- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Fatlaðir standa á hliðarlínunni og einangrast

Á Íslandi fer fram endurskoðun á umgjörð um menntun og atvinnutækifæri.

Hvernig eigum við að tala við fatlaða? Hvað gerum við þegar vandamál koma upp á vinnustaðnum? Af hverju ættum við að ráða fólk með skerta starfsgetu?

Þetta eru aðeins nokkrar af mörgum spurningum sem vakna á vinnumarkaði í dag á Íslandi. Spurningar sem yfirvöld eru að reyna að svara. Starfshópur á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis er um þessar mundir að endurskoða náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk. Tilgangurinn er að skapa meira gagnsæi um viðfangsefnið, koma á fót fleiri leiðum af ýmsu tagi fyrir þennan markhóp bæði í námi og starfi. Áhersla er lögð á að skapa jöfn tækifæri fyrir þennan þjóðfélagshóp. Fatlaðir eiga ekki að standa á upphafsreit þegar þeir yfirgefa formlega skólakerfið – eins og þeir gera oft.

-Við höfum öll þau tilföng sem þarf til að auka lífsgæði fatlaðs fólks í landinu, bæði hvað varðar menntun og vinnu, en við þurfum að bæta ferla og endurskoða þau tilboð sem við höfum nú þegar, segja Helga Gísladóttir og Hildur Betty Kristjánsdóttir, sem báðar eru virkir þátttakendur í starfshópnum. Helga starfar hjá Fjölmennt sem býður upp á námskeið fyrir fatlaða. Hildur Betty starfar hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Báðar hafa þær langa reynslu á sviðinu.

Það myndast gloppa

Helga segir að þeir sem leiti til hennar lifi með fatlanir af ólíku tagi, sumar mjög alvarlegar, á meðan aðrir aki eigin bíl í Fjölmennt. Námskeiðin hjá Fjölmennt eru ætluð fólki tuttugu ára og eldra.

– Gloppa myndast þegar þetta fólk lýkur námi í framhaldsskóla. Við reynum að mæta þörfum þess með fjölbreyttu framboði námskeiða. Námskeiðin veita enga formlega viðurkenningu heldur eru ætluð til þess að efla lífsgæði og tilgang með lífinu, segir Helga. Í Fjölmennt er hægt að velja á milli yfir 100 mismunandi námskeiða, til dæmis tölvunámskeið, matreiðslu-, tónlista-, föndur- og íþróttanámskeið. Námskeiðin eru starfrækt í samvinnu við símenntunarmiðstöðvar víðsvegar um landið til að skapa breidd og fjölbreytni.

Starfsemin er að hluta til fjármögnuð af framlögum á fjárlögum en að hluta til af þátttakendum sjálfum. Hún segir að þessi námskeið séu vönduð en þau veiti engin réttindi. En réttindi eru eitthvað sem þessi stóri hópur þráir og þarf til að komast áfram.

Flest námskeiðstilboðin eru vönduð en veita engin réttindi.

Einangrast í skólakerfinu

Hildur Betty segir að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) hafi hins vegar það hlutverk að hæfnigreina störf sem leggja grunn að starfaprófílum, námskrám og raunfærnimati.  FA er í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar um allt land.

– Eitt af markmiðum okkar er að geta blandað ólíkum hópum fólks betur saman með þessum leiðum í námi hvort sem það fer fram innan símenntunarmiðstöðvar eða á vinnumarkaði. Eins og lagt er upp með innan formlega skólakerfisins, segir Hildur Betty.

– Því miður er það þannig í dag að fatlað fólk einangrast meira og meira eftir því sem ofar dregur í skólakerfinu, segir hún. Hún bætir við að til séu ítarlegar, skriflegar áætlanir um framhaldsskólana sem eigi að mæta þörfum allra en það dugi ekki til.

– Fatlaðir standa á hliðarlínunni og eru einangraðir en við þurfum að aðlaga núverandi leiðir og umgjörð segir Hildur Betty.

– Ár hvert útskrifa framhaldsskólar ungt fatlað fólk sem sér enga framtíð fyrir sér á vinnumarkaði. Mörg þeirra fá ekki vinnu og hafa lítil tækifæri til þess að halda áfram námi vegna fötlunar sinnar. Mikilvægt er að veita þeim aðgang að fjölbreyttri menntun sem opnar þeim tækifæri á vinnumarkaði, segir Helga. Hildur Betty leggur áherslu á að ekki sé verið að búa til neitt nýtt heldur reyna að láta kerfið virka betur.

Hildur Betty og Helga benda einnig á að þau sem vilja út á vinnumarkaðinn skorti meiri stuðning og fleiri tilboð til að ná árangri. Fjölmennt og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins vinna að því að hæfnigreina þrjú störf á vinnumarkaði. Við höfum til dæmis hafið vinnu við að greina og flokka störf í matvælagreinum, þeirra sem sinna umönnun á elliheimilum og vinna í vöruhúsum. Einblínt er á hvaða hæfni þarf til slíkrar vinnu og hvar tækifærin liggja. Mismunandi störf eru sett í flokka og einstaklingarnir fá sönnun fyrir því í hvaða flokk þeir falla, segja þær.

Unnið er að gerð starfslýsinga út frá þörfum og hæfniviðmiðum starfa.

Helga starfar fyrir Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð fyrir fatlað fólk

Vinnumarkaðurinn

Vinnumálastofnun á Íslandi hefur það hlutverk að gera samninga við fyrirtæki í landinu sem eru tilbúin að ráða fólk með skerta starfsgetu til starfa. Hildur Betty telur mikilvægt að nánara samstarf skapist milli Vinnumálastofnunar og símenntunarmiðstöðva þegar kemur að námi.

Helga bendir einnig á að vinnumarkaðurinn þurfi betri fræðslu um þennan þjóðfélagshóp á vinnumarkaði . Með meiri upplýsingum er dregið úr fordómum og hræðslu við að ráða fatlað fólk í vinnu.

– Miklu skiptir því að við getum unnið saman, segir hún. Einstaklingurinn verður alltaf að vera í fyrirrúmi og athyglin beinast að hvers konar stuðning viðkomandi þarfnast. Hún nefnir einnig að til sé styrktarkerfi fyrir fyrirtæki sem vilja ráða fólk með skerta starfsgetu til starfa til allt að þriggja ára. Almenni vinnumarkaðurinn hefur verið duglegur við ráðningar á meðan nokkuð hefur skort á samstarf við opinbera vinnumarkaðinn og stóra vinnustaði, eins og sjúkrahús.

Framtíðin í brennidepli

Hildur Betty starfar hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

– Þá er einnig brýnt að við förum að skoða málið strax í upphafi. Þegar fatlað barn byrjar í skóla þarf barnið að hafa aðgang að stuðningi til að beina athygli að möguleikum í framtíðinni. Stuðningur á ekki að hefjast þegar viðkomandi er tvítugur og kemst að því að það eru hvorki tækifæri til frekari menntunar né vinnu, segir Helga. Hún segir að margir fatlaðir endi á vernduðum vinnustöðum þar sem engar aðrar leiðir séu til staðar fyrir þau.

– Allt snýst þetta um að við vinnum betur saman í framtíðinni og aukum framboð og aðgengi að menntun og vinnu. Við þurfum að gefa þessum hópi tækifæri til að nýta það sem fyrir er á Íslandi. Til þess að það takist þurfum við að gera ýmsar breytingar. Tækifærin eru til staðar, við erum komin af stað í þeirri hugsun, á endanum  snýst þetta um jöfn tækifæri fyrir alla. Tillaga okkar í starfshópnum er að bjóða upp á nám tengt hæfnikröfum starfs sem leiðir til vottunar í formi Fagbréfa atvinnulífsins. Þetta er samstarfsverkefni Fjölmenntar, Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Vinnumálastofnunar og símenntunarmiðstöðva, segja Helga og Hildur Betty að lokum.

Greinin er skrifuð fyrir DialogWeb veftímarit Norræna tengslanetsins um nám fullorðinna NVL og birt hér á íslensku með góðfúslegu leyfi. Sigrún Kristín Magnúsdóttir þýddi.


Samantekt

Úttekt stendur yfir á þeim náms- og starfstækifærum sem stendur fötluðu fólki til boða bæði hvað varðar menntun og þátttöku á vinnumarkaði á Íslandi. Markmiðið er að þeir standi jafnfætis öðrum þjóðfélagshópum. Tilföngin eru til staðar en sérfræðingarnir tuttugu í hópnum sem vinnur að úttekt á stöðu mála telja að þörf sé á auknu samstarfi. Leggja verður meiri áherslu á að gera framtíðaráætlanir við upphaf skólagöngu. Í dag er ungt fólk oft á núllpunkti að loknu námi í framhaldsskóla og því stendur ekkert til boða. Starfshópurinn vonast til að úrbætum verði hrint í framkvæmd þegar haustið 2023.


Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir er fjölmiðlafræðingur og hefur sinnt fjölbreyttum störfum við fjölmiðla, auk þess að kenna fjölmiðlafræði á háskólastigi. Hún er fulltrúi Íslands í ritstjórn DialogWeb, veftímarits NVL. Sigrún situr í stjórn Nordisk Journalistcenter og skipuleggur námskeið á þeirra vegum fyrir norræna blaðamenn.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi