Hjá Iðunni fræðslusetri hefur verið boðið upp á raunfærnimat í iðn- og starfsgreinum síðan 2007 og hefur það fest sig í sessi sem markviss leið til að staðfesta færni fólks óháð því hvernig hún er til komin. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) hefur frá upphafi séð um að móta aðferðafræði og gæðaviðmið sem Iðan, viðurkenndur fræðsluaðili, byggir framkvæmdina á. Nú í haust urðu ákveðin tímamót þegar tekið var í notkun rafrænt umsýslukerfi sem hannað var að frumkvæði Iðunnar en í samvinnu við FA.
Iðngreinum í raunfærnimati fjölgaði hratt
Þegar framkvæmd raunfærnimats hófst hjá Iðunni var húsasmíði fyrsta iðngreinin sem metin var en greinunum fjölgaði hratt og er nú raunfærnimat framkvæmt í 28 iðn- og starfsgreinum en metið er á móti námskrám framhaldsskóla. Fyrir tæpum fjórum árum voru einnig unnin tvö þróunarverkefni þar sem metið var á móti viðmiðum úr starfi sem byggðust á hæfnigreiningum þeirra. Það voru störf barþjóna og herbergisþerna. Þau verkefni tóku langan tíma í framkvæmd og voru töluverð áskorun meðal annars vegna mikils vinnuálags og tíðra mannabreytinga meðal samstarfsaðila okkar í atvinnulífinu en einnig vegna þess hve erfiðlega gekk að fá þátttakendur í verkefnið.
Skilyrðum breytt
Á fyrstu árum raunfærnimats hjá Iðunni voru inntökuskilyrði 25 ára aldur og fimm ára starfsreynsla í viðkomandi grein. Á vormánuðum 2016 var inntökuskilyrðum breytt í 23 ára aldur og þriggja ára starfsreynslu til samræmis við það sem fram kemur í reglugerð um framhaldsfræðslu. Sú breyting var til góðs og hefur veitt fleirum tækifæri til að fá reynslu sína metna enda starfsreynsla ein og sér ekki mælikvarði á færni fólks.
Mjög gott samstarf hefur verið við framhaldsskólana sem kenna þær greinar sem Iðan er að raunfærnimeta og var það mikið framfaraskref þegar Iðan gat haustið 2016 farið að skrá metna áfanga úr raunfærnimati beint í INNU. Áður þurfti hver og einn að fara með niðurstöður sínar í framhaldsskóla til að fá þær skráðar en nú birtast þær í INNU strax að loknu raunfærnimati rétt eins og niðurstöður áfanga sem lokið er með námi í skóla.
Farsælt samstarf við símenntunarmiðstöðvar og framhaldsskóla
Ekki aðeins hefur Iðan verið í góðu samstarfi við FA og framhaldsskóla landsins heldur hefur samstarf við símenntunarmiðstöðvar um land allt verið afar farsælt. Framkvæmd raunfærnimats krefst mikils utanumhalds og skipulagningar og ráðgjafar Iðunnar og ráðgjafar símenntunarmiðstöðva því oft í miklum samskiptum. Bent hefur verið á að náms- og starfsráðgjöf sé sérlega mikilvægur þáttur í raunfærnimatsferlinu og það einkenni ferlið á Íslandi að ráðgjöf til þátttakenda sé í hávegum höfð á öllum stigum ferlisins. Þessi sýn verður til þess að ráðgjafar hvar á landinu sem þeir starfa gera sér grein fyrir mikilvægi samstarfs með þarfir einstaklingsins í huga. Við viljum einmitt að ferlið sé valdeflandi fyrir þátttakandann sem finni sjálfur einnig gildi samstarfs símenntunarmiðstöðva því í mörgum tilfellum nýtur viðkomandi þjónustu fleiri en einnar. Fólk flytur á milli landshluta bæði vinnu sinnar vegna og af persónulegum ástæðum, byrjar jafnvel í raunfærnimatsferli án þess að ljúka en tekur svo upp þráðinn síðar á öðrum stað þegar tækifæri gefst. Þá, eins og alltaf, er mikilvægt að viðkomandi hafi aðgang að einstaklingsmiðaðri náms- og starfsráðgjöf sem hefur velferð og hagsmuni ráðþegans að leiðarljósi.
Áskorun að ná til fólks á vinnumarkaði
Þó við sem sjáum um framkvæmd raunfærnimats verðum vitni að óteljandi dæmum um einstaklinga sem öðlast aukið sjálfstraust við að sjá að sú þekking sem þau búa yfir er verðmæt og gerð sýnileg, þá er það sífelld áskorun að kynna raunfærnimat fyrir fólki með reynslu af vinnumarkaði. Þrátt fyrir að raunfærnimatið hafi fest sig í sessi og margir heyrt þess getið eru fleiri sem ekki vita enn af þessari leið. Það er og verður því áfram verkefni okkar að ná athygli fólks sem gæti átt erindi í raunfærnimat því það eiga sér margir þann draum að fá réttindi í sínu fagi en sjá ekki fyrir sér að fara á byrjunarreit og minnka við sig vinnu til að læra grunnáfanga í framhaldsskóla.
Breytt staða í heimsfaraldri
Á tímum kórónuveirufaraldursins þurfti að finna leiðir til að framkvæmd raunfærnimatsins stöðvaðist ekki því ekki kom til greina að aftra því að þau sem ýmist voru byrjuð í ferlinu eða að taka sín fyrstu skref í átt að því næðu að fá færni sína staðfesta. Sum höfðu verið lengi að herða sig upp í að taka þátt og voru loksins tilbúin til að takast á við þetta verkefni og höfðu auðvitað ákveðnar væntingar í huga. Þegar ekki var óhætt að taka á móti fólki í viðtöl eða hafa matssamtöl á staðnum var fjarfundabúnaðurinn Teams nýttur til viðtala. Áður höfðu matssamtöl gjarnan farið fram í gegnum Skype þegar þátttakandinn var staddur í sinni heimabyggð úti á landi en matsaðili á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar faraldurinn stóð sem hæst fóru viðtöl hjá Iðunni fram í Teams og gekk það mjög vel. Öll voru staðráðin í að tileinka sér þá tækni sem þurfti til að hægt væri að láta allt ganga sem best og sumum matsaðilum fannst þessi leið ekki síðri og nýttu sér tæknimöguleikana til hins ýtrasta. Eftir að áhrif veirunnar minnkuðu stóð þátttakendum til boða að velja á milli þess að koma í matssamtal í Teams eða mæta á staðinn og völdu þá mörg að koma í staðbundið samtal. Það breytir því ekki að í ákveðnum tilfellum er nauðsynlegur kostur að hafa viðtöl í Teams auk þess sem það skiptir miklu máli fyrir fólk að hafa þetta val og æ fleiri verða öruggari í að nýta tæknina í sína þágu.
Rafræn ráðgjöf
Rafræn ráðgjöf og notkun rafrænna kerfa á sviði náms- og starfsráðgjafar munu því halda áfram að vaxa og dafna í því tæknisamfélagi sem við búum nú í. Hins vegar má aldrei horfa fram hjá því að það er alltaf til staðar hópur fólks sem ýmist vill ekki eða getur ekki nýtt sér þær stafrænu leiðir sem í boði eru. Náms- og starfsráðgjafar munu áfram leggja sig fram um að virða mismunandi þarfir fólks á þessum sviðum sem öðrum og mæta ráðþegum þar sem hver og einn er staddur.