- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Gefum íslensku séns

Frá árinu 2020 hefur verið unnið formlega að verkefninu Gefum íslensku séns á Vestfjörðum. Verkefnið hófst hjá Háskólasetri Vestfjarða og fljótlega gafst Fræðslumiðstöð Vestfjarða tækifæri til að taka þátt. Hugmyndafræði verkefnisins er einföld: samfélagið er framlenging kennslustofunnar í íslensku og hver og einn getur tekið að sér að verða almannakennari.

Margir geta leitað í eigin reynslu af tungumálanámi og vita að það að tileinka sér nýtt tungumál er krefjandi ferli með ótal uppgjafarhjöllum. Í slíku ferli skiptir miklu máli að fá tækifæri til að æfa sig í öruggu og hvetjandi umhverfi.

Meginhlutverk almannakennarans er að bjóða upp á íslensku á ýmsum hæfnistigum. Tækifærin felast í daglegum samskiptum: í búðinni, á veitingastöðum, í strætó eða öðrum almannarýmum. Almannakennarinn gæti þurft að sýna þolinmæði, endurtaka ef með þarf, vera hvetjandi og tala hægt og skýrt. Stundum þarf hann að einfalda mál sitt, kenna ný orð eða aðstoða við framburð. Hann er styðjandi og tilbúinn til að eiga samskipti á alls konar íslensku, sýnir viðmælandanum virðingu og tekur ábyrgð gagnvart íslenskunni.

Gefum íslensku séns minnir okkur á að bjóða alltaf upp á íslenskuna fyrst. Íslenska er hornsteinn samfélagsins og flestir sem hér dvelja vilja læra tungumálið og verða virkir í íslensku samfélagi. Á síðustu árum hafa samfélagsbreytingar og alþjóðavæðing þó orðið til þess að enskunotkun hefur aukist í íslensku samfélagi, bæði í þjónustu og daglegum samskiptum. Það er þróun sem við getum snúið við með sameiginlegu átaki.

Gefum íslensku séns er samfélagsverkefni sem allir geta átt hlutdeild í og lagt lið. Eitt af aðalmarkmiðum þess er að auka meðvitund fólks um að samfélagið sé lykillinn að tungumálinu. Almenningur gegnir mikilvægu hlutverki í því að viðhalda og efla íslensku.

Hluti verkefnisins hefur verið að skipuleggja viðburði þar sem þátttakendur eru bæði þeir sem eru að læra íslensku og þeir sem vilja styðja við aðra í að ná tökum á íslenskunni. Ýmislegt hefur verið prófað, en hingað til hafa viðburðir sem kallast Hraðíslenska og Þriðja rýmið verið vinsælastir.

Í meginatriðum snúast þessir viðburðir um að hittast og tala saman. Hliðarafurð þeirra er samvera, þar sem fólk kynnist og lærir hvert af öðru. Þannig gegna viðburðir sem þessir mikilvægu hlutverki í inngildingu fólks af erlendum uppruna og í því að styrkja stöðu íslenskunnar í samfélaginu.

Margir hafa séð tækifæri í þátttöku í verkefninu almannakennari. Á Vestfjörðum hafa einstaklingar, sveitarfélög og fyrirtæki lagt því lið og ánægjulegt er að það hefur fest sig í sessi víðar um landið.

Hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða sjáum við merki um jákvæð áhrif, bæði á viðhorfi og þátttöku. Sumt er óáþreifanlegt, eins og jákvætt viðmót í samfélaginu en annað sést skýrar, til dæmis fjölgun þátttakenda á íslenskunámskeiðum. Einnig hefur þeim fyrirtækjum fjölgað sem vilja gefa íslenskunni séns, og nú er unnið að samstarfi við nokkur þeirra sem hyggjast bjóða upp á íslenskunámskeið á vinnustaðnum og viðburði í anda verkefnisins. Gefum íslensku séns er mikilvæg viðbót við íslenskunámskeið, verkefni sem minnir okkur á að íslenskan lifir í samtalinu og samfélaginu sjálfu.

Sædís María Jónatansdóttir

Sædís María Jónatansdóttir hefur verið forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða frá árinu 2019. Hún er grunnskólakennari að mennt og hefur lokið diplómum í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og jákvæðri sálfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Sædís hefur jafnframt reynslu af kennslu íslensku sem annars máls og starfi á sviði fjölmenningar.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi