Hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) starfar fjölbreyttur hópur sérfræðinga. Þar er að finna fræðsludeild sem sér um skipulag og framkvæmd náms, námskeiða og námsleiða auk verkefna sem falla undir fyrirtækjasvið. Einnig er í boði náms- og starfsráðgjöf fyrir þátttakendur, ásamt endurhæfingardeild og stoðþjónustu. Stofnunin býr yfir rúmlega tuttugu og fimm ára reynslu af því að vinna með fólki af erlendum uppruna en slík þekking og reynsla tryggir heildstæða nálgun sem mætir fjölbreyttum þörfum þátttakenda á einstaklingsbundinn hátt.
Íslenskukennsla
Á þeim árum sem MSS hefur verið starfrækt hefur starfsemin vaxið jafnt og þétt og námsframboð tekið mið af þörfum viðskiptavina hverju sinni. Við finnum fyrir því að fyrirtæki eru að sjá aukinn hag í að efla fræðslu og þá einna helst íslenskuþekkingu í þeirra fyrirtæki. Íslenskukennsla er stór hluti af okkar starfi í MSS, við erum með námskeið frá morgni til kvölds, alla virka daga, á ólíkum getustigum og markmiðið er að allir nemendur finni námskeið við hæfi út frá þeirra þekkingu og færni. Auk þess er að aukast áhuginn á að fá íslenskukennslu inn á starfstöð starfsfólks.
Með því að styðja við aukna kunnáttu í íslensku vonumst við til að einstaklingar eigi auðveldar með að fóta sig í samfélaginu, fái aukin atvinnutækifæri, efli félagslega þátttöku þeirra sem og að auka þekkingu á reglugerðum líkt og þeir sem þurfa að huga að dvalarleyfi og/eða stefna á að verða íslenskir ríkisborgarar.
Samstarf við fyrirtæki
Ferlið hefst yfirleitt á því að verkefnastjóri ásamt náms- og starfsráðgjafa MSS funda með mannauðsstjóra og eftir þörfum, öðrum stjórnendum fyrirtækisins. Á þeim fundi er kynnt hvernig viðtölin fara fram og hvernig þau geta stutt við skipulagningu kennslu á vinnustað eða starfsstöð. Náms- og starfsráðgjafi útskýrir tilgang og uppbyggingu viðtala og kynnir drög að viðtalsramma sem notaður verður. Stjórnendur fá tækifæri til að rýna í hann og leggja til breytingar áður en hann er sérsniðinn að þörfum starfsfólks og starfsemi fyrirtækisins.
Viðtölin veita stjórnendum gagnlega yfirsýn og upplýsingar yfir þjálfunar- og tungumálaþarfir starfsfólks. Þau hjálpa einnig starfsfólki að átta sig á eigin styrkleikum, færni og möguleikum til aukinnar náms- og starfsþróunar. Þjónustan er öllum að kostnaðarlausu og því hagkvæm leið fyrir fyrirtæki til að hefja markvissa þarfagreiningu áður en íslenskukennsla eða önnur fræðsla hefst. Einnig getur það reynst fyrirtækjum jákvætt að fá utanaðkomandi aðila til að framkvæma trúnaðarviðtöl við starfsfólk, gefin er út skýrsla eftir viðtölin sem gefur oft skýra mynd af upplifun, líðan og væntingum starfsmanna til fræðslu og starfsþróunar.
Starfsfólk sem þegar hefur einhverja íslenskukunnáttu geta tekið stöðupróf sem verkefnastjóri MSS leggur fyrir á vinnustaðnum. Með því fæst skýr mynd af tungumálahæfni þeirra og hægt er að velja námskeið hjá MSS miðað við færni einstaklingsins samkvæmt niðurstöðum prófsins, ef námskeið á vinnustað hentar þeim ekki. Ef starfsmenn hafa lokið háskólanámi erlendis er þeim jafnframt bent á að nýta þjónustu ENIC/NARIC til að fá menntun sína metna. Náms- og starfsráðgjafar geta aðstoðað fólk í ferlinu, sem getur verið mikilvægt fyrir starfsþróun og framtíðarstarfsvettvang á Íslandi.
Mikilvægt er að fyrirtæki þurfi ekki að bera allan kostnað af kennslunni sjálfri. Í mörgum tilvikum er hægt að nýta styrki frá starfsmenntasjóðum fyrirtækja til að fjármagna námskeið og kennslu. Verkefnastjórar MSS aðstoða stjórnendur við að skoða hvaða styrkjamöguleikar eru í boði, meta hvort fyrirtækið uppfylli skilyrði sjóðanna og að sækja um styrkina á sem skilvirkastan máta. Þannig geta fyrirtæki tryggt að fjárfesting í íslenskukennslu verði hagkvæm og vel nýtt til að styðja við starfsþróun og starfsöryggi erlendra starfsmanna.
MSS hefur áralanga reynslu af því að skipuleggja íslenskunámskeið fyrir fyrirtæki af ólíkum stærðum og starfssviðum. Námskeiðin geta farið fram á vinnustað fyrirtækis, húsnæði MSS eða í gegnum fjarfundarbúnað. Hægt er að aðlaga kennslu að ólíkum vaktakerfum, jafnvel þegar um er að ræða sveigjanlegt eða sérsniðið vaktafyrirkomulag sem annars gæti gert þátttöku starfsmanna erfiða, eins og óskavaktakerfi sem eru að ryðja sér til rúms hjá mörgum fyrirtækjum.
Fjölmörg fyrirtæki í nærumhverfi MSS hafa nýtt sér þessa þjónustu, þar á meðal Bláa Lónið, bílaleigur, fiskvinnslur, hótel, fyrirtæki við alþjóðaflugvöllinn og veitingastaðir. Ávinningurinn fyrir bæði fyrirtækin og samfélagið í heild er mikill þegar íslenskukunnátta starfsmanna styrkist. Betri tungumálafærni auðveldar dagleg samskipti, eykur öryggi á vinnustað, styður við þjónustugæði og skapar sterkari tengsl milli starfsmanna og samfélagsins sem þeir búa í.
Samstarf Bláa Lónsins og MSS
Í byrjun árs 2025 hafði mannauðsteymi Bláa Lónsins samband til að efla íslenskukunnáttu starfsmanna fyrirtækisins enn frekar, en samstarf MSS og Bláa Lónsins hefur verið mjög farsælt til margra ára. Fyrirkomulag íslenskunámsins var kynnt á vikulegum upplýsingafundum sem haldnir eru fyrir allt starfsfólk Bláa Lónsins en þar var farið yfir skipulag og ávinning. Í kjölfarið var farið í ítarlega þarfagreiningu hjá náms- og starfsráðgjöfum MSS svo að námskeiðin yrðu aðlöguð að raunverulegum þörfum starfsmanna.
Þarna gafst starfsfólki tækifæri á að mæta í einstaklingsviðtal á þeirra starfsstöð eða í gegnum fjarfundarbúnað. Í viðtölunum var meðal annars kortlögð tungumálahæfni, væntingar til námsins, fyrri reynsla og menntun og möguleg framtíðaráform í námi og starfi. Að lokinni greiningu var unnin samantekt sem veitti stjórnendum Bláa Lónsins góða yfirsýn yfir þarfir og væntingar starfsfólks.
Í kjölfarið voru skipulögð íslenskunámskeið fyrir byrjendur á starfstöð Bláa Lónsins fyrir tæplega 60 starfsmenn. Fyrirtækið tekur að auki virkan þátt í að styðja við starfsfólk sem ekki getur sótt námskeið á starfstöð með því að greiða fyrir námskeið í húsnæði MSS. Starfsfólk fékk jafnframt upplýsingar um þjónustu ENIC/NARIC til að meta fyrri menntun sína og aðrir fengu leiðbeiningar um önnur námstækifæri sem þeir höfðu áhuga á.
Að lokum
Það leikur enginn vafi á að stór hópur innflytjenda er lykilburðarstólpi íslensks atvinnulífs. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og fjölmenning hefur orðið eðlilegur hluti af daglegu lífi. Þessi þróun kallar á nýjar lausnir í mannauðsstjórnun og mikilvægt er að styðja erlent starfsfólk í að styrkja tengsl þeirra við vinnustaðinn og að taka sem virkastan þátt í samfélaginu.
Sem samfélag teljum við að mikilvægt sé að styðja við alla þá sem hér búa og starfa, svo þeir geti tekið sem virkastan þátt í atvinnulífi og samfélaginu sem þeir tilheyra. Með markvissri íslenskukennslu og góðu samstarfi fyrirtækja og MSS verður sú sýn að veruleika.