- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Nú kemur röðin – kannski – fljótlega að þeim sem eru með stutta skólagöngu

Hvers vegna gætir svo mikils misræmis milli annars vegar fjölda þeirra sem þurfa að afla sér grunnleikni og hins vegar fjölda skammskólagenginna fullorðinna sem hljóta menntun í Danmörku? Við reynum að svara spurningunni hér á eftir. Í núverandi kerfi eru ótal hindranir en um þessar mundir er einnig von fram undan.  

Danir hafa um margra ára skeið haft mikinn metnað á sviði menntamála barna og ungmenna. 90 prósent þeirra sem náð hafa 25 ára aldri eiga að hafa lokið námi á framhaldsskólastigi árið 2030. Á sama tíma hefur verið hljótt um pólitískan metnað fyrir hönd fullorðinna með litla skólagöngu að baki. Um þessar mundir líða menntastofnanir sem veita fullorðnum almenna menntun fyrir þetta metnaðarleysi. Helmingur þeirra er rekinn með tapi og margar miðstöðvar í útjöðrum landsins á sviði fullorðinsfræðslu sjá fram á að verða að hætta starfsemi …

„Var ætlunin, að auka ekki fjárfestingu á sambærilegan hátt í fullorðins- og símenntun?“ er spurt í fyrstu bráðabirgðaskýrslu frá nefnd Ninu Smith prófessors. Nefndin var skipuð til þess að leggja fram tillögur um hinar svokölluðu annarrar kynslóðar umbætur og er meðal annars ætlað að kanna hvernig við getum skapað sveigjanlegra og öruggara menntunar- og vinnumarkaðskerfi (kallað VEU) til framtíðar. 

Í skýrslunni er bent á að nær allir styrkir sem sérstaklega hefur verið veitt til menntunar hafa á seinni árum runnið til æskulýðs: Hækkuninni úr 62 milljörðum 1995 í 82 milljarða danskra króna 2019 – báðar tölur á núvirði – hefur nánast einvörðungu verið varið til menntunar fólks undir 35 ára aldri, eftir því sem sagt er.  

Þess vegna eigum við í Danmörku við vanda að stríða. Við blasir misræmi milli fjölda fullorðinna sem skortir kennslu í grunnleikni og fjölda þeirra sem hljóta hana. En með nefnd Ninu Smith er allt útlit fyrir að nú vakni pólitísk meðvitund um að þörf sé á að grípa til aðgerða. Ekki aðeins vegna þess að það sé bagalegt fyrir einstakling á röngum aldri, sem á á hættu að falla brott úr þekkingar- og stafræna samfélaginu okkar, heldur er það ekki síður bagalegt fyrir samfélag í örri þróun og á tímum mikilla breytinga.

 

Ljósmyndari: Yadid Levy/norden.org

Eitt prósent í námi

Hve mörg er um að ræða? Í síðustu könnun PIAAC kom fram að 600.000 Danir eru ófærir um að lesa einfalda texta, að 500.000 geta ekki reiknað sér til gagns og að um það bil ein milljón Dana skortir grunnleggjandi stafræna hæfni. Tölurnar eru frá 2013, en Mette Frederiksen forsætisráðherra „uppfærði” þær nokkurn veginn í opnunarræðu sinni á danska þjóðþinginu, Folketinget, á þessu ári. Þá sagði hún að á meðan nær helmingur fólks á aldrinum 20–24 ára er í formlegu námi á það aðeins við um eitt prósent þeirra sem eru eldri en 40 ára.

Eitt prósent? Svo sannarlega ekki mikill fjöldi. Hvernig getur verið  svo illa komið fyrir Dönum – og er aðeins því um að kenna að vettvangurinn hefur hvorki notið forgangs á sviði stjórnmála né efnahagsmála?

Ein af ástæðunum gæti verið sú að danska menntakerfið, fyrir fullorðna með stutta skólagöngu, er einnig frekar flókið kerfi. Þeir sem minnsta menntun hafa, mæta að mörgu leyti óaðgengilegasta kerfinu, sem oft er öðrum ókunnugt en þeim allt of fáu sem nýta sér það. Og ef til vill getur ein ástæðan verið sú að á þessum vettvangi ber metfjöldi ráðuneyta ábyrgðina? Samtals fimm þeirra? Barna- og kennslumálaráðuneytið, vísinda- og menntamálaráðuneytið, menningarmálaráðuneytið, útlendinga- og innflytjendaráðuneytið og frá árinu 2017 atvinnumálaráðuneytið, eiga að að annast málefni á þessu sviði. Það mætti kalla það munað, að svo margir beri hag þess fyrir brjósti. En það er líka ókostur í tengslum við að miðla þekkingu og hver það sé þá sem eiginlega sem „er með boltann“ – það er að segja ber ábyrgðina.  

Þríhliða samningaviðræður marka stefnuna

Til viðbótar ábyrgð ráðuneytanna er afar mikilvægur ábyrgðarhluti látinn eftir svokölluðum þríhliða samningaviðræðum á vinnumarkaði. Það eru einkareknir og opinberir atvinnurekendur, launþegar og ríkisstjórnin, sem marka hér stefnu fyrir menntun fullorðinna með stutta skólagöngu. Þessir aðilar leggja eðlilega áherslu á það sem best uppfyllir þarfir atvinnulífsins. Og um árabil hefur það almennt verið þannig, að ef krafist er menntunar til þess að fá vinnu, þá er faglegt vinnumarkaðsnám, AMU svarið. (Skammstafanir eru útskýrðar neðar í greininni)

Í þríhliða samningaviðræðunum 2017 var þó mörkuð ný stefna: Nú á leiðin í aðalatriðum að liggja gegnum almenna grunnmenntun fullorðinna. Innleidd voru ný tilboð um undirbúningsnám fyrir fullorðna (FVU) bæði undirbúningsnám í upplýsingatækni og ensku og í undirbúningsnám í dönsku og reikningi. Um leið völdu aðilar að þríhliða samningaviðræðum að forgangsraða fjárveitingum til færnisjóðanna samkvæmt þessu markmiði. Og aðilar sammæltust um að hækka framlög fyrir þau sem þurfa að fara í nám, í takti við að vinnumarkaðsráðuneytið tengdist almenna menntakerfinu.

Allt krefst lesturs

Þetta síðasta útspil hefur leitt til þess að vinnumarkaðsráðuneytið hefur þurft að söðla um – já, næstum því að snúa risastóru olíuskipi. Um árabil hefur ráðuneytið lagt áherslu á að koma atvinnulausum eins fljótt til starfa og hægt var – kannski með stutt faglegt AMU námskeið að baki.  Nýir vindar þýða hins vegar að nú á að taka það almenna fram yfir hið þrönga atvinnulífsmiðaða. Því að nú gagnast ekki lengur að senda starfsfólk eða atvinnulausa á trukkanámskeið, ef viðkomandi kann ekki að lesa eða nær ekki prófinu sem nú hefur verið innleitt í AMU.  

Það leiðir jafnframt til þess að starfsfólk ráðuneytisins verður að afla sér nýrrar þekkingar og reynslu af fullorðinsfræðslu í almennum greinum, sem mikil reynsla og þekking er fyrir hendi í barna- og kennslumálaráðuneytinu. En kannski munu verkefnin, sem koma til með að fá framlög úr pottinum í kjölfar þríhliða samninganna og sem vinnumarkaðsráðuneytið á að sjá um, leiða eitthvað nýtt í ljós?

Atvinna – óvinur númer eitt

Þó öll ráðuneytin sem bera ábyrgð á menntun hafi mismunandi tilgang, geta allir verið sammála um að útlit er fyrir að atvinna sé helsti óvinur menntunar. Línuritin yfir atvinnu og fjölda skammskólagenginna fylgjast náið að. Þegar atvinnuástand batnar, fækkar fullorðnum í námi í sama hlutfalli. Eftir Covid hefur orðið uppsveifla í efnahagslífinu, sem getur skýrt það að mjög hefur dregið úr umsvifum fullorðinsfræðslumiðstöðvanna, VUC, eða að meðaltali um 13 prósent frá haustinu 2020 og fram að þessu. Þetta sýna tölur sem birtar voru í Fræðslublaðinu (d. Uddannelsesbladet).

Annað dæmi um samhengið tengist lesblindu fullorðinna sem kallað er OBU. Þegar atvinnuástand batnar, fækkar fullorðnum karlmönnum sem sækja sér aðstoð vegna lesblindu. Og „fæðukeðja“ fyrir þá sem sækja lesblindunám eru mjög oft þátttakendur í undirbúningsnámi fyrir fullorðna, sem á dönsku er skammstafað FVU: Þegar þeir greinast með lesblindu, fá þeir tilboð um OBU og ellegar FVU tilboð.   

Danska námsmatsstofnunin EVA hefur framkvæmt könnun um þátttöku í lesblindunámi sem sýnir mikla fækkun. Og stofnunin hefur einnig kannað  þátttöku í FVU 2020. Niðurstöðurnar sýna að sérlega illa hefur tekist að ná til skammskólagenginna danskra karla eldri en 35 ára. FVU-skýrslan sýnir að heilt yfir fjölgar þátttakendum í FVU 2009–2019 en skýringin felst í því að margir karlanna eru af erlendum uppruna og mjög margir þeirra sem notfæra sér FVU hafa þegar hlotið menntun. Með öðrum orðum fullorðnir sem ekki tilheyra markhópnum. 

Að lokum getur hugsast að heimsfaraldurinn gefi vísbendingu um að atvinnuástand og menntun geti verið óvinir. Þá urðu fyrirtækin að hætta framleiðslu, en fengu fjárstyrk til þess að mennta „atvinnufría“ starfsmenn. Og mörg þeirra notfærðu sér það, það sést á kippnum sem kom í umsóknir í ýmiskonar fræðslusjóði á vinnumarkaði.  

En enn og aftur: Um leið og atvinnuástandið komst á fullt, fækkaði þeim sem sóttu sér menntun.

Nefnd Nina Smith lýsir þessu á eftirfarandi máta í bráðabirgðaskýrslunni: „Danmörk er sennilega besta land í heimi til þess að búa í sem ófaglærður.“  Og svo: „Hvers vegna að eyða tíma og kröftum í að læra ef maður er í góðu starfi, hefur fín laun og er mikils metinn starfsmaður og félagi?“

Óvinur númer 2: Vanþekking á tilboðunum

Já, því í ósköpunum?

Önnur ástæða fyrir því að ófaglærðir fullorðnir sækja sér ekki menntun er ef til vill sú að þeim er ekki kunnugt um tilboðin? Ef enginn segir fullorðnum eða fyrirtækjunum frá tækifærum til þess að endurnýja grunnleikni sína er auðveldara að sleppa því.

Þegar árið 2019 var fjallað um það vandamál, þegar ráðgjafafyrirtækið Rambøll var fengið til þess að varpa ljósi á hindranir og góða viðskiptahætti í VEU kerfinu. Í skýrslunni kemur fram: „Miðlæg hindrun fyrir fyrirtækin er skortur á yfirsýn yfir og þekkingu á VEU. Á meðal starfsfólks er það oft áskorun að afla sér vitneskju um þau tækifæri sem þeim býðst til þess að efla grunnleikni sína“.  

Danskur vinnumarkaður einkennist af mörgum litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þau greiða í fræðslusjóði sem hægt er að sækja um styrki til þegar starfsfólk þarfnast menntunar. En forsenda þess er að fyrirtæki viti um tilboðin og mismunandi möguleika á styrkjum. Í minni fyrirtækjum eru sjaldan mannauðsdeildir sem fylgjast með og sjá um stjórnunina. Og það munar um hvern einstakling við vinnuna þegar pantanirnar streyma inn.    

Um þetta segir meðal annarra aðalráðgjafi hjá Samtökum iðnaðarins í Danmörku, Inge Steen Mikkelsen:

– Ég tel engan vafa leika á því að við blasa risaáskoranir, einkum hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það þýðir að áætlanasirkusinn verður að nær ókleifu bjargi, því  það er enginn sem leiðir fyrirtækið alla leið.

Henni gremst að ákveðið hafi verið að leggja niður tiltekið tilboð sem í 20 ár hefur einmitt þjónað þessum tilgangi í Mið-Austur Jótlandi: Tengslanetslestin leiddi fyrirtækin að menntuninni og fylgdi þeim á rétta staði, segir hún um tilboð sem endanlega var lagt niður í júní 2021.

 

Ljosmyndari: Yadid Levy/norden.org

Ungt svið

Eins og áður hefur komið fram snýr einn þeirra áhættuþátta sem fylgja því að deila ábyrgðinni á menntakerfinu á marga aðila, að því hver beri ábyrgð á „upplýsingaskyldunni“ í tengslum við það sem virkar, og hver miðli góðri reynslu og til hvers?  Fleiri lykilþættir koma fyrir aftur og aftur í aðgerðum og verkefnum sem ætluð eru til þess að fá hóp skammskólagenginna til þess að afla sér almennrar menntunar:  Heimsóknir, sameiginlegar og samhæfðar aðgerðir þeirra fjölmörgu aðila sem að koma, lykilpersónur í fyrirtækjunum, menntasendiherrar og fleiri.   

Nú er „boltinn“ hjá vinnumarkaðsráðuneytinu – það er að segja, það hefur fengið peninga til þess að hrinda í framkvæmd verkefnum, og segja má að það eigi að sýna hvað virkar.

Er ævimenntun komin aftur á dagskrá?

Þannig að nú er aðallega beðið átekta. Bæði eftir árangri af þessum verkefnum en líka eftir endanlegum niðurstöðum Nina Smith-nefndarinnar og hugsanlegum ráðum um hvaða aðgerða sé nauðsynlegt að grípa til, svo snúa megi skútunni við og hrinda af stað nauðsynlegri menntun skammskólagenginna. Í bráðabirgðaskýrslunni er hulunni að hluta svipt af því sem er í vændum og það lofar góðu fyrir þau sem trúa að metnaðarfull menntastefna sem nær líka fyrir skammskólagengna fullorðna, sé rétta leiðin. Það vekur til dæmis eftirfarandi spurningar: 

„Ætti að stofna til menntareikninga fyrir alla þegna, með ævilangan rétt til að taka út?“

Mette Frederiksen forsætisráðherra ræddi einnig í opnunarræðu á danska þinginu um einskonar „ævimenntun“ – án þess að nefna þetta hugtak. Hún sagði:  

„Hvers vegna hugsum við ennþá um menntun sem eitthvað sem maður lýkur snemma í lífinu – þegar við vitum að fjölmörg okkar munu verða lengi á vinnumarkaði í feiknalegri þróun? Markmið ríkisstjórnarinnar er augljóslega að fleiri eigi að vinna“. Og svo kemur áframhaldið: „Menntunin er mikilvægur hluti þess“.

Þrátt fyrir að þríhliðasamningum hafi verið frestað til 2022, eru allir aðilar sammála um að vinnan með VEU muni halda áfram. Fjárveitingar hafa verið auknar og barna- og kennslumálaráðherra Pernille Rosenkrantz-Theil segir um samningana:

„Hér munum við beina sjónum sérstaklega að því að fækka í hópi fullorðinna sem skortir grunnleikni, til dæmis í lestri“.

Með öðrum orðum: Ýmislegt bendir til þess að eitthvað sé í vændum á sviði menntamála – líka fyrir skammskólagengna.

Á meðan beðið er eftir niðurstöðum Nina Smith-nefndarinnar og þríhliðasamninganna 2022, fylgir hér röð tillagna um hvernig komist megi framhjá á hindrununum:

  1. Gera þarf úrbætur á sjóðafyrirkomulaginu. Dæmi um vandamál því tengt er að innriti einstaklingur sig sjálfviljugur í undirbúningsnám í dönsku eða reikningi, greiðir barna- og kennslumálaráðuneytið stærstan hluta þátttökugjalda. En sé það hluti af atvinnuleitaráætlun er það viðkomandi sveitarfélag sem á að borga. Það getur orðið til þess að illa stæð sveitarfélög hvetji ekki atvinnuleitendur til að sækja sér menntun. Framlögin ættu að koma úr einum og sama sjóði, svo ekki þurfi að velta fyrir sér hver borgar fyrir menntunina.
  2. Hvatning: Skammskólagengnir fullorðnir hafa oft slæma reynslu af því að ganga í skóla og eiga erfitt með að koma sér „að troginu“. Lausn á því gæti falist í að hafa kennsluna við óformlegri aðstæður, þar sem fullorðnir eru þegar – t.d. á bókasöfnum eða hjá samtökum, svo að kringumstæðurnar verði ekki jafn yfirþyrmandi.  Fyrir lítil og miðlungsstór fyrirtæki getur virkað hvetjandi að einn stjórnandi taki að sér að sjá um að ná til hópsins, hjálpi og leiðbeini um hvernig koma eigi kennslunni af stað, sæki um styrki og síðast en ekki síst, sjái til þess allt endi vel. En ef til vill má líka hvetja fullorðna með því að nýta stafræna tækni betur. Þau geta alveg spilað Casino eða aðra leiki á spjaldinu eða símanum, og því ekki þá að leikjavæða kennslu í almennri fullorðinsfræðslu? Það gæti orðið þeim hvatning en um leið einstaklingsbundinn námsvettvangur, þar sem þau fá tækifæri til þess að æfa það sem þeim finnst erfitt og verja meiri tíma í það sem þeim finnst skemmtilegt. Þannig er það ekki sýnt ef manni finnst maður vera heimskur, því maður getur verið á nokkurskonar einkavettvangi með kennaranum.
  3. Vægi: Hvernig er ramminn og orðræðan um menntun? Mæta þarf fullorðnum þar sem þau eru stödd og námið verður að vera þeim mikilvægt. Þau fullorðnu verða að skilja nákvæmlega hvernig námið gagnast þeim ef hvatningin á að virka.
  4. Sveigjanleiki: Námstilboðið verður að vera eins sveigjanlegt og mögulegt er –  það er að segja skipulagið verður að vera lagað að þörfum og tækifærum fyrirtækisins og einstaklinganna.
  5. Meira þarf að leggja í skimunarviðtalið við atvinnuleitendur: Eigi einstaklingur að fara í undirbúningsnám verður viðkomandi að undirgangast mat til þess að lenda á réttu þrepi. Þetta fælir marga frá því að fara í námið og þá er það ekki af eigin vilja. Fyrir þau sem eru yngri en 30 ára þýða engin undabrögð, þau verða að ganga í gegnum skimunarviðtalið á fyrstu 30 dögum námsins nema þau hafi lokið námi á framhaldsskólastigi. Kannski ætti að fara eins að við atvinnuleitendur sem eru eldri en 30 ára, hafa ekki lokið grunnskóla, eru ófaglærðir, hafa ekki verið í námi í svo og svo mörg  ár eða vilja fara í nám? Á þann hátt væri aðeins meiri áhersla á „skal“ sem getur verið nauðsynlegt fyrir sum fullorðin.

    Árið 2019 gerði ráðgjafarfyrirtækið Rambøll Management Consulting skýrslu um Hindranir og  ”best practise” (bestu starfshætti) fyrir Stjórn kennslu og gæða (d. Styrelsen for Undervisning og Kvalitet, STUK) í barna- og kennslumálaráðuneytinu. Þar voru teknir saman átta bestu starfshættir út frá átta dæmum um hvernig fyrirtæki og fullorðnir voru hvött til þess að sækja sí- og endurmenntun í almennum greinum (VEU). Kortlagningin leiddi í ljós að lykilatriði hvatningar til þess að setja tíma og fjármagn  í almennar greinar (VEU),  eru meðal annars:

    Markvissar aðgerðir til þess að ná til bæði starfsfólks og stjórnenda fyrirtækjanna. Skipulagt samstarf á milli aðila í fullorðinsfræðslu, meðal annars ráðgjafa sem fara í heimsóknir. Miðlun reynslu um þarfir fyrirtækja fyrir hæfniþróun og skipulag þverfaglegra aðgerða. Menntun lykilpersóna í fyrirtækinu ásamt því að nýta „menntasendiherra“ sem sjálfir hafa sótt nám í almennum greinum (VEU) í fullorðinsfræðslu og náð árangri, virkar einnig.

    Gegnumgangandi í dæmunum átta í skýrslunni eru lýsingar á því sem gagnast sérstaklega vel til þess að yfirstíga hindranir. Þar á meðal er að notast við samræmt mats á öllum einstaklingum í fyrirtækinu – líka á stjórn, millistjórnendum og trúnaðarmenn. Að birta allar niðurstöður til þess að svipta hulu leyndardóms af matinu, eyða ótta um brottrekstur og bannhelgi um menntun.  

Við vinnslu greinarinnar höfum við meðal annarra rætt við Malene Vangdrup, fyrrverandi fulltrúa í barna- og kennslumálaráðuneytinu, Inge Steen Mikkelsen, aðalráðgjafa hjá Samtökum iðnaðarins í Danmörku, Jens Gustav Aagerup Jensen, fulltrúa STAR í vinnumarkaðsráðuneytinu og verkefnastjóra fyrir PSI-2, Peter Bruhns frá AOF (menningar og fræðslusamband alþýðu) og Janni Glæse verkefnastjóra, lestrar, ritunar- og reiknisendiherra hjá Ráðningarþjónustu Norður-Sjálands.

– Læs ”10 REPORTAGE om grundläggande färdigheter i Norden” hér.

Hvað er VUC, FVU, OBU, DSA… 

VUC er skammstöfun fyrir Voksen uddannelses center eða símenntunarmiðstöð.

FVU er tilboð um undirbúningsnám fyrir eldri en 25 ára, sem vilja efla getu sína til að lesa, skrifa eða reikna (eða bjarga sér á ensku og með upplýsingatækni). Til þess að fá inngöngu í FVU-nám í dönsku, reikningi, ensku og FVU-upplýsingatækni, þarf fyrst að kanna þekkingarstöðu umsækjenda svo sjá megi hvaða þrep henti hverjum og einum, eða ef til vill verða beint í nám fyrir lesblinda fyrir fullorðna, OBU. Hverju þrepi lýkur með prófi, að því loknu er hægt að færast á efra þrep. Efsta þrep samsvarar hæfniviðmiðum 9. bekkjar í grunnskóla (10. bekk á Íslandi). FVU er kennt hjá símenntunarmiðstöðvum, skólum alþýðufræðslunnar, tungumálamiðstöðvum og fleirum. Meginreglan er sú að námið sé ókeypis. 

OBU (ordblindeundervisning for voksne) er kennsla fyrir lesblinda, sem er sérstaklega skipulögð með það að markmiði að bæta úr eða minnka lestrar- og skriferfiðleika þátttakenda. Námskeið fyrir lesblinda eru oftast haldin hjá símenntunarmiðstöðvum og í skólum alþýðufræðslunnar. 

AVU (almen voksenuddannelse) ná til fullorðinna sem vilja efla þekkingu sína í almennum greinum.  AVU veitir tækifæri til þess að fullorðnir geti aflað sér þekkingar í einu eða fleiri fögum á grunnskólastigi. Námið er fyrir 25 ára og eldri og er oft í boði hjá símenntunarmiðstöðvum.

FGU (forberedende grunduddannelse) er undirbúningsnám í almennum greinum fyrir yngri en 25 ára, sem geta, með tveggja ára námi við sérstaka FGU skóla, aflað sér grunnmenntunar.

DSA (Dansk som andetsprog) er danska sem annað mál fyrir útlendinga og flóttamenn. Námið fer fram eftir þremur leiðum. Dönskunám 1, DU1, er fyrir þau sem ekki get lesið eða skrifað texta á latneska stafrófið. DU2 er fyrir þau sem hafa stutta skólagöngu eða menntun frá föðurlandinu að baki og DU3 er fyrir þau sem hafa lokið miðlungs- eða langri skólagöngu eða menntun. Dönskukennslan er samsett af áföngum með lokaprófi sem standast verður til þess að ná upp í næsta áfanga. Að náminu loknu er próf.  Flóttamenn sem hafa hlotið hæli, dvalarleyfi af mannúðarástæðum og fleira, I-námsmenn eða námsmenn sem vilja verða gildir samfélagsþegnar, hafa rétt á að fá tilboð um dönskunám á vegum þess sveitarfélags sem þau búa í, innan fimm ára. En þeim ber líka að taka þátt, ellegar missa þau bæturnar. S-námsmenn sem eru á eigin framfæri eru útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi til þess að vinna eða leggja stund á nám og svo framvegis. Þau fá einnig tilboð um kennslu í dönsku en ber engin skylda til að þiggja tilboðin. Á síðasta ári voru lögð niður skólagjöld fyrir námið. 

AMU (d arbejdsmarkedsuddannelserne) vinnumarkaðsmenntun, er oft samsett af stuttum faglegum námskeiðum sem hægt er að taka eitt og eitt í einu eða raðað saman námskeiðum eftir þörfum. Þau veita réttindi og að loknu hverju námskeiði fá þátttakendur skírteini. Námið er ætlað ófaglærðum og faglærðum og kennslan er bæði verkleg og fræðileg. Námið fer fram bæði hjá AMU-miðstöðvum og í verkmenntaskólum. Styrkir fyrir fullorðna sem vilja efla grunnleikni sína, eru  veittir annars vegar hjá SVU (Statens Voksenuddannelsesstøtte), sem er fullorðinsfræðslusjóður danska ríkisins, og  hins vegar hjá fullorðinsfræðslusjóði fyrir vinnumarkaðsmenntun. Báðir sjóðir veita nú tímabundið styrki sem nema 110 prósentum af hæsta dagpeningataxta sem venjulega nema 100 prósentum af taxtanum. Atvinnurekendur geta sótt um styrk til menntunar starfsfólks, úr margvíslegum fræðslusjóðum sem þeir greiða í.

Fyrsta skýrsla umbótanefndarinnar, sem á dönsku ber heitið  ”Erkendt, forsøgt løst, uløst“ er hér

Umfjöllun um þríhliðasamningana 2017, er hér

Um frest á endurnýjun þríhliðasamninga er  hér

Dorthe Plechinger

Dorthe Plechinger er sjálfstætt starfandi blaðamaður og vinnur þrjá daga í viku hjá danska Fræðslusambandinu (samband leiðbeinenda, kennara, ráðgjafa og stjórnenda í fullorðinsfræðslu og á framhaldsskólastigi) við skriftir um fullorðinsfræðslu og framhaldsskóla.
Dorthe er menntuð sem blaðamaður og hefur í fjölda ára fengist við einmitt þessi svið menntunar, fullorðinsfræðslu, sí- og endurmenntun auk framhaldsskólans. Hún hefur óþrjótandi áhuga á kennslufræði og öllu sem lítur að opinberri umræðu um menntun og hverju menntun getur skilað einstaklingnum hafi hann tækifæri til þess að afla sér hennar.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi