- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Brú út á vinnumarkaðinn fyrir innflytjendur: Leikskólasmiðja og Fagnám fyrir starfsfólk leikskóla

Leikskólasmiðjan[1] er nýstárlegt verkefni sem hefur haft mikil áhrif á bæði nemendur og leikskóla um öll Suðurnes og víðar, en þátttakendur í fyrstu smiðjunum komu víða að. Verkefnið var þróað til að mæta þörf fyrir starfsfólk á leikskólum og felst í  því að tengja saman nám og vinnustað. „Hugmyndin kom þegar ég sá í fréttum að foreldrar voru að hópast niður í Ráðhús Reykjavíkur vegna þess að það vantaði fleiri leikskólapláss vegna manneklu“ útskýrir Nanna Bára, frumkvöðull verkefnisins. Hún talaði við Guðmund Pétursson frá Skólum ehf. (skolar.is), sem leiddi til samstarfs milli Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS), Skóla ehf. og Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum. Markmiðið var að bjóða upp á nám sem byggðist upp á verklegum vinnustofum og vettvangsnámi á leikskólum, fyrir innflytjendur sem hafa menntun og/eða reynslu í störfum með börnum og þurfa að bæta íslenskukunnáttu sína.

MSS hóf að kenna leikskólasmiðju í lok október 2022 fyrir fólk með annað móðurmál en íslensku. Hámarksfjöldi þátttakanda á námskeiði voru 20 manns og inntökuskilyrði i námið var að hafa lokið íslensku 2 eða að nemendur  gætu tekið þátt í samræðum á íslensku. Námið gekk vel og aðsóknin var mikil. Ákveðið var að bjóða upp á framhald af leikskólasmiðjunni á vorönn 2023 Fagnám fyrir starfsfólk leikskóla fyrir sama hóp frá janúar – mars 2023. Samhliða náminu var kennd starfstengd íslenska og var  orðaforði námsins aðlagaður að störfum með börnum í leikskóla. Samhliða náminu fóru nemendur í 10 daga (50 klukkustundir starfsnám á haustönn og vorönn) á leikskólum á Suðurnesjum.

Flest starfsfólk MSS hefur komið að smiðjunni á einn eða annan hátt og ekki síst náms- og starfsráðgjafar sem styðja hópinn og aðstoða nemendur t.d. við að fá menntun sína metna hjá ENIC/NARIC. Þorbjörg Guðmundsdóttir (Obba) var umsjónarkennari námsins og hefur unnið mikið þróunarstarf við hönnun kennsluefnis sem hentar þessum hópi nemenda. Að mati Aðalheiðar Hönnu, sem starfaði sem kennari í náminu,  vareinstaklega fróðlegt og gefandi að vinna með einstaklingum sem koma úr svo ólíkum áttum og mætast til að vinna saman að sameiginlegu markmiði. Nanna Bára og Aðalheiður Hanna eru sammála um að afar áhugavert er að heyra af reynslu nemanna í menntakerfi frá ólíkum löndum og hvernig þau upplifa íslenskt menntakerfi og menningu. „Þegar fullorðið fólk nær að leika sér og skapa í námi er yndislegt, það sést hvernig það nærir einstaklinginn,“ segir Aðalheiður Hanna, sem sinnti að miklu leyti skapandi kennslu.

Verkefni nemenda í leikskólasmiðju

Tenging við leikskóla

Leikskólasmiðjan og Fagnám fyrir starfsfólk leikskóla hafa frá upphafi haft þann tilgang að tengja nemendur beint við leikskólana. Nanna Bára lýsir hvernig þessi tenging varð til: „Við ákváðum að smíða leikskólasmiðju, byggða á vinnustofum þar sem nemendur læra mikið í gegnum vinnu í höndunum og á vinnustað en þó er auðvitað alltaf eitthvað bóklegt einnig. Það er mikilvægt að tengja nemendur beint við leikskólana til að auðvelda aðlögun að íslenskum vinnumarkaði. Það er einnig mikið unnið með tengslamyndun út í samfélagið s.s. bókasafn, Þekkingasetur, Hljómahöll, Víkingaheima, útikennslu, og heimsóknir á leikskóla og grunnskóla á Suðurnesjum. Einnig fáum við gesti til að segja frá og má nefna forsvarsmenn Skóla ehf., leikskólastjóra og leikskólakennara, heimsókn frá stærsta verkalýðsfélagi Suðurnesja og fleiri.“

Mikilvægi íslenskukunnáttu

Einn af lykilþáttum verkefnisins er mikilvægi íslenskukunnáttu. „Nemendur þurfa ákveðinn grunn í íslensku áður en þeir fara í vettvangsnámið,“ segir Nanna Bára. Hún leggur áherslu á að tungumálakunnáttan sé nauðsynleg til að nemendur skilji hugmyndafræði leikskólanna, vinnuaðferðirnar sem eru notaðar þar, geti unnið vel og átt samskipti við nemendur og annað starfsfólk. Íslenskukennsla er samþætt inn í námskrána með sérstökum áherslum á orðaforða tengdan störfum með börnum.

Skipulag námsins

Leikskólanáminu er skipt í tvo meginhluta. “Fyrri hluti námsins er Leikskólasmiðjan, þar sem fólk fær grunn í íslensku sem er tengd við störf með börnum og fræðsla sem byggist mikið upp á verklegum æfingum“ útskýrir Nanna Bára. Í seinni hlutanum, Fagnámi fyrir starfsmenn leikskóla, er lögð meiri áhersla á faglegt nám, þar sem kafað er dýpra í hugmyndafræði og starfsþekkingu.

Verkefni nemenda í leikskólasmiðju

Nemendur fara í fjögurra daga verklegt nám í fyrri hluta námsins þar sem þau setja í lokin upp kynningu og fræða samnemendur sína um leikskólana sem þau voru á. Þannig fá þau öll innsýn í fjölbreytta starfsemi leikskólanna. Í seinni hluta námsins fara þau í sex daga  vettvangsnám á leikskólum eða í sumum tilfellum í yngstu bekkjum grunnskóla og síðan flytja þau álíka kynningu fyrir samnemendur sína.

Valdefling í gegnum verklegt nám

Umbreytandi nám og valdefling eru kjarninn í náminu. „Valdefling kemur sterk inn og kennslan er virk,“ segir Nanna Bára. Námsferlið hefur haft þau áhrif að nemendur fá sjálfstraust til að takast á við nýjar áskoranir og nýta reynslu sína til að finna sína leið í skólakerfinu. ,,Með því að þekkja vinnuaðferðir og geta tekið þátt í daglegri starfsemi og skilja á hverju er von á  vinnustað höfum við séð nemendur eflast mikið,“ segir Nanna Bára,. Það er einnig áhugavert þegar þau deila reynslu sinni og þekkingu af skólastarfsemi í sínum heimalöndum.

Á lokadegi námsins er uppskeruhátíð og nemarnir flytja lokaverkefni sín þar sem gestum í faginu er boðið að hlusta og sýna þau jafnframt verk sín úr náminu.

Árangur og áhrif á atvinnumarkaðinn

Verkefnið hefur þegar sýnt góðan árangur. Leikskólar hafa tekið vel á móti nemendum og mörgum boðist störf áður en námi lýkur. „Leikskólarnir vilja oft ráða fólk áður en náminu lýkur en flestir fara fram á að viðkomandi ljúki náminu fyrst“ segir Nanna Bára og útskýrir að það sé eftirspurn fyrir þá sem ljúka náminu.

Sem dæmi um nemendur, er kona frá Úkraínu sem hafði verið kennari þar í mörg ár og fékk starf á leikskóla strax að lokinni námsleiðinni; karlkyns kennari frá Búlgaríu starfar nú í grunnskóla sem aðstoðarkennari og pólskur leikskólakennari sem starfar á leikskóla. Einnig eru á meðal nemenda einstaklingar sem hafa reynslu og þekkingu af störfum með börnum og jafnvel háskólamenntun á öðru sviði.

Þetta sýnir hversu mikil áhrif nám af þessum toga getur haft á líf fólks, vinnumarkaðinn og íslenskt samfélag. Samkvæmt Nönnu Báru hefur meirihluti þeirra sem tóku þátt fengið fulla vinnu við fræðslustörf á Suðurnesjum eða í Reykjavík. Finna má jafnframt fyrrum nemendur úr námsleiðinni á flestum leikskólum og jafnvel grunnskólum á Suðurnesjum. Í nóvember 2024 hafa 66 nemendur farið í námið, af þeim munu 12 ljúka námi í desember 2024. Það er mjög sjaldgæft að fólk hætti í náminu því það er haldið þétt utan um hópinn og öll hafa áhuga og ástríðu fyrir faginu. Við höfum heyrt af því að leikskólastjórar hringja sín á milli til þess að athuga hvernig nemarnir komu fyrir í starfsnáminu.

Heimsókn nemenda í Háaleitisskóla

Framtíðarsýn og þróun verkefnisins

Framtíð námsleiðarinnar lítur vel út. Nanna Bára sér fyrir sér að stækka verkefnið og bæta við fleiri námsleiðum. „Við erum alltaf að leita leiða til að bæta og þróa námsleiðina enn frekar,“ segir hún. Verkefnið gæti einnig verið yfirfært á önnur svið, eins og grunnskóla eða umönnun, þar sem verklegt nám getur nýst við að byggja upp hæfni. Námslýsing Leikskólasmiðjunnar hefur verið staðfest og birt á vef Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, sem þýðir að nú geta símenntunarstöðvar um allt land komið slíku námi í gang hjá sér.

Niðurlag

Leikskólasmiðjan hefur náð að byggja  brýr á milli náms og vinnumarkaðar, þar sem nemendur fá reynslu af vinnumarkaði, nám sem tengist greininni og sjálfstraust til að taka þátt í samfélaginu. Frá því að námið fór af stað hafa 54 þáttrakendur útskrifast úr náminu og í lok desember bætast 12 til viðbótar í hópi,, Verkefnið er ekki aðeins fræðilega sterkt, heldur hefur það einnig djúp áhrif á samfélagslega stöðu nemenda og leikskólana sem þeir vinna með. Nemar hafa myndað tengsl út í skólasamfélagið ásamt því að fá góða þekkingu á undirstöðugreinum samfélagsins varðandi börn og fjölskyldur.


[1] Leikskólasmiðjan, fyrri hlutinn, byggir á námskránni Smiðja 2.1, sem er 160 klukkustundir, en af þeim eru 88 klukkustundir fræðsla með leiðbeinanda. 72 klukkustundir fara í nám á eigin tíma. Meðfram þessu taka þau 80 klukkustundir í íslensku.

Fagnám fyrir starfsfólk leikskóla, seinni hlutinn, byggir á námskránni ‚Fagnám fyrir starfsfólk leikskóla‘ sem er 210 klukkustundir með leiðbeinanda. Á þessu stigi er kafað meira í fræðin: aðalnámskrá leikskóla og fagefni, eins og þroskaferli barna, málörvun og málþroska, agastjórnun, umhverfisvitund, samfélagsþekking, sjálfseflingu, hreyfiþjálfun, listastarf og sköpun, tónlist, samskipti, heilsuefling, trúnaður og traust, slysavarnir, líkamsbeitingu, veður, fæðuóþol og ofnæmi, náttúruvá, samtímamál  og upplýsingatækni. Meðfram þessu taka þau 40 klukkustundir í íslensku.

Nanna Bára Maríasdóttir

Nanna Bára Maríasdóttir starfar sem verkefnastjóri hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Nanna Bára er fiskiðnaðarmaður frá Fiskvinnsluskóla Íslands, með B.A. gráðu í félagsráðgjöf, kennsluréttindi frá Háskólanum á Akureyri og markþjálfi frá Profectus. Hún hefur starfað við þjónustu og kennslu í fyrirtækjum með ýmsum hætti frá árinu 1990 oftast tengt sjávarútvegi þar til 2017 þegar hún hóf störf hjá MSS sem þjónustar allt atvinnulífið.

Hrannar Baldursson

Hrannar Baldursson starfar sem sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hrannar er með M.Ed. í menntavísindum með áherslu á heimspeki frá Montclair State University í Bandaríkjunum. Einnig hefur hann stundað nám í leiðtogafræðum og er í námi við Háskóla Íslands með áherslu á nám fullorðinna. Síðustu 20 árin hefur hann starfað við fræðslu fullorðinna sem ráðgjafi, verkefnastjóri og sérfræðingur

Aðalheiður Hanna Björnsdóttir

Aðalheiður Hanna Björnsdóttir starfar sem sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Hanna er kennari með M.Ed. í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri, sjúkraliði og jógakennari. Hún hefur áður starfað við framhaldsfræðslu hjá Miðstöð símenntunar Suðurnesjum og kennslu stærðfræði og náttúrugreina á unglingastigi í grunnskóla.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi