Fagbréf atvinnulífsins – Sláturfélag Suðurlands
Nú þegar fjögur ár eru frá því að fyrsti hópur starfsfólks hjá Sláturfélagi Suðurlands (SS) fékk Fagbréf atvinnulífsins, sérhæfðs starfsmanns í matvælavinnslu þá lítur út fyrir að Fagbréf atvinnulífsins séu að festa sig í sessi hjá fyrirtækinu. SS er stofnað 1907 og hefur þróast með íslensku samfélagi í 118 ár. Hjá félaginu er lögð mikil áhersla á fagmennsku og að sem flest fái tækifæri til að vaxa í starfi.
Þegar Fræðslumiðstöð atvinnulífsins bauð SS þátttöku í tilraunaverkefni um Fagbréf í matvælavinnslu var það vel þegið. Hjá SS er meðal annars litið á Fagbréf sérhæfðs starfsmanns í matvælavinnslu sem verkfæri til að auka virðingu fyrir mikilvægum störfum og til að varpa ljósi á þær fjölmörgu kröfur sem gerðar eru til fólks sem starfar í greininni. Í matvælavinnslu eru meðal annars gerðar kröfur um gæði, framleiðsluhætti og skráningar auk þess sem nauðsynlegt er að tryggja öryggi neytenda og starfsfólks. Það er öllum ljóst að mistök í matvælavinnslu geta verið dýrkeypt fyrir framleiðendur en alvarleg mistök geta líka verið hættuleg neytendum. Að hafa vel þjálfað og hæft starfsfólk er nauðsynlegt svo vel takist til og að ýtrustu kröfum sé mætt.
Við sem höfum eitthvað komið að verkefnum tengdum Fagbréfum erum á einu máli um að það sé lykilatriði að Fagbréfin séu trúverðug og njóti trausts sem raunveruleg staðfesting á þekkingu og hæfni. Þess vegna er afar mikilvægt að hvergi sé slegið af kröfum við útgáfu þeirra.
Starfsfólk í matvælavinnslu á Íslandi
Starfsfólki sem var boðið að taka þátt í fyrsta raunfærnimatinu og jafnframt fyrstu keyrslu Fagbréfaleiðarinnar hjá SS hefur unnið hjá fyrirtækinu um árabil og staðið sig vel. Þegar farið er af stað með raunfærnimat, sem er hluti af ferlinu, þarf að velja þátttakendur sem eiga erindi í matið. Reynsla af fjölbreyttum verkefnum innan vinnslunnar er augljós kostur, en einnig að viðkomandi hafi áhuga á því að auka við þekkingu sína og hæfni.
Hátt hlutfall starfsfólks í matvælaframleiðslu á Íslandi kemur erlendis frá. Fagbréfaleiðin er þeim opin þrátt fyrir að íslenskukunnáttan sé mis mikil. Reynslan hefur sýnt okkur að tungumálakunnátta hefur áhrif á það hvort fólk treysti sér til að taka þátt í námskeiðum og/eða taka að sér krefjandi verkefni á vinnustaðnum. Hjá SS koma mörg þeirra sem starfa við í framleiðsluna frá Póllandi. Það er því mjög jákvætt að matslistarnir fyrir raunfærnimatið eru aðgengilegir á pólsku, auk þess að vera á íslensku og ensku. Þannig er betur stutt við starfsþróun pólskumælandi starfsfólks.
Fagleg framkvæmd
Undirbúningur fyrir Fagbréfsleiðina fólst meðal annars í því að hópur fagfólks hjá SS sótti vinnustofu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins um raunfærnimat, bæði til að læra um raunfærnimat og til þess að vera fær um að meta starfsfólk.
Tveir hópar hjá Sláturfélagi Suðurlands hafa nú fengið Fagbréf sérhæfðs starfsmanns í matvælavinnslu. Gert er ráð fyrir því að hóparnir verði fleiri enda er ávinningurinn ótvíræður. Mat og fræðsla fór fram á vinnustaðnum í kjölfar raunfærnimats sem sparaði tíma og kostnað við ferðir auk þess að sem það dró úr kvíða starfsfólks í matssamtalinu.

Fræðslunet Suðurlands hélt utan um framkvæmd og úrvinnslu í bæði skiptin og sá starfsfólki fyrir mikilvægri fræðslu til þess að allir næðu að uppfylla kröfur sem gerðar eru til sérhæfðra starfsmanna í matvælavinnslu. Hjá Fræðsluneti Suðurlands, líkt og hjá öðrum símenntunarstöðvum, er mikil reynsla af framkvæmd raunfærnimats. Samstarf við Fræðslunetið var SS mjög mikilvægt og í raun forsenda þess að hægt væri að fara þessa leið. Þess vegna hvetjum við þau fyrirtæki sem vilja fara Fagbréfaleiðina að leita eftir samstarfi við símenntunarstöð í sínu nærumhverfi.
Markvissari fræðsla og þjálfun
Ómarkviss fræðsla tekur tíma frá öðrum verkefnum og er kostnaðarsöm. Oft er erfitt að yfirfæra nýja þekkingu frá námskeiði yfir í starfsumhverfi, ýmist vegna tímaskorts eða annarra þátta á vinnustaðnum. Það er einnig þekkt að vinnuveitandi sem hefur keypt námskeið fyrir starfsfólk býst við breytingum sem verða svo ekki.
Reynsla SS af Fagbréfaleiðinni er sú að fræðsla verður markvissari vegna þess að hún byggir á nákvæmum upplýsingum. Annars vegar á nákvæmum viðmiðum og lýsingum á þeirri hæfni sem þarf til að gegna starfinu. Hins vegar mati á starfsfólki, þ.e. hversu mikilli af hæfni það hefur þegar náð og hvað vantar upp á. Fræðsla og þjálfun er skipulögð þegar niðurstöður raunfærnimats liggja fyrir.
Góð greining á hæfnikröfum í starfsumhverfinu hefur einnig haft áhrif á þjálfun og fræðslu annarra í vinnslunni. Sérhæfðir starfsmenn eru fyrirmyndir annarra og aðstoða nýtt starfsfólk við að ná tökum á verkefnum. Þau hafa vakandi auga með því að allt sé rétt gert sem og benda á það sem má betur fara.
Fagbréf í kjötskurði – leiðin fram á við
Sláturfélag Suðurlands hefur ekki náð að manna kjötskurð með fagmenntuðum kjötskurðarmönnum um nokkurt skeið. Skortur á kjötskurðarmönnum er víða í Evrópu og eru góðir skurðarmenn eftirsóttir. SS hefur borið gæfu til að fá öflugt fólk til starfa sem hefur lært til verka á vinnustaðnum. Mörg þeirra hafa ítrekað lýst yfir áhuga á því að ljúka formlegu námi í kjötskurði eða fá hæfni sína metna. Því miður hefur nám ekki staðið til boða þar sem ekki er til gild námskrá.

Fagbréf í kjötskurði er ný leið til að fá staðfestingu á þekkingu og hæfni í kjötskurði. Til grundvallar liggur nákvæm greining á þeirri þekkingu og hæfni sem þarf fyrir starfið. Matslistar voru unnir af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins í samvinnu við fyrirtæki og fagmenn í kjötvinnslu. Sláturfálag Suðurlands er nú með fyrsta hóp starfsfólks í þessu ferli.
Framkvæmdin hefur alfarið verið í höndum SS sem hefur fengið leiðsögn frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Matið er framkvæmt af stjórnendum í kjötskurði, kjötiðnaðarmönnum og kjötiðnaðarmeisturum. Fræðslu og þjálfun er sinnt af fagfólki SS og fagkennurum annars staðar frá. Það má nefna að þátttakendur fá kennslu í vinnslu kjúklings og þjálfun í úrbeiningu alifugls hjá Reykjagarði hf.
Verkefninu er ekki að fullu lokið en starfsfólkið er nú að taka síðustu námskeiðin auk þess að ljúka rafrænum könnunum sem lagðar eru fyrir í fræðslukerfi fyrirtækisins. Áætlun gerir ráð fyrir að allri fræðslu ljúki í apríl og þá ætti hópurinn að útskrifast með Fagbréf í kjötskurði.
Tækifæri fyrir atvinnulíf og starfsfólk
Fagbréfaleiðin veitir atvinnulífinu tækifæri til að fá góða greiningu á þekkingu og hæfni sem ólík störf krefjast. Þannig skapast tækifæri fyrir fyrirtæki til að meta rétta hæfni starfsfólks miðað við hæfnikröfur hvers starfs og skipuleggja markvissa þjálfun og fræðslu í kjölfarið. Eins og áður sagði eru símenntunarstöðvar víða um land og hægt að leita eftir samstarfi við þær og er reynsla SS af samstarfi við Fræðslunet Suðurlands mjög góð.
Fyrirtæki, sem eru til þess bær, geta einnig séð um framkvæmdina sjálf. Eftir því sem við best vitum er Sláturfélag Suðurlands fyrsta fyrirtækið sem heldur sjálft utan um framkvæmd við raunfærnimat og þjálfun til Fagbréfs atvinnulífsins. Við finnum til mikillar ábyrgðar gagnvart starfsfólki og leggjum áherslu á að vanda til verka þannig að þau sem fá Fagbréf standi undir öllum kröfum sem gerðar eru til þeirra. Þannig stuðlum við að gildi Fagbréfsins, bæði fyrir starfsfólk og atvinnulíf.
Við viljum halda í gott starfsfólk og liður í því er að skapa þeim tækifæri til að þróast áfram í starfi. Fagbréf í kjölfar raunfærnimats er mjög vel skilgreind leið til starfsþróunar. Endamarkmiðið er skýrt og leiðin mjög vel vörðuð. Þau sem hafa fengið Fagbréf atvinnulífsins sérhæfðs starfsmanns í matvælavinnslu hafa öll fengið framgang í starfi hjá SS. Reynsla okkar af Fagbréfum er sú að gott starfsfólk eflist og verður enn betra.
Á forsíðumynd: Starfsfólk SS að útskrifast með Fagbréf sérhæfðs starfsmanns í matvælavinnslu.