- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

- Veftímarit um fullorðinsfræðslu

Fagbréf atvinnulífsins í verslunarstörfum

Fagbréf atvinnulífsins er mikilvæg viðurkenning fyrir starfsfólk þar sem færni þess og þekking er metin og sýnileiki aukinn. Formleg staðfesting á hæfni skiptir máli fyrir alla, jafnt einstaklinga sem atvinnurekendur. Raunfærnimat í verslun og þjónustu miðar að því að staðfesta hæfni í starfi og stytta nám fólks sem hefur þróað og aukið starfshæfni sína í gegnum þátttöku í atvinnulífinu. Markmiðið er að auka fagmennsku og efla starfsþróun innan verslunar.

Undirbúningur

Þróun raunfærnimats í verslun og þjónustu hófst árið 2016 að frumkvæði Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks. Myndaður var stýrihópur með fulltrúum frá Mími-símenntun, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA), Verzlunarskólanum, Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks (SVS), Samkaupum, Lyfju og Húsasmiðjunni. Hópurinn bar ábyrgð á að framkvæmd verkefnisins fylgdi  kröfum um samræmda aðferðafræði og gæðakröfum, ásamt því að hvetja fyrirtæki til að taka þátt í þessari vegferð. Fyrsta skref stýrihópsins fólst í að kortleggja störf í verslun og skilgreina þá hæfni sem fólk í verslunar- og þjónustustörfum þarf að búa yfir. Unnið var eftir vottuðu ferli frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins en jafnframt vann stýrihópurinn að þróun og úrbótum verkefnisins. Innleiðing á raunfærnimati var unnin í samstarfi við Mími-símenntun og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, byggt á starfaprófíl Verslunarfulltrúa á þrepi 2.

Ferlið

Í raunfærnimati eru tvær meginleiðir til framkvæmdar: annars vegar mat á færni miðað við hæfnikröfur starfs og hins vegar til styttingar á námi út frá viðmiðum námskrár. Raunfærnimat í verslun og þjónustu hefur þá sérstöðu að bjóða upp á hvort tveggja – bæði að staðfesta færni í starfi og mat til styttingar á námi. Hvað varðar raunfærnimat til styttingar á námi er metið samkvæmt námskrá fyrir 90 eininga fagnám í verslun og þjónustu sem samanstendur af fjarnámi og hæfnikröfur í starfi. Vinnustaðaþátturinn, sem vottar hæfni í starfi er metinn samkvæmt útgefnum hæfniviðmiðum fyrir verslunarstörf og lýkur með staðfestingu í formi Fagbréfs atvinnulífsins. Vinnustaðaþátturinn er alls 30 einingar. Skilyrði fyrir þátttöku í verkefninu er að fyrirtæki skilgreini 15 eininga sérhæfningu og leggi til matsaðila frá vinnustaðnum. Matsaðilar eru annars vegar innri og hins vegar ytri matsaðilar. Innri matsaðilar eru gjarnan verkstjórar eða deildarstjórar með góða innsýn í dagleg verkefni starfsfólks. Ytri matsaðili fyrir raunfærnimat í verslun og þjónustu á móti námskrá kemur frá Verzlunarskóla Íslands og er sérfræðingur í fyrir mat námskrárinnar í heild.

Allir matsaðilar sækja námskeið hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) og fá þjálfun í aðferðafræði raunfærnimats og Fagbréfum atvinnulífsins til að tryggja gæði þess. Traust stjórnenda og starfsfólks í garð matsaðila er lykilatriði í starfi þeirra, sérstaklega þegar þeir vinna náið með starfsfólki í ferlinu. Matsaðilar verða að vera samþykktir af stýrihópi verkefnisins og þurfa bæði að hafa þekkingu á verkefninu og uppfylla gæðakröfur um matsaðila.

Fyrsti hópurinn sem fór í fagbréfsleiðina og í raunfærnimat innan verslunar og þjónustu hjá Mími árið 2020 kom frá fyrirtækjum sem voru hluti af stýrihópi verkefnisins, það er frá Samkaupum, Húsasmiðjunni og Lyfju.  Árið 2024 eru átta fyrirtæki virk í verkefninu þar á meðal Samkaup, Húsasmiðjan, Krónan, NOVA, BYKO, ELKO, Dominos og JYSK. Markvisst er unnið að því að kynna Fagbréf atvinnulífsins og raunfærnimatið til að fá fleiri fyrirtæki til þátttöku. Á þeim fimm árum sem þessi leið hefur verið farin og framkvæmd  Mími-símenntun hafa alls 110 þátttakendur fengið Fagbréf atvinnulífsins.

Á þessum tíma hafa samtals verið metnar 3.364 einingar hjá þátttakendum.
Meðalaldur þátttakenda síðustu fimm ár er 31 ár sem telst nokkuð hátt. Kynjahlutfallið er nánast jafnt,  53 karlar og 57 konur.

Til að tryggja að starfsfólk fái skýrar upplýsingar og geti metið hvort það vilji taka þátt í ferlinu er mikilvægt að kynna vel fyrir því eftirfarandi þætti: 

  • Fagbréf atvinnulífsins: Mat á færni miðað við hæfnikröfur starfs og gildi niðurstaðna fyrir starfsfólk og fyrirtæki
  • Raunfærnimatsferlið: Hvað felst í raunfærnimatinu og hvernig starfsfólk skráir sig.
  • Matsaðila: Hverjir sjá um matið og hvert hlutverk þeirra er.
  • Valkvætt: Raunfærnimat er alltaf valkvætt. Þátttaka er alfarið ákvörðun hvers og eins.
  • Markmið og ávinning: Hvernig raunfærnimat stuðlar að faglegri viðurkenningu, eykur hæfni starfsfólks og styrkir fyrirtækið.

Eftir kynningu um þátttöku fyrirtækis í verkefninu getur starfsfólk sótt um að taka þátt í raunfærnimati í vinnustaðaþætti og í bóklegum hluta námsins, í sitthvoru lagi. Það er hlutverk innri og ytri matsaðila að skima og staðfesta hvort starfsfólk uppfylli skilyrði fyrir þátttöku í matinu. Fyrsta skrefið í matinu sjálfu er að þátttakendur fylla út sjálfsmatslista þar sem þeir meta eigin hæfni í samræmi við hæfniviðmið. Markmiðið er að þeir fái betri innsýn í viðmiðin, tengi þau við dagleg störf sín og geri sér grein fyrir hvaða hæfni þeir hafa byggt upp í starfi. Áður en matssamtalið hefst hafa matsaðilar aðgang að sjálfsmati þátttakenda.

Matssamtalið í vinnustaðaþættinum fer fram á vinnutíma í fundarrými vinnustaðarins þar sem starfsfólk fær næði. Ef matsaðili og starfsmaður eru ekki á sama stað á landinu fer samtalið fram í gegnum fjarfundarbúnað. Ytri matsaðili frá Verzlunarskóla Íslands er oft viðstaddur matssamtalið sem og verkefnastjóri ef þörf krefur. Matið fer að mestu fram í samtalsformi milli matsaðila og starfsmanns en stundum er starfsfólk beðið um að sýna hæfni sína með því að leysa ákveðin verkefni.

Ef starfsmaðurinn uppfyllir ekki hæfniviðmið starfsins fer hann í starfsþjálfun í samvinnu við vinnustaðinn. Í þessari þjálfun vinnur starfsmaðurinn að því að ná þeim hæfniviðmiðum sem upp á vantar með stuðningi frá matsaðila og starfsþjálfa sem vinnustaðurinn tilnefnir. Markmiðið er að efla hæfni starfsmannsins á markvissan hátt innan ákveðins tímaramma þannig að hann geti lokið raunfærnimatinu með góðum árangri og fengið útgefið Fagbréf í hendur sem staðfestingu sem telur jafnframt til 30 eininga í náminu.

Ávinningur

Þegar öll hæfniviðmiðin eru staðfest, annaðhvort með raunfærnimati eða með starfsþjálfun, er gefið út Fagbréf atvinnulífsins fyrir viðkomandi starfsmann. Ávinningur af fagbréfi í verslunarstörfum nær bæði til fyrirtækja og starfsfólks. Fyrirtæki fá aukna yfirsýn yfir hæfni starfsfólksins sem styður við markvissa uppbyggingu mannauðs og símenntunar auk þess að tryggja gæði í rekstri. Með því að styðja við þátttöku tryggja fyrirtæki að færni starfsfólks samræmist kröfum starfsins. Það eykur fagmennsku og styrkir samkeppnishæfni fyrirtækja. Fyrirtækin Byko, NOVA, Dominos1 og Samkaup2 hafa lýst yfir ánægju með ferli Fagbréfa atvinnulífsins og telja það stuðla að fagmennsku og árangursríkari starfsmannasamtölum. Fagbréf í verslunarstörfum er því mikilvæg viðurkenning sem nýtist bæði starfsfólki og fyrirtækjum til að efla fagmennsku á vinnustaðnum. Það er gaman að segja frá því að fyrirtækin sem hafa tekið þátt í þessu verkefni hafa skarað fram úr í fræðslu- og menntamálum og fengið verðskuldaða viðurkenningu á Menntadegi atvinnulífsins. Menntaverðlaunin eru veitt þeim fyrirtækjum sem hafa lagt sig fram við að efla færni starfsfólks, styðja við starfsþróun og skapa spennandi námstækifæri innan fyrirtækja. Árið 2020 hlaut Samkaup menntasprotann fyrir framlag sitt, árið 2021 fékk Dominos menntasprotann fyrir markvissa þjálfun og færniuppbyggingu meðal starfsfólks og árið 2024 hlaut ELKO viðurkenninguna menntafyrirtæki ársins.

Fyrir starfsfólk felur Fagbréf atvinnulífsins í verslunarstörfum í sér faglega vottun sem staðfestir færni þess á móti hæfnikröfum starfs og fagmennsku. Það styrkir stöðu þess á vinnumarkaði, eykur sjálfstraust3 og opnar leiðir til starfsþróunar. Eins og einn þátttakandi í raunfærnimatinu lýsti því: „Raunfærnimatið hjálpaði mér að átta mig á því hvað ég hafði lært á löngum starfsferli og það hvatti mig til frekara náms.“

Að loknu raunfærnimati og útgáfu Fagbréfs hafa þátttakendur val um frekara nám og ljúka Fagnámi í verslun og þjónustu. Fagnámið er 60 eininga nám þar sem bóklegur hluti námsins fer fram í fjarnámi hjá Verzlunarskóla Íslands. Með því að bjóða upp á þennan valkost fá þau sem hafa lokið raunfærnimatinu tækifæri til að þróa hæfni sína enn frekar og ljúka formlegu námi.

 Síðan framkvæmd hófst hafa ýmsar breytingar verið gerðar, meðal annars voru sjálfsmatslistar endurskoðaðir. Ferlið hefur gengið afar vel og stýrihópurinn unnið vel saman, meðal annars í því að taka næstu skref og meta hvaða fyrirtæki eru líkleg til að bætast í hópinn.

Sífellt er unnið að því að kynna raunfærnimat og gildi Fagbréfs atvinnulífsins í verslunarstörfum fyrir fleiri fyrirtækjum í verslunar- og þjónustugeiranum. Eftir því sem fleiri fyrirtæki taka þátt eykst virðing fyrir verslunarstörfum og sú sérþekking og færni sem er nauðsynleg til að starfa í greininni er dregin fram. Þannig stuðlar ferlið í verslun og þjónustu að ávinningi fyrir bæði starfsfólk og vinnustaði með því að stuðla að faglegri þróun, auka starfsánægju og efla gæði innan fyrirtækja. Oft þarf hugrekki og viljastyrk í verki þegar fólk tekur skrefið og skráir sig til þátttöku hjá Mími-símenntun. Sögur þeirra sem hafa farið í gegnum ferlið speglar reynslu margra fullorðinna sem nýta verkfæri framhaldsfræðslunnar til að sigrast á hindrunum í námi. Þótt sögur þeirra séu einstakar eiga þær það sameiginlegt að undirstrika mikilvægi þess að fullorðnir hafi tækifæri til að hefja nám að nýju með viðeigandi stuðningi, jafnvel eftir langt hlé frá námi.

Heimildir

  1. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. (2021). Fagbréf staðfestir nám á vinnustað. Sótt af http://3.10.152.123/2021/fagbref-stadfestir-nam-a-vinnustad/ ↩︎
  2. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. (2020). Menntun og fræðsla Samkaup. Sótt af http://3.10.152.123/2020/menntun-og-fraedsla-samkaup/ ↩︎
  3. Steinþór Guðbjartsson. (2021, 4. janúar). Námið himnasending. Morgunblaðið. Sótt af https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/01/04/namid_himnasending/ ↩︎
Kristín Erla Þráinsdóttir

Kristín Erla Þráinsdóttir starfar sem náms- og starfsráðgjafi og fagstjóri ráðgjafar og raunfærnimats hjá Mími-símenntun. Hún er með BA-gráðu í fornleifafræði, auk safnafræði sem aukagreinar og MA-gráðu í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Kristín Erla hefur víðtæka reynslu af náms- og starfsráðgjöf og verkefnastjórnun hjá Mími-símenntun. Hún hefur leitt vinnu við raunfærnimat í verslun og þjónustu.

Lykilorð

Þessi vefur notast við vafrakökur til að mæla umferð og fyrir virkni síðu. Engar vafrakökur eru notaðar í auglýsingatilgangi