Í þessari grein verður fjallað um ýmsan lærdóm sem fékkst í gegnum framkvæmd á raunfærnimati fyrir innflytjendur. Um var að ræða 3ja ára stefnumótandi tilraunaverkefni (2017-2020), sem hét VISKA (Visible skills of adults) og styrkt var af Menntaáætlun Evrópusambandsins(Erasmus+ KA3). Verkefnið var unnið af IÐUNNI fræðslusetri og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fyrir hönd mennta-og menningarmálaráðuneytisins. Megininntak VISKA var að gera færni innflytjenda sýnilega, skoða möguleika í raunfærnimati fyrir innflytjendur og varpa ljósi á þær áskoranir sem upp komu.
Almennt má segja að raunfærnimatskerfið hér á landi mæti þörfum þeirra sem hafa gott vald á íslensku en útilokar flesta aðra sem hafa þó rétt á umræddri þjónustu samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu.[1]
Í VISKA verkefninu fóru alls 51 innflytjandi í gegnum ferlið og útskrifuðust úr raunfærnimati í húsasmíði, málaraiðn, matartækni og þernustörfum. Auk þeirra fóru 6 aðilar í raunfærnimat í almennri starfshæfni (Transversal skills) sem framkvæmt var hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Flestir þátttakenda í verkefninu voru Pólverjar, sem eru um 38% innflytjenda á Íslandi.[2]
Framkvæmd raunfærnimats fyrir innflytjendur
Í VISKA verkefninu var byggt á því raunfærnimatsferli og verkfærum sem notuð hafa verið við framkvæmd raunfærnimats hér á landi. Hins vegar þurfti að þýða allt kynningarefni og þá gátlista sem tengjast raunfærnimati yfir á pólsku. Fljótlega eftir að kynningar á VISKA verkefninu hófust kom í ljós að þekking á hugtakinu raunfærnimat var ekki til staðar hjá markhópnum. Ákveðinnar tortryggni gætti hjá markhópnum gagnvart ferlinu. Staðan var svipuð hér á landi þegar raunfærnimat var kynnt fyrir landsmönnum fyrir rúmum áratug. Spurningar vöknuðu hjá einstaklingum um meðal annars ávinninginn af þátttöku í raunfærnimati, hvað væri gert við niðurstöður, hver fengi að sjá niðurstöður og hvernig formlega skólakerfið gæti tekið á móti þátttakendum. Þrátt fyrir mikla vinnu og viðleitni reyndist erfitt að fá þátttakendur í verkefnið þó vitað sé að Pólverjar séu bæði langstærsti hópur innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði og að þeir hafi ákveðið bakland.
Við þýðingu gátlista reyndist vandasamara en í fyrstu var haldið að koma réttum orðum og hugtökum til skila. Ekki voru alltaf til sambærileg hugtök yfir ákveðin verkfæri/verkþætti í viðkomandi starfsgrein sem gerði þýðinguna flóknari. Þetta sýndi að mikilvægt er að þýðandinn hafi innsýn í starfsgreinina sem og skilning á starfsumhverfinu og öðlist þannig svigrúm til að miðla upplýsingum af meiri nákvæmni. Lærdómurinn af þessu er meðal annars sá að túlkar verði að fá tækifæri til að ná tökum á fagmáli greinanna með því að eiga samskipti við matsaðila, sem eru sérfræðingar á sínu sviði. Þetta myndi auka líkur á að sameiginlegur skilningur á inntaki gátlista sé sem nákvæmastur.
Undirbúningur og þjálfun allra þeirra sem koma að raunfærnimati er nauðsynlegur og er í dag hluti af stöðluðum undirbúningi. Í VISKA verkefninu var viðbótarþjálfunar krafist þar sem lögð var áhersla á menningarnæmi og viðtalstækni þar sem túlkaþjónusta er notuð. Þessi viðbótarþjálfun reyndist bæði áhrifarík og nauðsynleg, vegna þess að túlkur var með á öllum stigum í raunfærnimatsferlinu, þar með talið við þýðingar á verkfærum og kynningarefni.
Í VISKA verkefninu skipti sköpum að hafa fagmenntaðan náms- og starfsráðgjafa sem fylgdi þátttakandanum í gegnum allan raunfærnimatsferilinn. Vegna þeirrar tortryggni sem gætti í upphafi var mikilvægt að mynda traust og hafa náms-og starfsráðgjafa sem þátttakandi gat leitað til í öllu ferlinu.
Þörf á stórátaki í aðgengi innflytjenda að menntakerfinu
Í upphafi verkefnisins var áhyggjuefni hvernig aðgengi innflytjenda að íslensku skólakerfi væri háttað sem og leiðir fyrir þennan hóp hvað varðar starfsþróun. Haft var samband við nokkra framhaldsskóla um móttöku þátttakenda úr VISKA verkefninu sem fékk góðar undirtektir. En ljóst var að aukið fjármagn þyrfti að fylgja slíkum hópi. Undir lok verkefnisins fékkst ákveðið fjármagn frá hinu opinbera til að styðja við þá framhaldsskóla sem tóku við VISKA þátttakendum, sem hugðu á frekara nám. Til að geta tekið á móti fólki sem hefur ekki íslensku að móðurmáli þarf að formfesta tungumálastuðning, bæði í skóla og á vinnustað og skoða þarf stefnumótun um íslenskunám innflytjenda sem ætti að vera á ábyrgð allra hagsmunaðila.
Reynsla þeirra sem tóku þátt í VISKA leiddi í ljós mikilvægi þess að greiða aðgengi innflytjenda að raunfærnimati og íslensku menntakerfi. Þessu þarf að fylgjaeftir með miðlun upplýsinga og ráðgjöf um hvernig íslenskt menntakerfi er uppbyggt. Þátttakendur voru í heildina mjög sáttir með ferlið, rúm 90% þeirra sögðust ánægðir og myndu mæla með raunfærnimatinu við aðra og rúmlega helmingur þátttakenda í verkefninu höfðu hug á því að fara í skóla að loknu raunfærnimati og ljúka námi. Ekki er ljóst í dag hve margir skiluðu sér raunverulega í skólann.
Niðurstaða okkar sem stóðu að þessu verkefni er að það er brýnt að veita viðurkennda tungumálaþjónustu með kerfisbundum hætti fyrir innflytjendur í menntakerfinu og í atvinnulífinu. Vissulega hafa framhaldsskólar og aðrir fræðsluaðilar boðið upp á íslenskukennslu en svo virðist sem það dugi ekki til. Í sérhefti Hagstofunnar um innflytjendur kemur fram að skólasókn innflytjenda er lægri en skólasókn innlendra og brotthvarf algengara.[3]
Þá þarf að gera stórátak í þjálfun túlka á sviði raunfærnimats með sérstakri áherslu á fagþekkingu túlka á starfsgreinum sem og veita náms- og starfsráðgjöfum ásamt matsaðilum viðbótarþjálfun um framkvæmd raunfærnimats fyrir innflytjendur. Allra brýnast er þó að bæta aðgengi að upplýsingum um þá þjónustu og stuðning sem er í boði á sviði raunfærnimats. Aðkoma Fræðslusjóðs þarf að taka mið af þessum nýja markhópi, þeim sérstæðu þörfum og áskorunum sem VISKA hefur sýnt fram á.
Eins og hefur komið fram hér að ofan þá fellur aðferðafræði raunfærnimats vel að framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, 2020-2024 og lagt hefur verið til að niðurstöður VISKA verkefnisins verði nýttar við framkvæmd áætlunarinnar.
Mikilvægt er að vinna áfram með lærdóm af verkefninu í gegnum samstarf hagsmunaðila í því skyni að jafna tækifæri fólks og gera færni fólks með innflytjendabakgrunn sýnilega og meta hana. Með því má hvetja innflytjendur sem og aðra til áframhaldandi færniþróunar, sem felur í sér ávinning fyrir allt samfélagið.
[1] https://www.althingi.is/lagas/nuna/2010027.html
[2] https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/mannfjoldi/innflytjendur/
[3] https://www.hagstofa.is/utgafur/frettasafn/lifskjor/felagsvisar-serhefti-um-innflytjendur/