- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Stytting háskólanáms með raunfærnimati

Í greininni er fjallað um tilraunaverkefni sem fram fór við Háskólann á Akureyri þegar einstaklingur með 36 ára starfsreynslu sem blaðamaður, var metinn til raunfærni við Fjölmiðlafræðibraut háskólans. Um starfendarannsókn var að ræða þar sem höfundur skoðaði sjálfa sig, á sama tíma, í raunfærnimatsferlinu sem ráðgjafi og verkefnastjóri.

Rannsóknarspurningin er eftirfarandi: Hversu raunhæft er að meta hæfni sem áunnist hefur á vinnumarkaði, til ECTS háskólaeininga, með það í huga að stytta nám til háskólagráðu á grunnstigi?

Niðurstaða raunfærnimats blaðamannsins var mat upp á 72 ECTS einingar upp í BA gráðu sem telur 180 einingar, en þar sem engar reglur eru til innan háskólans um raunfærnimat til eininga, byggt á þeirri hæfni sem áunnist hefur af reynslu af vinnumarkaði, þurfti fjölmiðlafræðibrautin að styðjast við reglur matsnefndar félagsvísinda- laga- og sálfræðideildar sem til staðar eru og varða mat á fyrra námi til eininga. Samkvæmt þeim er aðeins heimilt að meta 1/3 náms eða 60 ECTS einingar því til þess að útskrifast frá Háskólanum á Akureyri þarf nemandi að hafa tekið 2/3 eininganna við skólann. Endanleg niðurstaða matsins er því 60 ECTS einingar sem blaðamaðurinn fékk skráðar í námsferilinn sinn þegar hann skráði sig í nám á fjölmiðlafræðibraut Háskólans á Akureyri.

Styrkleikar og veikleikar þessa tilraunaverkefnis geta vonandi nýst sem hagnýt ráðgjöf til handa háskólastofnunum hér á landi sem hyggjast bjóða upp á raunfærnimat til styttingar háskólanáms í framtíðinni.

Virði hvers einstaklings

Ég hef mikla trú á fólki. Mér er það mikið í mun að fólk fái notið hæfni sinnar og þekkingar. Ef við ætlum að byggja upp heilbrigð samfélög með virkri þátttöku allra þá verðum við að bera virðingu fyrir fjölbreytni. Allir hafa eitthvað fram að færa og innst inni vilja allir vera virkir þátttakendur í samfélaginu með því að leggja sitt af mörkum. Við verðum því að passa uppá að útiloka ekki hæfa einstaklinga frá þátttöku á vinnumarkaði eingöngu vegna þess að þeir hafa ekki farið „hefðbundna“ leið í lífinu. Fyrir ekki svo mörgum árum síðan, þegar ég var að ljúka framhaldsskóla, var auðvelt að fá vel launuð og spennandi störf á almennum vinnumarkaði. Það freistaði margra, mín þar á meðal, að taka sér frí frá námi, öðlast starfsreynslu og þar með lífsreynslu, þéna pening og jafnvel kaupa sér íbúð. Sum okkar sneru aftur á skólabekk að nokkrum árum liðnum, önnur menntuðust á vinnumarkaðnum.

Öflugt þekkingarsamfélag

Samfélag okkar hefur þróast í að verða öflugt þekkingarsamfélag og því fylgir að kröfur um háskólamenntun á vinnumarkaði verða æ meiri. Það gerir einstaklingum, sem eru eingöngu með grunnmenntun eða jafnvel stúdentspróf, erfiðara fyrir að skipta um starfsvettvang. Með raunfærnimati hvort sem er til inngöngu í háskóla eða til styttingar háskólanáms virðum við þá þekkingu og þá reynslu sem þeir hafa áunnið sér á vinnumarkaði og þannig gerum við þeim kleift að þróast áfram svo lengi sem starfsorka þeirra varir. Það getur reynst erfitt fyrir sjálfsvirðinguna, að þurfa að endurtaka nám sem einstaklingar hafa þegar tileinkað sér á vinnumarkaði með óformlegum hætti. Það væri til mikils að vinna að geta boðið þessum hópi styttingu á námstímanum, í grunnnámi á háskólastigi, þar sem sú þekking og hæfni sem þeir hafa aflað sér í gegnum störf sín og reynslu af vinnumarkaði væri metin að verðleikum; metin til raunfærni. Það yrði þeim mikil hvatning til frekara náms.

Raunfærnimat við Háskólann á Akureyri

Í lokaverkefni mínu í meistaranámi í menntavísindum við Háskólann á Akureyri gerði ég fyrstu tilraun hér á landi við að meta raunfærni einstaklings með langa sögu á vinnumarkaði til ECTS háskólaeininga og þar með til styttingar háskólanáms. Niðurstöðum rannsóknarinnar verða gerð skil síðar í þessari umfjöllun. Raunfærnimatið fór fram í Fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri, en fjölmiðlafræðin er grunnnám til BA prófs. Um fræðilegt nám er að ræða og því var það áskorun fyrir matsaðila að meta starf af almenna vinnumarkaðnum til ECTS eininga. Sú tilraun tókst vel og getur verið fyrirmynd frekari þróunar raunfærnimats til styttingar háskólanáms fyrir fjölda einstaklinga sem eiga eftir að fá hæfni sína metna á ýmsum sviðum. Að mínu mati ætti raunfærnimat til styttingar náms í háskóla að vera jafn sjálfsagt framboð námstækifæra, hér á landi, eins og hver önnur grein í háskólanámi.

Raunfærnimat á háskólastigi

Í tilmælum frá Ráðherraráði Evrópusambandsins frá árinu 2012 (Council of the European Union, 2012), er mælt með því að öll lönd Evrópusambandsins og EFTA landanna innleiði raunfærnimat á öllum skólastigum, þar á meðal háskólastiginu, fyrir árið 2018. Tilmælin kveða meðal annars á um raunfærnimat til styttingar háskólanáms með tilliti til starfsreynslu einstaklinga af vinnumarkaði. Hvatt er til þess að meta, fordómalaust, þá þekkingu, færni og hæfni, að hluta til eða að öllu leyti sem einstaklingar hafa öðlast í óformlegu og formlausu námi á vinnumarkaði, í óformlega skólakerfinu og í einkalífi. Raunfærnimatið skuli fara fram í fjórum þrepum;

  1. Greining (e. identification) hæfniviðmiða (e. learning outcomes) úr óformlegu og formlausu námi, byggða á reynslu einstaklinga, sem fram fer með samræðu.
  2. Skráning (e. documentation) á hæfni einstaklinga úr óformlegu og formlausu námi.
  3. Mat (e. assessment) á hæfni einstaklinga úr óformlegu og formlausu námi.
  4. Vottun (e. certification) á raunfærnimati einstaklings meðal annars í formi eininga, svo sem ECTS eininga við háskóla.

Í tilmælunum er mælst til víðtæks samráðs hagsmunaaðila svo sem samtaka atvinnulífsins, verkalýðsfélaga, vottunaraðila, vinnumálastofnana, fræðsluaðila og stjórnvalda (Council of the European Union, 2012:1-5).

Þessu til viðbótar, á fundi sínum í Yerevan í Armeníu árið 2015, samþykktu ráðherrar samevrópska háskólasvæðisins, European Higher Education Area (EHEA) að fjarlægja skyldi þær hindranir sem standa í vegi fyrir mati á fyrra námi til að liðka fyrir inngöngu í háskóla og að endurskoða skyldi innlenda hæfniramma, með það fyrir augum að tryggja að námsleiðir innan rammans kveði nægilega á um viðurkenningu á fyrra námi (Yerevan Communiqué, 2015).

Í tengslum við tilmæli Ráðherraráðs Evrópusambandsins sem og samþykktir EHEA kallaði kennslusvið Háskóla Íslands (2017) saman vinnuhóp sem skildi kanna þá reynslu sem komin var nú þegar í háskólum nágrannalanda okkar hvað varðar innleiðingu raunfærnimats á háskólastigi. Í þessum vinnuhópi sátu Ína Dögg Eyþórsdóttir, verkefnisstjóri hjá Matsskrifstofu HÍ, sem stýrði hópnum, en aðrir meðlimir vinnuhópsins voru Hróbjartur Árnason, lektor á Menntavísindasviði HÍ, Fjóla María Lárusdóttir, þróunarstjóri hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Einar Hreinsson, kennslustjóri Háskólans í Reykjavík, Ása Björk Stefánsdóttir, verkefnisstjóri hjá Kennslumiðstöð og Kristjana Mjöll Sigurðardóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá HÍ (Ína Dögg Eyþórsdóttir o.fl., 2017:4). Verkefni hópsins var tvíþætt. „Annars vegar að kanna hvort og hvernig háskólastigið gæti nýtt sér raunfærnimat við inntöku í háskóla og hins vegar hvernig mætti innleiða raunfærnimat á háskólastigi til styttingar náms“ (Ína Dögg Eyþórsdóttir o.fl., 2017:5).

Vinnuhópurinn sendi frá sér skýrslu sem unnin var af þremur aðilum hans, sem eru jafnframt þrír af okkar megin sérfræðingum í raunfærnimati, þeim Ínu Dögg Eyþórsdóttur, Hróbjarti Árnasyni  og Fjólu Maríu Lárusdóttur. Skýrslan er mjög áhugaverð en þar gerðu höfundarnir grein fyrir raunfærnimati og út á hvað það gengi og fóru svo vel yfir stöðuna í nágrannaríkjum okkar sem ég mun koma nánar að hér á eftir. Í lok skýrslunnar settu þau fram tillögur í fjórum liðum:

Samræming vinnulags skiptir miklu máli en engu að síður er nauðsynlegt að hver og ein háskólastofnun móti sínar eigin leiðir. Ekki síst til að koma málum á hreyfingu innan háskólanna án þess að þurfa að bíða eftir því að allir séu tilbúnir til að veita þessa þjónustu. Þannig getur einhver háskólanna ákveðið að taka sér stöðu og veita þróun raunfærnimats forystu á háskólastiginu.

A: Skilgreiningar og samræmt vinnulag: Til að styðja við þróun raunfærnimats á háskólastigi er nauðsynlegt að samræma skilning á því hvað telst til raunfærnimats og hvaða vinnulag er notað við matið. Reglugerðir þurfa að vera skýrar og tryggja þarf að ekki gæti misskilnings um það hvað raunfærnimat felur í sér. Tryggja þarf að lög og reglur um raunfærnimat á háskólastigi séu samræmdar og miðlægar þótt hver stofnun útfæri sínar leiðir við að innleiða það. Gæðaeftirlit er nauðsynlegt og mikilvægt er að halda utan um tölfræði og árangur (Ína Dögg Eyþórsdóttir o.fl., 2017:12).

B: Raunfærnimat til inngöngu í háskóla: (Stytt útgáfa) Raunfærnimat snýst um að meta færni umsækjanda og bera hana saman við hæfniviðmið tiltekinna námskeiða. Að þessu ferli þurfa að koma námsráðgjafar og fagaðilar frá deildum. Þótt hver háskóli sé sjálfstæður og beri ábyrgð á inntöku nemenda í eigið nám, telur vinnuhópurinn það mikilvægt fyrir umsækjendur að tryggt sé að niðurstaða raunfærnimatsins verði skráð og veiti einingar í almennu skólakerfi þannig að raunfærnimatið veiti almenna leið til áframhaldandi skólagöngu/menntunar en veiti ekki aðeins aðgang að einum háskóla. Telur hópurinn nauðsynlegt að tryggja að við matið verði stuðst við viðurkenndar aðferðir raunfærnimats og að einstaklingar hafi möguleika á að útskrif-ast frá framhaldsskólum landsins að loknu mati og/eða viðbótarnámi (Ína Dögg Eyþórsdóttir o.fl., 2017:12).

Þetta er sú leið raunfærnimatsins sem er lengst á veg komin hér á landi. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur í samvinnu við símenntunarmiðstöðvar um allt land framkvæmt slíkt raunfærnimat, en vel að merkja nær eingöngu í starfsnámi, enda eru hæfniviðmiðin í starfsnáminu áþreifanlegri en í bók-náminu. Það verður spennandi að fylgjast áfram með þessari þróun og ekki síst með raunfærnimati í bóklegum greinum.

C) Raunfærnimat til styttingar náms: Lagt er til að hver háskóli og háskóladeild fyrir sig skipuleggi og þrói raunfærnimat til styttingar náms. Raunfærnimat til styttingar náms hentar misvel við deildir og fræðasvið háskólanna, og því er nauðsynlegt að slíkt ferli sé unnið sérstaklega fyrir hverja deild eða námsleið fyrir sig (Ína Dögg Eyþórsdóttir o.fl., 2017:12).

Sú rannsókn sem hér um ræðir í þessari grein snýst um raunfærnimat til styttingar náms við háskóla og er það í fyrsta sinn sem slíkt raunfærnimat fer fram til styttingar náms við háskóla hér á landi. Eins og segir í tillögunum hér að framan er nauðsynlegt að ferli raunfærnimatsins sé unnið sérstaklega fyrir hverja deild fyrir sig og grundvallaratriðið er að hæfniviðmið námskeiðanna séu skýr (Ína Dögg Eyþórsdóttir o.fl., 2017:12).

D: Þróunarverkefni: Lagt er til að farið verði af stað með þróunarverkefni um raunfærnimat á háskólastigi til styttingar náms í ákveðnum deildum háskólanna. Þessar deildir geta þróað aðferðirnar og verið fyrirmynd fyrir aðrar deildir í framtíðinni. Lagt er til að Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild HÍ og Tölvunarfræðideild HR taki að sér að þróa raunfærnimat fyrir tölvunarfræðina og sömuleiðis mætti kanna hvort einhverjar námsleiðir innan Menntavísindasviðs HÍ sjái möguleika á að mæta þörfum samfélagsins fyrir fleiri leik- og grunnskólakennara með tilboðum um raunfærnimat til styttingar náms (Ína Dögg Eyþórsdóttir o.fl., 2017:12-13).

Menntavísindasvið HÍ er þegar með þróunarverkefni í gangi í leikskólafræðum, svonefnt fagháskólanám, en það verður spennandi að sjá hvaða háskólar aðrir og hvaða deildir þeirra ríða næst á vaðið og bjóða upp á þróunarverkefni í raunfærnimati til styttingar háskólanáms. Háskólar eru sjálfstæðar stofnanir og getur hver þeirra fyrir sig tekið ákvörðun um að bjóða upp á raunfærnimat án aðkomu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, enda Evrópulagaramminn skýr í þessum efnum (Council of the European Union, 2012).

Í samantekt skýrslu háskólans (2017) fjalla höfundarnir sérstaklega um fjármögnun raunfærnimats, en til þess að auka vilja háskóla til að bjóða upp á þessa leið þarf að tryggja að skólarnir fái greiðslur fyrir þær þreyttu einingar sem eru metnar hverju sinni. Raunfærnimati fylgir krefjandi fagleg vinna og fyrir hana mætti greiða með verðgildi þeirra eininga sem eru þreyttar utan hins formlega skólakerfis.

Í skýrslunni koma fram upplýsingar um þróun raunfærnimats á háskólastigi í nágrannalöndum Íslands, en höfundar fengu gögn send frá menntamálayfirvöldum nokkurra ríkja. Hér á eftir mun ég fjalla um nokkur þeirra landa ásamt því að skoða stöðu víðar eins og í Kanada. Ég mun fyrst og fremst einblína á raunfærnimat til styttingar náms í háskóla, en þegar þróa skal slíkt ferli er gagnlegt að skoða hvað hefur gerst og hvað hefur verið þróað víða um heim, hvað hefur gengið vel og hvað ber að forðast.

Þegar litið er Norðurlandanna þá er Finnland það land sem er lengst komið hvað varðar raunfærnimat til styttingar náms í háskóla. Finnland hefur lengi þótt skara fram úr í menntamálum, ekki eingöngu á Norðurlöndum, heldur í heiminum öllum. Finnar hafa skapað skólakerfi þar sem formlegt og óformlegt nám hefur verið þróað samhliða sem gerir það að verkum að auðvelt er að fara á milli kerfa. Raunfærnimat til styttingar náms á háskólastigi í Finnlandi hefur verið í boði frá árinu 2003 og þá fyrst á fagháskólasviðinu en frá árinu 2005 á hefðbundna háskólastiginu. Það er Brahea miðstöðin við háskólann í Turku sem hefur haft veg og vanda af þróun raunfærnimats í háskólakerfinu í Finnlandi sem aðrir háskólar þar í landi hafa byggt sínar aðferðir á (Merikallio, 2019:30-31). Stöðugt er verið að þróa ferli raunfærnimatsins í Finnlandi og mikið er lagt upp úr þjálfun matsaðila. Ekki hefur verið sett þak á fjölda þeirra ECTS eininga sem hægt er að fá metnar með raunfærnimati í finnskum háskólum að undanskilinni lokaritgerð, en nemendur skulu ávallt skrifa hana. Finnskir nemendur geta sótt um raunfærnimat við skráningu í háskóla og greiða ekki sérstaklega fyrir það, heldur er það finnska ríkið sem kostar raunfærnimatið. Það er ekki að finna tölulegar upplýsingar um fjölda þeirra nemenda sem farið hafa í raunfærnimat til styttingar náms í finnskum háskólum (Karttunen, 2016).

Írar hafa verið framarlega á sviði raunfærnimats í háskólanámi og þar fer fremstur í flokki Cork Institute of Technology (CIT), en þar hefur raunfærnimat verið viðurkennt og framkvæmt síðan 1999. Sá mikli árangur sem CIT hefur náð á sviði raunfærnimats er ekki síst því að þakka að það hefur verið samþætt í öllum deildum skólans hvað varðar stjórnun, fræði og gæði. Skrifstofu raunfærnimatsins hefur líka verið gert hátt undir höfði með því að hafa hana miðsvæðis og aðgengilega öllum. Fulltrúar raunfærnimatsins (RPL, recognition of prior learning) í CIT líta svo á að raunfærnimatið sé lykillinn að því að virða og viðurkenna það nám og þá þekkingu sem er til staðar og koma þannig í veg fyrir að einstaklingar þurfi að endurtaka nám. Þetta skiptir máli fyrir skilvirkni í námi og skapar verðmæti í samfélaginu, en á síðastliðnum rúmum 20 árum hafa 6.000 umsóknir um raunfærnimat verið samþykktar og hafa um 500 starfsmenn háskólans komið að þessu verkefni á einn eða annan hátt. Á bak við þessar tölur eru einstaklingar sem hafa fengið ómæld tækifæri til náms og þeir hafa byggt upp sjálfstraust sem hefur fleytt þeim áfram til betra lífs og bættari afkomu (Cork Institute of Technology, 2019). Hvað varðar írsku leiðina í raunfærnimati er vert að geta þess að þeir nemendur sem hafa fengið hæfni sína metna og ljúka námi frá írskum háskólum fá prófskírteini sín í hendur án sérstakrar tilvísunar um hvaðan þær einingar koma, hvort sem það er úr formlegu eða óformlegu námi (OEDC, 2010). Með þessu standa þeir nemendur sem hafa fengið hæfni sína metna fullkomlega jafnfætis öðrum nemendum sem ljúka námi og ber það vott um mikið jafnræði og er til fyrirmyndar.

Kanada á sér langa sögu í raunfærnimati og þar hafa hagsmunaaðilar, með víða skírskotun þar í landi, sameinast um eina stofnun CAPLA (Canadian Association for Prior Learning Assessment) sem er í forsvari, á landsvísu, fyrir allt raunfærnimat á háskólastigi.  CAPLA hefur verið starfandi síðan 1994 og var formuð sem sjálfseignarstofnun 1997. Stofnaðilar og virkir meðlimir CAPLA eru meðal annarra: Stjórnvöld, sérfræðingar á sviði raunfærnimats, vísindamenn, vinnuveitendur, fræðslustofnanir, fullorðnir námsmenn, samtök atvinnurekenda, samtök iðnaðar, byggðastofnanir og frjáls félagasamtök (Canadian Association for Prior Learning Assessment, 2020). Margir háskólar í ríkjum Kanada eru samstarfsaðilar CAPLA og þar á meðal er Athabasca University í Alberta ríki. Sá háskóli hefur sérhæft sig í raunfærnimati og þykir skara fram úr á þessu sviði, enda skuldbindur háskólinn sig, í stefnu sinni, að draga úr hindrunum fyrir háskólamenntun. Ein af þeirra lykilstoðum í því sambandi er sérhæfing á sviði raunfærnimats en skólinn stendur framar öðrum skólum í þessum efnum m.a. með sérhæfðri raunfærnimatsskrifstofu (Centre for Learning Accreditation) sem leiðbeinir og aðstoðar alla þá sem eru í raunfærnimatshugleiðingum, sem felst meðal annars í því að aðstoða einstaklinga við að útbúa vandaða ferilmöppu (Conrad, 2008).

Það sama má segja um Skotland, en þar er löng hefð fyrir raunfærnimati á háskólastigi og SCQF (The Scottish credit and qualifications framework) er samræmingar aðili á þessu sviði þar, með mjög víða skírskotun, ekki ósvipað CAPLA í Kanada. SCQF leggur ekki eingöngu áherslu á raunfærnimat til styttingar háskólanáms, heldur einnig til að auka sjálfstraust einstaklinga með því að skrá árangur og hæfni á skipulegan máta og þar með auðvelda þeim að ná markmiðum sínum hvort sem er í námi eða á vinnumarkaði. SCQF þjónustar hvort sem er einstaklinga sem hafa hug á raunfærnimati sem og atvinnu-rekendur sem vilja skrá þá hæfni sem starfsmenn þeirra búa yfir og hafa tileinkað sér í starfi (Scottish credit and qualifications framework, 2021).

EURASHE, European Association of Institutes in Higher Education framkvæmdi rannsókn á meðal 11 Evrópuríkja á árunum 2019-2020 um stöðu raunfærnimats í viðkomandi löndum, framkvæmd af Karpíšek og Garbuglia (2021). Megin svörunin var frá Svíþjóð og Írlandi en það bárust einnig upplýsingar frá Íslandi. Miðað við þátttöku og svörun er ekki hægt að fullyrða nokkuð um niðurstöður á evrópskan mælikvarða, en svörin færa okkur vísbendingar sem vert er að skoða við þróun og uppbyggingu raunfærnimats á háskólastigi. Í niðurstöðunum koma fram helstu ástæður fyrir því að boðið sé upp á raunfærnimat en þær eru m.a. til að veita betra aðgengi að háskólanámi, að hvetja til skilvirkrar endurmenntunar og þar af leiðandi frekari atvinnutækifæra sem og að auka fjölbreytni nemenda í háskólum. Þar kom einnig fram að flestir þeirra sem fara í gegnum raunfærnimat til styttingar háskólanáms eru á BA/BS stigi í náminu, eða á sjötta hæfniþrepi Evrópska hæfnirammans, EQF6, sem skilgreinist á fimmta hæfniþrepi íslenska hæfnirammans ISQF5 (Menntamálastofnun, e.d.). Í niðurstöðum rannsóknarinnar voru svo dregnar upp helstu áskoranir sem háskólar standa frammi fyrir er varða raunfærnimat, sem eru meðal annars að það skorti skilning á verklagsreglum og kröfum sem gerðar eru til raunfærnimatsins, að viðhorf fræðasamfélagsins í garð raunfærnimats geti verið ábótavant, að það skorti sérþekkingu á raunfærnimati og gagnvart þeim einstaklingum sem fara í raunfærnimat þá er helsta áskorunin sá langi tími sem raunfærnimatið tekur (Karpíšek og Garbuglia, 2021). Þetta eru góðir punktar til að vinna með fyrir þróun raunfærnimats til styttingar háskólanáms hér á landi og sérstaklega er mikilvægt að kynna sér þær áskoranir sem háskólar standa frammi fyrir þegar boðið er upp á þessa leið í háskólanámi. Auðvelt er að veita þá fræðslu og þjálfun sem nauðsynleg er þegar bjóða skal upp á raunfærnimat, en viðhorf til verkefnisins þarf að fá að þróast í huga háskólafólks og mun alltaf endurspeglast af því hversu vel er vandað til verka.

Ávinningur raunfærnimats

Með því að bjóða upp á raunfærnimat erum við að spara tíma einstaklinga og fjármuni hagkerfisins. Einstaklingurinn fær metna þá þekkingu og færni sem hann hefur áunnið sér í lífinu og hefur nám þar sem hann er metinn staddur, út frá þeim gögnum sem hann leggur fram í ferilmöppu sinni. Við spörum fjármuni þar sem sá tími sem varið er í skólagöngu er styttur út frá raunfærnimatinu. Samfélagslegi ávinningurinn er síðan sá að einstaklingur, sem fær hæfni sína metna, skapar samfélagsleg verðmæti með þátttöku sinni í námi og í framhaldi af því á vinnumarkaði í stað þess að horfa mögulega upp á atvinnuleysi og þær afleiðingar sem því fylgja. Helsti ávinningur raunfærnimatsins er því ekki eingöngu einstaklinganna sem styrkja sig í námi og starfi, heldur ekki síður samfélagsins, bæði efnahagslegur og félagslegur. Gary S. Becker, kemst vel að orði í bók sinni Human Capital (1994) hvað þetta varðar: „Með hækkun menntunarstigsins skapast möguleiki á auknum hagvexti og með viðurkenningu á þeirri þekkingu sem einstaklingarnir búa yfir byggjum við upp öflugri mannauð í samfélaginu. Því er mikilvægt að hafa í huga að með aukinni menntun og þjálfun erum við að fjárfesta í mannauði“ (Becker, 1994:17).

Á Íslandi er öflugur vinnumarkaður með mikilli atvinnuþátttöku allra kynja og litlu atvinnuleysi. Þetta er mikill mannauður en engu að síður ríkir ákveðið ójafnvægi milli starfa og menntunar sem væri vert að leiðrétta með raunfærnimati til styttingar háskólanáms. Allt að 30% fólks með starfs- og framhaldsmenntun á Íslandi, þar með talið stúdentspróf, er í störfum umfram menntunarstig, það er störfum sem krefjast háskólamenntunar. Hér að neðan má sjá mynd sem útskýrir þetta ójafnvægi (Karl Sigurðsson, 2017).

Ójafnvægi starfa og menntunar 2017

Með tilvísun í myndina dregur Karl fram þann hóp sem er með háskólamenntun og gegnir störfum sem ekki krefjast slíkrar menntunar (15%). Hann dregur einnig fram þann hóp sem er með grunnmenntun og gegnir störfum sem krefjast háskólamenntunar eða sérhæfingar (16%). Ég kýs að rýna líka í miðlínuna, á þann hóp sem er með starfs- og framhaldsmenntun og þar með talið stúdentspróf því það er sá hópur sem ég er að einblína á er varðar raunfærnimat til styttingar háskólanáms. Þessi hópur er í störfum sem alla jafna krefjast hærra menntunarstigs, en hann hefur til að bera. Þetta eru sem dæmi stjórnunarstörf, störf embættismanna og sérfræðinga og sérmenntað starfsfólk, sem getur átt við starfsfólk t.d. í bönkum. Þessi hópur er, vegna starfa sinna, með hærri laun en gerist og gengur miðað við menntunarstig. Hann getur átt á hættu að missa störfin af ýmsum orsökum, t.d. vegna skipulagsbreytinga og situr þá uppi með reynsluna eina að vopni og þá hæfni og þekkingu sem hann hefur áunnið sér á vinnumarkaðnum, en ekki háskólagráðuna. Það væri mikill ávinningur fyrir þennan hóp, persónulega, að tryggja stöðu hans á vinnumarkaði með raunfærnimati. Það væri líka mikill ávinningur fyrir samfélagið þar sem þessi hópur getur annars átt það á hættu, detti hann út af vinnumarkaði,  að þurfa að treysta á fjárhagslegan stuðning samfélagsins, sem og aðra samfélagslega þjónustu og þá um leið er þetta efnahagslegur ávinningur.

Ávinningi raunfærnimats  mætti líkja við ávinning starfsendurhæfingar. Virði þess að endurhæfa einstakling út á vinnumarkaðinn að nýju hefur t.d. verið metið af Talnakönnun fyrir Virk starfsendur-hæfingarsjóð frá árinu 2013, en verkefnið snýr að því að:

…..reyna að finna mælikvarða á sparnað af starfsemi VIRK sem taki mið af raunverulegum árangri undanfarin ár. Starfsemi eins og VIRK sýnir í bókhaldi fyrst og fremst kostnað. Árangurinn, sem felst í því að flýta endurhæfingu og stytta tímabil óvinnufærni og minnka tíðni örorku, er ekki mældur til fjár (Talnakönnun, 2021, bls. 5).

Á þessari mynd hér að neðan, sem fengin er úr skýrslu Talnakönnunar, má sjá þann fjárhagslega sparnað sem hefur hlotist af starfsendurhæfingunni á árinu 2020 og til samanburðar sparnaður frá árinu 2013.

(Talnakönnun, 2021:8)

Með þessari samlíkingu á raunfærnimati og starfsendurhæfingu er verið að vísa til efnahagslegs virði einstaklinga. Það er mikilvægt að gera efnahagslegan ávinning af raunfærnimati eins skýran og kostur er en til þess skortir okkur gögn hér á Íslandi. Á sama tíma og fjallað er um efnahagslegan ábata af raunfærnimati skal ekki vanmeta þann samfélagslega ávinning sem verður til og ekki síst hjá einstaklingum sem fá hæfni sína metna. Sjálfsvirðing þeirra vex og um leið upplifa þeir sig samfélagslega sterkari. Því þarf að vanda vel til verka og huga að því hvernig niðurstöður raunfærnimatsins eru settar fram til þess að þær virki hvetjandi og uppbyggjandi á einstaklinginn frekar en letjandi og sem niðurbrot.

Að lokum, með tilvísun til ávinnings, er vert að skoða möguleikann sem raunfærnimat til styttingar háskólanáms gæti haft á aukið kynjajafnvægi innan háskólanna, en hér á landi er verulega farið að halla á karlkyns nemendur samanber skýrslu Hagstofunnar um kynjaskiptingu þeirra sem luku háskólaprófi skólaárið 2018-2019. Hlutfall kvenna sem lauk háskólaprófi var 65,8%, eða tveir af hverjum þremur nemendum (Hagstofa Íslands, 2020). Þessari staðreynd er gerð skil í The Washington Post í október 2019 þar sem fjallað er um þennan mikla fjölda kvenna í háskólanámi á Íslandi og þar er meðal annars vísað í viðtal við rektor Háskólans á Akureyri þar sem hlutfall kvenna er enn hærra, eða 77%. Í greininni er fjallað um að fyrir 50 árum síðan hafi fjöldi karlmanna í bandarískum háskólum verið 58% en nú hefur þetta nánast snúist við þar sem fjöldi kvenna er 56% (The Washington Post, 2019). Það þarf að staldra við og skoða þessar tölur hér á landi og ef til vill væri hægt að snúa þessari þróun við með því að bjóða, meðal annars, upp á raunfærnimat til styttingar háskólanáms og ná þannig til ákveðins fjölda karlamanna sem hefur sérhæft sig á vinnumarkaði án formlegrar háskólamenntunar.

Niðurstöður rannsóknarinnar

Ferlið var langt og krefjandi fyrir fjölda aðila sem komu að því, en því seinkaði meðal annars vegna COVID-19. Niðurstaða raunfærnimatsins við fjölmiðlafræðibraut Háskólans á Akureyri voru 72 ECTS einingar upp í BA nám sem telur 180 einingar. En þar sem engar reglur eru til innan háskólans um raunfærnimat, sem byggir á þeirri hæfni sem einstaklingur hefur áunnið sér á vinnumarkaði, til eininga, þurfti fjölmiðlafræðibrautin að styðjast við reglur matsnefndar félagsvísinda- laga- og sálfræðideildar sem til staðar eru og varða mat á fyrra námi til eininga. Samkvæmt þeim er aðeins heimilt að meta 1/3 náms eða 60 ECTS einingar (Háskólinn á Akureyri, 2020). Endanleg niðurstaða matsins er því 60 ECTS einingar sem einstaklingurinn fær skráðar í námsferilinn sinn þegar hann skráir sig í nám á fjölmiðlafræðibraut Háskólans á Akureyri (sem hann hefur þegar gert). Niðurstaða raunfærnimatsins er söguleg þar sem þetta er fyrsta raunfærnimat sinnar tegundar sem er staðfest og skráð sem ECTS einingar í námsferil nemanda við háskóla á Íslandi. Til framtíðar er mikilvægt að semja reglur um raunfærnimat innan háskólanna sem heimila heildstætt raunfærnimat og heimilar skráningu allra þeirra eininga sem eru metnar sem raunfærni hverju sinni.

Þemagreining rannsóknarinnar

Þau þemu sem verður gerð skil hér á eftir, voru það veigamikil að full ástæða er til að fjalla sérstaklega um þau. Þau eru sex talsins; menntunarskortur, fordómar, virðing, fagmennska, gæði og laun tengd háskólamenntun. Þessi þemu urðu fyrir valinu þar sem þau tengjast svo sterkt upplifun einstaklingsins sem fer í gegnum raunfærnimat, raunfærnimatinu sjálfu sem og fjárhagslegri afleiðingu þess að hafa ekki aflað sér formlegrar menntunar.

  • Menntunarskortur

Skortur á formlegri menntun og minnimáttarkennd því tengd, hefur einkennt þá einstaklinga sem ég hef rætt við í störfum mínum og varð kveikjan að því að ég valdi að gera þessa rannsókn. Þegar ég hitti einstaklinginn, sem um ræðir í þessari rannsókn, í upphafi til þess að ræða mögulega aðkomu hans að þessari tilraun, um miðjan ágúst 2019, kom í ljós hversu miklar áhyggjur hann hafði af lítilli menntun sinni. Þegar ég bað hann um að útskýra það frekar þá vísaði hann til þess að hafa ekki lokið formlegu háskólanámi með gráðu, t.d. BA gráðu. Hann vissi þó að hann byggi yfir mikilli þekkingu og færni á sviði blaðamennsku og ljósmyndunar eftir að hafa starfað við fjölmiðla í 36 ár samfleytt, en það var óformlegt nám sem hann hafði enga staðfestingu fyrir og það olli honum áhyggjum. Hann hafði orðið þess vís í auglýsingum, á þeim störfum sem hann hafði áhuga á að sækja um, að alltaf var krafist háskólamenntunar og það hafði mjög letjandi áhrif á hann. Hann hafði til að mynda haft áhuga á að sækja um starf verkefnastjóra upplýsingamiðlunar hjá sveitarfélagi, en þar var krafist háskólamenntunar. Hann ræddi möguleika sína á að sækja um starfið við aðila sem komu að þeirri auglýsingu, en honum var tjáð að ekki tæki því fyrir hann þar sem hann hafði ekki háskólamenntun og kæmi því ekki til greina. Að öðru leyti uppfyllti hann öll skilyrði ráðningarinnar, en það dugði ekki til, þó svo að hann hefði 36 ára reynslu á þessu sviði. Þetta var vissulega högg fyrir mjög reyndan fagmann.

  • Fordómar

Þeir einstaklingar sem ég tileinka þessa rannsókn og urðu kveikjan að henni hafa margir hverjir upplifað fordóma vegna menntunarskorts. Stundum eru það eigin fordómar sem þessir einstaklingar eru að berjast við, en svo kemur það fyrir að þeir upplifa fordóma frá utanaðkomandi aðilum, ekki síst tengt umsóknum um störf. Í samfélaginu þrífast fordómar í garð menntunar og innan veggja háskóla þrífast einnig fordómar í garð þeirra sem eru „ómenntaðir“, því miður. Eflaust telja háskólamenntaðir fulltrúar akademíunnar að ekki sé um fordóma að ræða heldur finnst þeim erfitt að festa hönd á þá hæfni sem hlotist hefur á vinnumarkaðnum. Sú hæfni er vissulega hvergi skráð líkt og hæfniviðmið í hverju fagnámskeiði við háskólastofnanir. Því má spyrja sig hvaða nám fari raunverulega fram á vinnumarkaði og hvort þurfi að skrá það til þess að koma í veg fyrir fordóma? Þarna eigast við sjónarmið annars vegar þeirra sem hafa öðlast formlega menntun og þeirra sem hafa öðlast hana óformlega. Þessa umræðu upplifði ég í mars 2020 þegar vinnustofan um raunfærnimat var haldin við Háskólann á Akureyri, um þjálfun í raunfærnimati. Á vinnustofunni upplifði ég fordóma í garð þeirra einstaklinga sem skortir formlega háskólamenntun, en töluverðrar tortryggni gætti þar, sérstaklega af hálfu aðila frá heilbrigðisvísindasviði, sem er mjög eðlilegt í ljósi þess hversu stutt á veg raunfærnimat í háskóla er komið við íslenska háskóla og þar af leiðandi er lítil sem engin þekking til staðar.

  • Virðing

Virðing er hugtak sem fólki, sem kemur að raunfærnimati, er tíðrætt um og það var svo í samtölum mínum í rannsókninni. Það skiptir miklu máli að borin sé virðing fyrir þeim einstaklingi sem skal raunfærnimetinn, að borin sé virðing fyrir starfs- og lífreynslu hans sem mun verða metin, að borin sé virðing fyrir þeirri hæfni sem einstaklingurinn hefur áunnið á sér vinnumarkaði, að borin sé virðing fyrir vinnumarkaðnum og þeirri hæfni sem þar fyrirfinnst. Það skiptir jafn miklu máli að einstaklingurinn sem skal raunfærnimetinn beri virðingu fyrir því ferli sem hann er að fara í gegnum, fyrir þeim hæfniviðmiðum sem munu liggja til grundvallar raunfærnimati hans og að hann beri virðingu fyrir þeim mismunandi skoðunum á raunfærnimati sem hann mun upplifa á vegferðinni. Gagnkvæm virðing þeirra aðila sem koma að raunfærnimats-ferlinu getur haft úrslitaáhrif á niðurstöðu matsins þar sem verið er að bera saman formlega skráð hæfniviðmið og óformlega hæfni sem áunnin hefur verið á vinnumarkaði. Matið krefst yfirlegu og skipulegs mats og skorti virðingu í ferlinu gæti það haft í för með sér rangt mat.

  • Fagmennska

Allt raunfærnimatsferlið, frá upphafi til enda, krefst fagmennsku. Það skiptir máli að faglega sé staðið að verki í öllu matsferlinu, allt frá því að grunnupplýsingar eru veittar þeim sem áhuga hefur á því að fá hæfni sína metna, við skráningu raunfærninnar, við greiningu gagna, við staðfestinguna á matinu og við viðurkenninguna sjálfa sem og vottunina. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur sérhæft sig í raunfærnimati og þar er mikil fagþekking til staðar. Ferlar matsins eru skýrir og hefur Fræðslumiðstöðin boðið upp á þjálfun fyrir alla þá sem koma að raunfærnimati hvort sem um er að ræða ráðgjafann sem kemur að upplýsingagjöfinni í upphafi og leiðbeiningum og stuðningi í kjölfarið, fagaðilann (sem er sérfræðingur á því sviði sem metið skal) sem mun framkvæma matið eða verkefnastjórann sem heldur utan um raunfærnimatið frá upphafi til enda. Ég taldi það mjög mikilvægt að boðið væri upp á slíkt námskeið við háskólann á Akureyri til þess að tryggja að þekking á verkefninu væri til staðar þegar farið væri af stað í raunfærnimatið, til þess að tryggja fagmennsku. Ég fór þess á leit við Fræðslumiðstöðina að bjóða upp á slíkt námskeið og niðurstaðan var að boðið var upp á vinnustofu, eins og áður hefur komið fram, í byrjun mars 2020 sem heppnaðist vel og kveikti áhuga í nokkrum deildum háskólans. Farið var nokkuð nákvæmlega í verkferlið, þrep fyrir þrep, en það mikilvægasta í vinnustofunni var kannski samtalið sem átti sér stað. Það var mikill áhugi t.d. innan lögreglufræðinnar að skoða mögulegt raunfærnimat en þátttakendur innan heilbrigðisvísindanna voru með talsverðar efasemdir um hvort raunhæft væri eða mögulegt að bjóða upp á raunfærnimat á því sviði. Og það snýst vissulega um fagmennsku því ekki væri ráðlegt né raunhæft að bjóða upp á raunfærnimat án fullkominnar vissu og samþykkis innan hvers sviðs og hverrar deildar. Sú þekking sem nú þegar er til staðar í íslensku menntakerfi á raunfærnimati getur vel nýst þeim háskólum sem hyggja á að bjóða upp á raunfærnimat til styttingar náms til háskólagráðu, en það þarf líka að eiga sér stað víðtæk fagleg umræða og fræðsla.

  • Gæði

Það er ekki hægt að fjalla um fagmennsku í raunfærnimati án þess að tala um gæði. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur í norrænni samvinnu NVL (Nordisk nätverk för vuxnas lärende) og Nordplus Voksen unnið gæðalíkan fyrir raunfærnimat á Norðurlöndum. Í þjálfuninni, sem Fræðslumiðstöðin býður upp á er lögð rík áhersla á gæðalíkanið og gæðaviðmið í raunfærnimatsferlinu. Gæðamálin voru líka sett á dagskrá í vinnustofunni sem Fræðslumiðstöðin bauð upp á í HA í mars 2020. Samstarf mitt við gæðastjóra HA var mikilvægt í raunfærnimats-ferlinu innan skólans þar sem hún gat leiðbeint mér um alla þá formlegu ferla sem raunfærnimatið þurfti að fara í gegnum í völundarhúsi háskólans. Ég gat því með fullvissu treyst því að raunfærnimatið væri faglega unnið og öllum gæðakröfum fylgt.

  • Laun tengd háskólamenntun

Í sjötta og síðasta þemanu, laun tengd háskólamenntun, er ég að loka hringnum, ef svo má segja, þar sem þetta þema tengist vissulega menntunarskorti. Á því tímabili sem raunfærnimatið stóð yfir tók einstaklingurinn, sem um ræðir í þessari rannsókn, að sér verkefni sem krafðist hæfni hans og þekkingar fyrir opinbera stofnun. Þetta var skemmtilegt, krefjandi og sérhæft verkefni og afraksturinn var mjög góður svo eftir var tekið. Í samtölum okkar kom fram hversu ánægður hann var með að hafa fengið þetta tækifæri og hversu stoltur hann var af afrakstrinum. En þó fylgdi sá böggull skammrifi að viðkomandi var ekki með formlegt háskólapróf og því var eingöngu hægt að greiða honum laun sem tóku mið af  ófaglærðum einstaklingi. Þarna var vissulega farið eftir verklagsreglum þess opinbera aðila sem stóð að ráðningunni, en ekki tekið tillit til þeirrar áratuga reynslu og hæfni sem einstaklingurinn hafði til að bera og verkefnið krafðist. Þetta er því miður staðreynd, að vinnumarkaðurinn hagnast af því að ráða til sín reynslumikið fólk án háskólamenntunar fyrir mun lægri laun en greidd eru fyrir fólk með háskólamenntun og jafnvel litla sem enga reynslu. Þetta eru dæmi sem ég fæ líka inn á borð til mín reglulega í störfum mínum sem forstöðumaður Vinnumálastofnunar. Það má alltaf spyrja sig hvort ákveðinn hópur sitji ekki eftir þegar verið er að ráða í störf hjá opinberum aðilum sem krefjast þeirrar hæfni sem einstaklingar afla sér með háskólamenntun, en geta einnig aflað sér með áratuga reynslu á vinnumarkaði. Það munar talsvert í launum hvort um er að ræða háskólamenntaðan einstakling hjá opinberum aðila eða ófaglærðan, eins og þeir eru skilgreindir sem eru ekki með staðfest háskólapróf, en búa engu að síður yfir mikilli hæfni og reynslu. Þetta getur birst með tvennum hætti, annars vegar að einstaklingur komi ekki til greina í umsóknarferli þegar sótt er um starf sem krefst háskólamenntunar, eins og í dæminu þegar viðkomandi var ráðlagt frá því að sækja um starf því hann kæmi ekki til greina vegna skorts á háskólamenntun og svo það síðarnefnda hér áður að fá starfið, en þurfa að sætta sig við laun ófaglærðs einstaklings.

Áskorun til háskóla

Raunfærnimat ögrar vissulega hefðbundnu námi, hefðbundinni kennslu og hefðbundnu námsmati. Það snýst um að meta, fordómalaust, þá þekkingu, færni og hæfni, að hluta til eða að öllu leyti sem einstaklingar hafa öðlast í óformlegu námi á vinnumarkaði. Grunnhugmyndin er að veita viðurkenningu á fyrra námi, hvar, hvenær og hvernig sem það nám hefur átt sér stað. Við spörum fjármuni þar sem sá tími sem varið er í skólagöngu er styttur út frá raunfærnimatinu. Með raunfærnimati til styttingar náms á háskólastigi og til ECTS eininga er þó alls ekki verið að vega að háskólasamfélaginu á nokkurn hátt, draga úr vægi þess eða gjaldfella það nám sem í boði er. Ég skora því á háskóla að fara alvarlega að huga að því að bjóða upp á raunfærnimat til styttingar náms, en samkvæmt tilmælum frá Ráðherraráði Evrópusambandsins frá árinu 2012 er mælt með því að öll lönd Evrópusambandsins og EFTA landanna innleiði raunfærnimat á öllum skólastigum, þar á meðal háskólastiginu, fyrir árið 2018. Nú er árið 2022.

Heimildir

Becker, G.S. (1994). Human Capital: A Theoretical and Empirical Analysis with Special Reference to Education (3rd Edition). Chicago: The University of Chicago Press.

Canadian Association for Prior Learning Assessment. (2020). The History of CAPLA. Sótt af: http://capla.ca/home/history-of-capla/

Conrad, D. (2008). Building knowledge through portfolio learning in prior learning assessment and recognition. The Quarterly Review of Distance Education, Volume 9(2), 139-150.

Cork Institute of Technology. (2019). CIT celebrates 20 years of Recognition of Prior Learning. Sótt af: https://www.cit.ie/rpl

Council of the European Union. (2012). COUNCIL RECOMMENDATION of 20 December 2012 on the validation of non-formal and informal learning – 2012/C 398/01, C 398, Official Journal of the European Union 1-5.

Hagstofa Íslands. (2020). Aldrei fleiri brautskráðir doktorar. Sótt af: https://www.hagstofa.is/utgafur/frettasafn/menntun/utskrifadir-nemendur-ur-framhaldsskolum-og-haskolum-2018-2019/

Háskólinn á Akureyri. (2020). Mat á fyrra námi. Sótt af: https://www.unak.is/is/namid/saekja-um/mat-a-fyrra-nami

Ína Dögg Eyþórsdóttir, Hróbjartur Árnason og Fjóla María Lárusdóttir. (2017). Raunfærnimat á háskólastigi. Niðurstöður vinnuhóps um raunfærnimat á háskólastigi. Sótt af: https://www.hi.is/sites/default/files/sveinnkl/raunfaernimat_a_haskolastigi_skyrsla.pdf

Karl Sigurðsson. (2017). Vinnuafl og atvinnuleysi, staðan nú og breytingar á síðustu árum. Sótt af innri vef Vinnumálastofnunar: https://vmst-is.workplace.com/profile.php?id=100015079622180&fref=ts&epa=SEARCH_BOX

Karpíšek, M. og Garbuglia, F. (2021). Mapping Institutional Experiences of Recognition of Prior Learning in Higher Education. Sótt af: https://www.uhr.se/contentassets/e9abf4935ad94f308eaf84082313a608/rplip-survey_report_final.pdf

Karttunen, A. (2016). European inventory on validation of non-formal and informal learning – Finland – 2016. Sótt 2. maí 2020 af: https://www.cedefop.europa.eu/files/2016_validate_fi.pdf

Menntamálastofnun. (e.d.). Um íslenska hæfnirammann. Sótt af: https://mms.is/um-islenska-haefnirammann

Merikallio. R. (2019). Recognition of prior learning (RPL) among international higher education students in Finland (Master’s Thesis). University of Jyväskylä, Department of Education. Sótt af: https://jyx.jyu.fi/bitstream/handle/123456789/63764/URN%3aNBN%3afi%3ajyu-201905082437.pdf?sequence=1&isAllowed=y

OECD. (2010). Recognition of Non-Formal and Informal Learning: Country Practices. Sóttaf: https://www.oecd.org/education/skills-beyond-school/44600408.pdf

Scottish credit and qualifications framework. (2021). The RPL Tool.Sóttaf: https://scqf.org.uk/guide-to-rpl/rpl-tool/

Talnakönnun. (2021). Hagnaður af starfsemi Virk, útreikningur miðað við árið 2020. Sóttaf: https://www.virk.is/static/files/2021/avinningur-af-starfi-virk-2020.pdf

The Washington Post. (2019). The degrees of separation between the genders in college keep growing. Sótt af: https://www.washingtonpost.com/local/education/the-degrees-of-separation-between-the-genders-in-college-keeps-growing/2019/10/25/8b2e5094-f2ab-11e9-89eb-ec56cd414732_story.html

Yerevan Communiqué. (2015). Yerevan Communiqué. Conference of Ministers responsible for higher education. Yerevan. Sótt af: http://www.ehea.info/media.ehea.info/file/2015_Yerevan/70/7/YerevanCommuniqueFinal_613707.pdf 

Rannsóknina má nálgast í heild sinni á Skemmunni: https://skemman.is/handle/1946/40487

Soffía Gísladóttir

Soffía starfar sem forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra og Austurlandi. Hún var framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar á árunum 2005-2008. Soffía hefur lokið MA í menntavísindum með áherslu á raunfærnimat frá Háskólanum á Akureyri og BA í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi