Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) undirbýr nú aðlögun og innleiðingu á verkfærinu Tungumálafulltrúi á vinnustað í samstarfi við hagaðila. Verkfærið byggist á sænskri fyrirmynd en um norrænt samstarf er að ræða sem miðar jafnframt að sameiginlegri þróun þess innan stofnana og fyrirtækja.
Tungumálafulltrúi er starfsmaður sem hefur það hlutverk að styðja samstarfsfólk sitt við að læra ríkjandi tungumál vinnustaðarins. Hlutverkið getur falið í sér að styðja við þau sem eiga annað móðurmál en íslensku og aðstoða samstarfsfólk við hversdagslega notkun tungumálsins.
Stjórnendur fá jafnframt leiðbeiningar um hvernig best sé að skilgreina og innleiða hlutverk tungumálafulltrúa. Fulltrúinn hefur því stuðning yfirmanna sinna til að gera vinnustaðinn að lærdómssamfélagi hvað tungumálið varðar og til að bæta samskipti. Aðferðin hefur gefið mjög góða raun og hefur skilað sér í aukinni vellíðan í vinnu, færri veikindadögum starfsfólks og minni starfsmannaveltu svo dæmi séu tekin.
Samræmd aðferðafræði og miðlæg umsjón
Hugtakið og aðferðin er í eigu Miðstöðvar færniþróunar í heilbrigðis-og velferðarþjónustu í Svíþjóð, en það spratt upp úr tungumálaverkefnum sem voru unnin í samstarfi vinnustaða og Miðstöðvar fyrir sænsku sem annað tungumál. Verkfærið nær yfir skipulagða þjálfun fyrir tungumálafulltrúa, menntun þeirra sem þjálfa þá, ásamt símenntun fyrir stjórnendur vinnustaða.
Miðstöð færniþróunar í umönnunargeiranum í Svíþjóð er í eigu aðila vinnumarkaðarins og var komið á laggirnar árið 2008 til að mæta færniþörfum á landsvísu. Markmið miðstöðvarinnar er að stuðla að því að rétt færni sé til staðar á vettvangi og auknum gæðum í atvinnulífi og námi. Aðferðin hefur aðallega verið nýtt í umönnunargeiranum en er jafnframt í útbreiðslu í öðrum starfsgreinum. Í dag eru yfir 55.000 tungumálafulltrúar í 153 sveitarfélögum í Svíþjóð innan umönnunargeirans.
Norska Vinnumála- og velferðarstofnunin og Fullorðinsfræðslan í Osló hafa einnig aðlagað og innleitt aðferðina og er hún í notkun innan ólíkra vinnustaða þar í landi. Þau hafa þjálfað tæplega 200 tungumálafulltrúa frá vinnustöðum þar sem þörf er á stuðningi við norskunám. Það hefur sýnt sig þar að verkefnið hefur bætt samskipti á vinnustöðum, aukið sjálfstraust þátttakenda og stutt við inngildandi vinnumenningu. Fleiri lönd vinna að innleiðingu verkfærisins í ýmsum starfsgreinum.
Norrænt samstarf um heildarþróun
Sænsku og norsku umsjónaraðilar tungumálafulltrúa verkfærisins höfðu samband við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) árið 2021 og lýstu yfir áhuga á norrænu samstarfi um þróun og innleiðingu. Síðan þá hefur FA fundað reglulega með þeim og jafnframt kynnt aðferðina fyrir hagaðilum hér á landi. Aðilar vinnumarkaðarins, mennta- og barnamálaráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafa lýst yfir áhuga og stuðningi við innleiðingu verkfærisins hér á landi þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á góðan árangur fyrir vinnustaði og starfsfólk.
Samstarf um innleiðingu hér á landi
Samstarfsaðilar FA í framhaldsfræðslunni eru 14 fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar víðsvegar um land. Margar þeirra hafa þróað leiðir til að vinna með íslenskukennslu á vinnustað samhliða öðrum námstækifærum fyrir fullorðið fólk á vinnumarkaði. Við innleiðingu verkfærisins Tungumálafulltrúa á vinnustað verður byggt á þeirri reynslu og auk þess verður komið á innlendum samstarfsvettvangi með þeim sem sinna þessum málaflokki hér á landi, þar á meðal háskólar, atvinnulífið og aðrir hagaðilar.
Ljóst er að samstarf við fyrirtæki og stofnanir er forsenda þess að innleiða aðferðina á vinnustöðum. Því er aðkoma aðila atvinnulífsins lykilforsenda við aðlögun hér á landi. Verkefnið sem slíkt á ekki að vera íþyngjandi heldur liður í því að vinnustaðir vinni markvisst með tungumálaþróun í því skyni að efla gæði, koma í veg fyrir mistök og efla samskipti og vellíðan í starfi.