- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Framtíð stafrænnar inngildingar

Enginn verður skilinn eftir

„Enginn verður skilinn eftir“ er leiðarstef heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, skuldbinding sem öll 191 ríki SÞ hafa undirgengist. Nú, þegar stafrænni þróun vindur fram af miklum hraða, reynir á þetta loforð. Tæknin veitir ýmiss konar tækifæri til að tengja saman fólk og valdefla það en um leið er mikilvægt að hafa í huga að hún skapar líka samfélagslegan ójöfnuð, dýpkar jaðarsetningu og myndar nýjar tegundir hindrana. Áhyggjur af þessum áhrifum tækninnar eru þó ekki nýjar af nálinni. Frá 1990 hafa stjórnvöld víðs vegar um heiminn rýnt í hvernig tryggja megi þátttöku allra í þessum nýja heimi tækninnar á þann hátt að enginn verði skilinn eftir.

 Verkefnið felst  ekki eingöngu í því að bera kennsl á þennan ójöfnuð, heldur að takast á við hann. Til þess að uppfylla fyrrgreint loforð um inngildingu í stafrænum heimi er brýnt að rjúfa hindranir og leita  lausna á þeim vanda sem upp kemur. Núna er áríðandi að sameinast um að skapa framtíð þar sem tæknin er öllum til heilla.

Stafrænn ójöfnuður

Allt frá því að Internetið varð aðgengilegt almenningi hefur það gagnast mörgu fötluðu fólki. Tæknin hefur fært því tækifæri til fjarvinnu og fjarnáms og meiri félagslegra tengsla. Hún hefur ekki síður einfaldað leiðir til að versla og sækja heilbrigðisþjónustu. Tækninni er oft hampað fyrir að brjóta niður múra og það gerir hún vissulega. Samt sem áður þarf að horfast í augu við þá staðreynd að hún á líka sinn þátt í að byggja nýja múra. Aðgengisleysi og ójöfnuður mætir nefnilega mörgu fötluðu fólki á Internetinu og sá ójöfnuður hefur mismikil áhrif eftir því hvers eðlis skerðingar fólks eru og ekki síður eftir  samfélagslegum bakgrunni þess.

Rætur stafræns ójöfnuðar eru margar og teygja sig víða og hann verður ekki leystur með einföldum lausnum heldur þurfa þær að vera margskonar, rétt eins og  ástæður vandans eru margskonar. Takmörkuð notkun fólks á tækninni er ekki eingöngu tilkomin vegna tæknilegra áskorana, eins og lélegrar nettengingar eða færni til þess að nýta hana. Hún verður heldur ekki útskýrð  eingöngu með sálfræðilegum þáttum, eins og kvíða og forðun. Rannsóknir sýna að lítil notkun á tækni er flókið samspil félagslegra, sálfræðilegra, efnahagslegra og hagnýtra ástæðna. Þar má nefna fjárhagslega burði til að kaupa tæki, búa á vel nettengdu svæði, hafa tækifæri til að þróa hæfni sína, og tæknin sé fólki raunverulega aðgengileg. Þá hefur einnig verið fjallað um hversu neikvæð áhrif það hefur þegar lítið sem ekkert samráð er haft  við fatlað fólk og samtök þess þegar kemur að hönnun tækni og stefnumótun hins opinbera. Án samráðs við fatlað fólk er erfitt að mæta þörfum þess og þannig er ójöfnuðurinn festur í sessi.

Stafrænn ójöfnuður er enn mikill og sumir fræðimenn halda því fram að hann sé jafnvel að aukast, þrátt fyrir fyrirheit alþjóðasamfélagsins og skuldbindingar á borð við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks og heimsmarkmiðin, sem leggja sérstaka áherslu á rétt til aðgengis og mikilvægi inngildingar.

Norrænt sjónarhorn

Norðurlöndin, í samvinnu við Eystrasaltsríkin, hafa lýst því yfir að stafræn inngilding sé hornsteinn stafrænnar þróunar, meðal annars í gegnum verkefni á borð við Digital Inclusion in Action og sameiginlegar yfirlýsingar ráðherra ríkjanna sem hafa stafræn mál á sinni könnu. Þar hafa þau lagt áherslu á mikilvægi stafræns læsis, færni og hæfni, sem nú þegar er talin nauðsynleg til fullgildrar þátttöku í samfélaginu. Markmið yfirlýsingarinnar eru  að tryggja að allir borgarar fái tækifæri til að efla færni sína og hafi aðgang að notendavænni stafrænni þjónustu. Skilaboð þeirra eru skýr: Engan megi skilja eftir á tímum stafræns heims og yfirlýsingar þessara landa eru í samræmi við stefnu og markmið Evrópusambandsins, undir yfirskriftinni Digital Europe.

Ekkert um okkur án okkar!

Stafræn inngilding er lykilþáttur í fullgildri þátttöku í samfélaginu. Fyrir fatlað fólk er hún sérstaklega mikilvæg enda opnar hún dyr að tækifærum til menntunar, atvinnu, félagslegra tengsla og opinberrar þjónustu. Einn hluti inngildingarinnar er rétturinn til að öðlast stafræna færni, sem aðeins er hægt að tryggja með inngildandi menntun og óaðgreindum samfélögum. Þegar menntun er sniðin að þörfum og reynslu fatlaðs fólks styður hún ekki eingöngu við stafræna færni, heldur einnig við sjálfræði, sjálfstæði og þátttöku. Að sama skapi er mikilvægt að viðurkenna að öll færni er aðstæðubundin og sprettur upp úr lifandi samspili líkama, huga og umhverfis og hana má efla með æfingu. Samfélagsleg jaðarsetning, eins og skortur á tækifærum til þátttöku á vinnumarkaði, í menntakerfinu og félagslegu umhverfi, hefur neikvæð áhrif á þróun færni fólks. Þetta getur skapað vítahring, þar sem tæknifærni verður sífellt mikilvægara tól til þátttöku í samfélaginu.

Þegar tekist er á við stafrænan ójöfnuð er mikilvægt að horfa til kerfisbundinna þátta sem fatlað fólk stendur frammi fyrir, í stað þess að líta svo á að ójöfnuðinn megi rekja til persónulegra vandamála eða misbresta. Þá verður markmiðum um stafræna inngildingu aðeins náð með þátttöku og leiðsögn fatlaðs fólks. Reynsla þess og sérfræðiþekking er mikilvægt hreyfiafl fyrir inngildandi og aðgengilega stafræna framtíð, þar sem enginn er skilinn eftir.

Heimildir og frekara lesefni

Adam, Alison, og David Kreps. ‘Disability and Discourses of Web Accessibility’. Information, Communication & Society 12, no. 7 (Október 2009): 1041–58. https://doi.org/10.1080/13691180802552940.

Andersen, Lasse Wulff, og Louise Palludan Kampmann. ‘Monitoring Digital Inclusion in the Nordic and Baltic Region’. Nordregio, 30. janúar 2024.

European Commission. ‘Digital Skills’, 10. október 2024. https://digital-strategy.ec.europa.eu/en/policies/digital-skills.

Goggin, Gerard, Katie Ellis, and Wayne Hawkins. ‘Disability at the Centre of Digital Inclusion: Assessing a New Moment in Technology and Rights’. Communication Research and Practice 5, no. 3 (3. júlí 2019): 290–303. https://doi.org/10.1080/22041451.2019.1641061.

Holstein, Ella van, Ilan Wiesel, Christine Bigby, and Brendan Gleeson. ‘People with Intellectual Disability and the Digitization of Services’. Geoforum 119 (Febrúar 2021): 133–42. https://doi.org/10.1016/j.geoforum.2020.12.022.

Jaeger, Paul T. Disability and the Internet: Confronting a Digital Divide. Boulder;London: Lynne Rienner Publishers, 2011. https://doi.org/10.1515/9781626371910.

Johansson, Stefan, Jan Gulliksen, and Catharina Gustavsson. ‘Disability Digital Divide: The Use of the Internet, Smartphones, Computers and Tablets among People with Disabilities in Sweden’. Universal Access in the Information Society 20, no. 1 (Mars 2021): 105–20. https://doi.org/10.1007/s10209-020-00714-x.

Nordic Co-operation. ‘Common Statement on the Importance of Promoting Digital Inclusion as a Central Part of the Digital Transformation in the Nordic-Baltic Region’, 26. nóvember 2021. https://www.norden.org/en/declaration/common-statement-importance-promoting-digital-inclusion-central-part-digital.

Selwyn, Neil. ‘Reconsidering Political and Popular Understandings of the Digital Divide’. New Media & Society 6, no. 3 (Júní 2004): 341–62. https://doi.org/10.1177/1461444804042519.

UN Department of Economic and Social Affairs. ‘E-Government Survey 2024: Accelerating Digital Transformation for Sustainable Development’. New York, 2024. https://desapublications.un.org/sites/default/files/publications/2024-09/%28Web%20version%29%20E-Government%20Survey%202024%201392024.pdf.

Wendt-Lucas, Nicola, Sigrid Jessen, og Maja Brynteson. ‘National Digital Inclusion Initiatives in the Nordic and Baltic Countries’. Nordregio, 29. janúar 2024. https://doi.org/10.6027/R2024:31403-2503.

(Greinin er einnig á ensku í meðfylgjandi pdf)

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir er doktorsnemi og aðjunkt við Háskóla Íslands. Inga Björk, sem er sjálf fötluð, hefur verið áberandi í yfir áratug sem baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks og hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir baráttu sína fyrir mannréttindum og stafrænu aðgengi. Áður en hún hóf doktorsnám vann hún hjá Landssamtökunum Þroskahjálp, sem berjast fyrir réttindum fólks með þroskahömlun.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi