Raunfærnimat, eða mat á raunverulegri hæfni, byggist á því að nám og söfnun þekkingar eigi sér ekki eingöngu stað innan hins formlega skólakerfis heldur einnig með starfsreynslu, frístundanámi, félagsstörfum, lífsreynslu, fjölskyldulífi og við allskonar aðstæður og í ýmsu samhengi. Raunfærnimat er staðfesting og mat á þekkingu einstaklingsins án tillits til þess hvar og hvernig viðkomandi öðlaðist þá þekkingu. Með því að meta raunverulega færni einstaklings er hægt að koma í veg fyrir að hann þurfi að sækja nám í því sem hann þegar kann. Um leið er raunfærnimatið aðferð til að gefa einstaklingum tækifæri til að fá þekkingu sína og færni metna til inngöngu í nám eða til styttingar á námi. Markmiðið með raunfærnimati er að viðurkenna og staðfesta færni sem einstaklingur hefur aflað sér á ýmsan hátt.
Hugmyndir sem liggja að baki raunfærnimati byggjast meðal annars á því að laða fólk til náms með því að meta það sem það hefur þegar áunnið sér í gegnum lífið. Að meta raunverulega færni einstaklings er því efnahagslega hagkvæmt bæði fyrir einstaklinga og samfélag, þar sem ekki þarf að eyða takmörkuðum auðlindum við að kenna fólki það sem það þegar kann.
Raunfærnimat á Íslandi
Á Íslandi hefur raunfærnimat verið innleitt á framhaldsskólastigi og hefur Fræðslumiðstöð atvinnulífsins verið í forsvari fyrir framkvæmd þess í samvinnu við símenntunarmiðstöðvar. Framkvæmd raunfærnimats er langt á veg komin í starfsnámi og verklegum greinum en hægar hefur gengið að innleiða það í bóklegum greinum, þótt sífellt bætist þar við.
Raunfærnimat fer að jafnaði fram á fimm þrepum; upplýsingagjöf og endurgjöf, skráningu, greiningu, staðfestingu og mati og viðurkenningu á raunfærni. Mjög mikilvægt er að ráðgjafi leiði ferlið og leiðbeini umsækjanda við að draga fram færni sína og skrá hana niður. Fagaðilar og sérfræðingar sjá um greiningu og staðfestingu á raunfærni og endanlegt mat eða viðurkenning er síðan skráð í gagnagrunn skóla, annarra fræðsluaðila eða stofnana og öðlast þar með sama gildi og tiltekið formlegt nám, skv. 14. grein reglugerðar um framhaldsfræðslu nr. 1163/2011.
Tilmæli frá Evrópusambandinu
Samkvæmt tilmælum frá ráðherraráði Evrópusambandsins frá 2012 er mælt með því að aðildarríkin innleiði raunfærnimat á öllum skólastigum fyrir árið 2018 og því liggur fyrir að íslenskir háskólar þurfa að bregðast við og þróa leiðir til að innleiða raunfærnimat á háskólastigi. Það er því þörf á því að kanna hvort og þá hvernig raunfærnimat geti reynst sem verkfæri á háskólastiginu á Íslandi.
Raunfærnimat í nágrannalöndum
Í þeim nágrannalöndum okkar þar sem raunfærnimat hefur verið innleitt á háskólastigi, virðist vinnulagið vera svipað. Raunfærnimat er í höndum hverrar háskólastofnunar fyrir sig og virðast aðeins sumar deildir einstakra háskóla vera byrjaðar að veita þessa þjónustu. Algengast er það innan tækni-, heilbrigðis- og viðskiptagreina. Í mörgum nágrannalöndunum hefur helsti drifkrafturinn verið aukinn fjöldi flóttamanna og fólks af erlendum uppruna sem af einhverjum ástæðum getur ekki sýnt fram á menntun sína, frekar en að markmiðið hafi verið að bjóða öllum upp á raunfærnimat byggt á mati á þekkingu og færni sem fólk hefur aflað sér með óformlegu námi og reynslu. Þó eru sum lönd lengra komin og þar er raunfærnimat á háskólastigi opið öllum og er ferlið við umsókn um raunfærnimat ekki mikið frábrugðið því að óska eftir mati á fyrra námi. Úrvinnsla umsóknanna og ferlið er þó mjög frábrugðið og hefur náms- og starfsráðgjöf veigamikið hlutverk í því ferli.
Góð áhrif raunfærnimats
Raunfærnimat getur auðveldað fólki að taka ákvörðun um að auka þekkingu sína með formlegum hætti og þannig hækka formlegt menntunarstig sitt. Þegar margir fara þá leið hækkar það jafnframt menntunarstig samfélagsins. Reynslan hefur sýnt að raunfærnimat hefur þau áhrif á nemendahópinn að hann verður fjölbreyttari, þar sem fólk með ólíkan bakgrunn stundar nám saman og fólk sem áður hefði ekki hafið nám, bætist við hópinn og kemur með nýja sýn og reynslu og dýpkar þar með reynslu hinna af náminu. Fjármunir og tími sem fer í raunfærnimatið virðist í flestum tilvikum vera helsta hindrunin, en einnig skortur á þekkingu fólks á raunfærnimati og tilgangi þess og ótti við að raunfærnimat skerði gæði náms. Ekki er víst að raunfærnimat henti á öllum námsleiðum og staðreyndin er sú að auðveldara er að beita raunfærnimati þar sem hæfniviðmiðin eru áþreifanleg eins og í fagnámi, hvort sem er á framhaldsskólastigi eða háskólastigi. Bæta þarf hæfniviðmið námsleiða til að hægt sé að beita raunfærnimati í öllum námsgreinum.
Raunfærnimat í háskóla
Ástæða er til þess að kanna við hvaða deildir háskólanna þörfin er brýnust og hvar möguleikar fyrir raunfærnimat henti best til styttingar á námi. Þá er og skynsamlegt að hefja raunfærnimat til styttingar á námi einmitt við slíkar deildir. Það þarf að ákveða hvernig á að skilgreina þann hóp sem getur sóst eftir raunfærnimati. Þessi skilgreining þarf að vera skýr til að koma í veg fyrir misskilning og vinnu sem ekki skilar neinni niðurstöðu. Ráðgjafar og matsaðilar þurfa að sérhæfa sig í raunfærnimati og háskóladeildir þurfa að útlista hvaða færni er nauðsynleg til inngöngu í deildina. Hæfniviðmið hverrar námsgreinar þurfa því að vera mjög skýr og vel útlistuð.
Eftirfylgni og fjármögnun
Nauðsynlegt er einnig að fylgjast með hvernig umsækjendum vegnar í námi til að draga lærdóm af ferlinu öllu sem heild. Einnig er brýnt að allt ferlið sé gegnsætt og að niðurstöður raunfærnimatsins séu skráðar inn í nemendakerfi og einingar gefnar.Traust og gagnsæi er mikilvægt til þess að hagsmunaaðilar álíti ekki að með raunfærnimati dragi úr gæðum náms. Einnig þarf að gæta þess að fé sé úthlutað í verkefnið svo að þeir starfsmenn sem að því koma geti nýtt sér það við úrvinnslu verkefnisins en sjái raunfærnimatið ekki sem nýtt verkefni sem þeir þurfa að sinna án þess að fá til þess tíma né fé. Þá er brýnt að þróa sanngjarnar leiðir til að stýra greiðslum fyrir þreyttar einingar þegar nemendur fara í gegnum raunfærnimat. Missi skóli af tekjum fyrir þreyttar einingar þegar hann metur færni nemanda til styttingar náms, gæti vilji skóla til að meta raunfærni minnkað.
Brýnt að kynna raunfærnimat
Þegar háskólarnir hafa tekið ákvarðanir og ferlar hafa verið þróaðir þarf að kynna raunfærnimat vel, bæði fyrir starfsfólki háskólanna sem og núverandi og verðandi nemendum. Auk þess þarf að upplýsa þá sem eru nú á vinnumarkaði og gætu nýtt sér raunfærnimat til háskólanáms og eins þá sem sinna málefnum flóttamanna og innflytjenda.
Þróun raunfærnimats hafin við Háskóla Íslands
Íslenskir háskólar þurfa að að taka afstöðu til þess hvernig þeir ætla að svara kalli frá menntastofnunum Evrópu frá atvinnulífinu og öðrum í samfélaginu. Háskóli Íslands hefur hafið þessa vinnu og fyrstu skref hafa verið tekin við að skoða raunfærnimat með hliðsjón af þróun fagháskólanáms við skólann. Full ástæða er til þess að setja af stað skipulagða vinnu við að skoða möguleika og fýsileika þess að bjóða upp á raunfærnimat bæði til inngöngu í háskóla og til styttingu náms við háskóla á Íslandi.