- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Góð sátt um hæfnistefnu Norðmanna

Hvað þarf til svo Norðmönnum takist að aðlagast að breytingum á vinnumarkaði? Hvernig eigum við að tryggja aðgengi að nægilega hæfu vinnuafli, góðri hæfni og markvissu námi í atvinnulífinu? Norðmenn eru fyrstir af aðildarþjóðum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) til þess að móta pólitíska stefnu um hæfni. Í stefnunni er kveðið á um markmið og leiðir fyrir áframhaldandi vinnu við að efla hæfni einstaklinga og fyrirtækja. Hæfnistefnan á að stuðla að því að Norðmenn búi yfir hæfni sem gerir þjóðinni kleift að takast á við breytingar í hagkerfinu.

Bakgrunnur stefnumótunar fyrir hæfni

Hæfnistefna OECD

Með verkefninu um hæfnistefnu (e. skills strategy) greindi OECD hæfnistefnu Norðmanna. OECD benti á að helstu áskoranir sem blasi við yfirvöldum í Noregi felist í því að fá alla hluta embættismannakerfisins, á landsvísu og innan einstakra landssvæða, til þess að vinna vel saman. OECD setti jafnframt fram tillögur um það hvernig Norðmenn gætu, á árangursríkan og markvissan hátt, þróað og nýtt hæfni íbúanna. Meðal áskorana er að ekki hefur tekist að nýta hæfni íbúa í Noregi nægilega vel, að skortur er á hámenntuðu sérhæfðu vinnuafli og að enn er stór hópur fólks sem skortir grunnleikni. OECD benti ennfremur á að að samhæfing á milli mennta-, vinnumarkaðs-, efnahags- og byggðaþróunarmála væri ekki nægilega góð. Samkvæmt niðurstöðum OECD er þörf fyrir heildrænar aðgerðir. Á grunni ráðlegginga OECD hefur verið mótuð hæfnipólitísk stefna sem nær yfir helstu áskoranir þvert á svið og stjórnskipunarþrep. Stefnan á að stuðla að því að Norðmenn búi áfram við samkeppnishæft efnahagslíf, áframhaldandi efnahagsvöxt, virka stjórnsýslu og aðlögunarhæft samfélag. Meðal skilyrða fyrir virkri hæfnistefnu er að aðilar vinni saman að því að mæta hinum hæfnipólitísku áskorunum.

Þörf fyrir endurskipulagningu í norsku atvinnulífi

Meðal þess sem hefur einkennt norskt atvinnulíf er að þar hefur farið saman hátt framleiðslustig með mikilli atvinnuþátttöku og lærdómskrafti. Breytingar á norsku atvinnulífi eru sífelldar og getan til breytinga verður æ mikilvægari á næstu árum. Ýmsar sveiflur í þróun hafa áhrif á þörf fyrir hæfni samfélagsins. Þekking, tækni og alþjóðlegir markaðir breytast sífellt hraðar. Áskoranir er varða umhverfis- og loftlagsmál, tækniþróun og hnattvæðingu hafa áhrif á þörf fyrir hæfni.

Í Noregi er aðgengi að vinnuafli ólíkt og fer eftir svæðum, atvinnugeirum og greinum og mörg fyrirtæki eiga erfitt með að fá starfsfólk sem býr yfir hæfni við hæfi. Þetta hamlar auknum vexti og nýsköpun. Ef ekki er fyrir hendi framboð á viðeigandi og hæfu vinnuafli og hreyfanleiki launþega er takmarkaður, mun tækifærum til jákvæðrar þróunar fækka í öllum landshlutum.

Breytingarnar í atvinnulífinu munu leiða til áskorana en einnig til nýrra tækifæra fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Færni íbúanna getur á afgerandi hátt stuðlað að nauðsynlegri þróun og breytingum. Tryggja þarf að íbúarnir hafi nægilega og rétta hæfni, svo að hægt sé að mæta breytingunum á vinnumarkaði verið í stöðugum tengslum við atvinnulífið og þá hæfni sem atvinnulífið sækist eftir.

Vinna við mótun hæfnistefnu

Mikilvægustu aðilarnir

Vinnan við mótun hæfnistefnu Norðmanna hófst árið 2015 og lauk með því að forsætisráðherra og stefnuaðilar skrifuðu undir stefnuna þann 3. febrúar 2107. Stefnan var þróuð í samstarfi ríkistjórnarinnar með fulltrúum fimm ráðuneyta, átta meginsamtaka aðila í atvinnulífinu, Samaþinginu, fulltrúi samískra hagsmunaaðila og Samtökum fræðslusambanda sem var fulltrúi frjálsra félagasamtaka. Þau fimm ráðuneyti sem komu að mótun stefnunnar voru menntamálaráðuneytið, dóms- og almannavarnaráðuneytið, atvinnu- og félagsmálaráðuneytið, sveitastjórnar- og, nýsköpunarráðuneytið og atvinnu- og sjávarútvegsráðuneytið. Hæfnistofnunin Kompetanse Norge, hélt utan um vinnuna við mótun stefnunnar.

Grundvallaratriði í hæfnipólitískri stefnu er sameiginlegur skilningur aðilanna á gagnsemi þess að þróa og nýta hæfni íbúanna betur. Pólitísk forysta í ráðuneytunum tók virkan þátt í ferlinu öllu. Breitt samstarf, virk þátttaka pólitískra stjórnenda og samtaka atvinnulífsins átti sinn þátt í að verkefnið festi rætur hjá öllum aðilum. Samstarfsaðilarnir voru sammála um að vinna að því að verja norska atvinnulífslíkanið og veðja á hæfniþróun sem yrði til þess að virkja fleiri á vinnumarkaði. Þetta voru skilyrði þess að geta þróað hæfnipólitíska stefnu sem allir hlutaðeigandi gætu skuldbundið sig til þess að fylgja í framtíðinni. Sameiginleg stefna á að vera til leiðsagnar fyrir vinnu ólíkra aðila, bæði sameiginlega og hvers fyrir sig.

Skilgreiningar og afmörkun hæfnipólitískrar stefnu

Hæfnipólitíkin liggur á mörkum ólíkra sviða samfélagsins og á milli aðstæðna á hverjum stað, á hverju svæði og á landsvísu. Í hæfnistefnu kristallast hæfnipólitík sem heildarstefna fyrir þróun, virkni, og beitingu á hæfni, bæði í norsku atvinnulífi og samfélaginu öllu. Hæfnipólitíkin er innbyrðis tengd öðrum sviðum stjórnmálanna svo sem efnahagsstefnu, vinnumarkaðsstefnu, byggðastefnu og aðlögunarstefnu. Markhópur stefnunnar nær til allra fullorðinna íbúa landsins. Þörfin fyrir að þróa hæfni er óháð menntastigi eða virkni á vinnumarkaði.

Ferlið

Til þess að tryggja að stefnan væri gild og við hæfi, var nauðsynlegt að styrkja þekkingu og skapa breiðan vettvang fyrir frumkvæði og samræðu. Skipulögð var röð innleggsráðstefna og málþinga þar sem fluttir voru fyrirlestrar og umræður fóru fram um þemað og tengt mikilvægum hæfnipólitískum áskorunum. Mikilvægum hæfnipólitískum aðilum var boðin að taka þátt í ráðstefnunum og ennfremur var þeim boðið að senda inn skriflegar tillögur um mótun stefnunnar. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar, aðila atvinnulífsins, Samaþingsins og frjálsra félagasamtaka hittust á svonefndum stefnuaðila fundum þar sem sammæli um stefnuna var tryggt. Einnig var komið á laggirnar tilvísunarhópi til þess að tryggja samstöðu og framgang. Tilvísunarhópurinn var skipaður fulltrúum atvinnulífsins og fulltrúum menntamálaráðuneytisins fyrir hönd ráðuneyta og umsjónaraðilans, Kompetanse Norge. Tilvísunarhópurinn sá einnig um að undirbúa stefnuaðilafundi, vann að samhæfingu sjónarmiða og viðhorfa fyrir fulltrúamótunarfundina. Jafnframt var þremur vinnuhópum komið á laggirnar sem áttu að útskýra skilgreind þemu.

Forgangsröðun átaksverkefna í pólitískri hæfnistefnu Noregs

Meginátaksverkefni

Í stefnunni felast þrjú meginátaksverkefni:

  • Góðir kostir fyrir einstaklinga og samfélagið
  • Nám í atvinnulífinu og góð nýting á hæfni
  • Að efla hæfni fullorðinna sem standa höllum fæti á vinnumarkaði

Alls er 16 undirmarkmiðum skipt niður á meginátaksverkefnin þrjú.

Auk þess að greina þrjú ofantalin meginátaksverkefni, voru mótendur stefnunnar sammála um að efla og varðveita norska vinnumarkaðslíkanið, sem einkennist af góðu skipulagi, samhæfðum launaákvörðunum og hugmyndum um fullan vinnudag. Þessir frumþættir eru mikilvægir fyrir fjárfestingu fyrirtækja í hæfni starfsfólks.

Leggja verður áherslu á hæfniþróun til þess að virkja fleiri á vinnumarkaði. Samstarf ríkisstjórnarinnar og aðila á vinnumarkaði er mikilvægt til þess að viðhalda norska vinnumarkaðslíkaninu og til þess að þróa sókndjarfa hæfnistefnu.

Góðir kostir fyrir einstaklinga og samfélagið

Virkur vinnumarkaður byggir á því að jafnvægi ríki á milli framboðs og eftirspurnar eftir hæfni, bæði innan svæða og á landsvísu. Góðir kostir fyrir einstaklinga felast meðal annars í því að þeir velji atvinnu sem veitir þeim tækifæri til þess að þróa hæfni sína alla starfsævina. Forsenda þess er að almenningur hafi þekkingu á því hverskonar hæfni samfélagið þarfnast. Til að svo megi verða þarf að öðlast betri skilning og miðlun á hæfniþörfum og samhæfa hæfni og byggðaþróun. Eitt af millimarkmiðunum er því að skipa ráð um hæfniþarfir með stjórnmálamönnum, fræðimönnum og aðilum atvinnulífsins. Fela á ráðinu verkefni við að samhæfa og greina þekkingu um hæfni til framtíðar. Jafnframt verður að þróa áfram náms- og starfsráðgjöf og efla samstarf á milli fræðsluaðila og atvinnulífs til þess að auka gæði og mikilvæg tengsl við menntun.

Nám í atvinnulífinu og góð nýting á hæfni

Aðlögun og breytingar í atvinnulífinu skapa þarfir fyrir nýja hæfni. Hæfniþörfum atvinnulífsins verður ekki aðeins mætt með því að ráða nýútskrifað fólk. Fjöldi eldri starfsmanna, örar breytingar í atvinnulífinu og þörfin á að eldra fólk sé lengur á vinnumarkaði áður en það fer á eftirlaun, hefur í för með sér að ævinám og sífelld hæfniþróun verður æ mikilvægari. Áhrifa tækniþróunar mun gæta í öllum geirum og störfum og skapa þarfir fyrir nýja hæfni alls vinnuaflsins. Efla verður og styrkja stafræna hæfni alls vinnuaflsins, svo nýta megi tækniþróunina og tryggja nauðsynlega aðlögun.

Umfangsmiklar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum menntunar en okkur skortir þekkingu um virði náms í atvinnulífinu og fyrir fyrirtækin, einstaklinga og samfélagið. Aukin þekking um nám í atvinnulífinu verður mikilvæg í þróun hæfnistefnunnar og fyrir einstök fyrirtæki.

Atvinnulífið í Noregi er háð aðgengi að hæfu fagfólki og brýnt er að styrkja og þróa starfsnám og tækifæri til framgangs í starfi. Fjölga verður þeim sem ljúka námi á framhaldsskólastigi með fag- eða sveinsbréfi. Til þess að svo megi verða þarf að fjölga möguleikum og plássum í atvinnulífinu til starfsnáms.

Í atvinnulífi sem er undirorpið stöðugum breytingum er brýnt að þróa sveigjanleg sí- og endurmenntunartilboð og virkja aðferðir til umskólunar. Sí- og endurmenntunarmarkaðurinn er háður því að bæði framboð og eftirspurn virki sem skyldi og það krefst styrkingar á samstarfi fræðsluaðila og atvinnulífsins á ólíkum fagsviðum.

Margir nýbúar búa yfir hæfni sem nýtist þeim ekki í atvinnulífinu. Atvinnulífinu getur veist erfitt að setja sig inn í umfangsmikla hæfni sem hvorki er þekkt eða skjalfest. Af þeim sökum verður að einfalda og bæta kerfið fyrir mat og viðurkenningu á erlendri hæfni.

Efla hæfni fullorðinna sem standa höllum fæti á vinnumarkaði

Margir standa utan vinnumarkaðar, þrátt fyrir markmiðið um að flestir séu á vinnumarkaði. Meðal orsaka er lítil formleg menntun, skortur á grunnleikni og léleg kunnátta í norsku.

Grunnleikni nær yfir getu til að lesa, reikna, skrifa og tjá sig munnlega, auk hæfni í að beita upplýsingatækni.

Miklu skiptir við mótun hæfnistefnu að samhæfa úrræði fyrir fullorðna sem hafa litla grunnleikni og litla formlega skólagöngu að baki. Úrræðin verða að vera sveigjanleg með það að markmiði að einstaklingar komist fljótt út á vinnumarkaðinn eða í áframhaldandi nám. Þetta gildir líka um nýbúa. Eitt markmið er að nýaðfluttir geti fljótlega hafið þjálfun, nám og vinnu svo þeir geti tekið þátt í og lagt sitt af mörkum í norsku samfélagi.

Vinnustaðurinn er oft besti námsstaðurinn fyrir fullorðna. Efla þarf atvinnulífið sem námsstaði fyrir fullorðna, svo og fyrir þá sem eiga á hættu að verða jaðarsettir á vinnumarkaði.

Kompetanse Norge hefur umsjón með styrkjaáætlununum Hæfniplús í atvinnu og Hæfniplús hjá frjálsum félagasamtökum. Með styrkveitingum er ætlað að stuðla að því að efla grunnleikni fullorðinna og hæfni þeirra í norsku og/ eða samísku. Hæfniplús í atvinnu gerir fullorðnum kleift að njóta fræðslu sem er tengd vinnustaðnum, en Hæfniplús hjá frjálsum félagasamtökum tengist virkni í frjálsum félagasamtökum. Í Noregi eru fjölmargir félagar í frjálsum félagasamtökum og eru slík samtök mikilvægur vettvangur náms fyrir marga.

Eftirfylgni / innleiðing stefnunnar

Hæfnistefnan er sú fyrsta sinnar tegundar í Noregi. Í henni birtist sameiginleg stefna um vinnuna með þróun hæfni næstu fjögur árin og ber þeim sem undirrituðu stefnuna að innleiða hana. Stefnan gildir fyrir tímabilið 2017–2021. Endurskoða á stefnuna eftir tvö ár og 2021 á að meta hvort stefnan verði endurnýjuð. Á landsvísu verður samstarf aðilanna sem koma að stefnunni haldið áfram í gegnum Hæfnistefnuráð sem mun funda með jöfnu millibili allt tímabilið.

Nokkrum aðgerðum hefur þegar verið hrint í framkvæmd og aðrar eru í þróun. Ríkisstjórnin hefur skipað nefnd um hæfniþarfir og er henni ætlað að stuðla að betri þekkingu um hæfni almennt og sérstaklega um þá hæfni sem vöntun er á í Noregi. Meðlimir í nefndinni koma frá samtökum atvinnulífsins, yfirvöldum og mikilvægum rannsóknastofnunum. Steinar Holden, prófessor í hagfræði við Háskólann í Ósló (UiO) er formaður nefndarinnar. Nefndin á að bera saman og greina breitt þekkingargrunnlag og leggja niðurstöður sínar fram fyrir ýmsa markhópa, á markvissan hátt aðlagaðan að hverjum markhópi . Skýrslu um hæfniþarfir á að leggja fram fyrir 1. febrúar hvers árs, í fyrsta skipti fyrir 1. febrúar 2018.

Frekari aðgerðir við innleiðingu stefnunnar sem hrundið hefur verið í framkvæmd er meðal annars eftirfylgni og útvíkkun á Hæfniplús-styrkjum. Menntamálaráðuneytið hefur falið Kompetanse Norge að móta ramma fyrir tilraunaskipulag sem á að örva og hvetja þátttakendur til áframhaldandi fagmenntunar. Vinnan við þetta á að vera í samstarfi við aðila atvinnulífsins.

Þá er hafin vinna við verkefni um áþreifanlegar ráðleggingar um það hvernig yfirvöld, aðilar atvinnulífsins, menntastofnanir og atvinnu- og efnahagslíf geta eflt samstarf sitt til þess að stuðla að betri sí- og endurmenntunarmarkaði. Kompetanse Norge stýrir verkefninu.

Aðilar atvinnulífsins áttu frumkvæði að samstarfsverkefni þar sem þróað verður líkan og aðferðir til þess að lýsa hæfni sem aflað er í atvinnulífinu. Verkefnið byggist á þeirri fyrirtækjafræðslu sem á sér stað í verslunargeiranum og markmiðið er að lýsa hæfniviðmiðum og hæfni, á þann hátt að aðrir í atvinnulífinu og í formlega menntakerfinu skilji viðmiðin og lýsinguna á hæfninni.

Eftirfylgni stefnunnar hefur leitt í ljós að aðilar atvinnulífsins eru uppteknir af þörfinni fyrir að þróa stafræna hæfni vinnuaflsins. Bæði ríkisstjórnin og aðilar atvinnulífsins hafa hrint í framkvæmd verkefnum á þessu sviði, tengt rannsókna- og þróunarverkefnum, námskeiðum og ráðstefnum. Aðilar atvinnulífsins eiga einnig frumkvæði að fjölda rannsókna- og þróunarverkefnum með það að markmiði að efla þekkingu um nám í atvinnulífinu.

Allir aðilar sem koma að stefnunni hafa skuldbundið sig til þess að fylgja eftir bæði stefnunni og innleiðingu hennar jafnt og þétt. Hlutverk aðilanna og ábyrgð þeirra á eftirfylgninni eru ólík og munu þeir því vinna með þeim úrræðum sem þeir hafa. Aðilarnir munu greina frá eftirfylgni sinni við hæfnistefnuna. Fyrstu skýrslum hefur þegar verið skilað og Kompetanse Norge hefur gefið út samantektarskýrslu. Hún verður lögð fyrir hæfninefndina sem ákveður frekari eftirfylgni.

Vinnan við mótun hæfnistefnunnar hefur staðfest gott þríhliða samstarf ríkisstjórnarinnar og aðila atvinnulífsins í Noregi. Aldrei fyrr hefur náðst svo breið samstaða um hæfnipólitík. Fundirnir og víðtæk þátttaka í starfinu hefur haft mikla þýðingu fyrir hið breiða fylgi sem stefnan nýtur. Hins vegar er engin ástæða til þess að dvelja of lengi við þennan áfangasigur, því mikilvægt er að hefja eftirfylgnina. Ríkisstjórnin, aðilar atvinnulífsins og aðrir sem málinu tengjast, verða að leggja sitt af mörkum til þess að stefnan, sem er brýn fyrir atvinnulíf framtíðarinnar, verði annað og meira en skjal.

Gina Lund

Gina Lund er lögfræðingur að mennt hún hefur verið virk í stjórnmálum í norska jafnaðarmannaflokknum Arbeiderpartiet. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í Noregi, verið ráðgjafi atvinnumálaráðherra, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu og ráðuneytisstjóri í atvinnuvega- og innflytjendaráðuneytinu en tók við sem forstjóri fyrir Kompetanse Norge, norsku hæfnistofnunina í janúar 2015.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi