- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Forréttindi að sinna fullorðnu fólki

Náms- og starfsráðgjafar sinna veigamiklu hlutverki í framkvæmd framhaldsfræðslu, fimmtu stoð íslenska menntakerfisins sem samkvæmt lögum nær yfir hverskonar nám, úrræði og ráðgjöf sem ætlað er að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki. Þessir einstaklinga verða illa úti þegar þrengir að í atvinnulífinu eins og nú í kjölfar Covid-19 og þurfa að takast á við róttækar breytingar á lífi sínu. Hér á eftir fer viðtal við Hrönn Grímsdóttur náms- og starfsráðgjafa um starfið og þær áskoranir sem blasa við.

Nýtti sér tilboð um fjarnám

Aðspurð að því hvernig það kom til að hún valdi starf náms- og starfsráðgjafans segir Hrönn:

„Ég réð mig í starf náms- og starfsráðgjafa í Verkmenntaskóla Austurlands (VA) í Neskaupstað í 50% stöðu árið 2005. Þá tiltölulega nýútskrifuð sem kennari en ekki með menntun sem ráðgjafi. Ég var svo heppin að árið eftir var boðið uppá fjarnám í náms- og starfsráðgjöf frá HÍ sem ég nýtti mér að sjálfsögðu og útskrifaðist sem náms- og starfsráðgjafi 2008. Ég starfaði sem náms- og starfsráðgjafi við VA í 9 ár en færði mig svo yfir til Austurbrúar og hef starfað þar sem náms- og starfsráðgjafi í 3 ár.“

Starfið er bæði skemmtilegt og spennandi

„Starf náms- og starfsráðgjafans er virkilega skemmtilegt og spennandi. Verkefnin eru talsvert ólík eftir því hvort þú ert að sinna börnum, unglingum eða fullorðnu fólki en öll áhugaverð hver á sinn hátt. Það er virkilega gefandi að sinna fullorðnu fólki sem leitar til ráðgjafa vegna þess að það er tilbúið til að gera spennandi breytingar á lífi sínu. Að fá til þín einstakling sem hefur ef til vill ætlað sér að fara í nám í 15 ár en ekki lagt í að taka fyrsta skrefið fyrr en á þessum tímapunkti. Að fá að vera partur af þessari ákvörðun, hlusta, hvetja og aðstoða eftir þörfum er bara stórkostlegt og í raun forréttindi. Að aðstoða fólk við að finna hvað það vill, hvað það er sem skiptir það máli og hjálpa því svo við að stíga út fyrir þægindarammann er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri“, segir Hrönn. Og bætir við:

„Eins finnst mér dásamlegt og lærdómsríkt að hlusta á allar þessar ólíku sögur einstaklinga sem til mín leita. Hvaðan það kemur, hvað það hefur upplifað, hverjir styrkleikar þess eru, reynsla og aðstæður. Fólk er frábært og allir hafa svo margt að gefa og því eru það forréttindi að fá að hjálpa því við að finna út hvar þeirra styrkleikar njóta sín best hvar það nær að blómstra.“

Verkefni ráðgjafans eru fjölbreytt og margvísleg

Hrönn telur raunfærnimat vera viðamikill hluti starfsins. Að kynna raunfærnimat, halda utan um raunfærnimatsverkefni, samstarf við aðrar stöðvar eins og IÐUNA og Visku, að beina fólki í rétta átt í raunfærnimat og aðstoða það eftir að raunfærnimati er lokið.

„Að leiðbeina fólki í nám og oft á tíðum fylgja þeim eftir er einnig stór þáttur af starfi mínu. Ég sinni einnig talsvert skjólstæðingum Starfsendurhæfingar Austurlands sem taka gjarnan áhugasviðskönnun og margir hafa áhuga á að hefja nám. Ég aðstoða einstaklinga við að útbúa sér ferilskrá, setja sér markmið og finna sér starf við hæfi, segir Hrönn. Þá sinnir hún jafnframt hópráðgjöf til dæmis fyrir hópa sem eru í námsleiðum á vegum Austurbrúar. Þar fer ég í gegnum ýmislegt eins og námstækni, ræði kvíða og streitu, vinn með ákveðni, sjálfstraust og virkni og ýmislegt annað sem getur hjálpað fólki við að ná árangri.“

Mikil áskorun að vinna ein

„Náms- og starfsráðgjafar vinna oft einir, sérstaklega í minni skólum og stofnunum. Það getur verið mikil áskorun að hafa ekki annan ráðgjafa til að deila verkefnum með og leita eftir stuðningi hjá. Ég finn talsverðan mun á því hverjar áskoranirnar eru í framhaldsskólanum annarsvegar og í fullorðinsfræðslunni hins vegar. Í framhaldsskólanum sinnti ég mikið einstaklingum með kvíða eða sem áttu í annarskonar erfiðleikum. Málin gátu verið erfið viðureignar og oft þurfti að vísa til annarra sérfræðinga sem er ekki endilega auðvelt og aðgengi að þeim ekki alltaf fyrir hendi“, segir Hrönn.

Aðrar áskoranir í fullorðinsfræðslu

„Í fullorðinsfræðslunni eru áskoranirnar öðruvísi. Ég vinn mikið með að auka sjálfstraustið hjá ráðþegum mínum sem efast mjög gjarnan um eigin getu til að sinna námi eða gera breytingar í lífi sínu. Í framhaldsfræðslu eru fullorðnir einstaklingar sem eru flestir með eigið heimili og margvíslega ábyrgð, það þarf mikið skipulag svo að hlutirnir gangi upp. Oft eru þessir einstaklingar með ranghugmyndir um að þeir geti ekki lært, sögur sem það hefur sagt sér sem byggja á reynslu frá því í grunnskóla. Sjálfsmynd tengd námi sem varð ef til vill til fyrir 20-30 árum og hefur lítið breyst síðan. Þá er áskorunin fólgin í að stíga út fyrir þægindarammann og skrifa söguna uppá nýtt, átta sig á að hlutirnir geta breyst og getan til að læra er allt önnur í dag en hún var fyrir 20 árum“, segir Hrönn   

Erfiðast að ná í þá sem helst þurfa ráðgjöf

Hrönn heldur áfram: „Áskoranir í starfi felast líka í því að ná til ráðþega þar sem þeir eru staddir og ekki gleyma þeim sem þurfa ef til vill mest á þjónustunni að halda, en er erfiðast að ná til. Þetta geta til dæmis verið erlendir íbúar svæðisins sem margir hverjir eru með menntun sem þeir hafa ekki fengið metna og vinna störf sem tengjast hvorki áhugasviði þeirra né menntun. Síðast en ekki síst er  mikil áskorun fólgin í dreifbýlinu hér fyrir austan og oft fer mikill tími í akstur.“

Áhugasviðskönnunin Bendill gagnlegt verkfæri

„Á upplýsingavefnum Næsta skref má meðal annars finna áhugasviðskönnunina Bendil sem ég nota talsvert. Ég og hef útbúið verkefni sem ráðþegar geta unnið út frá þeim niðurstöðum sem þar fást. Þá nota ég nota einnig markmiðasetningu og gamla góða dagatalið til að gera tímaáætlun með ráðþegum. Í hópráðgjöf vinn ég til dæmis með verkefni tengdum gildum, markmiðum og vana. Einnig skoða ég gjarnan hugarkort með ráðþegum, hvernig hægt er að byggja þau upp, hvenær þau nýtast best og hvernig hægt er að vinna þau í tölvu eða á blaði eftir hentugleika“, segir Hrönn.

Áhrif Covid-19

„Á Covidtímanum hefur ráðgjöf í gegnum netið aukist talsvert. Ég hef notast við Teams – fjarfundaforrit og hef hitt talsvert af ráðþegum þannig. Það hefur gengið mjög vel og flestir virðast mjög sáttir við þessa aðferð, sérstaklega þeir í yngri kantinum eða á milli tvítugs og þrítugs. Fram að Covid vildi ég alltaf hitta ráðþega augliti til auglitis á okkar fyrsta fundi, en í framhaldinu á næstu fundum notaðist ég oft við símtöl. Ég mun halda áfram að nýta mér Teams í ráðgjöf en mun meta  hvað það er sem hentar ráðþega best og hvaða mál við erum að ræða hverju sinni. Almennt hefur öllum fjarfundum fjölgað sem við hér út á landi fögnum gríðarlega og vonumst svo innilega til þess að þessi þróun muni halda áfram eftir að allt kemst í eðlilegt horf. Ekki væri nú verra ef fjarnámi muni fjölga og þannig opna fleiri möguleika fyrir ráðþegana mína hér fyrir austan“, segir Hrönn.

Tækifæri fyrir starfsþróun fyrir ráðgjafa fjölbreytt

Starfsemi hjá Austurbrú er mjög fjölbreytt og ekki öll fræðslutengd, atvinnuþróun og markaðsmál eru einnig viðamikil verkefni. Hrönn segir að reynt sé að finna námskeið sem nýtast öllu starfsfólki Austurbrúar á einhvern hátt. „Til að mynda var boðið uppá námskeið í Office365 og núna síðast var námskeið í Notendamiðaðri þjónustuhönnun fyrir allt starfsfólk. Að öðru leyti er símenntun fyrir starfsfólk einstaklingsbundin en vinnustaðurinn hvetur fólk til að fara á námskeið og þróa sig í starfi.“

Fjölbreytt áhugamál veita orku og lífsfyllingu

Hrönn telur mjög mikilvægt fyrir alla að eiga sér áhugamál utan vinnu. „Ég sem ráðgjafi hvet mína ráðþega og nemendur til að finna hvað þeim finnst skemmtilegt, hvað gefur þeim orku og lífsfyllingu og sinna því. Það eykur sjálfstraust í daglegum verkefnum og hækkar hamingjustuðulinn. Ég hef gaman af mjög mörgu og elska að stíga skref út fyrir þægindarammann, ögra mér og þroska. Ég hef sérstaklega gaman af því sem tengist hreyfingu á einhvern hátt. Ég kenni jóga og hugleiðslu sem ég hef nýtt mér talsvert í starfi mínu sem náms- og starfsráðgjafi. Hreyfing og útivist skipta mig miklu máli. Ég á Sit on top kajak og fjallahjól og geng á fjöll. Sem dæmi get ég nefnt að ég fór ein í viku ferðalag síðasta sumar með kajakinn á toppnum á bílnum til að ögra mér og æfa mig í að treysta á sjálfa mig. Ég ætla að endurtaka það núna í sumar, fara ein í nokkra daga og halda mig helst við austurlandið. Ég hlakka því mikið til hins íslenska ferðasumars og treysti því að ég komi full af orku til vinnu eftir sumarfrí, tilbúin að gefa af mér og njóta vinnunnar. Vonandi sé ég sem flesta fyrir austan í sumar“, segir Hrönn Grímsdóttir að lokum.

Hrönn Grímsdóttir

Hrönn Grímsdóttir hefur starfað sem náms- og starfsráðgjafi síðan 2005 en síðastliðin 3 ár hjá Austurbrú. Hrönn hefur lokið BA-prófi í sagnfræði, diploma í kennslufræði frá HÍ, diploma í náms- og starfsráðgjöf frá HÍ, MPH gráðu í lýðheilsuvísindum frá HÍ.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi