- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Raunfærnimat í skipstjórn – Þróun þess og framkvæmd

Raunfærnimat í skipstjórn hefur verið í boði frá árinu 2013. Viska, fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja þróaði raunfærnimatið á sínum tíma og hefur haldið utan um framkvæmd matsins á landsvísu frá upphafi. Á þessum tíma hefur innihald og fyrirkomulag raunfærnimatsins tekið breytingum þar sem markmiðið hefur ætíð verið að aðlaga það eins og mögulegt er að markhópnum.

Hvað leiddi til matsins

Í upphafi árs 2009 hóf ég vinnu að mynddiski þar sem náms- og starfsráðgjöf á vinnustað var kynnt sjómönnum. Ástæðan fyrir þessari útgáfu var sú að erfitt hafði reynst að ná til sjómanna í Vestmannaeyjum með náms- og starfsráðgjöf á vinnustað sem Viska býður uppá. Mynddisknum var dreift á alla stærri báta og togara á landinu. Í framhaldi af þessu verkefni ákvað ég að gera rannsókn á meðal undirmanna á íslenskum fiskiskipum. Rannsóknina vann ég í meistaranámi mínu í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands 2010 – 2011. Markmið rannsóknarinnar var að kanna upplifun og viðhorf undirmanna á sjó gagnvart starfi sínu, námi almennt og náms- og starfsráðgjöf, sem og hvaða möguleika þeir sæju varðandi nám meðfram starfi. Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að flestir þátttakendanna voru illa upplýstir um það nám og náms- og starfsráðgjöf sem væri í boði. Einnig sáu þátttakendurnir töluverðar hindranir hvað varðar möguleika þeirra á að stunda nám með starfi.

Í kjölfarið á rannsókn minni kom upp sú hugmynd hjá Visku að þróa raunfærnimat í skipstjórn. Styrkur, og jafnframt leyfi, fékkst frá Fræðslumiðstöð atvinnulifsins til þessa verkefnis. Sú vinna hófst árið 2011. Myndaður var stýrihópur sem samanstóð af fulltrúum stéttarfélaga í sjávarútveginum, Skipstjórnarskólanum og Framhaldssskólanum í Vestmannaeyjum. Unnið var í nánu samstarfi við Skipstjórnarskólann og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Skipstjórnarskólinn ákvarðaði hvaða áfangar væru mögulegir til raunfærnimats og unnið var eftir vottuðu evrópsku ferli í raunfærnimati sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins heldur utan um. Í framhaldi hófst vinna við að útbúa færnimöppu og sjálfsmatslista fyrir matið og finna matsaðila. Skilyrðin fyrir þátttöku í matinu var 25 ára lífaldur og fimm ára starfsreynsla á sjó. Í markhópnum voru undirmenn á sjó þ.e. þeir sem höfðu starfsreynslu sem hásetar, bátsmenn, og/ eða netamenn og höfðu stutta formlega skólagöngu að baki.

Framkvæmd raunfærnimatsins

Haustið 2013 var boðið upp á raunfærnimat í skipstjórn í fyrsta sinn. Safnað var í hóp þátttakenda og fóru matsviðtölin fram í húsnæði Skipstjórnarskólans í Reykjavík einu sinni á því ári. Þátttakendur voru 16, allt karlar, og komu þeir víðsvegar að af landinu. Sama fyrirkomulag var viðhaft árið 2014. Framkvæmd matsins gekk nokkuð vel, en það kom í ljós að þetta fyrirkomulag hentaði ekki starfandi sjómönnum. Menn áttu erfitt með að komast frá vinnu vegna álags. Vertíðir meira eða minna alltaf í gangi og mikið í húfi. Dæmi voru um að sjómenn komu akandi frá Vestfjörðum í matið, og fóru svo til baka án hlés til þess að komast sem fyrst á sjó til að klára kvótann, einnig áttu menn erfitt með að fá frí. Þetta var helsta ástæða þess að mögulegir þátttakendur hættu við að taka þátt í raunfærnimatinu. Það var því ljóst að endurskoða þyrfti ákveðna þætti í ferlinu.

Tekin var ákvörðun um að breyta fyrirkomulaginu á þann hátt að allt ferlið yrði á einstaklingsgrunni og aðlagað að aðstæðum þátttakanda eins og hægt væri. Þessar breytingar voru teknar í skrefum og höfðu tækniframfarir áhrif á hraða þeirra. Fyrstu breytingarnar voru þær að aðstoð við útfyllingu gagna fór ekki fram á hópfundi heldur á einstaklingsfundi með náms- og starfsráðgjafa. Ekki var heldur safnað í hóp fyrir matviðtölin. Í þess stað er nú í boði að hafa viðtölin á þeirra heimasvæði, á staðnum eða í gegnum síma allt eftir hvað hentar sjómanninum. Síðar meir hefur verið í boði að nota Teams fyrir undirbúning og matsviðtölin og hafði Covid 19 faraldurinn mikil áhrif þar á. Gott samstarf hefur verið við símenntunarmiðstöðvar um landið sem hafa vísað fólki á matið, aðstoðað þátttakendur við undirbúning undir matið og eftir aðstæðum boðið upp á aðstöðu fyrir matsviðtölin.

Frá árinu 2015 hefur raunfærnimatið í skipstjórn verið í boði á landsvísu jafnt og þétt yfir árið. Fjöldi þeirra sem hafa lokið mati árlega hefur verið nokkuð stöðugur þ.e. frá 24 – 27 þátttakendum, fyrir utan árið 2015 þegar 31 var samþykktur í matið en einungis níu þátttakendur luku því. Ekki hefur fengist viðhlítandi skýring á því. Alls hafa 203 þátttakendur lokið mati í raunfærnimatinu, í samtals 1.190 áföngum. Hingað til hafa allir þátttakendur verið karlar. Meðalaldur þátttakenda þessi níu ár er 39 ár sem er nokkuð hár aldur, sjá töflu 1 hér fyrir neðan.

Tafla 1.
Fjöldi þátttakanda þau níu ár sem raunfærnimat í skipstjórn hefur verið í gangi ásamt yfirliti yfir meðalaldur þátttakenda hvert ár.
Tafla 2.
Yfir fjölda áfanga sem voru til mats og staðna áfanga hvert ár.
Tafla 3.              
Yfirlit yfir fjölda eininga sem voru til mats ásamt fjölda staðinna eininga.

     Ekki hefur verið gerð formleg könnun á hve margir þátttakenda hafi farið í námið í kjölfar matsins og lokið námi. Hinsvegar, í þeim viðtölum sem ég haft sem náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri raunfærnimatsins, hefur endurspeglast hve jarðbundnar manngerðir sjómenn almennt eru. Þar kom ítrekað fram að þeir hafa sótt í raunfærnimatið í skipstjórn vegna þess að þeir stefna á námið í skipstjórn í framhaldi af matinu.

Hvað kemur í kjölfar raunfærnimatsins?

Það er lykilatriði fyrir þá sem ljúka raunfærnimati að geta farið í námið sem fyrst í framhaldi af matinu.  Skipstjórnarnám er nú í boði í tveimur skólum. Skipstjórnarskólinn í Tækniskólanum í Reykjavík er móðurskólinn. Hann býður bæði upp á dagskólanám og lotutengt dreifnám á öllum stigum, og Menntaskólinn á Ísafirði er með nám í skipstjórn í boði á A og B stigi í lotutengdu dreifnámi. Meirihluti þeirra sem sækja í raunfærnimatið í skipstjórn eru á vinnumarkaði og velja þeir því dreifnámið.

Staðan í dag

Raunfærnimatið í skipstjórn hefur nú verið í gangi í níu og hálft ár. Það er því komin nokkuð góð reynsla á framkvæmd þess. Á þessu tímabili hafa ýmsar breytingar verið gerðar, eins og nefnt hefur verið að hluta til, hér fyrir ofan. Fjöldi þeirra áfanga sem hafa verið í boði hefur verið nokkuð rokkandi og hafa breytingar með nýrri námskrá haft þar áhrif. Í dag eru tíu áfangar í boði, bæði verklegir og fagbóklegir. Áfangarnir eru á A, B og C stigi. Á þessu tímabili hafa verið gerðar nokkrar breytingar á sjálfsmatslistum, mestar þó þegar ný námskrá í skipstjórn var tekin í notkun. Einnig hafa skilyrðin til þátttöku í matinu verið lækkuð niður í þriggja ára starfsreynslu á sjó og 23. ára lífaldur. Í allri þessari vinnu hefur gott samstarf á milli aðila skipt höfuðmáli. Matsaðilarnir hafa komið frá mismunandi landssvæðum, en í dag eru þeir þrír talsins og allir búsettir í Vestmannaeyjum. Fræðslumiðstöðvarnar um allt land hafa verið í samstarfi með okkur í þessu verkefni.  Í dag eru allir þættir í ferli raunfærnimatsins orðnir rafrænir. Tölvupóstur og sími er mikið notaður fyrir öll samskipti og undirbúning undir matið, og Teams hentar vel fyrir matsviðtölin. Matsviðtölin geta farið fram á símenntunarmiðstöðum á heimasvæði þátttakanda eða heima við í gegnum Teams. Einnig hafa viðtöl verið tekin á sjó. Viðtölin eru að mestu samtöl, þó eru nokkur verkefni í ákveðnum áföngum og þarf t.d. að sýna fram á getu í netavinnu með því að bæta netabút í beinni, eins og sagt er, og hefur það gengið mjög vel.

Á þessum árum sem raunfærnimatið í skipstjórn hefur verið í boði hefur okkur tekist að sníða þá vankanta sem hafa komið í ljós, og náð að aðlaga matið sífellt betur að markhópnum Við horfum því björtum augum fram á veginn því að raunfærnimatið í skipstjórn hefur sannað gildi sitt.

Forsíðumynd: ljósmyndari Alexandra S. Róbertsdóttir

Sólrún Bergþórsdóttir

starfar sem náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri hjá Visku- fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja. Hún hefur lokið BA- prófi í ensku, og prófi til kennsluréttinda á leikskóla, grunnskóla- og framhaldsskólastigi. Einnig hefur hún lokið MA-prófi í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Sólrún hefur allan sinn starfsferil starfað við kennslu, ráðgjöf og verkefnastjórn. Sólrún hefur stýrt raunfærnimati í skipstjórn á landsvísu frá upphafi matsins.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi