- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Elska þetta starf !

Að upplifa að fólk hafi tekið skref fram á við í lífinu og sett sér markmið í námi eða starfi er mikilvægur þáttur í starfi Steinunnar Bjarkar Jónatansdóttur, náms- og starfsráðgjafa hjá MSS á Íslandi.

Við hittum Steinunni til að forvitnast um hvernig MSS, Miðstöð símennt-unar á Suðurnesjum, nær til fólks með stutt formlegt nám að baki til að upplýsa um tækifærin sem eru í boði og aðstoða við fyrstu skrefin í námi.

Steinunn Björk Jónatansdóttir

„Við höfum lagað starfsemina að þörfum samfélagsins, við höfum lært að vera sveigjanleg og hlusta á þarfir íbúa og atvinnulífsins. Ég hef starfað hjá MSS í átta ár og á þeim tíma hefur starfið þróast töluvert sem mér finnst mjög athyglisvert og viðheldur brennandi áhuga,” segir Steinunn Björk, deildarstjóri fyrir náms- og starfsráðgjöf hjá MSS.

MSS á svæði þar sem margar áskoranir blasa við

„Á svæðinu búa margir innflytjendur og stór hópur þeirra þarf að tileinka sér grunnleikni með sérstakri áherslu á íslensku. Hópurinn er ekki einsleitur. Við reynum að hlusta á þau og bjóðum upp á ýmis tilboð bæði námskeið og námsleiðir. Ég get nefnt nokkur tilboð með áherslu á grunnleikni, lestur/skrift, munnlega og stafræna færni eða þjálfun í íslensku fyrir fullorðna: Grunnmennt, almennur bóklegur undirbúningur. Landnámsskóli fyrir innflytjendur með kennslu í íslensku og um íslenskt samfélag. Stökkpallur fyrir bæði innflytjendur frá Póllandi og hóp Íslendinga sem og Sérnámskeið um upplýsingatækni og stafræna færni svo eitthvað sé nefnt,“ segir Steinunn.

Náið og gott samstarf skiptir sköpum

„Við vinnum náið með Vinnumálastofnun, félagsþjónustunni og atvinnulífinu. Stór hluti starfseminnar snýst um að hlusta á þarfir. Hvar er þörfin fyrir vinnuafl, hvað á fólk að geta gert til að fá vinnu og til að halda vinnunni? Við erum svo lánsöm að margar af okkar samstarfsstofnunum eru staðsettar í sama húsi og MSS, Vinnumálastofnun á neðri hæðinni, endurhæfingarsjóðurinn VIRK á hæðinni fyrir ofan og Samvinna endurhæfing á sömu hæð og við og er ein deild innan MSS,“ segir Steinunn Björk og heldur áfram:

„Við erum líka í nánu samstarfi við sveitarfélagið. Við leggjum mikla áherslu á þetta samstarf, gott samband og stuttar vegalengdir. Til að komast í samband við atvinnulífið förum við út í fyrirtækin og kynnum starfsemina. Við erum meðvituð um að þau sem hafa stysta menntun sækja ekki endilega í nám, vita jafnvel ekki af þeim tækifærum sem eru í boði. Því er  mikilvægt að koma á tengingu og ná í þennan hóp. Við réttum fram höndina“

Raunfærnimat opnar ný tækifæri

Það gerist líka eitthvað í raunfærnimatinu. Fólk skilur að það veit og kann heilmikið. Fræin sem við sáum spíra og hrinda af stað nýju ferli. Þau þora að koma til okkar í nám. Ég er alltaf undrandi á því að það sé fólk þarna úti sem veit ekki  af þeirri þjónustu sem við veitum, veit ekki hvaða skref þarf að taka til að stíga aftur inn í skólakerfið. Að hægt sé að gera þá hæfni og þekkingu sýnilega sem þau hafa aflað sér á löngum tíma á vinnumarkaði og meta hana til styttingar á námi. Fólk sem fór út í atvinnulífið beint eftir grunnskóla og er fast þar. Þau eru ekki meðvituð um tækifærin sem við höfum skapað fyrir þau svo þau geti komið aftur í nám,“ segir Steinunn.

„Nú erum við að skipuleggja raunfærnimat og fræðslu fyrir aðstoðarfólk í leikskólum. Þá heimsækjum við alla leikskóla með tilboðum um kynningu á ferlinu. Bjóðum upp á þjónustu okkar og ráðgjöf. Við skiljum eftir upplýsingar um verkefnið og símanúmer með boði um að koma í samtal við ráðgjafa. Í raunfærnimatsferlinu komumst við að því hver þörf þeirra fyrir nám er og getum sérsniðið tilboð.

Að læra að læra

„Við sem vinnum við náms- og starfsráðgjöf erum sérstaklega stolt af því að geta boðið upp á góða ráðgjöf og persónulega þjónustu sem og námsumhverfi þar sem einstaklingnum líður vel. Grunnmennt er fyrir þau sem snúa aftur til náms eftir langt hlé og hafa vilja til að búa sig undir formlegt nám. Grunnmennt er námsleið sem felur í sér sérsniðna kennslu í grunnleikni; lestur/skrift, bæði íslensku og ensku, reikningi, munnlegri og stafrænni færni auk þess sem við ráðgjafarnir teljum einna mikilvægast, nefnilega að læra að læra,“ segir Steinunn.

„Við hjálpum þeim einstaklingsbundið að finna út hvaða leið hentar þeim við að læra. Við tökum eftir því að það styrkir sjálfstraustið og þau öðlast trú á að geta lært.“

„Ráðgjafarnir vinna náið með verkefnastjórum hverrar námsleiðar. Verkefnastjórarnir eru með puttann á púlsinum, fylgja eftir og veita okkur ráðgjöfunum upplýsingar. Við höfum samband við viðkomandi til að kanna hvers vegna hann eða hún mætir ekki. Þegar við vitum hvers vegna, þá getum við fundið lausn saman. Við getum aðstoðað, veitt auka stuðning í kennslu til dæmis. Það er mjög mikilvægt að geta stutt og hvatt eftir þörfum,“ segir Steinunn.

Stoðver með aðstoð og leiðsögn

„Kennarar við miðstöðina hafa flestir áralanga reynslu af því að vinna með nemendum á mismunandi stigum í lestri/skrift, reikningi og stafrænni færni. Þeir mæta hverjum nemanda þar sem hann stendur. Og við bjóðum upp á aukaþjónustu; eftir hádegið höfum við opið stoðver. Í stoðverinu geta nemendur fengið aðstoð við allt sem þeir hafa ekki skilið til fulls í kennslustundum á morgnana, eða ráða ekki við í heimanámi. Kennarinn er til staðar fyrir þá. Núna eru þeir að vinna að ritgerðasmíð. Mörgum finnst það líklega óyfirstíganlegt en kennarar stoðversins hjálpa þeim að leysa verkefnið skref fyrir skref, eitt skref í einu. Til dæmis með því að draga upp nýjan vinkil í samræðum við þá og hjálpa til við næstu málsgrein og þau halda svo áfram,“ staðfestir Steinunn.

Reynsla þátttakanda

Hafsteinn Stefánsson hélt ekki áfram námi að loknum grunnskóla. Hann fór út á vinnumarkaðinn og fór að vinna en lenti bara í bulli eins og hann segir sjálfur. En hann komst út úr því og kærastan hans sagði Hafsteini frá MSS og þeim tækifærum sem þar eru. Nú er ár síðan Hafsteinn byrjaði í Grunnmennt.

Steinunn Björk og Hafsteinn hafa bæði stigið skref í átt að markmiðum sínum.

„Ég ákvað að setja mér markmið, vinna með líf mitt. Skráði mig hjá VIRK og komst í Grunnmennt. Í fyrstu var ég ekki viss um að ég myndi geta þetta. En ég náði mér vel á strik og komst fljótlega að því að ég vissi heilmikið. Nálgunin í kennslunni hér á MSS varð til þess að sjálfstraustið jókst. Mér gekk bara vel, gat klárað öll heimaverkefnin í skólanum,“ segir Hafsteinn Stefánsson og heldur áfram:

„Eftir að ég hafði lokið Grunnmennt með góðum árangri langaði mig að fara á næsta stig í Menntastoðum, til þess styrkja mig betur. Þar eru sambærileg kennsla við grunnáfanga í framhaldsskóla, íslenska, stærðfræði, enska og danska. Ég stefni á að verða rafvirki og vil undirbúa mig eins vel og hægt er. Já, stærðfræðiprófið gekk ljómandi vel, það verður tía,“ segir Hafsteinn Stefánsson.

Það sem ég elska við vinnuna mína

„Í morgun hitti ég Hafstein í móttökunni, hann var á leiðinni í stærðfræðipróf. Ég óskaði honum góðs gengis. Við hittumst aftur þegar hann var búinn með prófið sem honum hafði gengið vel að leysa. Hann hefur náð langt á þeim tíma sem hann hefur verið hér í námi hjá MSS. Og að upplifa að vinnan þín gegni hlutverki fyrir aðra, að þú hafir hjálpað fólki að ná skrefi lengra í lífinu, eða að ná markmiðum sínum, það er það sem ég elska við vinnuna mína”, segir Steinunn Björk Jónatansdóttir, náms- og starfsráðgjafi og deildarstjóri hjá MSS.

Sigrún Kristín Magnúsdóttir

Sigrún Kristín Magnúsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún er ritstjóri Gáttar og vinnur verkefni í Hæfnisetri ferðaþjónustunnar. Hún hefur sinnt ýmsum störfum við menntun og fræðslu fullorðinna í nær þrjá áratugi.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi