- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Rafræn náms- og starfsráðgjöf í Noregi

Aðgengileg frá september 2020

Af hverju?

Undanfarin ár hafa reglulega heyrst raddir hér heima um möguleika rafrænnar náms- og starfsráðgjafar. Tæpur áratugur er síðan meistararitgerð um efnið leit dagsins ljós auk þess sem erlendir sérfræðingar hafa verið fengnir til skrafs og ráðagerða. Aukin fjarvinna vegna Covid hefur síðan eflaust fækkað nokkuð hefðbundnum ráðgjafasamtölum og ýtt undir notkun annarra samskiptamiðla. Engin stefna hefur þó verið mótuð um slíka ráðgjöf hér á landi en ekki langt að sækja áhugaverðar hugmyndir og reynslu. Þannig hafa Danir lengi boðið upp á ráðgjöf í beinum tengslum við upplýsingasvæðið UddannelsesGuiden, þar sem hægt er að ná sambandi við ráðgjafa með ýmsum hætti og hefur beinn opnunartími ráðgjafarinnar þar vakið verðskuldaða athygli.

Sú ráðgjöf hefur einnig verið Norðmönnum ákveðin fyrirmynd, ásamt skoska verkefninu My World of Work. Undanfarið ár hefur raunar farið fram viðamikill undirbúningur að nýju kerfi rafrænnar ráðgjafarþjónustu í Noregi sem opnaði nú í september 2020.

Framkvæmdin í Noregi kemur ekki síst til vegna ábendinga frá OECD um að bæta verði aðgengi að leiðsögn í tengslum við nám og störf og tengist öllu í senn; formlega skólakerfinu, vinnumiðlunum og ráðgjöf símenntunarmiðstöðva.   Tilmæli OECD voru raunar þau að íhuga að koma á fót miðlægri, einstaklingsmiðaðri og rafrænni þjónustu sem næði til landsins alls.

Í sama anda eru ein helstu tilmæli ráðgjafarnefndar um Náms- og starfsráðgjöf fyrir einstaklinga og samfélag; leggja til alhliða vefsíðu um nám og störf með upplýsingum og verkfærum til sjálfshjálpar, samhliða rafrænni ráðgjafarþjónustu. Afar yfirgripsmikið verkefni til að stuðla að betri tengingu á milli atvinnulífs og samfélags. Um þann hluta sem snýr að upplýsingagjöf um nám og störf hefur áður verið fjallað á þessum vettvangi í þremur greinum.

Rafræn náms- og starfsráðgjafarþjónusta

Ráðgjafarsíðunni Karriereveiledning.no er stýrt af Hæfnisetri Norðmanna í atvinnulífinu en er einnig tengd upplýsingasíðunni Utdanning.no. Stefnan er sú að veita þar aðgang að almennri, gæðatryggðri og ókeypis náms- og starfsráðgjöf á Netinu. Vefsvæðið er tvískipt; annars vegar aðstoð símleiðis eða í netspjalli og hins vegar aðgengi að upplýsingum og verkfærum sem gera fólki kleift að hjálpa sér sjálft.

Allir geta nýtt þjónustuna sem einmitt er hönnuð með notandann í forgrunni, óháð aldri, búsetu, starfi eða menntun þess sem í hana leitar. Að sögn Grethe Elvebo hjá Norska hæfnisetrinu var ákveðið að flækja hlutina ekki um of tæknilega og byrja aðeins með símaráðgjöf auk netspjalls. Fleiri samskiptaleiðir eru til athugunar en eiga að byggja á þörfum notenda þjónustunnar hverra raddir munu ráða framhaldinu.

Í upphafi eru 10 ráðgjafar starfandi við verkefnið en stefnan sú að þeir verði allt að tvöfalt fleiri. „Rafrænu ráðgjafarnir“ eiga sér mismunandi bakgrunn, bæði hvað varðar reynslu og menntun og er samsetningin viljandi þannig til að byggja upp sterkt teymi þar sem ólík hæfnisvið og sjónarmið spila saman og hver lærir af öðrum. Að lágmarki er gerð krafa um BA/BS gráðu en að öðru leyti lögð áhersla á þætti á borð við að höndla sveigjanlegt starfsumhverfi, áhuga á tæknilausnum og fyrri náms- og starfsreynslu. Dæmi eru um ráðgjafa sem litla reynslu hafa af stafrænni tækni og hefur það í raun reynst mikill fengur fyrir hópinn allan til að læra af. Styrkleiki sumra felst í ritfærni sem nýtist vel á upplýsingasíðunni, styrkleikar annarra liggja í ráðgjöf, þróunarvinnu eða skipulagningu – fjölbreytt hlutverk og verkefni sem öll eru mikilvæg í stóra samhenginu. Rannsóknir hafa raunar virst sýna að náms- og starfsráðgjöf virki best þegar hún samanstendur af nokkrum ólíkum þáttum sem styðja hver annan. Mikið er lagt upp úr hæfniþróun ráðgjafanna sem sinna þjónustunni, faglegri nálgun og gæðatryggingu þeirra upplýsinga sem veittar eru.

Aðkoma hins opinbera

Heildstætt kerfi rafrænnar náms- og starfsráðgjafar hefur norskum yfirvöldum þótt heppileg leið til að draga úr lítt ígrunduðu námsvali eða brotthvarfi frá námi og telja einnig að hefðbundnari ráðgjöf muni nýtast betur samhliða hinni rafrænu.  Því hafa nokkuð myndarlegar fjárhæðir verið lagðar til verkefnisins, hvort tveggja til rafrænu ráðgjafarinnar sem og áframhaldandi uppbyggingar ævilangrar náms- og starfsráðgjafar og vefsvæðisins Utdanning.no. Þjónustunni er ætlað að bæta aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf og byggir á þeim faglega grunni sem lagður hefur verið af ráðgjöfum og ráðgjafarmiðstöðvum  víðs vegar um landið.

Norska Hæfnisetrið hefur hins vegar yfirumsjón með verkefninu og ber ábyrgð á framkvæmdinni í samræmi við ábyrgð ríkisins almennt á slíkri þjónustu í Noregi. Tæknilausnir eru og verða einnig í eigu hins opinbera og samþættar þeirri þekkingu sem byggst hefur upp í tengslum við Utdanning.no.

Reynslan hér

Á NæstaSkref.is hafa raunar verið tekin hænuskref í þessa átt undanfarin tvö ár. Erindum sem berast er svarað eins fljótt og auðið er, sér í lagi einfaldari fyrirspurnum en annars vísað til þeirra sem líklegust eru til að geta veitt viðeigandi ráðgjöf.

Erindin hafa reynst margvísleg, flest frá fólki sem horfið hefur frá námi á einhverjum tímapunkti og vill aðstoð við að skoða stöðu sína og möguleika. Þau berast gjarnan utan hefðbundins skrifstofutíma en komast fljótt í farveg. Þó svona fyrirkomulag hafi eðlilega sínar takmarkanir er aðgengi að ráðgjöfinni einfalt auk þess sem almenn reynsla af rafrænni ráðgjöf hefur sýnt að hún getur einnig verið heppilegri leið fyrir ráðgjafa; tíminn nýtist betur og samtalið jafnvel hnitmiðaðra.

Ekki er laust við að hugurinn leiti aftur til Nefndarálits Menntamálaráðuneytis frá 1998 og tillögu um ráðgjafarmiðstöð fyrir almenning til að þjóna ungu fólki á krossgötum /…/ sem og fólki á öllum aldri sem hefur hug á að skipta um starf og/eða afla sér framhalds- og/eða endurmenntunar.“ Og ekki síður til stefnumótunar starfshóps í náms- og starfsráðgjöf frá 2015 um áherslu á notkun vef- og upplýsingatækni, nýsköpunar á sviði náms- og starfsráðgjafar og aðgengi að slíkri ráðgjöf.

Öðrum þræði hefur þessi tilraun okkar á NæstaSkref.is verið hugsuð sem svo að með tímanum geti hún styrkt samstarfsnet náms – og starfsráðgjafa og jafnvel orðið vísir að þeirri aðgengilegu sérfræðiþjónustu sem lengi hefur verið rædd. Fleiri hafa svo auðvitað verið að prófa sig áfram í þessum efnum; bæði skólar og símenntunarmiðstöðvar.

Er kannski á Íslandi einnig komin tími á miðlæga rafræna miðstöð náms- og starfsráðgjafar fyrir almenning?

Heimildir

Byggt á upplýsingum af vefsíðu Kompetanse Norge og Karriereveiledning.no auk þriggja skýrslna; Skills Strategy Action Report Norway (2014), Karriereveiledning i en digital verden (2015) og Karriereveiledning for individ og samfunn (2016).

Arnar Þorsteinsson

Arnar Þorsteinsson hefur undanfarin ár starfað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og IÐUNNI fræðslusetri, að mestu við uppbyggingu upplýsingakerfa um nám og störf. Hann starfaði vel á annan áratug sem náms- og starfsráðgjafi við grunnskóla en lærði og lauk prófum í náms- og starfsráðgjöf, uppeldis- og menntunarfræði, barnavernd og heimspeki.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi