- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Nýju verkefni er ætlað að gera allt nám sýnilegra

Hvernig má til dæmis tryggja að hæfnivottun frá ýmsum samtökum greina atvinnulífsins og annars konar óformleg hæfni sé metin á sama hátt í ólíkum löndum? Um það snýst Erasmus+ verkefni sem nú er unnið að.   

Síðastliðin tuttugu ár hafa verið gerðir margir samningar á milli Norðurlandanna á sviði menntamála.  Í þeim felst meðal annars að öllum er gert kleift að sækja um nám á framhaldsskólastigi og háskólastigi á sömu forsendum og íbúar landsins. Með innleiðingu viðmiðaramma um hæfni eru þjóðirnar að vinna að breytingum á hugmyndafræði. Á vinnumarkaði er vottun frá einkafyrirtækjum metin hærra en formleg menntun til dæmis í upplýsingatæknigeiranum.

DialogWeb hefur rætt við tvo af þátttakendum í Nova verkefninu, þau Önnu Kahlson og Svante Sandell sem bæði starfa við sænsku fagháskólastofnunina. Í vinnuhópnum eru einnig Anni Karttunen við Globedu í Finnandi og Fjóla María Lárusdóttir og Haukur Harðarson frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Vinnuhópur á vegum NVL vinnur nú að verkefninu Nova-Nordic með styrk frá Erasmus+áætluninni, þar sem kannað er hvernig hægt er að færa hæfni af ólíku tagi í hæfnirammana og um leið tengja þá evrópska viðmiðarammanum. Í verkefninu er ennfremur kannað á hvaða hátt er hægt að tengja hæfnirammann raunfærnimati.  

Nova-verkefnið hófst haustið 2020 og átti samkvæmt áætlun að standa yfir í tvö ár en hefur verið framlengt vegna heimsfaraldursins. Verkefninu mun ljúka haustið 2023. En um nokkurt skeið hefur verið fjallað um spurningarnar sem verkefninu er ætlað að svara.

– Þegar 2010 var ég fulltrúi í raunfærnimatsneti NVL og þá skrifuðum við „Fimmtán áskoranir á sviði raunfærnimats“ um tengingu á milli raunfærnimats, hæfniramma þjóðanna (NQF) og evrópska viðmiðarammans EQF, segir  Anna Kahlson, og heldur áfram:

– Svolítill munaður að vinna við verkefni eins og þetta. Því mikil yfirfærsla þekkingar og nám á sér stað þegar maður situr með kollegum og þeir deila með okkur hvernig þeir takast á við verkefni í öðrum löndum. Forsenda þess að hægt sé að vinna í sameiningu og átta sig er skilningur á kerfum hvers annars. Því dýpra sem við gröfum þeim mun mikilvægara er að skilja hvernig við förum að þessu. Aðalinntak Nova-verkefnisins og eiginlega rúsínan í pylsuendanum  er að kynnast kerfum hvers annars.

Auk Norðurlandanna könnum við kerfum í Austurríki og Hollandi. Í öllum þessum löndum hefur verið unnið mikið starf í tengslum við hæfni sem aflað hefur verið utan hins hefðbundna menntakerfis.

Hvað felst í óformlegri hæfni?

Hvernig er óformleg hæfni skilgreind? Vinnuhópurinn sem stendur að Nova-verkefninu hefur valið breiða skilgreiningu.

Anna Kahlson

– Við göngum út frá því að óformlegt nám sé allt nám sem fram fer utan hins formlega menntakerfis. Nokkur munur getur verið á því sem telst formlegt nám í ólíkum löndum. Í Svíþjóð má nefna sem dæmi að allt nám sem tilheyrir alþýðufræðslu sem og það nám sem leiðir til vottunar frá samtökum atvinnugreina teljast til formlegs náms, segir Anna Kahlson. Sum stórfyrirtæki gefa út eigin vottanir og margar þeirra gegna mikilvægu hlutverki á vinnumarkaði.

– Microsoft býður til dæmis upp á fjölmargar leiðir til menntunar og vottunar sem eru metnar að meiru á vinnumarkaði en formleg háskólamenntun. Við röðun vottananna á þrep í hæfniramma verðum við að gæta þess að þær verði á sama þrepi í öllum löndum til þess að við töpum ekki samanburðarhæfninni. Athygli vekur að margir einkaaðilar vilja láta raða hæfni sinni á þrep í hæfnirammanum, segir Anna Kahlson.

Eitt markmiðanna er að hæfniramminn gerir fólki auðveldara að færa sig á milli ólíkra geira. Anna Kahlson nefnir dæmi:

Auðveldar tilfærslu á milli geira

– Ímyndaðu þér að þú vinnir í veitingageiranum og öðlist gríðarlega þekkingu á því hvernig á að veita góða þjónustu. Síðar verðir þú tilneyddur af einhverri ástæðu til þess að skipta um atvinnu og færð vinnu í gestamóttöku í fyrirtæki í tæknigeiranum. Þá er spurningin: Hvað af því sem þú lærðir í fyrsta starfinu nýtist þér í nýja starfinu? Í mörgum geirum er horft til þannig hæfni sem hægt er að yfirfæra á milli starfa.

– Hæfnivottun er staðfesting þess að þú búir yfir ákveðinni hæfni. Það verður að vera hægt að treysta því að einstaklingur með hæfnivottun búi raunverulega yfir hæfninni og sé hægt að ráða hann til starfa til dæmis í öðru landi.

Svante Sandell

Þess vegna verða þjóðirnar að vinna saman og komast að samkomulagi um sambærileg kerfi, til þess að traust ríki á milli kerfanna, staðfesta Anna Kahlson og Svante Sandell.

Þann 18. maí nk. mun Nova- verkefnið standa fyrir öðru málþingi sínu í Reykjavík. Það verður haldið daginn fyrir fjórða tvíæringinn um mat á raunfærni (IV VPNL Biennale sjá nánari upplýsingar hér).  

Greinin er skrifuð fyrir DialogWeb veftímarit Norræna tengslanetsins um nám fullorðinna NVL er birt í Gátt með góðfúslegu leyfi.

Marja Beckman

Marja Beckman hefur árlanga reynslu sem blaðamaður og hefur bætt við sig námi í markaðssetningu á samfélagsmiðlum. Auk þess að vera fulltrúi Svía í ritstjórn DialogWeb sér hún um færslur um veftímaritið á samfélagsmiðlum.
Hún skrifar um menntun og alþýðufræðslu en það eru svið sem sífellt þróast og breytast. En jafnframt skrifa Marja um menningu, jafnrétti, sjálfbærni og mannréttindi. Hún hefur sótt menntun við lýðskóla, háskóla og fagháskóla. Nánari upplýsingar á heimasíðunni www.marjabeckman.se

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi