- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Starfstengt nám fyrir alla

Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins heyrir nú fyrst og fremst undir nýtt félags- og vinnumarkaðsráðuneyti en áður heyrði starf FA undir menntamálaráðuneytið. Þessum breytingum fylgja nýjar áherslur og ný tækifæri. Í ráðuneytinu er lögð rík áhersla á að skapa rými fyrir alla innan framhaldsfræðslunnar, einnig fullorðið fólk með margskonar skerðingar. Hingað til hafa fá atvinnutengd námstækifæri staðið þessum hópi til boða og svo sannarlega hægt að gera betur.  

Námskrár FA byggja á traustum grunni sem eru hæfnigreiningar starfa. Með því að greina fyrst hæfnikröfur starfs og byggja nám og þjálfun á slíkri greiningu er betur tryggt að starfsfólk búi yfir þeirri hæfni sem starfið krefst.   

Nú hafa Fjölmennt, sem er símenntunarstöð fyrir fatlað fólk, og FA tekið höndum saman um að greina þrjú störf og fengið Atvinnu með stuðningi (AMS) hjá Vinnumálastofnun til liðs við sig í þeirri vinnu.  

Hæfnigreiningar FA byggja á þátttöku þeirra sem vinna störfin. Til að tryggja gott aðgengi og virka þátttöku allra í greiningarvinnunni voru bæði verkfæri og framkvæmd aðlöguð breiðari hópi þátttakenda. Allur texti sem unnið er með færður á auðlesið mál auk þess sem uppbygging og lengd funda var endurskoðuð og breytt. 

Fyrsta greiningin var gerð í nóvember 2022. Starf á hjúkrunarheimili varð fyrir valinu vegna þess að þar er margt starfsfólk á vegum AMS og mönnunarþörf mikil. Þátttakendur komu frá þremur hjúkrunarheimilum auk ráðgjafa AMS og Fjölmenntar. Í greiningarvinnunni kom fljótt í ljós að um tvö störf var að ræða og er niðurstaða greiningarinnar tveir starfaprófílar sem eru birtir á heimasíðu FA. Aðstoð við félags- og þjónustustörf og Aðstoð við þrif og þjónustustörf.  Auk greiningarvinnunnar er gögnum safnað varðandi hvaða þekkingu og þjálfun þarf til að gegna starfinu. Þau gögn nýtast við hönnun náms í framhaldinu.  

Hvað er nýtt og hverju skilar það? 

Helsti lærdómurinn af því að laga verkfæri og framkvæmd að breiðari hópi þátttakenda er að gæði niðurstaðna eru þau sömu. Það skiptir máli að gera því starfsfólki sem sinnir störfunum kleift að taka þátt í samtali um störf sín, hæfnikröfur og starfsþjálfun. Líkt og einn þátttakandi sagði: „Ekkert um okkur án okkar.“  Starfstengt nám er lykill að vinnumarkaðnum og til þess fallið að auka atvinnuþátttöku fólks með fötlun.  

Tilgangurinn með samvinnu FA og Fjölmenntar er alveg skýr. Að auka framboð starfstengds náms fyrir fólk með þroskahömlun og skildar raskanir með það að markmiði að efla þau og auka  atvinnuþátttöku hópsins á almennum vinnumarkaði.  

Þátttaka AMS í verkefninu er nauðsynleg þar sem að ráðgjafar AMS eru í daglegu samtali við hópinn sem er mjög breiður.  

Næstu skref  

Fjölmennt hefur fengið styrk til að hanna nám í kjölfar hæfnigreininganna og eru næstu skref þau að skrifa námskrá fyrir störfin tvö á hjúkrunarheimilum. Önnur greining af þremur verður greining á starfi á lager. Hún verður unnin á næstu mánuðum.  Ráðgjafar AMS hafa orðið varir við mikinn áhuga á þessum starfsvettvangi en þar vantar sárlega námstækifæri. 

Með þessum þremur greiningum og starfsnámi og þjálfun sem byggir á þeim er stigið lítið skref í átt að fjölbreyttari námstækifærum og aukinni atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði.  

Helga Gísladóttir

Helga Gísladóttir er forstöðumaður Fjölmenntar, símenntunar- og þekkingarmiðstöðvar. Helga er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á sérkennslu.

Lilja Rós Óskarsdóttir

Lilja Rós Óskarsdóttir starfar hjá Sláturfélagi Suðurlands við fræðslu, þróun og önnur verkefni í starfsmannahaldi. Hún starfaði áður hjá FA þar sem hún leiddi hæfniteymi um þróun og gerð verkfæra fyrir atvinnulíf og framhaldsfræðslu. Hún er með MA-gráðu í náms- og starfsráðgjöf og kennsluréttindi frá HÍ.

Steinunn Þórdís Júlíusdóttir

Steinunn Þórdís Júlíusdóttir er sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hún kemur að ýmsum verkefnum s.s hæfnigreiningum, raunfærnimatsnámskeiðum og fagbréfum. Steinunn hefur unnið hjá Fræðslumiðstöðinni frá árinu 2011.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi