- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Faðir raunfærnimats

Jens Bjørnåvold var heiðraður á fjórða raunfærnimatstvíæringnum sem haldinn var í Reykjavík í maí síðastliðinn. Hann tók á móti Eggi lífsins fyrir æviverk sitt. Að mati margra er hann faðir raunfærnimats. Hann kann afar illa við hugtakið og vísar því staðfastlega á bug, og bendir á að það hafi að minnsta kosti verið nokkur hundruð aðrir „foreldrar“ á ráðstefnunni sem hafi lagt sitt af mörkum við þróun raunfærnimats.  

1990 Allt nám skiptir máli

­-  Ég fór að veita raunfærnimati athygli þegar ég hóf störf hjá Cedefop árið 1996. Hugmyndin um raunfærnimat, að varpa ljósi á og viðurkenna hverskonar nám var að vaxa fram í sumum löndum Evrópu. Mér varð ljóst að þetta tengdist fyrri störfum mínum beint, þar sem ég hafði beint sjónum að færniþróun í samhengi menntastofnana og fyrirtækja. Raunfærnimat er mikilvægt sökum þess að það nær til alls náms, hvar sem það fer fram í starfi eða heima en er ekki eingöngu bundið við það sem fer fram í skólastofunni. Mat á raunfærni tengist breytingu á hugarfari frá kennslu (e. teaching input) yfir í hæfniviðmið (e. learning outcome). Áhrifa þessarar breytingar gætti í auknum mæli í evrópskri stefnumótun og að ýmsu leiti má líta svo á að hún sé forsenda fyrir raunfærnimati, segir Jens Bjørnåvold.

Hæfniviðmið

Breytingin frá kennslu yfir í hæfniviðmið hefur víðtækari áhrif. Athyglin beinist fremur að því hvað nemandinn eigi að vita, skilja og vera fær um að gera að loknu námsferli, heldur en því hvernig þessum markmiðum var náð eða hvar námið fór fram. Víðtækt raunfærnimat gerir kröfu um lýsingu á hæfni, útskýringu á því að meta eigi allt nám og viðurkenna en ekki aðeins það sem hefur farið fram í kennslustofunni. Til þess að unnt sé að lýsa hæfni, undirstrikar Bjørnåvold, verður að endurskrifa námskrár og endurskoða afstöðu til þess hvernig kennsla eigi að fara fram. Mat sem aðeins beinist að kennslubókarþekkingu, til dæmis, kemur í veg fyrir/girðir fyrir mat á raunfærni.

– Athyglin verður að beinast að árangrinum. Ef skoðað er hvernig námskrár voru skrifaðar á áttunda áratugnum og hvernig þær eru skrifaðar í dag kemur í ljós að þær eru ólíkar. Áherslan á árangur námsins er mun greinilegri. Sem veitir tækifæri til annarra viðmiða. Ekki er metið á móti kennslubókinni sem nemandinn hefur átt að lesa, heldur er tekið tillit til þeirrar hæfni og leikni sem hann býr yfir, segir Jens Bjørnåvold. Líta má á raunverulega innleiðingu aðferða sem byggja á hæfniviðmiðum í flestum löndum Evrópu sem eina mikilvægustu forsendu fyrir því að raunfærnimat varð að veruleika.   

Nám alla ævi og ævivítt nám[i]

– Telja verður viðleitnina við þróun raunfærnimats og hugmyndafræðilega hliðrun yfir í hæfniviðmið mikilvæga þætti í yfirgripsmikla hliðrun yfir í ævinám og ævivítt nám.  Mótun stefnu um færni og hæfni getur ekki verið alfarið á ábyrgð menntastofnana því nauðsynlegt er að allir hagaðilar komi að því, þar með talið aðilar vinnumarkaðarins og félagshagkerfisins. Líta má á, stefnu um ævinám og ævivítt nám sem kom hægt og sígandi fram um aldamótin, eins og dæmið sem birt var árið 2000 í Minnisblaði ESB um ævinám og áformum fleiri þjóða, sem grundvöll fyrir þróun raunfærni. Lykilatriðið er að þróun raunfærni getur ekki orðið í einöngruðu umhverfi heldur er háð víðtækri þróun á stefnu, segir Jens.

Yfirlit yfir þróun raunfærnimats í Evrópu

Þróunin er mismunandi

Það á við um ferlið við mat á raunfærni, hæfniviðmið og ævinám, það er mismunandi eftir löndum. Á Íslandi hófst þróun raunfærnimats upp úr aldamótum þegar aðilar atvinnulífsins stofnuðu Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA).  Eitt meginmarkmið FA var að þróa aðferðir við mat á raunfærni til þess að auka framleiðni og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

– Ísland er undantekning meðal Evrópulanda, vegna þess að aðgengi að raunfærnimati og beiting raunfærnimats ekki jafn augljós í öllum löndum og hún er á Íslandi. Eitt af því sem  valdið hefur vonbrigðum er hversu langan tíma tekur að þróa og koma þessari hliðrun að. Enn eru margar hindranir í veginum, segir Jens Bjørnåvold.

Hæfnirammar

– Annað sem greitt hefur götu raunfærnimats er þróun hæfniramma stig af stigi frá aldamótum. Bæði Evrópski hæfniramminn og samsvarandi viðmiðarammar þjóðanna byggja á þrepaskiptingu hæfnieflingar sem auðveldar yfirfærslu og samansöfnun náms þvert á stofnanir og landamæri. Forsenda ævináms og ævivíðs náms er að fólk geti sameinað menntun og vottorð frá mismunandi stofnunum og geirum. Er til dæmis hægt að leggja starfsnám til grundvallar námi í háskóla? Er hægt að leggja fram vottorð um þjálfun í atvinnulífinu sem gildir í formlega menntakerfinu? Hæfnirammar veita yfirgripsmikla sýn á þá hæfni sem fyrir hendi er og varpa ljósi á hvernig hægt er að ná framförum með námi, lóðrétt, lárétt og/eða skáhallt í kerfinu. Samt er ekki alltaf hægt að taka tengingunum og innbyrðis tengslum sem gefnum. Þarna gegnir raunfærnimat mikilvægu hlutverki – auðveldar yfirfærslu og framvindu þvert á þrep, geira og stofnanir, segir Jens Bjørnåvold.

Menntun er ekki stigveldi

Við verðum að hætta að hugsa um menntun sem stigveldi sem liggur aðeins í eina átt. Raunfærni veitir tækifæri til að fara í allar áttir. Stundum er þörf fyrir að fara lárétt á kerfið, eða úr háskóla í starfsmenntun. Spyrja verður hvaða hæfni og færni er nauðsynleg og hvar hægt er að afla hennar.   

Kerfin eru að breytast 

– Annað umfangsmikið verkefni sem ég tek þátt í snýst um Framtíð starfsmenntunar og starfsþjálfunar í Evrópu (e. The Future of Vocational Education and Training in Europe). Þar beinum við sjónum að víxlverkun á milli upphaflegrar starfsmenntunar og þjálfunar ungs fólks og starfsmenntunar og þjálfunar sem símenntun fyrir fullorðna. Það vekur áhuga að víxlverkunin er að breytast. Sífellt fleiri fullorðnir sækja starfsnám frá grunni sem krefst þess að tillit sé tekið til fyrri reynslu þeirra. Afleiðing þess er að mikilvægi raunfærnimats eykst og auðveldar einstaklingsmiðaða þjálfun. Enn og aftur þá er ekki hægt að líta á raunfærnimat sem einangrað fyrirbrigði – nauðsynlegt er að skilja það í tengslum við breytingar á tilhögun menntunar og náms, staðhæfir  Jens Bjørnåvold.

Mesta persónulega afrekið

Fjöldi fólks telur Jens Bjørnåvold vera föður raunfærnimatsins. Aðspurður hvað hann telji persónulegt afreks sitt, svarar hann:

– Að hafa fengið tækifæri til þess að vinna við raunfærnimat í víðara samhengi. Treglega hefði gengið að þróa raunfærnimat án þess að skýra hugtakið hæfniviðmið, að leggja fram hæfniramma eða undirstrika mikilvægi ævináms. Ég er stoltur yfir því að hafa átt þátt í mótun og innleiðingu Evrópska hæfnirammans  og hliðstæðra ramma í löndum Evrópu. Nú hafa yfir 40 lönd í Evrópu sjálfviljug innleitt viðmiðaramma sem virðast virka vel.

Áframhaldandi samstarf

– Áframhaldandi samstarf er mikilvægt fyrir þróun raunfærnimats. Raunfærnimat hefur ekki verið þróað í einangraðri landsstefnu. Matið hefur þróast í öflugu samstarfi þjóða í nokkurskonar stefnumótunarnámi en ekki stefnuafritun. Til að ná árangri í framtíðinni er brýnt að halda áfram því kerfisbundna samstarfi sem hefur verið virkt síðan á tíunda áratugnum. Framlög til þessa samstarfs koma í gegnum  Raunfærnimatstvíæringinn, Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Cedefop og með könnunum og leiðbeiningum. Og síðast en ekki síst með því að nýta Erasmus áætlunina til þess að gera tilraunir og prófa í samstarfi, segir Jens Bjørnåvold.

– Ég mun láta af störfum hjá Cedefop og Brussel í lok þessa árs. En þótt ég snúi aftur til Noregs þýðir það ekki að ég hætti að vinna að raunfærnimati. Mig langar að halda áfram að gera rannsóknir og skrifa á mínum hraða í víðara samhengi, segir FCedeJens Bjørnåvold. 

Hér er krækja í ávarp Bjørnåvold við afhendingu viðurkenningarinnar


[i] Livelong learning er hér þýtt sem ævinám eða nám allt lífið en live vide learning ævivítt á við um nám á nýju sviði sem gerir einstaklingum kleift að breyta um starfsvettvang

Sigrún Kristín Magnúsdóttir

Sigrún Kristín Magnúsdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún er ritstjóri Gáttar og og fulltrúi Íslands í ritstjórn DialogWeb, veftímarits NVL. Hún hefur sinnt ýmsum störfum við menntun og fræðslu fullorðinna í nær þrjá áratugi.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi