- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Framhaldsfræðslan: Erlendir ríkisborgarar í námi og raunfærnimati 2017 – 2022

Inngangur

Hlutfall starfandi innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði hefur hækkað mikið á þessari öld. Árið 2003 voru innflytjendur 5,1% af öllum starfandi hér á landi en árið 2022 var hlutfallið komið í 20,6%, eða fjórföldun á tæpum 20 árum. Samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu 27/2010 er hlutverk framhaldsfræðslunnar að ná til fólks  á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið námi á framhaldsskólastigi, þar á meðal til innflytjenda sem eru í þeirri stöðu. Tölfræði yfir þátt innflytjenda á vinnumarkaði er hins vegar af skornum skammti og skortur á opinberum tölum um hlut þeirra í einstökum geirum vinnumarkaðarins.[i] Það sama má segja um mun á menntunarstigi eftir innflytjendastöðu[ii] og því er hlutfall innflytjenda innan markhóps framhaldsfræðslunnar ekki alveg á hreinu.

Hér  er ætlunin að kynna tölulegar niðurstöður eftir ríkisfangi innan framhaldsfræðslukerfisins á Íslandi. Það nær þó ekki til allrar innflytjenda sem nýta sér verkfæri framhaldsfræðslunnar þar sem gögnin sem unnið er með hér sýna ríkisfang en ekki innflytjendastöðu. Niðurstöðurnar eru hluti af ítarlegri greiningu á tölfræði framhaldsfræðslunnar sem gerð var í tengslum við endurskoðun laga um framhaldsfræðslu. Niðurstöðurnar sýna að um 10% þeirra sem sóttu raunfærnimat árin 2017 – 2022 voru erlendir ríkisborgarar en 29% þeirra sem fóru í vottaðar námskrár FA. Erlendir ríkisborgarar sækja frekar í raunfærnimat í starfsnámi. Langalgengasta raunfærnimatsleiðin meðal erlendra ríkisborgara er fisktækni sem er á hinn bóginn tiltölulega fámenn á meðal íslenskra ríkisborgara.

Aðferðir    

Áður en niðurstöður verða kynntar verður stiklað á stóru um þær aðferðir sem notaðar voru við tölfræðivinnsluna. Árið 2023 voru gagnaskrár um annars vegar raunfærnimat og hins vegar vottað nám  FA fyrir árin 2017-2022 sóttar í Innu en upplýsingar um alla þætti framhaldsfræðslunnar eru skráðar þar inn, rétt eins og á við um nám í framhaldsskólum á landinu. Upplýsingar um raunfærnimatið og námskrár FA voru keyrðar saman og búinn til einn gagnagrunnur yfir feril þeirra sem voru skráð í raunfærnimat og/eða námskrár FA á tímabilinu. Samkvæmt þeim tölum sem hér er unnið með fóru samtals 3019 einstaklingar í raunfærnimat og samtals 9520 einstaklingar í vottað nám FA á tímabilinu. Af þessum hópi voru samtals 766 einstaklingar skráðir í hvoru tveggja raunfærnimat og vottað nám.

Gera má ráð fyrir einhverju misræmi séu niðurstöðurnar sem hér eru birtar bornar saman við útgefna tölfræði Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Í útgefinni tölfræði FA eru gögn leiðrétt í samræmi við greiðslur Fræðslusjóðs og uppgjör í lok árs en slík leiðrétting fór ekki fram á gögnunum sem hér var unnið með.

Mismunandi er hvaða skilgreining á innflytjanda er notuð í rannsóknum og tölfræðigreiningum. Til dæmis miðar Hagstofa Íslands við fæðingarland hvoru tveggja einstaklingsins sem verið er að skoða og foreldra hans. Innflytjandi er þá sá/sú sem hvoru tveggja er fædd/ur í öðru landi og á foreldra sem fædd eru í öðru landi.[iii] Vinnumálastofnun miðar hins vegar við ríkisfang í umfjöllun sinni um „erlent vinnuafl“.[iv] Sami háttur er hafður á hér og miðað við ríkisfang viðkomandi. Vænta má að ríkisfangsskilgreiningin sé þrengri en fæðingarlandsskilgreiningin þar sem sum þeirra sem fæddust erlendis gætu hafa öðlast íslenskt ríkisfang eftir að hafa búið hérlendis í einhvern tíma. Til að forðast allan misskilning er talað um fólk með íslenskt og erlent ríkisfang í niðurstöðum hér á eftir, ekki um innflytjendur og innfædda.

Raunfærnimatsbrautirnar sem til skoðunar voru í tölfræðivinnslunni sem hér er fjallað um voru alls 54 en námskrárnar 45.

Í vinnslunni var raunfærnimatsbrautunum síðan skipt upp í sömu fjóra raunfærnimatsflokka og notaðir eru í opinberri tölfræði FA;

  • almennar bóklegar greinar,
  • löggildar iðngreinar,
  • starfsnám,
  • viðmið atvinnulífsins.

Námskránum var skipt upp í sex brautarflokka, þrjá starfstengda og þrjá almenna;

  • Starfstengdir flokkar;
    • smiðjur,
    • brúarnám (starfstengt nám með námslok ),
    • almennt starfstengt nám.
  • Almennir flokkar;
    • bóklegt nám,
    • nám sem er sérsniðið fyrir fólk með erlendan bakgrunn,
    • nám sem beinist að sjálfsstyrkingu einstaklingsins.

Við vinnslu gagnanna kom í ljós að hluti hópsins hafði verið skráður í fleira en eitt raunfærnimat. Í sumum tilfellum falla báðar/allar skráningarnar innan sama raunfærnimatsflokks en í öðrum tilfellum falla þær á ólíka raunfærnimatsflokka. Í niðurstöðunum er sá hópur flokkaður í sérstaklega undir heitinu „margar ólíkar skráningar“. Sömu sögu er að segja um flokka fyrir námskrár. Þeir einstaklingar sem voru skráðir í fleiri en eina námskrá sem falla á ólíka flokka námskráa eru flokkaðir sérstaklega undir „margar skráningar í ólíkt nám“.

Niðurstöður

Í niðurstöðum verður byrjað á að skoða hlutfall erlendra ríkisborgara í annars vegar raunfærnimati og hins vegar námskrám FA, þá verður farið yfir hverjar tíu algengustu raunfærnimats- og námskrárbrautirnar meðal íslenskra og erlendra ríkisborgara eru og hvort og þá hvaða munur sé á raunfærnimats- og flokkum námskráa eftir ríkisborgarastöðu. Að lokum er hlutur erlendra ríkisborgara í vottuðu námi FA skoðaður eftir að nám sem er sérsniðið að fólki með erlendan bakgrunn hefur verið tekið út úr útreikningum.

Mynd 1. Hlutfall í raunfærnimati, eftir ríkisfangi, 2017-2022

Samtals 10,3% þeirra sem fóru í raunfærnimat á árunum 2017 til 2022 voru með erlent ríkisfang en 89,7% voru með íslenskt ríkisfang. Mynd 1 sýnir að hlutur fólks með erlent ríkisfang í raunfærnimati hefur aukist á tímabilinu sem er til skoðunar hér þó svo aukingin hafi ekki verið línuleg. Hluturinn var lægstur 2017, eða 5%, fór í 14% 2019, dalaði í 8% COVID-árin 2020 og 2021 en var komin upp í 11% árið 2022.

Mynd 2. Hlutfall í vottuðu námi FA, eftir ríkisfangi, 2017-2022.

Samtals 29,2% þeirra sem sóttu vottað nám FA á árum 2017 til 2022 voru með erlent ríkisfang en 70,8% voru með íslenskt ríkisfang. Hlutur innflytjenda í vottuðu námi FA jókst á tímabilinu þó aukningin hafi ekki verið línuleg eins og mynd 2 sýnir. Hluturinn var lægstur 2018, eða 24%, en var komin í 32% árið 2021 og hélst sá sami árið 2022.

Íslenskt ríkisfangErlent ríkisfang
RaunfærnimatsbrautHlutfall af öllum með íslenskt ríkisfang (%)RaunfærnimatsbrautHlutfall af öllum með íslenskt ríkisfang (%)
Húsasmíði10,2Fiskitækni27,7
Rafvirkjun8,6Húsasmíði9,3
Almenn starfshæfni7,9Verslunarfulltrúi7,1
Verslunarfulltrúi5,6Rafvirkjun6,1
Leikskólaliðabraut5,6Almenn starfshæfni5,8
Skipstjórn5,6Fiskvinnslubraut5,8
Félagsliðabraut5,4Matartækni4,8
Fiskitækni4,5Matreiðsla4,8
Stuðningsfulltrúabrú4,4Þernur4,5
Pípulagnir4,1Pípulagnir3,5
Tafla 1. Tíu algengustu raunfærnimatsbrautir eftir ríkisfangi, 2017-2022

Tafla 1. sýnir tíu algengustu raunfærnimatsbrautirnar eftir ríkisfangi árin 2017-2022.  Eins og sést þá er ákveðinn munur á algengustu raunfærnimatsbrautum meðal fólks með íslenskt ríkisfang og fólks með erlent ríkisfang. Fiskitækni er þannig langalgengasta raunfærnimatbrautin meðal fólks með erlend ríkisfang en ríflega fjórðungur þess, eða 27,7%, fór í raunfærnimat í þeirri grein á tímabilinu. Það á hins vegar einungis við um 4,5% fólks með íslenskt ríkisfang. Húsasmíðin sem algengasta raunfærnimatsbrautin meðal íslenskra ríkisborgara en 10,2% þeirra sótti raunfærnimat í húsasmíði á tímabilinu sem hér er til skoðunar. Hlutfallið er aðeins lægra meðal erlendra ríkisborgara, eða 9,3% og er húsasmíðin næsta algengasta greinin í þeim hópi. Það vekur athygli að hlutfall algengustu brautarinnar meðal erlendra ríkisborgara er mun mikið hærra en hlutfall algengustu brautarinnar meðal íslenskra ríkisborgara, eða 27,7% á móti 10,2%. Skýringuna á þessum mun má leita í því að erlendir ríkisborgarar dreifast á mun færri raunfærnimatsbrautir en íslenskir. Þannig hefur enginn erlendur ríkisborgari sótt 21 af þeim rúmlega fimmtíu raunfærnimatsbrautum sem hafa verið í boði á tímabilinu en einhver íslenskur ríkisborgari hefur sótt allar þessar brautir.

Íslenskt ríkisfangErlent ríkisfang
NámskráHlutfall af öllum með íslenskt ríkisfang (%)NámskráHlutfall af öllum með erlent ríkisfang (%)
Menntastoðir25,4%Grunnnámskeið. f. fiskvinnslufólk30,7%
Smiðja9,6%Að lesa og skrifa á íslensku18,8%
Skrifstofuskólinn9,3%Íslensk menning og samfélag*13,6%
Stökkpallur8,3%Stökkpallur8,0%
Sölu- og markaðsnám6,8%Meðferð matvæla7,0%
Sterkari starfskraftur6,5%Fagnám í heilbrigðis og félagsþjónustu4,6%
Fagnám í heilbrigðis og félagsþjónustu4,9%Tæknilæsi og tölvufærni4,4%
Grunnnámskeið f. fiskvinnslufólk4,8%Uppleið3,8%
Uppleið4,6%Ferðaþjónusta**3,1%
Grunnmennt4,4%Skref til sjálfshjálpar2,6%
Tafla 2. Tíu algengustu námskrár FA eftir ríkisfangi, 2017-2022
*Íslensk menning og samfélag tók við af Landnemaskólanum 2019. Báðar námskrárnar eru inni í þessum tölum.
** Undir Ferðaþjónusta flokkast nokkrar námskrár sem snúast um ýmsar greinar ferðaþjónustunnar.

Tíu algengustu námskrár FA eftir ríkisfangi birtast í töflu 2. Taflan sýnir verulegan mun á algengasta námi FA meðal fólks með íslenskt ríkisfang og fólks með erlent ríkisfang. Meðal fólks með erlent ríkisfang er Grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk (30,7%) algengasta námskráin en þar á eftir koma námskrár sem eru sérsniðin fyrir fólk með erlendan bakgrunn, Að lesa og skrifa á íslensku (18,8%) og Íslensk menning og samfélag (13,6%). Meðal fólks með íslenskt ríkisfang eru Menntastoðir hins vegar langalgengasta námskráin, liðlega fjórðungur íslenska hópsins hefur sótt þær, en þar á eftir koma Smiðja (9,3%) og Skrifstofuskólinn (9,3%). Einungis 4,8% íslenskra ríkisborgara fór í Grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk – lang algengustu námskránna meðal erlendra ríkisborgara – og eins og gefur að skilja þá komast námskrárnar sem eru sérsniðnar fyrir fólk með erlendan bakgrunn ekki á topp tíu listann hjá íslenskum ríkisborgurum.

RaunfærnimatsflokkurÍslenskt ríkisfangErlent ríkisfangSamtals
Almennar bóklegar greinar2,6%0,0%2,3%
Löggildar iðngreinar46,4%34,1%45,1%
Stafsnám28,6%43,4%30,1%
Viðmið atvinnulífs18,1%21,5%18,5%
Annað0,0%0,0%1,7%
Margar ólíkar skráningar1,9%1,0%2,3%
Samtals100%100%100%
Tafla 3. Hlutfall (%) raunfærnimatsflokka eftir ríkisfangi, 2017-2022

Tafla 3 sýnir mun á hlutfalli raunfærnimatsflokka eftir ríkisfangi, árin 2017-2022. Taflan sýnir að starfsnámið er algengasti raunfærnimatsflokkurinn meðal erlendra ríkisborgara (43,4%) en löggildar iðngreinar næst algengastar(34,3%). Meðal íslenskra ríkisborgar snýst þetta við og raunfærnimat í iðngreinum er algengast (46,4%) en raunfærnimat í starfsnámi kemur þar á eftir (28,6%).

Mynd 3. Hlutfallsleg dreifing raunfærnimatsflokka meðal íslenskra og meðal erlendra ríkisborgara eftir árum.
Mynd 4. Hlutfallsleg dreifing raunfærnimatsflokka meðal íslenskra og meðal erlendra ríkisborgara eftir árum.

Myndir 3. og 4. leiða í ljós þónokkurn mun á hlutfallslegri dreifingu raunfærnimatsflokka eftir árum meðal íslenskra ríkisborgara annars vegar og erlendra ríkisborgara hins vegar. . Að jafnaði eru íslenskir ríkisborgar frekar skráðir í marga ólíka brautarflokka en þeir erlendu. Þannig var enginn erlendur ríkisborgari skráður í marga brautarflokka árin 2017, 2018 og 2022 og aðeins árið 2020 var hlutfallið jafnhátt meðal íslenskra og erlendra ríkisborgara. Þá sýna myndirnar að það er meiri hreyfing á hlutfallslegu dreifingunni á milli ára hjá erlendum en íslenskum ríkisborgurum. Þó sækja að jafnaði hlutfallslega fleiri íslenskir en erlendir ríkisborgarar í raunfærnimat í iðngreinum en hlutfallsega fleiri erlendir en íslenskir raunfærnimat í starfsnámi eins og einnig kom í ljós í töflu 3 þar sem þátttakan var skoðuð fyrir öll árin 2017-2022.

Flokkur námskráaÍslenskt ríkisfangErlent ríkisfangSamtals
Brúarnám (námslok)5,7%0,8%4,2%
Annað starfstengt nám41,8%50,4%44,3%
Smiðjur6,3%0,9%4,7%
Bóknám22,5%1,4%16,3%
Nám fyrir fólk með erlendan bakgrunn1,5%27,6%9,1%
Sjálfsstyrking12,5%11,6%12,2%
Margar skráningar í ólíkt nám9,8%7,3%9,1%
Samtals100%100%100%
Tafla 4. Hlutfall (%) flokkur námskráa eftir ríkisfangi, 2017-2022

Tafla 4 sýnir mun á hlutfalli flokka náms eftir ríkisfangi þegar þátttaka í námið árin 2017 til 2022 er lögð saman og staðfestir taflan að þónokkur munur er til staðar. Þannig er hlutfall þeirra sem sækja í annað starfstengt nám mun hærra á meðal erlendra en íslenskra ríkisborgara, eða 50,4% á móti 41,8%, þó að slíkt starfsám sé algengasti flokkurinn hjá báðum ríkisfangsflokkunum. Eins og búast má við þá er hlutfall erlendra ríkisborgara sem sækja nám fyrir fólk með erlendan bakgrunn mun mikið hærra en hlutfall íslenskra ríkisborgar, eða 27,6% á móti 1,5%. Á hinn boginn fara hlutfallslega  fleiri íslenskir en erlendir ríkisborgarar í bóknám (22,5% á móti 1,4%) og einnig hlutfallslega fleiri í brúarnám (5,7% á móti 0,8%) og í smiðjur (6,3% á móti 0,9%).

Mynd 5. Hlutfallsleg dreifing flokka náms meðal íslenskra og meðal erlendra ríkisborgara eftir árum.
Mynd 6. Hlutfallsleg dreifing flokka náms meðal íslenskra og meðal erlendra ríkisborgara eftir árum.

Myndir 5 og 6 sýna þónokkurn mun á hlutfallslegri dreifingu flokka náms eftir árum meðal íslenskra ríkisborgara annars vegar og meðal erlendra ríkisborgara hins vegar. Munar þar helst um að á árunum 2017-2022 sóttu 18%-32% erlendra ríkisborgara námsskrár sem sérstaklega eru sniðnar að fólki með erlendan bakgrunn. Einnig er hlutur bóknáms hlutfallslega – og áberandi – minni á meðal erlendra ríkisborgara en á meðal íslenskra en hlutur starfsnáms hins vegar hlutfallslega meiri. Þá sýna myndirnar þónokkra hreyfingu á hlutfallslegu dreifingunni á milli ára hjá  báðum hópum.

Eins og sést í niðurstöðunum hér fyrir ofan þá er hluti námsskráa FA sérsniðnar að fólki með erlendan bakgrunn með það að markmiði að styðja við þá að komast inn í íslenskt samfélag t.d. með kennslu í íslensku og/eða um íslenskt samfélag. Það má gefa sér að fólk með íslenskt ríkisfang sæki almennt ekki slíkt nám (nema sá litli hópur sem er erlendur að uppruna en hefur öðlast íslenskt ríkisfang) og því skekkir það nokkuð samanburð á innlendum og erlendum ríkisborgurum að hafa þessar námsskrár með í greiningunni. Hér fyrir neðan eru niðurstöður um hlutfall erlendra ríkisborgara vottuðu námi FA og munur á hlutfalli flokka námskráa eftir ríkisfangi þess vega líka birtar þegar sérsniðið nám fyrir fólk með erlendan bakgrunn er ekki haft með í útreikningum.

Mynd 7. Hlutfall í námskrám FA eftir ríkisfangi þegar nám sérsniðið fyrir fólk með erlendan bakgrunn er ekki haft með, 2017-2022.

Þegar nám sem er sérsniðið fyrir fólk með erlendan bakgrunn er tekið út úr útreikningum á vottuðu námi FA lækkar hlutfall erlendra ríkisborgara úr 29,2% í 23,2%. Sem fyrr þá hefur hlutur fólks með erlent ríkisfang hins vegar aukist á tímabilinu þó sú aukning sé ekki línuleg eins og mynd 6 sýnir. Hluturinn var 24,0% 2017, fór niður í 19% – 20% árin 2018 – 2020, hækkaði síðan í 26,3% 2021 og var kominn í 27,7% árið 2022.

Flokkur námskráaÍslenskt ríkisfangErlent ríkisfangSamtals
Brúarnám (námslok)5,8%1,1%4,7%
Annað starfstengt nám42,4%69,6%48,7%
Smiðjur6,4%1,2%5,2%
Bóknám22,8%1,9%18,0%
Sjálfsstyrking12,7%16,0%13,5%
Margar skráningar í ólíkt nám9,9%10,1%10,0%
Samtals100%100%100%
Tafla 4. Hlutfall (%)flokka námskráa eftir ríkisfangi þegar nám sérsniðið fyrir fólk með erlendan bakgrunn er ekki haft með, 2017-2022.

Tafla 4 sýnir einnig þónokkurn mun á hlutfalli flokka námskráa eftir ríkisfangi eftir að nám sem er sérsniðið fyrir fólk með erlendan bakgrunn hefur verið tekið út úr útreikningunum. Þannig sækir mun hærra hlutfall erlendra ríkisborgara en íslenskra í starfstengt nám, eða 69,6% á móti 42,4%, og einnig er hlutfall erlendra ríkisborgara sem fer í sjálfsstyrkingarnám hærra en hlutfall íslenskra ríkisborgara (16,0%). Á hinn bóginn sækir mun mikið hærra hlutfall íslenskra en erlendra ríkisborgara bóknám (22,8% á móti 1,9%) og hlutfall þeirra er líka hærra í smiðjum (6,4% á móti 1,2%) og í brúarnámi (5,8% á móti 1,1%).

Mynd 8. Hlutfallsleg dreifing flokka námskráa meðal íslenskra og meðal erlendra ríkisborgara eftir árum þegar nám sérsniðið fyrir fólk með erlendan bakgrunn er ekki haft með.
Mynd 9. Hlutfallsleg dreifing flokka námskráa meðal íslenskra og meðal erlendra ríkisborgara eftir árum þegar nám sérsniðið fyrir fólk með erlendan bakgrunn er ekki haft með.

Niðurstöðurnar sem birtast í myndum 7 og 8 sýna mun á hlutfallslegri dreifingu flokka námskráa eftir árum meðal íslenskra ríkisborgara annars vegar og meðal erlendra ríkisborgara hins vegar þrátt fyrir að nám sem er er sérsniðið fyrir fólk með erlendan bakgrunn sé ekki haft með í útreikningum á þeim. Myndirnar endurspegla þannig mikilvægi starfsnáms meðal þeirra erlendu ríkisborgara sem sækja vottað nám FA innan símenntunarmiðstöðva landsins og hve hlutur bóknáms er lítill meðal þeirra. Sem fyrr sýna myndirnar einnig þónokkra hreyfingu á hlutfallslegu dreifingunni á milli ára hjá báðum hópum.

Samantekt og lokaorð

Niðurstöðurnar sem hér var fjallað um sýna að 10% þeirra sem fóru í raunfærnimat og 29% þeirra sem fóru í vottað nám FA á árunum 2017-2022 voru erlendir ríkisborgarar. Þegar nám sem er sérsniðið fyrir fólk með erlendan bakgrunn hefur verið tekið út úr gögnunum yfir vottað nám FA lækkar hlutur erlendra ríkisborgara í þeim hins vegar niður í 23%. Skortur á upplýsingum um hlutfall innflytjenda í markhóp framhaldsfræðslunnar gerir erfitt fyrir að meta hvort halli á þeirra hlut í þessum tveimur meginstoðum framhaldsfræðslunnar. Eins flækir það málið að Hagstofa Íslands notar annan mælikvarða á innflytjendur en gögnin sem hér var unnið með leyfðu.[v] Þó benda niðurstöðurnar til þess að hlutur erlendra ríkisborgara í raunfærnimati sé rýr og að þar sé verk að vinna innan framhaldsfræðslunnar.

Þónokkur munur eftir ríkisfangi sést í þessum gögnum, á hvoru tveggja á raunfærnimatsvali og námsvali. Á meðan íslenskir ríkisborgarar sækja helst í raunfærnimat í iðngreinum þá er raunfærnimat í starfsnámi vinsælast meðal þeirra erlendu. Fiskitækni er lang algengasta raunfærnimatsbrautin á meðal erlendu ríkisborgaranna, 28% þeirra sótt mat í henni en einungis 5% þeirra íslensku. Einnig dreifast erlendu ríkisborgararnir á mun færri raunfærnimatsbrautir en þeir íslensku, meðal annars hefur enginn erlendur ríkisborgari farið í raunfærnimat í bóklegum greinum. Raunar dreifast erlendu ríkisborgararnir á færri raunfærnimatsbrautir en þeir íslensku. Þannig var enginn erlendur ríkisborgari skráður í meira en þriðjung þeirra raunfærnimatsbrauta sem voru í boði á tímabilinu.

Hvað vottað nám FA varðar þá fóru 28% erlendu ríkisborgaranna í nám sem er sérsniðið fyrir fólk af erlendum uppruna en, eins og við er að búast, þá á það einungis við um lítið brot af þeim íslensku, eða um 2%. Þegar slíkt nám er tekið út úr útreikningum á námskránum sést að mun hærra hlutfall erlendra en íslenskra ríkisborgara sækir starfstengt nám (70% á móti 42%) en áberandi hærra hlutfall íslenskra ríkisborgara bóknám (22,8% á móti 1,9%). Ein skýring á rýrum hlut erlendra ríkisborgara í bóknámi er tungumálið, þ.e. að bóknámið sé að mestu leyti kennt á íslensku en erlendir ríkisborgarar treysti sér oft á tíðum ekki bóklegt nám á tungumáli sem þau hafa lítil sem engin tök á. Að einhverju leyti má væntanlega skýra þann mun sem sést á raunfærnimats- og námsvali íslenskra og erlendra ríkisborgara á því að hóparnir sinni að jafnaði ólíkum störfum.


[i] https://hagstofan.s3.amazonaws.com/media/public/2023/17783d31-e57c-4109-a0e8-31e7d7c0e853.pdf.

[ii] https://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/menntun/menntunarstada/

[iii] https://hagstofan.s3.amazonaws.com/media/public/2023/17783d31-e57c-4109-a0e8-31e7d7c0e853.pdf.

[iv] https://vinnumalastofnun.is/

[v] https://hagstofan.s3.amazonaws.com/media/public/2023/17783d31-e57c-4109-a0e8-31e7d7c0e853.pdf.

Margrét Einarsdóttir

Margrét hefur doktorspróf í félagsfræði frá Háskóla Íslands á sviði vinnumarkaðar og meistarapróf í mannfræði frá sama skóla. Hún hefur unnið við ýmis rannsóknartengd verkefni á liðnum árum og nær sérfræðiþekking hennar til stöðu ungmenna og annarra minnihlutahópa á vinnumarkaði, kynsskipts vinnumarkaðar, félags- og skipulagsþátta vinnuverndar, norrænna velferðarkerfa og rannsóknaraðferða félagsvísinda, jafnt megindlegra (tölfræði) sem eigindlegra aðferða.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi