Þörf er á nýjum viðhorfum til tungumálakennslu, aukið aðgengi að kennslu og betra samstarfs á milli vinnumarkaðar og skóla. Minni áhersla á málfræði og aukin á hagnýta málnotkun!
Þetta er meðal þess sem íslensk stjórnvöld þurfa að beina athygli að til þess að auðvelda innflytjendum inngildingu í samfélagið. Á skömmum tíma hefur íslenskt samfélag breyst úr einsleitu samfélagi yfir í fjölmenningarþjóð. Af 380 þúsund íbúum eru rúmlega 60 þúsund nýbúar. Leysa þarf krefjandi verkefni til þess að taka sem best á móti fólki sem vill setjast að á landinu. Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári. Meðal umfangsmikilla verkefna sem sjónir Íslendinga beinast að á vorfundi í Reykjavík er málefni innflytjenda og inngildingar.
Heill heimur í litlu samfélagi. Menntun gegnir lykilhlutverki við inngildingu nýrra samfélagsþegna. Listaverkið við Menntaskólann á Akureyri á Norður Íslandi sýnir vandamálið í hnotskurn. Ljósmynd: Sigrún Stefánsdóttir.
Hefðuð þið heimsótt Ísland fyrir 30-40 árum síðan, hefðuð þið mætt afar einsleitu samfélagi, íslensku samfélagi þar sem aðeins var töluð íslenska og umburðarlyndi og skilningur á annarskonar menningu og tungumálum var takmarkaður. Ef það var einhver sem flutti til Íslands erlendis frá voru það oftast makar íslenskra námsmanna sem höfðu stundað nám erlendis. Í flestum tilfellum konur sem komu og reyndu að aðlagast íslensku samfélagi. Þetta á ekki lengur við. Á Íslandi eru á milli 5 og 20% þjóðarinnar einstaklingar af öðrum uppruna. Í litlum bæ fyrir norðan, á Akureyri eru til dæmis töluð 50 ólík tungumál. Í sumum skólum í Reykjavík á það sama á við, óteljandi tungumál.
Ísland hefur þróast í átt að fjölmenningarsamfélagi á skömmum tíma. Fjölmennustu hópar innflytjenda eru frá Póllandi og Eystrasaltslöndunum þremur. Undanfarið er það mest fólk frá Úkraínu sem reynir að koma sem og fólk frá Venesúela. Fólk kemur til Íslands af ólíkum ástæðum. Fjölmennasta hópinn skipa þeir sem koma til að fá atvinnu. Önnur eygja tækifæri til þess að afla sér menntunar eða búa á öruggum stað – á eyju fjarri stríði og hörmungum.
Hin hlið málsins er að íslenskt samfélag hefur þörf fyrir þessa nýja samfélagshópa. Á Íslandi búa um það bil 380 þúsund manns og samfélagið þarfnast aukins vinnuafls til þess að halda í við þróun atvinnulífsins. Án innflytjenda myndi þjóðin ekki ráða við ástandið í mörgum greinum, eins og í ferðaþjónustunni, fiskvinnslunni og byggingarstarfsemi.
Ísland gegnir formennsku fyrir Norrænu ráðherranefndina árið 2023
Friður leikur lykilhlutverk í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndarinnar og stórhug um að Norðurlöndin verði græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær.
Aðrar áherslur
Jafnrétti og réttindi, sérstaklega fyrir transfólk og intersex fólk
Jöfn tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði
Efling og uppbygging menningar- og listalífs
Sameiginleg norræn stefna í stafrænni máltækni
Aukið vestnorrænt samstarf í formennsku
Lesið formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023 hér.
Þrýstingur á samfélagið
Þessi staðreynd leggur mikinn þrýsting á lítið samfélag og krefst mikils af menntakerfinu og kallar á miklar framfarir í tungumálakennslu. Lykilatriði þess að aðlagast og vera virkur í íslensku samfélagi.
Hið nýja íslenska fjölmenningarþjóðfélag gerir nýjar kröfur og áskoranirnar sem blasa við eru þær sömu og nágrannalöndin í Skandinavíu hafa unnið með um áraraðir. Á Íslandi er litið til þeirra sem módel eða fyrirmyndar á ýmsan hátt. Tungumálið er ein helsta áskorun þeirra sem að kjósa að búa á Íslandi. Íslensk tunga er stolt þjóðarinnar og þykir vera flókið mál, meðal annars vegna málfræðinnar.
Eitt helsta málefnið á formennskutíma Íslendinga er inngilding og úrbætur á því sviði, ekki hvað síst er varðar tungumálakennslu. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins vinnur í samstarfi við Norrænt tengslanet um nám fullorðinna með umfangsmikið verkefni er varðar félagsmál og vinnumarkaðinn í samvinnu við tvö ráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Verkefnið hefur hlotið styrk frá Norrænu ráðherranefndinni. Hulda Anna Arnljótsdóttir er fulltrúi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem ásamt Björk Óttarsdóttir fulltrúa Íslands í embættismannanefnd Norrænu ráðherranefndarinnar um menntamál og rannsóknir (EK-U), frá mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Friður er forsenda
– Við ákváðum að vera sveigjanleg og tókum að okkur að gegna formennsku þetta ár í stað 2024 eins hefði verið samkvæmt áætlun, segir Hulda Anna. Ísland gegndi formennskunni síðast árið 2019. Ísland vinnur samkvæmt framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar sem gildir til 2030. Áhersla er á græn, samkeppnishæf, félagslega sjálfbær Norðurlönd og Ísland hefur bætt friði á listann yfir áhersluatriði.
– Íslendingar hafa hugtakið með vegna þess að fríður er undirstaða þess að allt annað í samfélögum okkar virki, segir Hulda Anna. Hún bætir við að spurningin um frið dragi málefni innflytjenda fram á sjónarsviðið og hvernig þeim vegni í nýju samfélagi.
Inngilding í forgrunni
Í verkefnalýsingunni er lögð áhersla á að vinnan snúist um aðlögun og að efla innflytjendur í menntun, atvinnulífi og samfélagi. Markmiðið er að leggja grunn að þarfagreiningu í formi rýnihópa með innflytjendum og viðeigandi hagaðilum. Tilgangurinn er að varpa ljósi á þær áskoranir sem þeir upplifa þegar þeir fara út á og halda sér á vinnumarkaði, í námi og að öðru leiti í samfélaginu. Niðurstöðurnar verða grundvöllur umræðna á formennskufundi embættismannanefndarinnar í Reykjavík þann 11. maí 2023.
Halda á málstofur með íslenskum og norrænum þátttakendum til þess að finna lausnir á hvers kyns hindrunum. Norrænu samstarfsaðilarnir munu geta bætt ferlið með því að miðla reynslu frá eigin landi. Niðurstöður bæði þarfagreininganna og málstofanna verða teknar saman og úr þeim unnið nytsamleg afurð eða módel sem getur orðið gagnlegt fyrir stjórnmálamenn. Tilgangurinn er að bæta aðgengi innflytjenda að menntun og atvinnulífi. Lokamarkmið eru betri samþætting eða aðlögun.
Hulda Anna segir þetta verkefni vera afar brýnt fyrir íslenskt samfélag því Íslendingar standi lakar að vígi í samanburði við hin Norðurlöndin. Einkum vegna þess hve fá ár hafa liðið síðan innflytjendur fóru að koma til Íslands. Hún telur að Íslendingar geti lært mikið af nágrönnum sínum, til dæmis hvað varðar tungumálakennslu, samfélagsrannsóknir og hvernig við eigum að bera okkur að við móttöku þessara nýju hópa.
Vinnan við formennsku Íslands er þegar í góðum gangi. Hér er einn vinnuhópurinn að störfum. Ljósmynd: Hulda Anna Arnljótsdóttir
Fólk á aldrinum 18-35 ára
Dr. Hermína Gunnþórsdóttir og Lara Hoffmann við Háskólann á Akureyri hafa tekið að sér að afla upplýsinga. Það gera þær á landsvísu í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar, sem staðsettar eru á fimm mismunandi stöðum á landinu, Reykjavík, Akureyri, Egilsstöðum, Reykjanesi og Vestfjörðum. Mynda á hópa með minnst 8 þátttakendum í hverjum hópi, allt innflytjendur á aldrinum 18-35 ára sem hafa búið á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár. Taka á viðtöl við þá annað hvort á íslensku eða ensku. Þeir þurfa ennfremur að vera í fastri vinnu, stunda nám eða vera í atvinnuleit. Öll kyn skulu eiga fulltrúa og þau þurfa einnig að vera með íslenska kennitölu.
Unnið er að gerð ramma fyrir spurningarnar sem nota á í rannsókninni. Sjónum verður beint að hvað það er sem hvetur þátttakendur til að læra íslensku og hvað það er sem vinnur gegn viðleitni þeirra til að tileinka sér íslenskuna. Þá verður athyglinni beint að því hvernig samfélagið getur brugðist betur við þörfum þeirra. Inn í þessi samtöl blandast einnig fólk úr atvinnulífinu og aðrir sem hafa sérstakan áhuga á þessu sviði. Alls verður um 80 manns boðið á ráðstefnuna 11. maí. Meðal þeirra sem boðið verður eru nokkrir af ungu innflytjendunum sem taka þátt í könnuninni.
Norðmenn gegndu formennsku í fyrra og þeir lögðu mikla áherslu á innflytjendamál og beindu sjónum sérstaklega að tungumálakennslu, segir Hulda Anna. Norðmenn söfnuðu upplýsingum um tungumálakennslu á Norðurlöndum fyrir þennan markhóp. Þetta er mikilvægt fyrir Ísland því þessa þekkingu má nýta í aðgerðum Íslendinga til að bæta sig. Hulda Anna segir að í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu sé einnig áhugi á öðrum viðfangsefnum er varða innflytjendur og gæta að röddum þeirra og sjónarmiðum. Ráðuneytið hefur í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri þegar hrint af stað tveimur rannsóknum.
Breyttar áherslur
Þegar einstaklingur ákveður að flytja til Íslands þarf viðkomandi að borga fyrir tungumálakennslu, sem er ekki tilfellið í til dæmis Danmörku og Svíþjóð. Á Íslandi er hægt að velja um einkarekna fræðsluaðila eða nám á framhaldsskólastigi í opinbera skólakerfinu. Háskólanám er líka möguleiki. Möguleikarnir eru fyrir hendi en það er ekki sjálfsagt að það séu pláss fyrir alla, segir Hulda Anna. Hún bætir við að tungumálið sé lykillinn að vinnumarkaði og aðlögun að samfélaginu. Hún segir að breyta þurfi áherslum í kennslunni, frá því að reyna að tala hið fullkomna tungumál yfir í að geta tekið á virkan þátt í samfélaginu.
Íslensku þorpið
Björk segir að reynt sé að breyta viðhorfum og aðferðum. Nú er boðið upp á námskeið fyrir fólk sem starfar á neðstu þrepum skólakerfisins, ekki síst á leikskólastigi. Þetta verkefni er kallað „Íslenskuþorpið“ eða íslenskumælandi þorp. Þar er sjónum beint að innflytjendum sem þegar hafa fengið atvinnu, en þurfa að bæta tungumálakunnáttu sína til að verða betri starfskraftur. Við kennsluna er lögð áhersla á daglegt starf innan leik- og grunnskóla. – Í þessu verkefni er ekki verið að líta til fólks sem er utan atvinnulífsins vegna skorts á íslenskukunnáttu, segir Björk.
Margar sögur fara af samskiptum nýju íslensku borgaranna og hinna sem eru af íslensku bergi brotin. Fólk kvartar yfir því að geta ekki pantað mat á veitingastöðum á íslensku þar sem starfsfólkið talar ekki hið ástkæra og ylhýra. Vandamálið á einnig við um elliheimili þar sem gamla fólkið heldur að það sé flutt til Póllands eða Filippseyja. Í Bláa lóninu er nánast enginn meðal starfsfólksins sem talar íslensku við viðskiptavinina. Íslenskt samfélag hefur breyst hratt. Sú staðreynd vekur upp spurningar um hversu opið samfélagið er fyrir nýjum íbúum.
Miklir fordómar
– Á sumum sviðum eru miklir fordómar, segir Björk. Þetta á ekki síst við um fólk sem hefur annað útlit, til dæmis vegna húðlitar. En við getum ekki sannað þetta því okkur skortir rannsóknir, þannig að þetta byggist bara á því sem við heyrum og sjáum, segir Björk.
Hulda Anna bætir við að vonandi komi rannsóknin, sem á að ljúka fyrir ráðstefnuna 11. maí, inn á spurninguna um fordóma. Hún segir að sökum þess að innflytjendum fjölgi svo hratt sé þörfin fyrir meiri þekkingu aðkallandi. Ísland þarf fólk til að halda atvinnulífinu gangandi og því eru móttökurnar og fyrsti stuðningurinn mikilvægur.
Svartur blettur
Mörg þeirra sem koma til Íslands eru vel menntuð en fá menntunina ekki viðurkennda. Þau vinna oft langt undir hæfni og faglegum bakgrunni. – Við sem vinnum við fullorðinsfræðslu höfum áhyggjur af þessum vanda og reynum að ná til þeirra og virkja þau inn í samfélagið á viðunandi stigi, segir Hulda Anna.
Björk segir einnig mikilvægt að auðvelda fólki sem kemur með til dæmis háskólapróf að fá það viðurkennt. Sumir þeirra sem koma til landsins sem flóttamenn hafa ekki einu sinni með pappírana meðferðis. Háskóli Íslands vinnur nú að matsferli til að auðvelda að fá fyrri menntun og reynslu samþykkta. Þetta á ekki aðeins við um menntun heldur einnig fyrri reynslu af vinnumarkaði. Einnig þarf að tryggja að fólkið fái nauðsynlegar upplýsingar við komuna til landsins um hvernig það geti ratað um kerfið.
Fjölmenningarsamfélag
Hulda Anna segir tímabært að íslendingar horfist í augu við að Ísland sé fjölmenningarsamfélag. En vandamálið er að þjóðin veit ekki hvernig hún á að bregðast við. – Sérfræðingarnir ræða saman en það leiðir ekki til þeirrar meðvitundar sem þarf, segir Hulda Anna.- Við erum enn í eins konar sílói en hægt og örugglega er eitthvað að gerast, heldur hún áfram.
Bæði Hulda Anna og Björk telja að ráðstefnan í Reykjavík í maí verði mikilvægur þáttur í þróuninni og að hún muni leiða til þess að íslensk stjórnvöld og norrænt samstarf fái skýrari mynd af ástandinu á Íslandi, bæði hvað varðar innflytjendur sjálfa og þá sem stýra atvinnulífinu í landinu. Fyrirhugað er að skapa þemu um vinnumarkaðinn, um einmanaleika og geðheilbrigði. Markmiðið er að fram komi jafningjar sem hjálpi hver öðrum. Sem dæmi má taka íslenskan karl sem upplýsir karlkyns innflytjanda um jafnrétti í landinu. Í þessum anda verða allir leiðbeinendur í tungumálakennslu. Allir tala íslensku hvort sem er í bakaríinu eða apótekinu.
Íslendingar tala ensku
Björk bendir á að fólk á Íslandi tali oft ensku við innflytjendur um leið og það heyrir að þeir tali með erlendum hreim. Hún telur þetta alrangt og í mörgum tilfellum kunni fólk enga ensku eins og margir Pólverjar sem hafa flutt til Íslands.
— Þetta er alger misskilningur. Þar að auki þarf fólk þarf fólk sem flytur til Íslands sumum tilfellum að læra ensku áður en það lærir íslensku.
Einbeitum okkur að vinnunni, ekki málfræði
Hulda Anna segir mikilvægt að gefa fólki tækifæri til að læra íslensku á vinnustaðnum. Það er mikil hindrun, sérstaklega fyrir konur, að þurfa að sækja tungumálakennslu að loknum heilum vinnudegi. Það gengur bara alls ekki. Þessi hópur þarf að fá tungumálakennslu á vinnutíma og kennslan á að miðast við starfið en ekki málfræði. Að einblína á málfræði er ekki leiðin til að auka áhuga á tungumálinu. Við sem samfélag þurfum að hjálpa þessum þjóðfélagshópi að læra íslensku.
– Pólska samfélagið hér á Íslandi gæti auðveldlega lokast inn í pólsku umhverfi og það er ekki gott. Við þurfum að taka höndum saman um að opna íslenskt málsamfélag, segir Hulda Anna.
Er erfitt að læra íslensku?
Undanfarið hefur komið fram gagnrýni á að fólk á Íslandi geri of mikið úr hversu erfitt það er að læra íslensku. Setji upp eins konar múr á milli þeirra sem fæðst hafa í landinu og þeirra sem flytja til Íslands.
Björk, fulltrúi í EK-U, hefur sérstakar áhyggjur af viðfangsefnum tungumála og innflytjenda. Sjálf ólst hún upp í Svíþjóð. Hún telur að íslenskir íbúar líti tungumálið oft frá of þröngu sjónarhorni og fari allt of fljótt að tala ensku við fólk sem það heyrir hafa erlendan hreim þegar það reynir að spreyta sig á íslensku.
– Við látum sem íslensk tunga sé eitthvað sérstök og gefum þeim sem reyna íslenskuna of fá tækifæri eða of lítinn stuðning við að ná tökum á tungumálinu, segir hún. Björk segist hafa talað við konu frá Póllandi sem hefur lært íslensku og telur að það sé alls ekki svo erfitt að læra tungumálið. – Við höfum búið til goðsögn um móðurmálið og viljum að það sé erfitt að læra, segir Björk. – Okkar mál er „grunntungumál“ Norðurlanda og það fallegasta. Við tölum besta tungumálið og erum fallegri en aðrir, segir hún og hlær.
Að gera sig skiljanleg
Hulda Anna tekur undir með Björk og segir marga af erlendum uppruna hafa staðfest að það sé alls ekki svo erfitt að læra íslensku. Það er hluti af verkefninu að leggja ekki lengur áherslu á að ekki sé hægt að læra þetta tungumál. – Við ættum að hætta að einblína á málfræði og beina sjónum frekar á mikilvægi þess að gera sig skiljanlega. Það eru mörg góð öpp sem fólk getur notað við tungumálanám og við verðum að muna að það er í lagi að gera mistök og að það er í lagi að tala með hreim, segir hún.
Björk segist líka aldrei hafa skilið hvers vegna fólk sem vill læra íslensku ætti og ætti að byrja á því að læra málfræði.
– Ég kann ekki íslenska málfræði, segir hún. Hún ólst upp í Svíþjóð og lærði aldrei íslenska málfræði en telur sig bæði tala og skrifa nokkuð góða íslensku. Hún segir að innflytjendur vilji einfaldlega ekki læra að fallbeygja íslensk orð „hér er vasi, um vasa, frá vasa, til vasa“. Þeir vilja læra tungumál sem þeir geta notað sem verkfæri í daglegu lífi.
Íslenska forsetafrúin, Elisa Reed, er frá Kanada og hefur verið dugleg að leggja áherslu á að hún tali ekki fullkomna íslensku og að það sé allt í lagi að gera mistök í orðum og málfræði. Hún hefur gegnt mikilvægu hlutverki við að breiða út sama boðskap og Björk og Hulda Anna. Hún heldur ræður sínar á íslensku og segir fólki brosandi frá málfræðivillum sínum og orðavali til að undirstrika skoðanir sínar á þessu.
Fjölmiðlar eru mikilvægir
Fjölmiðlar geta gegnt mikilvægu hlutverki við að hafa áhrif á samfélagið sem þeir starfa í.
Björk og Hulda Anna eru sammála um að íslenskir fjölmiðlar geti þjónað mikilvægum tilgangi fyrir innflytjendur og nýta megi þá til að draga úr fordómum og auka skilning á menningarmun og fjölbreytileika. En það þarf að leggja meiri áherslu á þetta. Fyrir ekki löngu hefur Ríkisútvarpið, RUV, ráðið til sín fólk sem staðfestir með útliti að það sé ekki af íslenskum ættum. – Ég verð alltaf glöð þegar ég heyri fólk tala íslensku með erlendum hreim í útvarpi eða sjónvarpi. Við erum langt á eftir á þessu sviði í íslenskum fjölmiðlum miðað við NRK í Noregi þar sem menningarleg fjölbreytni hefur verið í fyrirrúmi um árabil, segir Björk.
Fordómar breiðast út
Þungamiðja verkefnisins, sem verður kynnt í maí í Reykjavík, er að draga fram sýn innflytjenda á hvað virkar vel og hvað síður á Sagaeyjunni. En hversu góð er þjóðin sjálf til að takast á við hið nýja fjölmenningarsamfélag sem er á landinu í dag?
Björk segir að það sé tiltölulega nýtt að stórir hópar fólks tali ekki íslensku. Hún segir að þegar hún var að alast upp í Svíþjóð hafi verið þar fjölmennir hópar innflytjenda og hún hafi verið ein af þeim. Sænskt samfélag hefur unnið með viðfangsefnin í langan tíma og nú standa Íslendingar frammi fyrir sömu spurningunum og áskorunum. Hún telur að eldri kynslóðir hafi oft töluverða fordóma gagnvart innflytjendum og það smitist niður til yngri hópana líka. – Ég man það frá barnæsku minni í Svíþjóð að ég heyrði fólk tala um „helvítis pólverjana“ sem koma og stela vinnunni af okkur og líka konunum. Þessar raddir heyri ég nú hér á Íslandi. Ég verð oft áhyggjufull fyrir hönd fólksins sem kemur og vill verða hluti af samfélagi okkar, segir Björk.
Niðurstöður fyrir lok árs
Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár, en hvað sjá Hulda Anna og Björk fyrir sér í lok ársins? Þær telja að það sem skipti máli sé að veita öllum innflytjendum aðgang að menntun sem hentar hverjum einstaklingi og tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu. Þetta tengist skipulagi menntunar og vinnumarkaðar. Þær telja líka að ekki sé alltaf þörf fyrir að finna nýjar lausnir heldur nýta þá þekkingu sem aflað hefur verið á hinum Norðurlöndunum. Norðurlöndin eru alltaf fyrirmynd Íslands, segja konurnar tvær sem standa að stóra verkefninu sem verður gert sýnilegt með vorinu í Reykjavík.
Samantekt
Ísland hefur á tiltölulega skömmum tíma breyst úr því að vera einsleitt samfélag í fjölmenningarlegt. Rúmlega 60.000 innflytjendur eru í landinu í dag, eða tæplega 17% þjóðarinnar. Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár og íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að leggja þunga áherslu á samþættingu ásamt öðrum mikilvægum sviðum sem ráðherranefndin hefur valið að setja í forgang til ársins 2030. Nú er hafin könnun á landsvísu meðal ungra innflytjenda á aldrinum 18-35 ára. Niðurstöðurnar verða kynntar í Reykjavík í maí nk. Markmiðið er að auka skilning á þörf fyrir tungumálakennslu og hvernig slíkri kennslu skuli háttað svo hún nýtist sem best fyrir þá sem flytja til landsins. Minni málfræði og meiri pressa á að fá tæki til að geta tekið á virkan hátt í því nýja samfélagi sem þeir hafa valið sér, með tækifærum til atvinnu og menntunar. Lykillinn er að fá sem flesta til að uppgötva að hægt er að læra íslenska tungu og nota hana sem lykil að samfélaginu.