Árið 2015 tóku Finnar upp kerfi leiðsagnarkennara, þar sem stafræn færni ákveðinna kennara var efld og þeir kenndu síðan samstarfsfólki sínu. Þegar heimsfaraldur Covid-19 reið yfir 2020 reyndist þetta vera slembilukka.
Finnum tókst nokkuð vel að brúa stafræna gjá sem kom í ljós á tímum heimsfaraldursins. Innra leiðsagnarkerfið, sem þegar hafði verið innleitt 2015 í því markmiði að efla stafræna hæfni kennara, gegndi lykilhlutverki. En frekari aðgerða er þörf.
Jaakko Vuorio samhæfir verkefni hjá finnsku menntamálastofnuninni og kom meðal annars að skýrslugerð um stafrænu gjána eftir heimsfaraldurinn, sem gefin var út árið 2021.
– Vinnan við skýrsluna hófst eiginlega um leið og faraldurinn braust út. Við söfnuðum upplýsingum um hvernig staðið var að fjarkennslu í Finnlandi og bárum það saman við það hvernig fjarkennsla fór fram í tengslum við heimsfaraldurinn í öðrum heimshlutum, segir hann.
Fjölmargar alþjóðlegar skýrslur voru lesnar í aðdraganda að skýrslu menntamálastofnunarinnar. Frá víðara alþjóðlegu sjónarhorni geta stafrænu gjárnar gert út af við þá hópa sem verst standa að vígi. Í skýrslunni er sérstaklega varað við því að heil kynslóð barna og ungmenna geti hafnað algjörlega utan menntakerfisins.
En jafnframt eru svo margar ólíkar hliðar á stafrænu þróuninni. Ein þeirra snýr til dæmis að því hvort vettvangur menntamála eigi að láta stóru tæknifyrirtækjunum leyfast að safna upplýsingum um fólk.
Kennarar á Norðurlöndunum gagnrýnni en aðrir
Þegar stafræn hæfni finnskra kennara var borin saman við aðrar þjóðir í Evrópu og annarsstaðar í heiminum kom í ljóst að þróunin var jákvæð allt fram til ársins 2019, en síðan þá hefur ekki mikið gerst. Skömmu áður en Covid-19 heimsfaraldurinn braust út var þróunin farin að staðna.
– Við tókum eftir að kennarar á Norðurlöndum voru gagnrýnni á notkun stafrænna tækja og stafræns efnis í kennslunni í samanburði við aðrar þjóðir í Evrópu. Þetta er hreinar getgátur, en ég held að þetta tengist því að hjá okkur er akademísk hefð ríkjandi. Meginregla náms er að beita gagnrýnni hugsun. Stafrænum fyrirtækjum fylgja líka vandamál, segir Jaakko Vuorio.
En óháð því hvað einstaka kennurum fannst, varð það óumflýjanlegt vorið 2020 að taka upp stafræna kennsluhætti.
– Grundvallarniðurstaðan er að breytingin frá bekkjarkennslunni yfir í fjarkennslu tókst eftir atvikum vel hjá okkur í Finnlandi, einkum með það í huga að umbreytingin varð að eiga sér stað afar hratt.
Verkþættir sem eru vandasamir í stafrænu umhverfi
Hvað varðar starfsmenntunina þá fólst í því áskorun að ákveðna verkþætti er einfaldlega ekki hægt að kenna á stafrænum fundum. Það er ekki hægt að gera við bíl á Teams.
– Þetta var óneitanlega áskorun ekki aðeins í Finnlandi, heldur um heim allan. En samt: Mörgum nemendum tókst að ljúka námi sínu, segir Jaakko Vuorio.
Skólar í Finnlandi voru lokaðir í um það bil 60 daga vorið 2020, þó allra yngstu nemendurnir, og nemendur með sérþarfir hafi fengið að koma í skólann ef þeir vildu. Um haustið tóku ákveðnir skólar með sérstakar þarfir upp kennslu með blönduðu fyrirkomulagi, bræðingskennslu þar sem tilteknir námsþættir voru kenndir í skólunum. Í þeim greinum starfsnáms þar sem nauðsynlegt er að sinna vissum verkefnum á staðnum.
Leiðsagnarkennarar allt frá 2015
Aðgerðir stjórnvalda, sem auðvelduðu umskipti yfir í stafræna kennslu, fólst í finnska kerfinu fyrir leiðsagnarkennara, áætlun sem þegar hafði verið kynnt árið 2015. Með stuðningi ríkisstjórnarinnar var hverjum skóla gert að útnefna kennara sem fengu að efla stafræna hæfni sína og nýta upplýsingatækni í kennslunni. Þessum kennurum var falið að endurmennta samstarfsfólk sitt. Þá var einnig komið á samstarfsneti, þar sem leiðsagnarkennararnir gátu lært hver af öðrum.
– Kerfið hefur verið stofnanavætt, og er talið áþreifanleg og jákvæð leið til þess að endurmennta sig í kennslu studdri með upplýsingatækni. Þegar fyrir Covid-19 voru leiðsagnarkennarar við 95 prósent skólanna. Við erum ánægð með það núna. Ef við hefðum ekki byrjað á þessu fyrr en 2018 hefðum við ekki haft sömu þekkingu og net þegar faraldurinn skall á, segir Jaakko Vuorio.
Átak um fjölgun kennara
Hættan á því að fólk, fyrst og fremst ungt fólk, hafni utan skólakerfisins getur, frá hnattrænu sjónarhorni, haft áhrif á marga sem eiga á hættu að hverfa brott úr skóla. – Við höfum sennilega ekki orðið jafn illa úti og aðrar þjóðir heims. En við eigum enn gríðarmikið starf fyrir höndum við að fylla þau skörð sem mynduðust á tímum Covid-19. Okkur tókst eftir atvikum vel, þrátt fyrir að skólarnir hafi verið lokaðir í 60 daga, en okkur hafa borist upplýsingar um að okkur hefur ekki tekist að ná sambandi við um það bil 4.000 börn og unglinga í Finnlandi. Allar þjóðir berjast við þennan vanda; að takast ekki að fá öll börn í skólann, meðal annars vegna félagslegra vandamála. Þar að auki er vandamál með drengina, þeir dragast aftur úr. Stelpurnar ná betri árangri í lestri og reikningi en strákar. Þetta var byrjað áður en Covid-19 hófst, segir Jaakko Vuorio, og heldur áfram:
– Við verðum að kanna hvers konar gjár hafa myndast. Það varðar ekki aðeins þekkingu, heldur einnig andlega heilsu. Covid-19 hefur haft margvísleg áhrif: Störf hafa tapast, streita aukist, svefn versnað. Við höfum hafið samstarf við sveitarfélögin og hrint af stað átaki um að fjölga kennurum til þess að ná í nemendur sem eru á áhættusvæði í kjölfar Covid-19. Það sjálfstæði sem er nauðsynlegt, að nenna á fætur á morgnana og koma hlutunum í verk, veltur fyrir ákveðinn hóp á því að þau hafi stað til þess að læra. Við höfum komist að því að tiltölulega mörg hafa ekki þann drifkraft sem þarf til, heldur þarf að reka meira á eftir þeim. Þess vegna höfum við komið á nokkurskonar stuðningi.
„Stafræn hæfni finnskra kennara hefur eflst á síðustu árum. Kennararnir höfðu ekki beitt stafrænni tækni að neinu marki fyrir kórónufaraldurinn, sem endurspeglast í notkun nemenda í skólunum á upplýsinga- og samskiptatækni. Í alþjóðlegum samanburði er útlit fyrir að nemendur í grunnnámi hafi ekki aflað sér nægilega mikillar stafrænnar hæfni í skólanum, heldur læra þau hana í frístundum.“
– Lesið „10 REPORTAGE om grundläggande färdigheter i Norden” hér.
Samantekt skýrslunnar á sænsku
Öll skýrslan á finnsku Fjarkennsla stafræn hæfni starfsmenntun