutverkaleikja t.d. að leika orð sem þau voru að vinna með, nemendur æfðu símtöl þar sem leiðbeinandinn lék t.d. tannlækninn og nemendur pöntuðu tíma og stundum stjórnuðu nemendur orðabingói fyrir hópinn.

Hefðbundnar hugmyndir um nám fela í sér nemendur í skólastofu þar sem kennarinn stjórnar því sem fer fram og nemendur tileinka sér þekkingu og færni í einstökum námsgreinum. Félagslegar kenningar um nám fullorðinna benda hins vegar á að þekking og reynsla eru hluti daglegs lífs og nýtist og á sér stað í vinnunni, í félagahópi og samfélaginu auk þess að hafa áhrif á skoðanir, líðan og tilfinningar (Wenger, 1998). Danski fræðimaðurinn Illeris (2001) bendir á hvernig vitund, tilfinningar og samfélag spili saman í námi og hafi áhrif á það sem býr innra með námsmanninum, tengist virkni og umhverfinu. Þessar hugmyndir vekja athygli á því að nám í nýju máli og aðlögum innflytjenda að nýju samfélagi fer fram víðar en í kennslustofunni, miklu skipti að nemendur geti notað og útvíkkað málnotkun sína og að þeir tengist umhverfinu og eflist til þátttöku í samfélaginu. Í verkefninu Virkni og vellíðan skapaðist námssamfélag þrátt fyrir mörg, ólík tungumál nemendanna og það virkaði eins og æfingarbúðir fyrir þátttöku þeirra í samfélaginu utan námskeiðsins.

Mat leiðbeinanda á námi og virkni

Í stað formlegs námsmats kannaði leiðbeinandi orðaforða þátttakendanna í upphafi námskeiðsins og tók einnig viðtöl við þau fyrir lok námskeiðsins um hvernig hefði gengið að þeirra mati. Flest voru mjög ánægð með námskeiðið, þau sem engin tök höfðu á íslensku í byrjun sögðust flest skilja meira og langa til að læra meira. Þau sem höfðu áður verið á íslenskunámskeiðum töldu sig hafa fengið betri innsýn í íslenskunám sitt og hvernig mætti halda því áfram. Þátttakendurnir sögðu að vináttan og kynnin sem urðu til skiptu þau miklu máli, þau hefðu lært að læra og hefðu meira sjálfstraust til að taka þátt í samfélaginu. Af og til mat leiðbeinandi ýmsa þætti s.s. færni nemenda í einstökum námsþáttum, lestur, virkni í mismunandi verkefnum og tók mið af þeim í kennslu og námsverkefnum. Í samantekt leiðbeinanda í lok námskeiðsins má greina framfarir hjá öllum þátttakendunum í lestri og orðaforða á íslensku auk þess að virkni og áhugi var auðsýnilega mun meiri en í upphafi.  

Lítill kynjamunur

Fram kom munur á karla- og kvennahópnum, karlarnir sýndu oftar frumkvæði og verkefni þeirra teygðu sig fremur út í samfélagið en virkni i kvenhópnum var fremur inn á við og lýsti sér í gagnkvæmri hjálpsemi og samvinnu innan hópsins. Námsástundum var mikil í báðum hópunum svo og var ekki munur á frumkvæði í námi né sveigjanleika í að nýta sér eintök verkefni og að taka þátt í hópverkefnum.

Framhaldið

Vert er að geta þess að þátttakendum í námskeiðinu bauðst áframhaldandi stuðningur varðandi atvinnumál og félagsleg tengsl og nú á haustdögum hafði helmingur hópsins fengið vinnu, nokkrir héldu áfram í sjálfboðastörfum og a.m.k. tveir höfðu fengið fjölskyldu sína til sín og eru uppteknir við að skapa henni samastað og koma henni inn í samfélagið. Hluti hópsins hélt íslenskunáminu áfram í haust á hefðbundnum íslenskunámskeiðum hjá MSS og einn þátttakandinn hefur hafið nám í Háskóla Íslands.

Leiðir til að styðja við íslenskunám og aðlögun innflytjenda

Að flytjast til framandi lands, læra nýtt tungumál og aðlagast nýju samfélagi er flókið og erfitt verkefni sem leiðir til grundvallarbreytinga í daglegu lífi, viðhorfum og á félagslegri stöðu. Helsti stuðningurinn sem nýjum borgurum býðst við að ná fótfestu í nýjum aðstæðum eru námskeið og aðlögunarverkefni sem þurfa að hafa þann áhrifamátt að þeim verði kleift að lifa með reisn í áður óþekktum aðstæðum. Kenningar Mezirows (2003) um umbreytinganám fjalla um hvernig fullorðnir nota sér þekkingu og reynslu og að hún hafi áhrif á líf þeirra og skoðanir. Umbreytingaferlið hefst á nýrri reynslu og/eða þekkingu sem hefur áhrif á einstaklinginn, hann endurmetur eigin skoðanir og viðbrögð út frá því nýja sem hann veit og skilur og þetta leiðir til umbreytingar á sjónarmiðum og lífi viðkomandi. Mezirow (2003) fjallar einnig um hlutverk leiðbeinanda fullorðinna námsmanna og leggur áherslu á að ekki nægi að námsmenn nái hefðbundnum námsmarkmiðum heldur þurfi til að koma stuðningur sem leiðir til sjálfstæðrar hugsunar, virkni í námi og umræðum meðal þátttakendanna. Ýmsir fræðimenn hafa útvíkkað kenningu Mezirows (Merriam og Baumgartner, 2020, bls. 186-195) m.a. út frá hvernig kennsla og nám fer fram, umbreytinganám út frá mismunandi menningu, efnahagslegri- og félagslegri stöðu nemenda. Til að stuðla að umbreytinganámi þarf að byggja upp og hlúa að gagnkvæmri umræðu og trausti í námshóp þannig að þátttakendur æfi og nái valdi á færni og/eða innsýn sem er þeim nauðsynleg í nýjum aðstæðum. Heilstætt nám og kennsla þar sem tekið er tillit til hugarfars, tilfinninga, bakgrunns og andlegs ástands fullorðinna eru lykilatriði til að umbreytinganám eigi sér stað.

Gagnrýnar kenningar um nám fullorðinna tengjast m.a. minnihlutahópum, sérstöðu þeirra og hvernig má ryðja úr vegi ýmsum félagslegum hindrunum (Merriam og Baumgartner, 2020, bls. 290-376) m.a. tengt kyni, efnahag og þjóðfélagsstöðu. Ýmsir þættir í verkefninu Virkni og vellíðan tengjast stöðu þátttakendanna sem innflytjenda sem þurfa stuðning og hvatningu til að rjúfa einangrun og takast á við áskoranir í nýju samfélagi.

Kenningar og hugmyndir skýra lærdóm sem draga má af verkefninu Virkni og vellíðan (og almennt varðandi ÍSAT fyrir fullorðna, erlenda námsmenn) sem verður fjallað um hér á eftir.

Lærdómar sem draga má af verkefninu.

Kjarni verkefnisins Virkni og vellíðan felst í nafni þess: Að þátttakendur verði virkir í námi og umbreytingum á eigin forsendum, í samvinnu við aðra og í samfélaginu. Með fjölbreyttum leiðum í kennslu, námi og persónu- og félagslegum stuðningi birtust nýir möguleikar, tengsl og aðgengi að samfélaginu. Af fjölmörgum dæmum má nefna lestrarnámið sem annars vegar nýttist byrjendunum til ná grunntökum á lestri og ritun á íslensku og þeim lengra komnu til að skilja uppbyggingu tungumálsins og færni í að tjá sig. Þátttakendur þróuðu eigin leiðir í náminu, sumir endurtóku námsverkefnin, aðrir notuðu vefefni til að auka færni sína og margir skráðu hjá sér upplýsingar (námsdagbók) og nýttu sér þær á fjölbreyttan hátt.

Hér hefur verið dregin upp mynd sem sýnir að kenningar og rannsóknir sýna fram á að einkenni fullorðinna námsmanna svo sem sjálfstæði í eigin námi, hagnýtingu námsins og áhrif náms birtist í umbreytingu (Knowels 1998 og Mezirow 2003). Eins er bent á að talsverður hópur fullorðinna, erlendra innflytjenda hérlendis er ekki ánægður með það nám sem þeir hafa tekið þátt í (Háskólinn á Akureyri, 2019) og að upphafsáfangar í hefðbundnum námskeiðum í ÍSAT er talinn of víðtækur og þungur (Menntamálaráðuneytið, 2015). Í námskeiðinu Virkni og vellíðan kom fram nauðsyn þess að námsefni og kennsluhættir mæti fullorðnum, erlendum námsmönnum á þeirra forsendum, veiti þeim tækifæri til að nýta sér nám út frá eigin bakgrunni og forsendum þannig að námið þjóni tilgangi í lífi og starfi. Höfundur dregur þá ályktun af framangreindu að leiðbeinendur í ÍSAT fyrir fullorðna, erlenda námsmenn þurfi að gæta að notkun formlegs námsefnis og að kennsluhættir falli að reynslu og þekkingu námsmanna. Sveigjanleiki, fjölbreytni og einstaklingsstuðningur er líklegri til árangurs fyrir nemendur sem eru að taka fyrstu skrefin í nýju og framandi tungumáli og umhverfi (Merriam og Baumgartner, 2020) og án slíks stuðnings er hætta á að innflytjendur einangrist og öðlist ekki þann kjark og áræðni sem þarf til að lifa farsælu lífi í nýju samfélagi.

Hugmyndir Wenger (1998) og Illeris (2001) um félagslegt nám sýna samhengi milli náms, einstaklings og námssamfélags við umhverfi, daglegt líf og aðstæður utan veggja skólastofunnar (Wegner, 1998). Þetta og mat Menntamálaráðuneytisins (2015) á ÍSAT að bæta þurfi aðstæður erlends fólks í íslenskunámi svo þeir geti þjálfast meira í nýja tungumálinu, undirstrikast í verkefninu Virkni og vellíðan þar sem kom fram að sumir þátttakendur höfðu lítil tök á íslensku þrátt fyrir að hafa farið áður á ÍSAT námskeið (sjá einnig könnun Háskólans á Akureyri, 2019). Til að rjúfa einangrun innflytjenda í upphafi dvalar í framandi landi þarf að opna sem flestar leiðir út í samfélagið, í fjölskyldulífið og inn í framtíðina. Jafnframt þessu benda kenningar Illeris (2001) til að nám hafi áhrif á innri vitund, tilfinningar og með tilliti til þess þarf að gæta að hvernig má auka virkni, vellíðan og þátttöku í samfélaginu. Dæmi um þetta í Virkni og vellíðan verkefninu eru m.a. að nýta námið til að taka frumkvæði og verða sýnilegur í samfélagslegum sjálfboðaverkefnum sem og að bjóða fólki til útskriftarveislu og að þátttakendur tóku þar til máls af eigin frumkvæði, sögðu frá sér og reynslu sinni af verkefninu.

Lestur, læsi, orðaforði og tjáning eru leiðarstef í íslenskunáminu og þessa þætti var reynt að tengja sem best bakgrunni, móðurmáli og reynslu þátttakendanna til að hver og einn eignist sinn eigin hlut í námi og reynslu. Þó að aðferðin við grunnþætti íslenskunámsins hafi verið um sumt tilraunakennd gagnaðist hún vel til að ræða og skoða nánar mikilvæg atriði eins og framburð, hljóðtengingar, óhljóðrétt orð og fleira (sjá umfjöllun að framan um lestrar- og orðaforðanám). Þetta leiddi síðan til þess að fleiri viðfangsefni voru innleidd og framkvæmd með samtali innan hópsins þar sem margskonar reynsla og skoðanir þátttakenda voru í forgrunni. Meðal umræðuefna er vert að nefna frásagnir af lífsreynslu þátttakenda, stjórnmálum í mismunandi heimalöndum þeirra, vinnustöðum, menningu, tungumálum og fleiru. Þegar á námskeiðið leið urðu nemendur öruggari, fljótari til að taka orðið, lásu upphátt, tjáðu sig meira á íslensku, skelltu upp mynd á tölvuskjá eða vitnuðu til umræðu sem fór fram fyrr í námskeiðinu. Eftir á að hyggja hefur þessi framvinda í íslenskunáminu svipaða drætti og lögð er áhersla á í umbreytandi námi, ný reynsla, endurmat á henni og þátttaka og áhrif úr umhverfinu leiða til breytinga á tilfinningum, skoðunum og sterkari sjálfsmynd (Mezirow, 2003).

Virkni og vellíðan hafði mikil áhrif á höfundinn sem leiðbeinanda fullorðinna, erlendra námsmanna, ekki síst að þjálfast í að sleppa tökunum, treysta þátttakendum að læra á eigin forsendum og fara mismunandi leiðir í náminu. Í kennslustofunni voru töluð mörg tungumál, sterk tilhneiging þátttakenda til að nota ensku sem millimál og flókið að sjá út hvernig hver og einn nálgaðist námið. Fljótlega komst á meiri samvinna við nemendur, samtal um hvernig verkefnin virkuðu sem best og nánari einstaklingsmiðaður stuðningur. Með auknu öryggi og fjölbreyttari verkefnum þróaðist kennslan og námið í að verða heilstæðara og ánægjulegra sem leiddi til þess að leiðbeinandinn fékk meiri innsýn í mismunandi aðferðir nemendanna og meiri færni í að styðja þá í vali á verkefnum sem þeim hentaði. Kennslan breyttist líkt og fjallað er um varðandi umbreytinganám (Mezirow, 2003), leiðbeinandinn upplifði nýja reynslu, endurmat aðferðir sínar, fann nýja fótfestu í styðjandi leiðbeiningum og beindi athygli sinni að persónulegum aðferðum nemendanna, samvinnunámi þeirra og vaxandi áhuga og árangri. Reynslan af verkefninu hefur veitt nýja sýn á kennslu fullorðinna námsmanna þar sem traust á þeim og virðing fyrir ólíkum bakgrunni og reynslu er í fyrirrúmi ásamt því hversu mikilvægt er að nám veiti gott veganesti inn í framtíðina.

Lokaorð

Fullorðið fólk vill að nám og verkefni hafi tilgang og að stuðningur sé veittur með virðingu fyrir einstaklingum og/eða hópi. Verkefnið Virkni og vellíðan varð til í aðstæðum þar sem mættust annars vegar fagfólk í fræðslu- og velferðarmálum innflytjenda í Reykjanesbæ sem lagði saman þekkingu og innsýn sína og hins vegar hópur innflytjenda sem var í mun að eflast í erfiðum aðstæðum í nýju landi. Samvinnan sem tókst að koma á milli leiðbeinenda og nemenda leiddi til þekkingarleitar sem reyndist árangursrík auk þess að styrkja félagslega stöðu þátttakendanna og bæta færni leiðbeinandanna í starfi með fullorðnu, erlendu fólki.

Góður árangur af kennsluháttum og námsefni í Virkni og vellíðan verkefninu gefur tilefni til að þróa frekar kennslu í ÍSAT út frá áherslu á heilstætt lestrar- og orðaforðanám sem auðvelt er að tengja bakgrunni og reynslu fullorðinna, erlendra námsmanna. Einnig kom í ljós að fjölbreyttur stuðningur við einstaka þátttakendur, verkstæðisnám og samfélagsleg sjálfboða verkefni urðu að leið fyrir þátttakendur til að aðlagast samfélaginu og styrkja tengslanet sitt.  

Höfundur ber þá von í brjósti að þessi frásögn verði fleirum innblástur til að bjóða innflytjendur á Íslandi velkomna inn í samfélagið með því að styðja þá sem best til að aðlagast og njóta farsæls lífs á Íslandi. Áður hefur verið nefnt að slík aðlögun, sérstaklega að ná tökum á íslensku, þurfi ekki síst að eiga sér stað út í samfélaginu til að vel gangi. Nokkur verkefnanna sem getið er um í þessum skrifum eru til þess fallin s.s. orðaspil í kaffitímum á vinnustað, samtöl um daglega viðburði og leiðbeiningar um samfélagið. Ísland er orðið fjölmenningarlegt samfélag og því fleiri sem leggja hönd á plóg við að þróa það á jákvæðan hátt, því betur mun öllum farnast.

Heimildir:

100 orð (2020). Sótt af: https://www.100ord.is/.

Capacent (2015). Úttekt á íslenskukennslu fyrir útlendinga. Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Sótt af: https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2015/06/08/Uttekt-a-islenskukennslu-fyrir-utlendinga-mars-2015/

Hagstofa Íslands (2021). Íbúar/mannfjöldi. Sótt af: https://hagstofa.is/talnaefni/ibuar/mannfjoldi/

Háskólinn á Akureyri (2019). Samfélag án aðgreiningar? Viðhorf innflytjenda á Íslandi til símenntunar og íslenskunámskeiða. Akureyri. Sótt af: https://www.unak.is/static/files/Frettir/2019/mai/islenskukennsla-innflytjenda.pdf

Háskóli Íslands (vantar ártal) Lesvefurinn. Menntavísindasvið. Sótt af: //lesvefurinn.hi.is/.

Illeris, K. (2001). Voksenuddannelse og voksemlæring. Roskilde, Danmark, Roskilde universitetsforlag.

Jenný Berglind Rúnarsdóttir (2008). Orðasjóður. Reykjavík, Menntamálastofnun.

Knowles, M. (1998). The Adult Learner, The Definitive Classic in Adult Education and Human Recource Development. Huston, Gulf.

Merriam, S. B. Baumgartner, L. M. (2020). Learning in adulthood, a comprehensive guite. San Francisco, Jossey-Bass.

Mezirow, J. (2003). Transformative Learning as Discourse. Journal of Transformative Education 1: 6.

Sigríður Ólafsdóttir  (2015). The development of vocabulary and reading comprehension among  Icelandic second language learners. Menntavísindasvið. Reykjavík, Háskóli Íslands.

Sólborg Jónsdóttir og Þorbjörg Halldórsdóttir (2008). Íslenska fyrir alla. Reykjavík, Tungumálatorg.

Wenger, E. (1998). Communities of Practice: Meaning, Learning and Idendity. Cambridge, Mass:, Cambridge University Press.

Að verkefninu stóðu:

  • Inga Dóra Jónsdóttir, félagsráðgjafi hjá Reykjanesbæ
  • Eydís Henze Pétursdóttir félagsráðgjafi  hjá Reykjanesbæ i.
  • Sveindís Valdimarsdóttir verkefnisstjóri hjá MSS
  • Kristín Hjartardóttir, verkefnisstjóri hjá MSS
Unnur G. Kristjánsdóttir

Unnur G. Kristjánsdóttir hefur kennt íslensku sem annað tungumál (ÍSAT) á Suðurnesjum í 15 ár, aðallega í grunnskóla en einnig fullorðnum, erlendum námsmönnum hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum(MSS). Þar hefur verið boðið upp á slíkt nám frá stofnun og fjölbreytt reynsla í kennslu íslensku sem annars máls bæði út frá hefðbundinni námskrá og einnig í námskeiðum og verkefnum sem tengjast afmörkuðum hópum, fyrirtækjum og stofnunum verið byggð upp.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi