- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Menningarnæmi í fullorðinsfræðslu

Mikilvægi þjálfunar og innleiðingar í námi

Þjálfun í menningarnæmi er öflug leið il að draga úr og útrýma misrétti sem tengist kynþætti, kyni, kynhneigð, fötlun, aldri og/eða öðrum fjölbreyttum eiginleikum sem eru til staðar í samfélaginu. Í þessari grein er leitast við að veita kennurum og leiðbeinendum tækifæri til að öðlast skilning á menningarnæmi með hliðsjón af fullorðinsfræðslu þar sem Ísland er að verða mun fjölbreyttara samfélag en áður. Fullorðinsfræðsla gegnir mikilvægu hlutverki í inngildingu í samfélaginu og á vinnumarkaði (Mosty, 2023). Til að fullorðinsfræðsla geti sinnt því hlutverki með góðum árangri er mikilvægt að kennarar og leiðbeinendur búi yfir færni í menningarnæmi og noti kennsluaðferðir sem eru byggðar á þeirri færni. Það gerir þeim kleift að koma til móts við ólíka hópa nemenda á menningarlega viðeigandi (culturally appropriate) hátt.

Innflytjendum sem búa og starfa hér á landi fer ört fjölgandi, sem þýðir að öðrum tungumálum en íslensku sem töluð eru inni á heimilum og á vinnumarkaði fjölgar og þar með þörfin fyrir íslenskukennslu sem annað mál. Auk þess hefur  einstaklingum fjölgað með takmarkaða tungumálakunnáttu sem sækja námskeið og þjónustu hjá símenntunarmiðstöðvum. Að sama skapi er aðskilnaður milli fólks orðinn meiri og greinilegri í samfélaginu. Aðskilnaður tengdur fjölbreytni sem snýr að félagslegum mun, kyni, kynþætti, aldri, fötlun, kynhneigð og jafnvel  trú og lífsskoðun. Einstakar þarfir ólíkra hópa krefjast menningarnæmi þar sem lýðfræðileg samsetning fólks í samfélaginu heldur áfram að breytast.

Menningarnæmi eða “cultural competence” eru hegðun, viðhorf og stefna sem gerir okkar kleift að vinna og búa saman á áhrifaríkan og skilvirkan hátt í fjölmenningarlegum aðstæðum. En í tengslum við fullorðinsfræðslu er mikilvægt að nálgast hugtakið á kerfislægan hátt. Cross o.fl. (1989) skilgreina menningarnæmi sem: „Mengi samræmdrar hegðunar, viðhorfa og stefnu sem koma saman í kerfi, stofnun eða meðal fagfólks og gerir því kerfi, stofnun eða þessum sérfræðingum kleift að vinna á áhrifaríkan hátt í þvermenningarlegum aðstæðum“ (Cross o.fl. , 1989, bls. iv).

Bandaríkin eiga sér langa sögu í að vinna með fjölbreytileika og inngildingu. Kaliforníuríki hefur til dæmis verið leiðandi í þeirri þróun og hefur tekið að mörgu leyti frumkvæðið í að efla jafngildi (equity) og inngildingu innan menntakerfisins. Yfirvöld  í Kaliforníu leggja áherslu á faglega þróun sem snýr að jafngildi og menningarnæmi meðal kennara í fullorðinsfræðslu (California Department of Education, 2005). Árið 2023 gaf California State Commission on Teacher Credentialing út hverjar forsendur fullorðinsfræðslu væru og staðla sem fela í sér margvíslegar kröfur sem gerðar eru til kennslu í fullorðinsfræðslu. Kennarar þurfa að afla sér faglegrar þjálfunar í menningarnæmni til viðbótar við þær kröfur sem gerðar eru um að nota menningarlega viðeigandi  (culturally appropriate) kennsluaðferðir (California State Commission on Teacher Credentialing, 2023). Kröfurnar voru settar fram í rauninni sem viðurkenning á því að kennarar þurfi stuðning þar sem þeir standa frammi fyrir þeirri áskorun að kenna fjölbreyttum hópi nemenda á áhrifaríkan hátt í kennslustofum sínum. Kennarar hafa beitt ýmsum aðferðum til að stuðla að breytingum í hugsun, viðhorfum og hegðun þeirra varðandi menningarlegan fjölbreytileika, en þessi viðleitni hefur skilað misjöfnum árangri vegna þess að þær beinast oft að innihaldi frekar en  þverfaglegri nálgun náms (McAllister & Irvine, 2000).

Það að þjálfa kennara í að styðjast við kennsluaðferðir byggða á menningarnæmi er mikilvægt til að skapa umhverfi sem styður við og stuðlar að því að öllum nemendum sé gert kleift að njóta náms. Þegar kennarar í fullorðinsfræðslu taka virkan þátt í menningarnæmisþjálfun stuðlar það að því að nemendur upplifi að það sé borin virðing fyrir þeim, að þeir séu metnir að verðleikum og að þeir séu hluti af námssamfélaginu. Starfshættir sem einkennast af menningarnæmi ýta undir jákvæða upplifun af menntun sem nemendur telja viðeigandi (Bui & Fagan, 2013). Það ýtir undir aukinn áhuga á námsefninu (Martell, 2013) og auknu sjálfstrausti nemenda að taka þátt í umræðum í kennslustofunni og þeir  ljúka frekar námskeiðum (Hubert, 2014) sem ýtir undir meiri þátttöku og endurkomu  í fullorðinsfræðslu.

Jafnframt er mikilvægt að viðurkenna að kerfisbundin innleiðing á færni í aðferðum sem byggðar eru á  menningarnæmi í fullorðinsfræðslu eykur samstarf milli vinnumarkaðar, fræðsluaðila, fagfólks og samfélagsins. Hæfni í menningarnæmi hjálpar fullorðnu fólki við að mynda tengsl sem eykur samstarf þegar það skilur og metur fjölbreytta menningu, lífsreynslu og gildi einstaklinga (McLoughlin, Patel,  O’Callaghan & Reeves, 2018).

Menningarleg sjálfsmynd nemenda

Mikilvægt er að kennarar afli sér þekkingar um menningu og bakgrunn nemenda. Bourdieu (1983) lagði til dæmis áherslu á mikilvægi þess að skilja að nemendur komi með menningarlegan auð inn í námsumhverfið sem gæti verið ólík menningu kennarans og ríkjandi menningu samfélagsins. Nemendur koma með færni og námsstíl/aðferðir inn í skólastofuna sem hefðbundin námsmatskerfi eru ekki hönnuð fyrir. Kennarar og nemendur búa allir yfir menningarlegum grunni sem hefur áhrif á skynjun þeirra hver af öðru, og saman byggja nemendur og kennarar ómeðvitað upp umhverfi merkingar þar hefur  hegðun einstaklinga og hópa áhrif, átök og aðlögun, höfnun og viðurkenning, firring og samþykki (Spindler & Spindler, 1994). Tillögur um að stefna að betri skilningi á ólíkri menningu eru meðal annars að læra um viðmið, félagslegar venjur, móðurmál, viðhorf til skólagöngu og námsárangur og hvaða væntingar eru gerðar til samskipta kennara og nemenda.

Þættir menningarnæmi og menningarlegrar inngildingar í menntun fullorðinna

Að efla menningarnæmi og getu kennara til að vera menningarlega móttækilegir er endurtekið ferli sem krefst þess að meta, skoða, ögra og aðlaga kennsluhætti. Kennarar verða betur í stakk búnir að koma kennsluefninu á framfæri, að nemendur fái menntun við hæfi þar sem umhverfi og kerfi styðja við árangur allra nemenda, þar með talið þeirra sem koma frá jaðarhópum (Morukian, 2022). Eftirfarandi þrír meginþættir til að öðlast og viðhalda menningarnæmi munu ekki aðeins styðja kennara heldur koma á kerfisbreytingum í átt að námsumhverfi sem stuðlar að inngildingu. Þeir eru: skilningur á eigin menningarlegri sjálfsmynd, hlutdrægni, fordómum og reynslu af bæði forréttindum og jaðarsetningu. Stöðug leit að færni, þekkingu og persónulegum þroska sem þarf til að koma á þýðingarmiklum tengslum við fólk með mismunandi menningarlegan bakgrunn. Ásamt skuldbindingu um aðgerðir sem styðja við jöfnuð í námsumhverfinu:

  • Skilningur á eigin menningarlegri sjálfsmynd, hlutdrægni, fordómum, að búa yfir reynslu af bæði forréttindum og jaðarsetningu.

Þar sem kennarar leitast við að efla hæfni tengda menningarnæmni er mikilvægt að byrja á því að rýna í eigin skoðanir, hlutdrægni, fordóma og menningaráhrif. Kennarar þurfa síðan að ráðast í sjálfsskoðun til að meta allar þær menningarlegu forsendur sem liggja til grundvallar viðhorfum þeirra, hegðun og gjörðum. Markmið þessarar ígrundunar er að þróa næmni, einlægni, viðurkenningu, virðingu og samkennd gagnvart mismunandi menningarlegum sjálfsmyndum/hópum sem er fyrsta skrefið í að tryggja námsumhverfi sem einkennist af menningarlegri viðkvæmni og sanngirni.

Þegar þessi ígrundun og sjálfsspeglun fer fram þurfa kennarar að þróa með sér ákveðinn skilning og jafnvel samvisku um vald og forréttindi í menntasamfélögum sem skapa kerfi misréttis meðal nemenda frá jaðarsettum hópum (t.d. nemendur af erlendum uppruna eða fatlaðir nemendur). Með því að skoða hlutdrægni, staðalímyndir, fordóma og fyrri reynslu munu kennarar þróa og skilja hvernig þeir hafa áhrif á skynjun, samskipti og viðbrögð við nemendur af ýmsum bakgrunni á bæði jákvæðan og neikvæðan hátt. Kennarar geta spurt sjálfa sig til dæmis hvort þeir séu hlynntir ákveðnum nemendum með ákveðinn bakgrunn eða hvort þeir krefjist meira af nemendum með annan bakgrunn.

  • Stöðug leit að færni, þekkingu og persónulegum þroska sem þarf til að koma á þýðingarmiklum tengslum við fólk með mismunandi menningarlegan bakgrunn.

Til að kennsla gagnist nemendum þurfa kennarar að skuldbinda sig til að vera færir í menningarnæmi og auka þekkingu sína á viðhorfum og gildum, samskiptum- og samskiptamynstri, sögu, viðhorfum og hegðun þvert á menningarhópa til að halda áfram að upplýsa reynslu sína í námsumhverfinu og innan námssamfélaga. Auka þarf jafnframt félagslegt samband nemenda (t.d. við fjölskyldu, í skólasamstarfi, í allri samþættingu samfélagsauðlinda og eflingu samfélagssamstarfs). Bera þarf stöðugt kennsl á, læra og nota nýja færni sem býður upp á menningarlega móttækilega nálgun til að fræða nemendur til að hægt sé að eiga samskipti við fólk þvert á menningarheima.

  • Skuldbinding um aðgerðir sem styðja við jöfn gildi (equity) í námsumhverfinu.

Faglegt nám ætti að viðhalda menningarnæmi og sveigjanleika sem lykilþætti í að styðja við jöfn námstækifæri nemenda í jaðarsettum hópum. Hagnýt dæmi eru meðal annars að:

  1. Skilja áhrif menningarlegra viðmiða í menningarlegu samhengi.
  2. Þróa og betrumbæta leiðir sem kennarar geta komið á í námsumhverfi sem staðfestir og eykur líkur á velgengni fyrir alla nemendur, þar með talda þá sem koma frá hópum sem eru oft haldið niðrieða eru út undan.
  3. Að leita tækifæra til að samþætta viðeigandi menningarleg þætti (culturally appropriate practices) í kennslustofu til að auka þátttöku og skilning nemenda á námsefninu.

Mikilvægi þess að þjálfa færni kennara og leiðbeinenda í fullorðinsfræðslu í menningarnæmni er aðeins fyrsta skrefið í að tryggja árangursríka starfshætti þvert á námssvið innan fræðslu- og símenntunarstöðva sem  og að kennsluaðferðir með áherslu á jafngildi séu innleiddar. Ábyrgð í menningarnæmi og inngildingu liggur hjá öllum hagsmunaaðilum sem starfa við fullorðinsfræðslu  og í þeirri þjónustu sem er veitt á fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum.
Öflug nálgun í eflingu  menningarnæmni í miðstöðvum krefst eftirfarandi:

Skilgreining á menningarlega viðeigandi og einföldum starfsháttum

Þegar kennarar og leiðbeinendur hafa öðlast og unnið markmisst að því að viðhalda menningarnæmi skapa þeir menningarlega viðeigandi starfshætti sem tryggja inngildingu í menntastofnuninni. Með menningarlega viðeigandi starfsháttum er átt við hæfni til að vinna vel og eiga í skilvirkum samskiptum við einstaklinga úr ýmsum menningarhópum. Það þýðir að læra þarf nýtt hegðunarmynstur og beita því í viðeigandi aðstæðum. Í námsumhverfi vísar menningarleg þýðing til viðhorfa starfsfólks, kennsluaðferða og stofnanastefnu sem er móttækileg fyrir námsþörfum og stíl fjölbreytts nemendahóps. Kennarar og leiðbeinendur vísa til menningar nemenda af virðingu og nota kennsluefni sem táknar sögu þeirra og menningu og nota nálgun án aðgreiningar sem metur og viðurkennir fjölbreytta arfleifð nemenda. Kennsluaðferðir sem taka til menningarlegra viðmiða nemenda leggja áherslu á að ein menning sé valin umfram aðra.

Lokaorð

Stjórnendur og kennarar geta boðið upp á mikilvægar breytingar til að tryggja að menningarnæmi sé gild innan náms og í námsumhverfi. Að þjálfa kennara í menningarnæmni er tækifæri til að fjárfesta í þátttöku og jafngildi (equity) fyrir nemendur með fjölbreyttan bakgrunn og getu. Starfsfólk sem ígrundar eigin hegðun og skoðar stefnur og venjur í námsumhverfinu tekur skrefið í að viðurkenna menningarmun og bregst þá á viðeigandi hátt við því sem gæti komið upp í tengslum við menningarlegan mun á milli nemenda. Að skapa slíkt námsumhverfi sem einkennist af menningarnæmni og inngildingu getur það stutt við og jafnvel tryggt að fullorðnum nemendum líði vel í fullorðinsfræðslu, þegar þeir sjálfir, menning þeirra og saga eru metin og virt. Þá er líklegra að þeir haldi áfram að læra og uppfylli menntunarmarkmið sín.

Heimildaskrá

Bourdieu, P. (1983). Forms of capital. In J. G. Richardson (Ed.), Handbook of theory and research for the sociology of education (pp. 241-258). New York: Greenwood Press.

Bui, Y. N., & Fagan, Y. M. (2013). The Effects of an Integrated Reading Comprehension Strategy: A Culturally Responsive Teaching Approach for Fifth-Grade Students’ Reading Comprehension. Preventing School Failure: Alternative Education for Children and Youth57(2), 59–69. https://doi.org/10.1080/1045988X.2012.664581

California Commission on Teacher Credentialing. (2023). Adult Education Preconditions and Program Standards. https://www.ctc.ca.gov/docs/default-source/educator-prep/standards/adult-education-handbook-pdf.pdf

California Department of Education. (2005). Meeting the challenge: A history of adult education in California. http://www.caadultedhistory.org/pdf/meetchallenge.pdf

Cross, T.L., B.J. Bazron, K.W. Denise, and M.R. Isaacs. (1989). Towards a culturally competent system of care: A monograph on effective services for minority children who are severely emotionally disturbed. Washington, DC: CASSP Technical Assistance Center, Georgetown University Child Development Center.

Hubert, T.L.  (2014) Learners of Mathematics: High School Students’ Perspectives of Culturally Relevant Mathematics PedagogyJ Afr Am St 18, 324–336 . https://doi.org/10.1007/s12111-013-9273-2

Martell, C. C. (2013). Race and Histories: Examining Culturally Relevant Teaching in the U.S. History Classroom. Theory & Research in Social Education41(1), 65–88. https://doi.org/10.1080/00933104.2013.755745

McAllister, G., & Irvine, J. J. (2000). Cross Cultural Competency and Multicultural Teacher Education. Review of Educational Research, 70(1), 3-24. https://doi.org/10.3102/00346543070001003

McHugh-Cole, A., Simons, R., & Russell, G. (2020). Creating effective cultural competence workshops for Australian higher education staff. In J. Frawley, T. Nguyen, & E. Sarian (Eds.), Transforming lives and systems (pp. 9–19). Springer. https://doi.org/10.1007/978-981-15-5351-6_2

Morukian, M. (2022). Diversity Equity & Inclusion for Trainers; Fostering DEI in the Workplace. Alexandria VA: ATD Press.

Mosty, N.L. (2023). Fullorðinsfræðsla meðal innflytjenda. Greining á stefnu og rannsóknum (Skýrsla nr. ISBN 978-9935-468-28-4).  Skýrsla unnin fyrir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. https://menntavisindastofnun.hi.is/sites/menntavisindastofnun.hi.is/files/2023-11/Skyrsla_Fullordinsfraedsla_medal_innflytjenda_Nicole_0.pdf

Spindler, G. D., & Spindler, L. S. (1994). Pathways to cultural awareness: Cultural therapy with teachers and students. Thousand Oaks, CA: Corwin Press.

Nichole Leigh Mosty

Nichole Leigh Mosty er fædd í Bandaríkjunum en hefur dvalið og starfað á Íslandi í yfir 20 ár. Nichole er með B.Ed – próf í leikskólakennarafræðum og M.Ed próf í náms og kennslufræði. Hún hefur starfað sem leikskólastjóri, aþingiskona, forstöðumaður Fjölmenningarseturs, forkona hjá Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og sem sérfræðingur hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar. Nichole hefur setið í ýmsum nefndum og ráðum á sviði samfélagsþróunar og menntunar. Nichole mun hefja doktorsnám í haust 2024 og rannsaka hlutverk símenntunar í inngildingu.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi