- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Raunfærnimat á móti námskrá Háskólabrúar Keilis

Samkvæmt könnun um menntunarstöðu félagsmanna í SFR (1) hafa ríflega 30% félagsmanna ekki lokið formlegu prófi úr framhaldsskóla. Til að koma til móts við þennan hóp og gefa þeim færi á að ljúka lokaprófi á framhaldsskólastigi leitaði Fræðslusetrið Starfsmennt eftir samstarfi við Keili – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs um framkvæmd raunfærnimats á móti námskrá Háskólabrúar með það að markmiði að þátttakendur geti stytt sér leiðina til lokaprófs af Háskólabrú Keilis.

Háskólabrú Keilis býður upp á nám fyrir einstaklinga sem ekki hafa lokið stúdentsprófi og uppfylla nemendur að loknu náminu inntökuskilyrði í allar deildir Háskóla Íslands. Auk þess hafa útskrifaðir nemendur fengið inngöngu í nám í öðrum háskólum bæði hér á landi og erlendis.

Keilir tók vel í hugmyndina. Eitt af meginmarkmiðum Keilis er að hækka menntunarstig einstaklinga í samfélaginu og á sem fjölbreyttastan hátt. Því kom þetta verkefni sem kjörið tækifæri til að bæta í þá flóru sem þegar er til staðar í Keili, auk þess sem starfsmenn öðluðust dýrmæta reynslu í gegnum ferlið við raunfærnimatið. Úr varð að á vor- og haustönn 2018 setti Fræðslusetrið Starfsmennt, í samstarfi við Keili, upp raunfærnimat á móti námskrá Háskólabrúar Keilis.

Fræðslusjóður veitti styrk til verkefnisins og var raunfærnimatið unnið í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Matið var þar með opið öllum en ekki eingöngu aðildarfélögum Starfsmenntar og var þátttakendum að kostnaðarlausu.

Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði í raunfærnimatið voru þau sömu og inntökuskilyrði Háskólabrúar, að vera 23 ára eða eldri, með samtals þriggja ára almenna starfsreynslu og hafa lokið að lágmarki 117 framhaldsskólaeiningum (70 eldri einingar), þar af einingum í grunnfögunum ensku, íslensku og stærðfræði.

Greinar til raunfærnimats

Kennarar Háskólabrúar fóru yfir þá áfanga sem þeir kenndu og mátu hvort það væri raunhæft að bjóða upp á raunfærnimat í þeim. Niðurstaðan varð sú að sex greinar þóttu henta til raunfærnimats: Stærðfræði 1 (STÆ2A06), Stærðfræði 2 – Tölfræði (STÆ3AT06), Upplýsingatækni (UPT2A06), Upplýsingatækni og tölfræði (UTÖ2B06), Danska (DAN2A06) og Bókfærsla (INN2A06). Kennarar þessara áfanga útbjuggu matslista og mátu raunfærni þátttakenda.

Þátttaka í raunfærnimatinu

Verkefnið var kynnt og auglýst í janúar og september 2018 og í kjölfarið voru haldnir opnir kynningarfundir  í húsnæði Starfsmenntar. Verkefnastjóri kynnti markmið og framkvæmd raunfærnimatsins og náms- og starfsráðgjafi frá Keili kynnti Háskólabrúna og möguleika þátttakenda að loknu raunfærnimati. Matsferlið sjálft hófst svo í kjölfar kynningarfunda. Hópurinn sem tók þátt í verkefninu á vorönn lauk því í júní en hópurinn sem tók þátt í verkefninu á haustönn lauk því í byrjun janúar 2019.

Alls tóku ellefu einstaklingar þátt í raunfærnimatinu, allt konur og var meðalaldur þeirra 50 ár. Í heildina fóru fram 26 matssamtöl og stóðust þátttakendur alls 150 feiningar. Flestar metnar feiningar á einstakling voru 24 en sem dæmi má nefna að félagsvísinda- og lagadeild Háskólabrúar Keilis telur alls 73 feiningar.

Af ellefu þátttakendum voru tíu af höfuðborgarsvæðinu. Einn þátttakandi var af landsbyggðinni og voru í hans tilviki ýmist notaðir rafrænir miðlar í matsferlinu eða hann kom til höfuðborgarinnar.

Níu af þessum ellefu þátttakendum hófu strax nám á Háskólabrú í kjölfar raunfærnimats, en einn þátttakandi var þegar í námi. Til viðbótar skráðu tveir einstaklingar, sem sóttu kynningarfund, sig í námið, en völdu að koma ekki í raunfærnimat.

Lokaorð

Þátttaka í raunfærnimati á móti kröfum Háskólabrúar Keilis átti því ótvírætt þátt í að hvetja einstaklinga til frekara náms, sem er vissulega það sem að var stefnt. Því telja aðstandendur verkefnisins, bæði hjá Starfsmennt og Keili, að verkefnið hafi tekist afar vel. Fyrstu nemendur sem komu í gegnum verkefnið útskrifuðust af Háskólabrú í júní 2019, aðeins rúmu ári frá því að ferlið hófst.

Neðanmálsgreinar

  1. Stofnun ársins 2017, sérstök könnun send einungis SFR félagsmönnum.
Berglind Kristjánsdóttir

Berglind Kristjánsdóttir er forstöðukona Háskólabrúar Keilis. Hún lauk B.Ed. - prófi í grunnskólakennarafræðum á stærðfræðikjörsviði frá Kennaraháskóla Íslands árið 2005.

Skúli Freyr Brynjólfsson

Skúli Freyr Brynjólfsson er náms- og starfsráðgjafi hjá Keili. Hann lauk B.Ed. - prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1998 og diplómanámi í náms- og starfsráðgjöf frá VIA University College í Århus 2008.

Sólborg Alda Pétursdóttir

Sólborg Alda Pétursdóttir er verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt. Hún lauk B.Ed. -prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1985 og diplómanámi í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 1992.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi