- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Raunfærnimat í fisktækni

Á Eyjafjarðarsvæðinu er mikil og löng hefð fyrir fiskvinnslu og það er því engin tilviljun að á svæðinu eru tvö af stærstu fiskiðjuverum landsins. Bæði eru þau í eigu Samherja, annars vegar á Akureyri og hins vegar á Dalvík. Hið nýja hátæknivinnsluhús á Dalvík var tekið í notkun árið 2020 og er án efa eitt það tæknivæddasta í heiminum í dag. Í báðum þessum fiskvinnsluhúsum starfa bæði Íslendingar og fólk af erlendum uppruna, sem hefur búið hér á landi til lengri eða skemmri tíma.

Víðtækt samstarf um raunfærnimat

SÍMEY hefur átt í farsælu samstarfi við sjávarútvegsfyrirtæki í Eyjafirði, Fisktækniskóla Íslands o.fl. um að skapa starfsfólki í fiskvinnslu möguleika til þess að sækja sér menntun í sjávarútvegi. Með reglubundnum hætti hefur starfsfólki í sjávarútvegi verið boðið upp á viðtöl á vinnustað við ráðgjafa SÍMEY og því verið liðsinnt með hvaða leiðir eru í boði hvað varðar starfsþróun. Ráðgjafar hafa mætt á staðinn, haldið kynningar fyrir hóp starfsfólks og boðið upp á viðtöl í framhaldinu og vinnustaðirnir þá gert fólki kleift að fara úr vinnu á meðan.

Á árunum 2016 og þar til covid-faraldurinn hófst höfðu tæplega 130 manns í Eyjafirði farið í gegnum raunfærnimat í fisktækni. Vorið 2016 fór 30 manna hópur starfsmanna fiskvinnslu Samherja á Dalvík í raunfærnimat, árið eftir fylgdu 9 samstarfsmenn þeirra í kjölfarið auk 22 starfsmanna Samherja í ÚA á Akureyri. Þá nýttu flestir starfsmenn Ektafisks á Hauganesi sér raunfærnimatið sem og hópur starfsfólks í Ramma á Siglufirði. Þar fyrir utan hafa sjómenn sem og aðrir farið í raunfærnimat, annað hvort til undirbúnings frekara náms eða til að skoða stöðu sína.

Fjölbreytt tækifæri til náms

Í framhaldi af raunfærnimati þessara stóru hópa var boðið upp á nám í fisktækni í samstarfi við Fisktækniskólann og Menntaskólann á Tröllaskaga. Námið fór fram í námsveri SÍMEY á Dalvík og á Akureyri. Námið tóku nemendurnir samhliða daglegum störfum sínum og brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga. Nokkrir þátttakenda fóru í nám í gæðastjórnun og Marel vinnslutækni hjá Fisktækniskólanum og nutu einnig stuðnings ráðgjafa og leiðbeinenda frá SÍMEY.

Ein af áskorunum í verkefni sem þessu er að ná til stjórnenda fyrirtækja og að þeir sjái ávinninginn af raunfærnimati. SÍMEY hefur átt því láni að fagna að samvinna við stjórnendur í sjávarútvegi á svæðinu er einkar góð. Verkefnastjórar unnu náið með tengiliðum eða brúarsmiðum innan stærstu fyrirtækjanna og var sú samvinna afar þýðingarmikil og jafnvel það sem réð mestu um velgengnina. Önnur áskorun var að koma til móts við þarfir fjölbreytts hóps innflytjenda starfandi í fiskvinnslu. Þar var kappkostað að fá túlka með í alla verkefnavinnu og þá helst túlka sem höfðu reynslu af því að vinna í fiski. Á þessu árabili reiknast okkur til að 18% þátttakenda hafi verið fólk með erlent ríkisfang frá 6 þjóðlöndum; Póllandi, Tælandi, Lettlandi, Grænhöfðaeyjum, Filippseyjum og Chile.

Leiðir til styttingar náms

Raunfærnimat starfsfólks í fiskvinnslu á Eyjafjarðarsvæðinu hefur leitt í ljós víðtæka þekkingu og reynslu þess sem hefur stytt leiðina í náminu í fisktækni við Fisktækniskólann. Á þessum árum hafa þátttakendur fengið metnar alls 1.093 einingar. Sú leið sem hefur verið farin hefur sannarlega verið til þess fallin að hækka menntunarstigið í fiskvinnslu og ýta undir áhuga starfsfólks að auka þekkingu sína og hæfni. Miklu máli hefur skipt að fólk hefur getað stundað námið, í framhaldi af raunfærnimatinu, samhliða störfum sínum í fiskvinnslunni. Það er gulls ígildi að þurfa ekki að rífa sig upp og sækja nám fjarri heimahögum en geta þess í stað aflað sér aukinnar þekkingar heima í héraði.

Opnar leið fyrir erlent starfsfólk

Ef horft er til erlenda starfsfólksins hefur skipt miklu máli fyrir það að þessi menntunarleið væri fær. Tungumálakunnáttan er eðlilega mismunandi og helst oft í hendur við hversu lengi viðkomandi hefur búið hér á landi. Að veita fólki fyrst tækifæri til að fara í  raunfærnimat hefur reynst mjög vel. Þá eru fyrstu skrefin tekin með persónulegum viðtölum þar sem unnin er færnimappa og farið í gegnum sjálfsmatslista, áður en matsaðili metur stöðu viðkomandi. Þessi persónulega nálgun veitir fólki í mörgum tilfellum mikið sjálfstraust og ýtir undir að það haldi áfram og afli sér menntunar í sjávarútvegi. Með öðrum orðum er raunfærnimatið hvati til þess að fólk fari í nám og atvinnulífinu er vitaskuld mikilvægt að hafa vel menntað fólk. Tækninni í fiskvinnslunni hefur fleygt fram og menntunarstigið verður að fylgja tækniþróuninni.

Kristín Björk Gunnarsdóttir

Kristín Björk er verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY og starfar sem landvörður á sumrin. Hún er garðyrkjufræðingur í grunninn, með kennaramenntun frá KHÍ auk ýmissa námskeiða er lúta að samtalstækni. Kristín Björk hefur komið að raunfærnimati til fjölda ára, unnið að innra gæðaferli samkvæmt hugmyndafræði straumlínustjórnar og hefur m.a. umsjón með síðunni Sjósókn - tækifæri og áskoranir til mennta í sjávarútvegi.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi