,,Gefandi upplifun bæði fyrir námsmenn og vinnuveitendur“
Í fyrsta sinn getur fólk með fötlun á Íslandi hlotið staðfestingu á starfstengdri hæfni með Fagbréfi atvinnulífsins. Haustið 2024 bauðst fólki um allt land að leggja stund á nám samkvæmt nýrri námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Færni á vinnumarkaði (Smiðja). Námið var styrkt af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu en mun verða varanlegt framboð í framtíðinni.
Alls sóttu um 72 einstaklingar námið haustið 2024, 56 luku með Fagbréfi atvinnulífsins og 10 luku fræðsluhlutanum í náminu.
Tilgangurinn er að veita þátttakendum færni til að fara út á vinnumarkaðinn eða efla sig í starfi. Að loknu námi hefur mörgum þátttakendum tekist að afla sér nýrra tengsla í heimabyggð. Þá hefur um helmingur þeirra sem hófu starf fengið fastráðningu. Bæði þátttakendur og vinnuveitendur lýsa jákvæðu viðhorfi til þessa nýja námstilboðs. Námið er farið aftur af stað á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.
Um mitt ár 2024 kom út á Íslandi skýrsla með tillögum um hvernig væri hægt að auðvelda fólki með fötlun aðgengi að námi og starfi. Við erum öll ólík, og öll eins, er fyrirsögn skýrslunnar. Í henni eru róttækar tillögur til að bæta kjör þessa hóps. Fyrstu niðurstöður liggja nú þegar fyrir. Í fyrsta skipti í Íslandssögunni hefur fólk með fötlun fengið vottun um að hafa lokið námi á framhaldsskólastigi sem felst í Fagbréfi atvinnulífsins. Það er stórt skref fyrir þennan hóp. Um 66 nemendur útskrifuðust um áramótin, eftir að hafa lagt að baki 70 kennslustundir og 110 stundir á vinnumarkaði. Um helmingur hefur fengið fasta vinnu. Næsta skref er að ná til þeirra sem eru eldri og hafa verið lengi á biðlista eftir vinnu.
Þrjár konur hafa borðið hitann og þungann af þróun námsins fyrir fólk með fötlun um allt land. Það eru þær Hildur Betty Kristjánsdóttir hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA), Sara Dögg Svanhildardóttir, hjá Vinnumálastofnun (VMST), Helga Gísladóttir hjá Fjölmennt. Þær hafa unnið náið saman við þróun námsins í samvinnu við sérfræðinga á sínum starfsstöðum, í samvinnu við fræðsluaðila og vinnustaði og líta nú með stolti yfir frumárangur verkefnisins.

Árlega útskrifast um 90 ungmenni á aldrinum 20-25 ára úr starfsbrautum framhaldskólanna og í dag eru um 300 ungmenni með fötlun sem þarfnast starfs með stuðningi. Tilgangurinn var að ná til þeirra og tóku 72 þátt í verkefninu. Af þeim luku 66 náminu. Konurnar þrjár telja þetta afar góðan árangur.
Blanda af námi og starfi
,,Námskráin er samsett, blanda af námi og vinnu. Vinnumálastofnun sá um að finna jafn marga vinnustaði og nemendur voru. Það tók tíma, en tókst. Okkur hafa borist góðar fréttir frá vinnuveitendum um að þetta hafi verið árangursríkt bæði fyrir fólkið og vinnustaðina. Gefandi reynsla fyrir báða aðila”, segir Sara Dögg hjá Vinnumálastofnun.
Hún bætir við að svo virðist sem atvinnurekendur hafi uppgötvað gildi þess að taka þátt í verkefninu sem er mikilvægt til framtíðar.

Námið náði yfir þrjá mánuði og skiptist í nám og vinnu. Vinnustaðirnir sem urðu fyrir valinu voru af sex ólíkum toga: Leikskólar, endurvinnslustöðvar, umönnunarstofnanir, verslanir, húsasmíðar og lagerþjónusta. Þökk sé langri reynslu okkar hjá Vinnumálastofnun tókst okkur að finna samstarfsaðila á framangreindum sviðum. Nemendur fengu að velja sjálfir hvaða vinnustaður hentaði þeim best.
,,Okkur til mikillar ánægju gátum við fengið mörg störf sem fólk með fötlun hefur aldrei áður haft tækifæri til að sinna. Þessir vinnustaðir eru bæði í stærri bæjum og minni á landsbyggðinni“, segir Sara Dögg.
Þegar næsti hópur hefur nám árið 2025 verða atvinnutilboðin fjölbreyttari. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hæfnigreindi sex störf, skrifaði námskrá sem fékk hún vottun frá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Skrifaður voru námslýsingar fyrir hvert starf (6), handbækur fyrir fræðsluaðila og starfsþjálfa og matsgögn fyrir ferlið. Fræðslumiðstöðin sér jafnframt um að undirbúa starfsþjálfa sem sjá um 110 klukkustunda vinnustaðanám og mat á hæfni. Fjölmennt hefur útbúið um 70 stunda námefni fyrir fræðsluhlutann sem kenndur er hjá símenntunarmiðstöðvum. Þátttakendur gátu stundað nám í heimabyggð í sex nemendahópum. Í sumum tilfellum voru þeir í fjarnámi í gegnum Teams. Símenntunarmiðstöðvar í heimabyggð sáu um sjálfa kennsluna. Kennarar og verkefnastjórar sátu kennslufræðinámskeið.
Samtals 23 kennslupakkar
Helga hjá Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð, segir að alls hafi verið útbúnir 23 mismunandi kennslupakkar sem tengjast námskránni Færni á vinnumarkaði. Þeir fjalla meðal annars um persónulegan styrk, samskipti, þýðingu þess að hafa vinnu og njóta mannréttinda. Nemendur hittust tvisvar í viku, þrjá tíma í senn hjá símenntunarmiðstöðvum í sinni heimabyggð.
,,Rauði þráðurinn var að kenna þeim hvað það þýðir að hafa vinnu og hvers það krefst af þeim”, segir Helga.
Hún viðurkennir að það hafi verið mikið álag að útbúa mismunandi kennslupakka á svona stuttum tíma. Kennarar símenntunarmiðstöðvanna kunnu hins afar vel að meta efnið og það auðveldaði þeim starfið í miðlun námsins til nemenda. Hún bendir einnig á að getan sé mismunandi meðal nemenda. Flest hafi ekki meiriháttar starfshömlun, þó sum þeirra hafi ekki getað „lesið sér til gagns“.
,,Skilyrði fyrir þátttöku var að búa yfir grunnleikni til að gegna starfi. Á nokkrum litlum svæðum úti á landi tókst að fá alla með sem hafa þörf fyrir þjónustuna. Því verður gert hlé á þeim stöðum þar til nýr hópur þarf á tilboðinu að halda”, segir Helga.

Bæði Fagbréf og tengslanet
Betty hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins bendir á að verkefnið snúist ekki bara um að fá vinnu.
,,Í þessu felst jafnframt tækifæri fyrir einstaklinginn til að mynda félagslegt net sem marga hefur skorti. Á Akureyri hafa þátttakendur til dæmis hist í sundi og á örðum svæðum á kaffihúsi. Áður þekktust þau ekki. Nú hafa þau tengslanet í sínum heimabæ”.
Betty segir einnig að ekki hefði tekist að koma verkefninu á laggirnar nema fyrir samstarf þeirra þriggja aðila sem að því standa og fræðslu- og símenntunarmiðstöðva sem sáu um fræðsluhlutann auk allra vinnustaðanna sem sáu um vinnustaðaþjálfunina.
,,Við höfum reyndar ekki enn skilið hversu stórt skref við höfum tekið. Það er frábært að útskrifa t fólk með Fagbréf atvinnulífsins”, segir hún.
Helga segir að þetta tilboð um fræðslu og þjálfun fyrir markhópinn sé það fyrsta sem ljúki með einhverju eins áþreifanlegu og Fagbréfi í takt við það sem er á öðrum sviðum atvinnulífsins.
Betty segir að þátttakendur útskrifist með Fagbréf atvinnulífsins ef þau uppfylla hæfniviðmið fræðslu- og vinnustaðahluta.
,,Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það útskrifast ekki allir með Fagbréfi. Það væri bjarnargreiði að veita einhverjum Fagbréf sem uppfyllir ekki hæfnikröfur starfsins.“
Helga leggur áherslu á mikilvægi þessa og segir að þótt þau fái ekki Fagbréfið þá séu þau að minnsta kosti að stíga fyrsta skrefið úr kyrrstöðu. Það ætti að vera hvatning til að halda áfram.
Mörg fengu fasta vinnu
En hvað verður nú um fólkið sem tók þátt í verkefninu? Tilgangurinn var að styðja við bakið á þátttakendum og undirbúa þá undir næstu skref í atvinnulífinu.
,,Við vitum að allmargir vinnuveitendur hafa ákveðið að ráða þau. Það er mjög ánægjulegt og staðfesting á að þetta hefur tekist vel. Það er besti árangur sem við gætum óskað okkur. Það var tilgangurinn með þessu öllu saman. Við þyrftum að búa til fleiri staði þarna úti en einnig að halda þeim sem voru þar fyrir”, segir Sara Dögg og bætir við:
,,Við fréttum af ungmenni á litlum stað á Norðurlandi sem hafði verið atvinnulaus í nokkur ár. Það var ekkert sem bauðst. Allt í einu opnaðist atvinnutækifæri á heimaslóðum í gegnum þetta nám.”
Aðlögunin auðveld
Konurnar þrjár segjast hafa fengið mikil viðbrögð um hversu auðvelt það var fyrir vinnustaðina að aðlagast fólkinu og það sama á við um hæfni þeirra til að aðlagast nýjum kröfum sem vinnuafl. Námið Færni á vinnumarkaði er farið aftur af stað hjá þremur símenntunarmiðstöðvum og eru skráningar í gangi há Vinnumálastofnun fyrir haustið, víðsvegar um landið. Færni á vinnumarkaði er komið til að vera.

Betty segir:
,,Það besta er að við fengum alla til að trúa á verkefnið og taka þátt. Það gleður mig mjög að heyra sögurnar frá fólkinu og hversu mikilvægt það var að þeim opnuðust dyr að nýjum kafla í lífinu.“
Sara Dögg segir að það sem sé efst á listanum hjá henni sé að sjá hvernig samstarfið gengur á milli allra þjónustuaðila. Þetta er ný reynsla.
,,Við þurfum ekki að berja á dyr hjá háskólunum. Þar er ekki eina lausnin. Til eru margar aðrar leiðir. Nýleg norræn skýrsla sýnir að þessi aðferð sem við notuðum virkar best“, segir hún.
Helga bætir við að hún líti á þetta sem stórt og mikilvægt skref í framfaraátt í atvinnulífinu. Byltingarkennt skref. Hún segir að fræðsluefnið sem starfsfólk hjá miðstöðinni hennar útbjó byggi á sama grunni og efni og fyrir aðra markhópa. Stóra framfaraskrefið er Fagbréfið sem fólk getur notað til að taka næsta skref. Sönnun um færni þeirra sem getur opnað ný atvinnutækifæri.
Eftir á að hyggja telur Betty að það eigi að huga að því hversu marga tíma nemendur eigi að hafa í hverri viku og hvort dreifa eigi náminu á lengri tíma. En lykillinn að þessu öllu saman er að mæta og vera virkur. Nú verður verkefnið metið og endurskoðað.
„Við erum reiðubúin til að hrinda verkefninu aftur af stað á nýju ári 2025 til hagsbóta fyrir næstu hópa fólks“, segir hún.
Það var stór stund fyrir þátttakendur í náminu að útskrifast með Fagbréf, mikilvæg staðfesting á þjálfun og færni þeirra. Alls luku um 66 nemendur náminu og útskrifuðust frá 11 mismunandi svæðum á Íslandi. Sem dæmi útskrifaði SÍMEY á Akureyri sex einstaklinga um áramót og Í SÍMEY á Akureyri, voru sex einstaklingar útskrifaðir um áramót og hjá Visku í Vestmannaeyjum útskriftuðust fimm einstaklingar.

Forsíðumynd: Frá útskrift hóps þátttakenda á Akureyri.

Jenný Gunnarsdóttir, sem verkefnastýrðir náminu í SÍMEY, er hæstánægð með hversu vel fyrsta verkefnið gekk. Nemendur voru á fjórum mismunandi vinnustöðum; á lager, í leikskólum, verslunum og hjá sveitarfélaginu. Hún segir að það hafa verið forréttindi að fá að vinna með hópnum og að hún hafi líka öðlast fjölbreytta þekkingu með þátttöku í verkefninu.

Agnes Bryndís Jóhannesdóttir er leikskólastjóri á Akureyri. Hún telur að það sé mjög mikilvægt að vera með í verkefni sem þessu og hún hefur góða reynslu af nemandanum Soffíu Margréti.
–Krakkarnir elskuðu hana. Hún var mjög virk, las fyrir þau og tók þátt í daglegu starfi.

Daníel Smára Bjarnasyni hefur verið boðið fast starf að loknu náminu. Hann nýtur sín og hlakkar til nýs kafla í lífinu. Fannar Freyr Gíslason, sem réð hann, staðfestir að Daníel hafi sýnt hæfileika sína og sé tilbúinn til axla ábyrgð sem nýr starfsmaður. Fannar Freyr staðfestir einnig að vinnustaður hans sé tilbúinn í nýja umferð á nýju ári.
Þessi grein birtist fyrst hjá NVL, Norrænt tengslanet um nám fullorðinna í janúar 2025 og má lesa hér.