Viðtal við Jón Gunnar hjá Bara tala
Fyrr á árinu hlaut nýsköpunarfyrirtækið Bara tala ehf. viðurkenningu sem Menntasproti ársins. Þó það sé aðeins ár síðan Bara tala hóf starfsemi er fyrirtækið búið að vekja mikla athygli og hafa nú yfir 50 fyrirtæki og 10 sveitafélög keypt aðgang að Bara tala appinu fyrir starfsfólk. Bryndís Skarphéðinsdóttir hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar ræddi við Jón Gunnar Þórðarson, framkvæmdastjóra Bara tala, um árangurssögur, samstarfsmöguleika og framtíðarsýn.
Hvað er Bara tala appið?
,,Bara tala appið er stafrænn íslenskukennari sem er aðgengilegt notendum á þægilegan og einfaldan hátt í símanum. Appið byggir á gervigreind og íslenskri máltækni sem byggir á kjarnalausnum íslensku máltækniáætlunarinnar. Áhersla er lögð á talmál þar sem notendur geta spreytt sig á framburði íslenskunnar. Fólk talar við appið og forritið veitir endurgjöf með því að benda á hvaða orð var ekki borið fram nógu skýrt. Einnig er tungumálið kennt í gegnum leik með myndum og hljóðum. Áskrift að Bara tala appinu er seld til fyrirtækja og stofnana og ætlað starfsfólki þeirra sem vill læra íslensku“ segir Jón Gunnar.
Hvernig kviknaði hugmyndin að Bara tala?
“Hugmyndin að Bara tala spratt úr sameiginlegum bakgrunni okkar allra sem standa að Bara tala í menntatækni og þróun stafrænna kennslulausna. Við höfum áður þróað kennslulausnir fyrir börn á sviði tónlistar og lestrar- og málörvunarforrit í samstarfi við talmeinafræðinga. Í gegnum það ferli heyrðum við æ oftar um þörfina fyrir íslenskukennslulausn fyrir fullorðna. Þegar spurningin um hvort við gætum þróað stafræna kennslulausn fyrir innflytjendur á Íslandi kom upp ítrekað, varð okkur ljóst hversu brýn sú þörf var” segir Jón Gunnar og bætir við að “fjölmiðlar tóku einnig að fjalla meira um þessa miklu áskorun sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Samfélagið hefur breyst hratt á síðustu árum, og okkur varð ljóst að við gætum mögulega verið hluti af lausninni. Við sáum þó fljótlega að þessi áskorun var afar stór og frábrugðin þeim kennslulausnum sem við höfðum þróað fyrir börn. Ef við ætluðum að fara af fullum krafti í þetta verkefni, yrðum við að stofna fyrirtæki sem myndi alfarið einbeita sér að þessari stóru og mikilvægu áskorun”.
„Með þetta í huga var ákveðið að kanna áhugann hjá nokkrum fyrirtækjum áður en Bara tala var stofnað, viðbrögðin voru jákvæð og í framhaldinu var fyrirtækið stofnað og lausnin þróuð í góðu samstarfi við íslensk fyrirtæki og kennara sem kenna íslensku sem annað mál“ segir Jón Gunnar jafnframt.
Er Bara tala appið helst fyrir byrjendur sem eru að taka sín fyrstu skref í íslensku?
„Notendur hafa talað um að Bara tala kveiki neistann og áhuga á tungumálinu og að notkun þess hvetji fólk jafnframt til að fara í áframhaldandi íslenskunám. Þó að fólk hafi tileinkað sér ákveðinn skilning á íslensku getur það verið hindrun að byrja að tala. Þeim finnst gott að æfa orðaforðann í appinu og tækifæri til að bæta framburðinn“ segir Jón Gunnar og bætir við að Bara tala appið sé áhrifaríkast fyrir byrjendur og ætti að nýtast mörgum til að efla færni sína í íslensku.
Hvað er búið að vera skemmtilegast í ferlinu?
„Það sem er búið að vera skemmtilegast er að sjá árangur fólks og að sjá að fólk sem naut sín ekki endilega vel í skóla er að njóta þess að læra í gegnum Bara tala. Appið er leikur í sjálfu sér og notendum líður eins og það sé leikur að læra. Fjölbreytt og sveigjanleg leið til að læra er hvatning til að halda áfram að tileinka sér tungumálið. Þá hefur það einnig komið skemmtilega á óvart hversu vel atvinnurekendur, hið opinbera og stéttarfélög hafa tekið appinu Bara tala vel. Efling íslenskunnar er sameiginlegt átak og það virðist sem við í Bara tala séum með verðmætt verkfæri í höndunum og margir aðilar eru til í að vera með í þessar skemmtilegu en krefjandi vegferð“ segir Jón Gunnar.
Hvernig sérðu fyrir þér að Bara tala geti stutt við að varðveita íslenskuna?
Jón Gunnar segir að með því að starfa náið með stjórnvöldum, stéttarfélögum og atvinnulífinu þannig að allir taki höndum saman í átaki til að styðja við fólk sem er að læra íslensku og valdefla hana innan samfélagsins sé lykilatriði. Árið 2023[1] var gerð rannsókn og sýndu niðurstöður meðal annars fram á að aðeins um einn af hverjum tíu innflytjendum telja sig hafa mjög góða færni í íslensku og um fimmtungur telur færni sína vera frekar eða mjög góða. Til samanburðar þá telur um helmingur þátttakenda færni sína í ensku vera mjög góða.
„Við höfum farið í margar fyrirtækjaheimsóknir á árinu, og þá heyrum við trekk í trekk reynslusögur frá erlendu starfsfólki þar sem þau segjast hafa lært mun meiri ensku eftir að hafa komið til Íslands en íslensku. Þessari þróun verðum við að snúa við og við Íslendingar getum gert eitthvað í því, t.d. með því að vera betri í því að bara hlusta og gefa þeim sem eru að læra tungumálið okkar aukið svigrúm til að spreyta sig í tungumálinu“ segir Jón Gunnar og nefnir nauðsyn þess að stuðla að sveigjanlegu og aðgengilegu námi þar sem innflytjendur geta byrjað á því að tileinka sér íslensku.
Hvernig getur appið nýst samhliða öðru íslenskunámi?
„Bara tala appið er öflug viðbót við íslenskunám og tungumálastuðning á vinnustað, þar sem nemendur geta lært orðaforðann og æft framburð heima og síðan talað við manneskjur í samtölum á íslenskunámskeiðum. Sveitafélagið Árborg í samstarfi við Fræðslunetið er að nýta Bara tala appið fyrir starfstengda íslenskukennslu og SÍMEY á Akureyri ætlar að taka inn Bara tala appið sem viðbót við íslenskunámið“ segir Jón Gunnar.
Höfundar lausnarinnar Bara tala líta á sig sem sérfræðinga í því að búa til máltæknilausn /menntatæknilausn, en því meira samstarf við íslenskufræðinga og fagaðila, því betra. Þau leita því víða eftir samstarfi þar sem hugbúnaðurinn verður betri eftir því sem fleiri koma að borðinu. „Bara tala er lifandi hugbúnaður og breytist samkvæmt endurgjöf sem nýtt er til að bregðast við þörfum“ segir Jón Gunnar.
Getur þú sagt betur frá hvernig samstarf við hina ýmsu aðila hefur stuðlað að því að Bara tali appið innihaldi starfstengdan orðaforða?
„Bara tala hefur innleitt fagorðalista ferðaþjónustunnar sem þróaðir voru af Hæfnisetri ferðaþjónustunnar í samvinnu við starfsfólk í ferðaþjónustu og hagsmunaaðila greinarinnar. Einnig hafa hótel sem hafa innleitt lausnina, eins og Berjaya Hotels og Center Hotels, þróað í samstarfi við Bara tala, starfstengdan orðaforða sem þýðir að þessir flokkar eru nú aðgengilegir fyrir alla sem hafa aðgang að appinu“ segir Jón Gunnar.
Þá gerði félags- og vinnumarkaðsráðuneytið samning við Bara tala ehf þess efnis að innleiða fagorðalista fyrir heilbrigðisþjónustuna þar sem margir af erlendu bergi brotnu starfa innan greinarinnar. Von er á að það bætist við fagorðalistar fyrir stóriðju og ítarlegri orðaforði fyrir sjávarútveg og matvælaiðnað.
Hvað hafa fyrirtæki og stofnanir verið að gera til að ná enn meiri árangri með starfsfólki?
„Sem dæmi má nefna hefur þrifafyrirtækið AÞ Þrif leyft starfsfólki að lengja hádegishlé um korter til að nýta í Bara tala appið. Sjávarútvegsfyrirtækið Brim hefur boðað starfsfólk á námskeið þar sem samhliða markvissri notkun þeirra á Bara tala appinu hittast þau sem hópur með fræðslustjóra Brim reglulega yfir þriggja mánaða tímabil til að æfa í samtali orðaforðann sem þau hafa lært í gegnum appið. Einnig er Rauði Krossinn að nýta appið með flóttafólki og hælisleitendum í gegnum samtal út frá flokkum í appinu sem þau hafa kynnt sér. BM Vallá innleiddi Bara tala á síðasta ári og lagði áherslu á jákvæðan orðaforða í kennslunni. Könnun sem var framkvæmd fyrir og eftir námskeiðið sýndi fram á aukna hamingju og vellíðan notenda. Þessar árangurssögur eru einmitt það sem við vorum að vonast eftir“ segir Jón Gunnar.
Geta fyrirtæki sótt styrk til starfsmennasjóða til að innleiða Bara tala appið líkt og með íslenskunámskeið?
Jón Gunnar bendir á að fyrirtæki og stofnanir geta sótt um styrki hjá flestum starfsmenntasjóðum til að innleiða Bara tala appið líkt og með íslenskunámskeið. Greitt er fyrir ársáskrift og umsókn send inn á sameiginlega heimasíðu starfsmennasjóðanna, Áttin.is. Í Bara tala appinu er mælaborð fyrir stjórnendur þar sem hægt er að sjá yfirlit yfir virkni notenda, meðal annars til að sýna fram á árangur starfsfólks í notkun íslenskunnar til að stjórnendur geti hvatt fólk áfram og stutt við starfsfólk sem er að læra tungumálið.
Hverjar eru nýjustu uppfærslurnar í appinu?
Appið er í stöðugri þróun og samkvæmt Jóni Gunnari eru þýðingaforrit og orðabók notenda nýjustu uppfærslurnar. „Í þýðingarforritinu velja notendur hvaða tungumál þeir vilja þýða (boðið er upp á ensku, pólsku, spænsku, litháensku og úkraínsku). Þar næst talar notandinn upphátt, segir hvaða setningu sem er á þeirra tungumáli og appið sýnir hvernig það er skrifað á íslensku og les það upp. Síðan geta notendur vistað það í eigin orðabók og sérsniðið orðaflokka sem þau nota í daglegu lífi og starfi til að byggja upp færni sína í íslensku“ segir Jón Gunnar.
Hver er framtíðarsýn Bara tala?
„Framtíðarsýnin er að Bara tala appið verði verkfæri sem öllum dettur í hug þegar kemur að stafrænu íslenskunámi og að á næstu árum verði sjálfsagt að allt erlent starfsfólk á Íslandi sé með aðgang að appinu. Þá er markmiðið að innleiða fagorðalista fyrir allar starfsgreinar, vinna náið með fyrirtækjum, stofnunum og öðrum hagaðilum á Íslandi til að innleiða allan viðeigandi orðaforða í appið. Þegar það markmið er í höfn er stefnan að fara á erlendan markað“ segir Jón Gunnar að lokum.
[1] Samfélög án aðgreiningar: Mat innflytjenda á eigin færni í Íslensku (stjornarradid.is)