Þróun á raunfærnimati og vegvísi fyrir leiðbeinendur fullorðinna innan formlega skólakerfisins sem utan.
Á hverjum degi, flesta daga ársins er fjöldi fólks að störfum við að leiðbeina fullorðnum. Sérfræðingar og reynsluboltar eru fengnir til að leiðbeina samstarfsfólki á styttri og lengri námskeiðum. Reyndir félagar í félagasamtökum eins og björgunarsveitum þjálfa nýliða til dæmis í björgun úr sprungum. Reyndur prófarkalesari tekur að sér að kenna innflytjendum íslensku við símenntunarmiðstöð og svo mætti lengi telja. Fæstir þeirra sáu nokkurn tíma fyrir sér að verða leiðbeinendur eða „fullorðinsfræðarar“. Þeir elska sitt fag, eiga gott með samskipti og hafa gaman að fólki… en samt hvarflaði aldrei að þeim að það ætti fyrir þeim að liggja að lenda í þessu! Fræðsla fullorðinna fer fram víða í íslensku samfélagi en einna helst í atvinnulífinu – innan fyrirtækja og stofnana, hjá fræðslustofnunum alls konar og hjá frjálsum félagasamtökum. Í fæstum tilfellum eru gerðar formlegar kröfur um ákveðna hæfni þeirra sem annast fræðsluna. Trúlega er ástæðan fyrir því einmitt sú að um er að ræða starf sem fólk „lendir í“ þegar það hefur náð ákveðnum árangri annarsstaðar í lífinu og sá árangur þykir duga.
Flestir grípa til eigin reynslu af skóla sem fyrirmynd af því sem þeir gera þegar þeir taka að sér kennslu og leiðsögn. Þá rekast þeir gjarnan á að viðhorf sem þeir þekkja úr grunn- og framhaldsskóla duga skammt þegar þátttakendur eru fullorðnir. Þeir læra því af reynslunni, drekka í sig menninguna á staðnum, en finna þó gjarnan til óöryggis. Á Íslandi, og víðast hvar, hafa leiðir til að mennta sig sem leiðbeinandi fullorðinna ekki enn verið skýrt varðaðar. Víða í Evrópu og í Bandaríkjunum – eins og við Háskóla Íslands – eru reyndar til námsleiðir á meistarastigi við háskóla fyrir fólk sem vill mennta sig til starfa með fullorðnum námsmönnum. Sú leið hentar ákveðnum hópi, en ekki öllum. Hún er ekki endilega leiðin fyrir viðskiptafræðinginn sem kennir eitt námskeið um bókhald á símenntunarmiðstöð, bifvélavirkjann sem kennir skyndihjálp hjá Rauða krossinum eða verkstjórann í vopnaleit á Leifsstöð. Öll hefðu þau þó gagn af hagnýtri þekkingu og leikni sem nýtist til að skipuleggja og leiða þá námsferla sem þeim hefur verið falið að leiða í vinnu sinni og frístundum.
Til þess að mæta brýnni þörf fyrir hæfni/færniuppbyggingu í einföldum og skýrum skrefum tóku Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins og Háskóli Íslands höndum saman með það að markmiði að skilgreina þá hæfni sem leiðbeinendur fullorðinna þurfa að búa yfir, útbúa leið til að meta áunna þekkingu og leikni á þessu sviði og varða leiðina að aukinni hæfni á sviðinu.
Um er að ræða hagnýtt verkefni sem byggir á fræðilegum skrifum um fagmennsku í fullorðinsfræðslunni, fjölda hæfnigreininga frá nágrannalöndum, alþjóðastofnunum og félagasamtökum um hæfni leiðbeinenda. En fyrst og fremst á rýnihópavinnu með íslenskum aðilum sem þekkja vel til starfsins og á tilraunum með starfandi leiðbeinendum.
Hæfnigreining á starfi leiðbeinanda í fullorðinsfræðslu
Mikið hefur verið rætt og ritað um nauðsyn þess að stuðla að gæðum leiðsagnar í fræðslu fullorðinna og í hverju gæðin felast. Um það eru t.d. skýr skilaboð í lögum um framhaldsfræðslu. Á árunum fyrir aldamót birtust skrif um slík mál undir fyrirsögnum um fagmennsku í fullorðinsfræðslunni – eða „professionalization“ einkum í ljósi þess að fullorðinsfræðslan var að breytast frá því að vera rekin í sjálfboðastarfi yfir í að æ fleiri unnu fullt starf annað hvort við að skipuleggja nám fyrir fullorðna eða að kenna.
Undanfarin ár hefur umræðan orðið æ meira áberandi. Það má t.d. sjá á auknum fjölda verkefna bæði styrktum af menntasjóðum í Evrópu og að frumkvæði félagasamtaka innan fullorðinsfræðslunnar, ríkisstofnana og alþjóðastofnana (Sjá óflokkaðan lista yfir fjölda slíkra verkefna). Flest þessara verkefna skiluðu af sér listum yfir hæfni sem hópar fagmanna á sviðinu tóku saman með fjölbreytilegum aðferðum. Eftir að hafa borið saman fjölda slíkra greininga var tekin ákvörðun um að gera íslenska greiningu og nýta til þess sömu aðferð og Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins (FA) hefur notað til að greina nauðsynlega hæfni til að sinna tilteknum störfum. Hæfnigreiningar FA byggja á gögnum sem kanadíska fyrirtækið HRSG hefur þróað á síðustu 30 árum og aðferð þróaðri hjá FA frá árinu 2012. Aðferðafræði hæfnigreininga FA tryggir aðkomu atvinnulífs og annarra hagsmunaaðila. Afurð greiningar er nefnd starfaprófíll. Starfaprófíll samanstendur af þremur þáttum sem lýsa kjarna tiltekins starfs, viðfangsefnum starfsins og lykil hæfniþáttum á skilgreindu hæfniþrepi samkvæmt hæfniramma um íslenska menntun (ISQF). Þrepin í íslenska hæfnirammanum eru sjö, þau samsvara skólastigum á Íslandi og með hækkandi þrepi er lýst dýpri þekkingu, aukinni leikni í gagnrýnni úrvinnslu upplýsinga og auknu sjálfstæði og ábyrgð í starfi.
Til þess að vinna greiningu á starfi leiðbeinanda fullorðinna var fenginn til þátttöku hópur fólks sem hefur reynslu af fræðslu fullorðinna. Við val á þátttakendum var lögð áhersla á að hópurinn endurspeglaði fjölbreytni fullorðinsfræðslunnar eins vel og kostur var. Í greiningarhópnum voru því leiðbeinendur úr fyrirtækjum, opinberum stofnunum, félagasamtökum og símenntunarmiðstöðvum, fræðslustjórar og sérfræðingar í fullorðinsfræðslu auk sjálfstætt starfandi ökukennara. Þátttakendur höfðu reynslu af einstaklingskennslu og hópakennslu við mjög fjölbreyttar aðstæður, allt frá hefðbundinni kennslustofu til útikennslu á fjöllum. Niðurstaða greiningarvinnunnar var starfaprófíllinn „Leiðbeinandi í fullorðinsfræðslu“. Í starfaprófílnum er kjarna starfs leiðbeinanda í fullorðinsfræðslu lýst, helstu viðfangsefnin listuð upp og hæfniþáttum lýst á þrepum þrjú til fimm á hæfniramma um íslenska menntun.
Raunfærnimatstilraun
Hjá FA byggir raunfærnimat í atvinnulífinu og starfstengdar námskrár á hæfnigreiningum og hefur sú aðferðafræði gefið góða raun. Markmið hæfnigreiningarinnar sem hér er lýst var að skilgreina þá hæfni sem æskilegt er að leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu búi yfir og skapa grunn fyrir þróun raunfærnimats fyrir leiðbeinendur fullorðinna í víðu samhengi.
Unninn var sjálfsmatslisti sem tók fyrst og fremst mið af viðfangsefnum starfsins og matslisti fyrir matsaðila þar sem hæfniþáttum var lýst og tenging þáttanna við viðfangsefnin skýrð. Þessi fyrsta útgáfa af raunfærnimatsgögnum var nýtt í tilraun með nokkrum leiðbeinendum.
Tilraunin fór þannig fram að valdir voru þátttakendur sem hægt var að líta á sem fulltrúa stærri hópa af vettvangi. Vinnuhópurinn lagði áherslu á að enginn þeirra væri menntaður kennari. Markmið tilraunarinnar var að prófa matstækið en ekki að meta þátttakendur.
Raunfærnimat er ákveðið ferli sem tekið er í nokkrum skrefum og lýst er í 13. gr. reglugerðar nr. 1163/2011 um framhaldsfræðslu. Í tilrauninni var matsferlinu fylgt í öllum megin atriðum, þ.e. skimun, færniskráningu, sjálfsmati og matssamtali. Hefðbundin ráðgjöf og eftirfylgni eftir raunfærnimat var ekki hluti af tilrauninni en í stað þess var matstækið rýnt með þátttakendum þegar allir höfðu tekið þátt í matssamtali.
Matsaðilar komu frá Háskóla Íslands og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og tóku þau þátt í vinnustofu undir handleiðslu FA þar sem meðal annars var unnið með matslista og sjálfsmatslista, spurningar og mikilvægi ólíkra hæfniviðmiða út frá markmiðum tilraunarinnar. Þátttakendur í raunfærnimatinu voru fjórir og komu frá Landspítala Háskólasjúkrahúsi, Reykjavíkurborg, Rauðakrossi Íslands og Sameyki. Reynsla þeirra var af mjög ólíkum sviðum fræðslu og tilheyrðu þátttakendur á námskeiðum þeirra einnig ólíkum hópum.
Lærdómar af raunfærnimats tilrauninni
Tilraunin með raunfærnimatið gekk vel og var hún mjög mikilvægt skref í þróunarferlinu. Etir að allir fjórir þátttakendur höfðu farið í gegn um matssamtalið rýndu þau í matstækið og framkvæmdina með vinnuhópi verkefnisins.
Helsti lærdómur af tilrauninni var annars vegar að mjög mikilvægt er að viðmiðin séu nákvæm og skýr og gefi ekki kost á mjög ólíkri túlkun þátttakenda. Tilraunin leiddi í ljós að þátttakendur skráðu hæfni sína hver út frá sínum skilningi á hæfniviðmiðunum þannig að niðurstöður sjálfsmatsins voru óáreiðanlegar og ekki nægileg fylgni milli sjálfsmats og niðurstöðu matsaðila.
Hins vegar kom í ljós að leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu þurfa ekki allir að búa yfir sömu eða jafn mikilli hæfni til þess að inna starf sitt vel af hendi. Með öðrum orðum þá er hægt að gera ólíkar kröfur til leiðbeinenda eftir því samhengi og umhverfi þar sem fræðsla og nám fer fram.
Í ljósi þessara niðurstaðna var ákveðið að skilgreina þrjú stig leiðbeinanda og endurskrifa matslistana og viðmiðin með hliðsjón af nýrri skilgreiningu.
Ólíkar kröfur til leiðbeinenda – þrjár skilgreiningar
Skilgreining á þremur stigum leiðbeinanda var byggð á starfaprófílnum Leiðbeinandi í fullorðinsfræðslu, niðurstöðum raunfærnimatstilraunarinnar auk þess sem alþjóðlegar skilgreiningar á hæfni leiðbeinenda voru hafðar til hliðsjónar. Stígandi er í skilgreiningunum frá stigi eitt til þrjú þar sem t.d. hæfni til að beita kennsluaðferðum, undirbúa og skipuleggja kennslu eykst milli stiga.
Ávinningur af því að skilgreina þrjú stig leiðbeinanda er ótvíræður í tengslum við skipulag fræðslu og þjálfunar í kjölfar mats. Með því er hægt að flokka fræðslu fyrir leiðbeinendur eftir stigum og stuðla að því að fleiri leiðbeinendur fái fræðslu sem hentar þeim og því samhengi sem þeir starfa í.
Matslisti verkfæri í raunfærnimati
Innihaldi matslistans er skipt upp í fimm flokka eftir efni og eru þeir: Undirbúningur, framkvæmd fræðslu, mat, stafræn hæfni og samskipti og samvinna. Þessi skipting er að því leiti frábrugðin flokkuninni í starfaprófílnum að í matslistunum er stafræn hæfni dregin sérstaklega fram. Það er skemmst frá því að segja að frá því að hæfnigreiningin var unnin í lok árs 2019 hefur mikilvægi stafrænnar hæfni leiðbeinenda aukist til muna sem nú endurspeglast í matslistunum. Mörg rök falla að því að stafræn hæfni leiðbeinenda sé miðlæg í starfi þeirra og þrátt fyrir að tölvur hafi verið eitt helsta verkfæri leiðbeinenda undanfarin ár leiddi þróunin í kjölfar COVID19 í ljós að það er nauðsynlegt að styðja sérstaklega við hæfniþróun leiðbeinenda á þessu sviði. Þess vegna er hún sett sem sérstakur kafli í matslistanum.
Hæfniviðmið fyrir hvern af þessum fimm flokkum eru einnig aðgreind eftir því hvort átt er við leiðbeinanda á stigi eitt, tvö eða þrjú. Þannig getur leiðbeinandi búið yfir hæfni á stigi tvö í framkvæmd fræðslu en stigi eitt í mati. Með því að hafa aðgreininguna skýra fyrir hvern flokk verður auðveldara fyrir leiðbeinanda að skoða hæfni sína og ákveða hvar er tækifæri og ástæða til að auka við hæfni sína og leikni.
Mikilvæg samvinna
Matslistarnir voru metnir af nokkrum aðilum sem þekkja til vettvangsins:
Meistaranemar sem sóttu námskeið fyrir fagaðila í raunfærnimati unnu með matslistana á námskeiðinu og komu með góðar ábendingar í kjölfarið.
Fræðslustjóri á vettvangi las yfir skilgreiningu og matslistana í samhengi þeirrar fræðslu sem veitt er í atvinnulífinu og kom með góðar ábendingar.
Haldin var vinnustofa þar sem fulltrúar nokkurra símenntunarmiðstöðva komu saman og rýndu bæði skilgreiningu á starfi leiðbeinanda og matslistana. Þau höfðu fengið listana senda fyrir fram og mættu undirbúin til leiks. Þetta voru fulltrúar Mímis, MSS, Fræðslunets Suðurlands og Starfsmenntar. Á vinnustofunni voru öflugar umræður og þar komu fram margar góðar ábendingar sem nýttust til að bæta listana og skilgreininguna.
Það var að heyra á þátttakendum á vinnustofunni að bæði matslistarnir og skilgreiningin gætu stutt við þeirra starf t.d. við ráðningu leiðbeinenda og til að tjá hvaða kröfur þau vilja gera til sinna leiðbeinenda. Einnig var nefnt að hægt væri að bjóða starfandi leiðbeinendum að fylla út matslistann til að skoða styrkleika og veikleika og bjóða upp á fræðslu eða stuðning í kjölfarið. Einn þátttakandi í vinnustofunni sagði: „Ég skil bara ekki af hverju það er ekki búið að gera þetta fyrir löngu síðan.”
Vegvísir um mögulega starfsþróun leiðbeinenda
Í vinnslu er vegvísir („Roadmap“) um starfsþróun leiðbeinenda og gagnagrunnur yfir námskeið og aðrar mögulegar leiðir til starfsþróunar fyrir leiðbeinendur fullorðinna. Vegvísirinn mun sýna á myndrænan hátt samband ólíkra hæfniþátta og möguleika til að auka hæfni á viðkomandi sviði.
Bæði matslistarnir og vegvísirinn verða gerð aðgengileg og með því verður til safn verkfæra fyrir fræðslustjóra í fyrirtækjum og stofnunum og verkefnastjóra hjá fræðsluaðilum til að vinna með leiðbeinendum, en ekki síst fyrir leiðbeinendur sjálfa til að gera sér grein fyrir nauðsynlegri hæfni í þeirra starfi og til að skipuleggja starfsþróun sína.
Lokaorð
Hér að framan höfum við lýst löngu ferli í fáum orðum. Ferli sem margir hafa farið á undan okkur, en við völdum samt íslenska leið, leið sem þróuð var af Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins og hefur reynst vel við að skilgreina hæfnikröfur fjölda starfa. Það sem er sérstakt við hana – umfram flest önnur ferli sem við kynntum okkur er aðkoma fólks sem vinnur við starfið og afgerandi áhrif þeirra framlags. Að okkar viti gaf sú nálgun niðurstöðunni nauðsynlega „jarðtengingu“.
Allir eru sammála um það að í samfélagi sem reiðir sig á fullorðinsfræðsluna til að styðja við og auka samkeppnishæfni atvinnulífsins, lýðræði, lýðheilsu og hamingju borgaranna, er nauðsynlegt að geta gengið að gæðum fræðslustarfsemi sem gefnum. Leiðbeinendur fullorðinna leika lykilhlutverk í því að skapa þau gæði sem samfélagið væntir af slíkri fræðslu. Því er kominn tími fyrir gagnleg verkfæri og vegvísa sem geta varðað leiðina fyrir fólk sem kemur að fullorðinsfræðslu á öllum sviðum samfélagsins.
Starfaprófíll leiðbeinenda í fullorðinsfræðslu, matslistar fyrir sjálfsmat og raunfærnimat ásamt vegvísi um starfsþróun munu vonandi reynast góðar vörður fyrir næstu skef til aukinna gæða fullorðinsfræðslu á Íslandi.