- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Ferðalag einstaklings milli raunfærnimats og námsleiða FA

Inngangur

Í tengslum við endurskoðun laga um framhaldsfræðslu sem nú fer fram ákvað Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) að ráðast í nánari greiningu á tölfræði framhaldsfræðslunnar. Tilgangur vinnslunnar var að skoða gögn  frá árunum 2017 – 2022 annars vegar yfir raunfærnimat og hins vegar námsleiðir FA og í hve miklum mæli einstaklingar ferðast á milli þessara tveggja leiða framhaldsfræðslunnar. Í þessari grein er farið yfir niðurstöður þessarar vinnslu en þær leiða í ljós að um fjórðungur þeirra sem fóru í raunfærnimat á tímabilinu fóru líka í einhverja námsleið FA auk þess sem eitthvað er um að einstaklingur fari oftar en einu sinni í raunfærnimat og/eða sæki fleiri en eina námsleið FA. Mikill munur er eftir raunfærnimatsflokkum miðað við hlutfall þeirra sem fara í  hvoru tveggja í raunfærnimat og námsleið. Hlutfallið er hæst í flokki almennra bóklegra greina eða 50% en lægst innan raunfærnimats iðngreina.

Aðferðir

Áður en niðurstöður tölfræðivinnslunnar verða kynntar er rétt að fara aðeins yfir þær aðferðir sem notaðar voru við tölfræðivinnsluna. Í mars síðastliðnum voru gagnaskrár um annars vegar raunfærnimat og hins vegar námsleiðir FA fyrir árin 2017-2022 sóttar í Innu en upplýsingar um alla þætti framhaldsfræðslunnar eru skráðar þar inn, rétt eins og á við um nám í framhaldsskólum á landinu. Upplýsingar um raunfærnimatið og námsleiðir FA voru keyrðar saman og búinn til einn gagnagrunnur yfir feril þeirra sem voru skráð í raunfærnimat og/eða námsleiðir FA á tímabilinu.

Gera má ráð fyrir einhverju misræmi séu niðurstöðurnar sem hér eru birtar bornar saman við útgefna tölfræði Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Í útgefinni tölfræði FA eru leiðrétt gögn í samræmi við greiðslur Fræðslusjóðs og uppgjör í lok árs en það var ekki gert í gögnunum sem hér var unnið með.

Í tölfræðivinnslunni var þeim sem fóru í raunfærnimat skipt upp í fjóra raunfærnimatsflokka; almennar bóklegar greinar, löggildar iðngreinar, starfsnám og viðmið atvinnulífsins. Það er sama flokkun og notuð er í opinberri tölfræði FA.

Nú eru um 50 opnar leiðir til raunfærnimats á vettvangi framhaldsfræðslunnar. Þau sem fóru í einhverja námsleið FA var hins vegar skipt upp í sex brautarflokka, þrjá starfstengda og þrjá almenna. Starfstengdu flokkarnir þrír eru smiðjur, brúarnám (nám með námslok[1]) og almennt starfstengt[2] nám en almennu flokkarnir eru bóklegt nám, nám sem miðast að þeim sem hafa annað móðurmál en íslensku og nám sem beinist að sjálfstyrkingu einstaklingsins.

Niðurstöður

Ríflega helmingur þeirra sem fór í raunfærnimat á árunum 2017 til 2022 fór í mat í einhverri iðngrein, um þriðjungur í  raunfærnimat í starfsnámi að einhverju tagi og fimmtungur í raunfærnimat innan viðmiða atvinnulífsins eins og mynd 1 sýnir.

Mynd 1. Skipting í raunfærnimatsflokka (%), 2017-2022.

Hlutfall þeirra sem fóru í raunfærnimat í almennum bóklegum greinum var lægra, eða 3 %, og 2% féllu utan flokkaskiptingarinnar og fara í flokkinn „annað“. Hafa ber í huga að hluti hópsins fór í fleira en eitt raunfærnimat og að samanlagt eru prósentuhlutföllin sem hér eru birt því hærri en 100%.

Mynd 2. Fjöldi raunfærnimatsskráninga (%) eftir raunfærnimatsflokkum, 2017-2022.

Mynd 2 sýnir að um átta prósent þeirra sem fóru í raunfærnimat fóru í fleiri en eitt raunfærnimat, þar af 6% tvisvar sinnum en 2% þrisvar sinnum eða oftar. Nokkur munur er á hlutfalli fjölskráninga eftir raunfærnimatsflokkum. Hæst er hlutfallið í almennum bóklegum greinum, eða um 26%, um 18% í iðngreinum, 14% í starfsnámi og 10% í viðmiðum atvinnulífsins.

Mynd 3. Skipting í námskeiðaflokka (%), 2017-2022.

Á mynd 3 sést að yfir helmingur, eða 56%, þátttakenda í námsleiðum FA á tímabilinu sem hér er til skoðunar fór í starfstengt nám, tæplega fjórðungur í bóknám, 17% í  sjálfsstyrkingarnám af einhverju tagi, 11% í námsleiðir FA sem eru sérstaklega ætlaðar innflytjendum , 7% í smiðjur og 6% í brúarnám. Eins og var með raunfærnimatið, þá fór hluti hópsins í fleiri en eina námsleið FA á tímabilinu og samanlögð prósentuhlutföll sem hér eru birt því hærri en 100%.

Mynd 4. Fjöldi skráninga í námsleiðir FA (%), 2017-2022.

Um 17% prósent þátttakenda í námsleiðum FA hafa verið skráð í fleiri en eina námsleið, þar af  14% í tvær og  3% í þrjár eða fleiri eins og mynd 4 sýnir. Nokkur munur er á hlutfalli fjölskráninga eftir námsleiðaflokkum. Hæst er hlutfallið í bóknámi, eða 43%, en lægst í námi fyrir þau sem hafa annað móðurmál en íslensku, eða 20%.

Mynd 5. Hlutfall (%) sem fer í námsleið, eftir raunfærnimatsflokkum.

Mynd 5 sýnir hversu hátt hlutfall þátttakenda í raunfærnimat á árunum 2017-2022 fóru líka í einhverja námsleið FA á sama tímabili eftir raunfærnimatsflokkum. Myndin sýnir að fjórðungur þeirra sem fóru í raunfærnimat fóru einnig í að minnsta kosti eina námleið FA. Hins vegar var þó nokkur munur er á hlutfalli þeirra sem fóru í námsleið eftir raunfærnimatsflokkum. Hlutfallið er hæst í almennum bóklegum greinum eða 50% en lang lægst í iðngreinum eða 5%. Samtals 39% þeirra sem fóru í raunfærnimat innan viðmiða atvinulífsins fór einnig í námsleið FA og 45%  þeirra sem fóru raunfærnimat í starfsnámi eftir því sem gögnin sem hér er unnið með sýna.

Mynd 6. Raunfærnimatsflokkar eftir brautarflokkum námsleiða FA (%).

Af þeim þátttakendum sem fara í raunfærnimat og líka í einhverja námsleið FA birtist mikill munur eftir raunfærnimatsflokkum á því hvers konar námsleiðir eru sóttar eins og mynd 6 sýnir. Þannig tengist raunfærnimat í  iðngreinum og í almennum bóklegum greinum fyrst og fremst bóklegu námi en raunfærnimat í starfsnámi og í viðmiðum atvinnulífs dreifist hins vegar mun jafnar á milli námsleiðaflokka. Raunfærnimat í starfsnámi tengist helst brúarnámi, starfstengdu námi og því að fara í margar ólíkar námsleiðir en raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins helst starfstengdu námi og því að fara í margar ólíkar námsleiðir. 

Samantekt

Niðurstöðurnar sem hér voru kynntar sýna að um fjórðungur þeirra sem fór í raunfærnimat á árunum 2017-2022 var einnig skráður í að minnsta kosti eina námsleið FA. Þá benda niðurstöðurnar til að eitthvað sé um að sami einstaklingurinn fari í fleira en eitt raunfærnimat og/eða í fleiri ein eina námsleið FA. Niðurstöðurnar sýna þannig að á tímabilinu 2017 – 2022 hafi átta prósent þeirra sem fóru í raunfærnimat verið skráð í fleira en eitt raunfærnimat og að um 17% þeirra sem fóru í einhverja námleið FA hafi verið skráð í fleiri en eina námsleið. Athygli vekur að nokkur munur er á hlutfalli þeirra sem fara bæði í námsleið og raunfærnimat eftir raunfærnimatsflokkum. Aðeins 5% þeirra sem fara í raunfærnimat í iðngreinum fara einnig í einhverja námsleið FA en á milli 39% og 50% þeirra sem fara í mat í öðrum flokkum. Áberandi munur er líka á því hvaða námsleiðaflokkar eru sóttir. Þau sem fara í raunfærnimat í almennum bóklegum greinum og í iðnnámi fara þannig fyrst og fremst í bóknám innan námsleiða FA á meðan þau sem fara í raunfærnimat í starfsnámi og í viðmiðum atvinnulífsins dreifist mun jafnar á námsleiðaflokka.

Niðurstöðurnar varpa mikilvægu ljósi á tengsl raunfærnimats og námsleiða FA sem símenntunarmiðstöðvarnar í kringum landið bjóða upp á og er vottað af Menntamálastofnun. Enn fremur vekja þær upp spurningar um hvað verður um þann hóp sem fer í raunfærnimat en ekki í námsleiðir FA. Lætur hann staðar numið eða liggur leið hans í frekara nám innan framhaldsskólakerfisins? Ein skýringin á því hversu lágt hlutfall fólks sem fer í raunfærnimat í iðngreinum sækir námsleiðir FA gæti  til dæmis verið að leið þeirra liggi fyrst og fremst í framhaldsskólana. Raunar er það eitt af markmiðum raunfærnimats í iðngreinum að einstaklingur ljúki síðan námi í viðkomandi iðngrein innan framhaldsskólans. Enn sem komið er hefur hins vegar ekki fengist tækifæri til að tengja þau gögn sem hér var unnið með við skráningar á námi á framhaldsskólastigi til þess að hægt sé svara því hvort það sé almennt raunin. Mikil þörf væri á slíkri samtengingu gagna til þess að skýr mynd fáist á ferðalagi einstaklingsins gegnum ólíkar leiðir framhaldsfræðslunnar og yfir í formlegt nám.


[1] Brúarnám framhaldsfræðslunnar: Félagsmála- og tómstundabrú, Leikskólaliðabrú, Skólaliðabrú, Stuðningsfulltrúabrú, Félagsliðabrú.

[2] Sjá hér https://frae.is/namskra/allar-namskrar/

Margrét Einarsdóttir

Margrét Einarsdóttir er sérfræðingur hjá FA. Hún er með doktorspróf í félagsfræði frá Háskóla Íslands á sviði vinnumarkaðar og meistarapróf í mannfræði frá sama skóla. Hún hefur unnið við ýmis rannsóknartengd verkefni á liðnum árum og nær sérfræðiþekking hennar til stöðu ungmenna og annarra minnihlutahópa á vinnumarkaði, kynsskipts vinnumarkaðar, félags- og skipulagsþátta vinnuverndar, norrænna velferðarkerfa og rannsóknaraðferða félagsvísinda, jafnt megindlegra (tölfræði) sem eigindlegra aðferða.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi